Landsmenn raða heilbrigðismálum efst en setja kirkjuna í síðasta sæti

Hóp_minniÞegar þing kemur saman í haust, að loknum kosningum, þarf ný stjórn að byrja á því að leggja fram frumvarp til fjárlaga. Þingflokkur Pírata hefur þriðja árið í röð fengið Gallup til að gera könnun  á því hvernig Íslendingar vilja að Alþingi forgangsraði fjármunum í fjárlögum. Um netkönnun var að ræða sem var framkvæmd frá 19. maí – 2. júní. Úrtakið var 4220 manns af öllu landinu 18 ára og eldri. Þátttökuhlutfallið var 61.1%

Þátttakendur voru beðnir að raða málaflokkum í forgangsröð eftir því hvernig þeir vilja að fjármunum sé forgangsraðað í ríkisrekstrinum.

Heilbrigðismálin eru þjóðinni langhugleiknust 75% svarenda setja þau í fyrsta sæti og þau fá forgangseinkuninna 90.1 – Áhersla á heilbrigiðsmálin er almennt mjög jöfn meðal allra aldurshópa þótt aldurinn 35-44 ára skeri sig aðeins frá með hæsta skorið. Þá eru konur örlítið hærri en karlar í þessum flokki.  Búseta og menntun hefur hins vegar mjög lítil áhrif á áherslu á heilbrigðismálin.

Þessi ríka áhersla á heilbrigðismálin hlýtur að hafa þau áhrif að við þurfum að skoða þennan málaflokk alvarlega. Ekki bara það fé sem varið er í málaflokkinn heldur nýtingu þess fjármagns innan kerfisins. Kerfið er orðinn hálfgerður frumskógur og fólk hætt að skilja hvernig það virkar.

Næst í röðinni eru menntamál en 6% settu þau í fyrsta sæti og þau fá forgangsröðunina 48,8. Hér má velta upp þeirri spurningu hvort landsmenn hafa áhuga á tilteknu skólastigi umfram önnur. Yngsti aldurshópurinn (18 – 24 ára)  skorar hæst hér, þ.e. þeir sem eru að hefja eða hafa hafið háskólanám.  Hæst skora líka þeir sem eru með mesta menntun (háskólapróf). Þá skorar höfuðborgarsvæðið heldur hærra hér en landsbyggðin.

Í þriðja sæti eru almannatryggingar og velferðarmál með forgangseinkunina 37.1 – þar skorar elsti þátttökuhópurinn hæst, 65 ára og eldri og þeir sem hafa minnsta menntun (grunnskólapróf). Höfuðborgarsvæðið skorar einnig hærra í þessum flokki en landsbyggðin.

Næstu sæti skipast þannig:

  1. Löggæsla og öryggismál – Elsti aldurshópurinn skorar hæst í þessum málaflokki og sérstaklega í grannasveitarfélögum Reykjavíkur, og athygli vekur að háskólamenntaðir skora lang lægst í þessum flokki, Tveir tekjuhæstu hóparnir skora hærra en aðrir tekjuhópar hér.
  2. Húsnæðis, skipulags- og hreinsunarmál – Næst yngsti hópurinn (25 – 34 ára skorar lang hæst í þessum flokki. Þetta er væntanlega hópurinn sem er á leigumarkaði og/eða er að fjárfesta í sinni fyrstu eign. Tekjulægsti hópurinn skorar hæst í þessum flokki og konur töluvert hærri en karlar.
  3. Samgöngumál – Það kemur eflaust fáum á óvart að landsbyggðin skorar hæst hér og karlar mun hærra en konur.
  4. Almenn opinber þjónusta
  5. Menningarmál – Reykvíkingar vilja umfram aðra, setja fjármagn í menningu og háskólamenntaðir leggja mun meiri áherslu á menningarmál en þeir sem hafa grunnskóla eða framhaldsskólamenntun.
  6. – 12. Atvinnuvegir (Landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, eldsneytis- og orkumál, iðnaðarmál og önnur útgjöld vegna atvinnuvega). Landsbyggðarfólk skorar hærra en höfuðborgarsvæðið í vilja til að setja fjármagn í atvinnuvegina. Þá vilja karlar frekar setja opinbert fé í þessa atvinnuvegi en konurnar skora hærra í velferðar, heilbrigðis og menntamálunum.

Kirkjumálin reka svo lestina og eru neðst á blaði meðal landsmanna. Því ætti að vera hjómgrunnur fyrir því að ríkið hætti að greiða fyrir kirkjujarðirnar með launagreiðslum til presta, eins og gert er ráð fyrir í nýrri þingsályktunartillögu Pírata. Í viðtali við RÚV um málið sagði Helgi Hrafn, þingmaður Pírata að réttast væri að aðskilja ríki og kirkju:

„Án þess að það sé einhver árás á trúarbrögðin sem að kirkjan aðhyllist. Trúmál eru bara eitthvað sem að eiga ekkert heima í ríkisrekstri. Ég held að fólk finni þetta og sjái um leið og það þarf að velta fyrir sér hvernig það ætlar að forgangsraða peningum. Þá sér það fyrir sér heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæslu, samgöngur, allt sem að er eðlilegt hlutverk ríkisins“

Hér má skoða niðurstöður Gallupkönnunarinnar.