Vilja segja upp samningi ríkis og kirkju um kirkjujarðir og laun presta

Þingmenn Pírata hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar sem kveður á um að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning að uppsögn samkomulags við þjóðkirkjuna um kirkjujarðir og launagreiðslur presta frá árinu 1997. Fyrsti flutningsmaður er Birgitta Jónsdóttir.  Hér fyrir neðan má lesa valda kafla úr greinargerð með tillögunni, en tillöguna sjálfa og greinargerð í heild má lesa á hér á vef Alþingis.

BJ 5Þegar samkomulag milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar var undirritað 10. janúar 1997 var horft til álitsgerðar kirkjueignanefndar frá 1984 og umfjöllunar um þær eignir sem þar voru teknar fyrir. Þrátt fyrir að ríkið hafi, á þeim 90 árum sem liðu, hvorki kannað til fullnustu lögmæti fyrri samninga, né heldur hvaða jarðir tilheyrðu honum, matsverð þeirra og rekstraruppgjör var engu síður gerður samningur um áframhaldandi skuldbindingar ríkisins við þjóðkirkjuna.  Kirkjujarðasamkomulagið svokallaða kvað á um að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgdu, að frátöldum prestssetrum, væru í eigu ríkisins og að andvirði seldra jarða skyldi renna í ríkissjóð. Með kirkjujörðum var í samkomulaginu átt við jarðeignir sem kirkjur hafa átt og eigi hafa verið seldar frá þeim með lögmætri heimild eða gegnið undan þeim með sambærilegum hætti og höfðu verið í umsjón ríkisins frá 1907. Á þessum grundvelli skuldbatt íslenska ríkið sig til að greiða laun presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar. Með samkomulaginu var eignarhald og ráðstöfunarréttur ríkisins á umræddum kirkjujörðum staðfestur. Litið var á samkomulagið sem fullnaðaruppgjör ríkisins og þjóðkirkjunnar vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907, sbr. 4. gr. samkomulagsins. Í 3. gr. samkomulagsins eru taldir upp þeir liðir sem ríkið skuldbindur sig til að greiða til presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar, en samkvæmt samningnum geta aðilar óskað eftir endurskoðun á þeirri grein að liðnum 15 árum frá undirritun samningsins.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur  við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur  kemur fram að ekkert verðmat hefði farið fram á virði eignanna sem kirkjujarðasamkomulagið lýtur að. Í fyrirspurninni var spurt um hverjar jarðirnar væru, fasteignamat þeirra, tekjur, kostnað o.fl. Í svarinu er farið stuttlega yfir hvernig umsýslu og eignarhaldi á kirkjujörðum hefur verið háttað frá 1907. Fram kemur að enginn listi lægi fyrir um þær jarðir og kirkjueignir sem urðu eftir hjá ríkinu og ríkið fékk við undirritun samnings við þjóðkirkjuna 10. janúar 1997 en horft hefði verið til umfjöllunar um kirkjujarðir í álitsgerð kirkjueignanefndar. Í svarinu er tekið fram að ekki hefði farið fram sjálfstæð rannsókn eða verðmat á þeim eignum sem til álita komu enda yrði slík rannsókn afar flókin og miklum vandkvæðum bundin. Rannsaka hefði þurft sögu hverrar landsspildu eða jarðar fyrir sig, jafnvel margar aldir aftur í tímann og síðan þyrfti að taka ákvörðun um lögfræðilega stöðu viðkomandi eignar. Fulltrúar ríkis og þjóðkirkju þyrftu að því loknu að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvorum megin viðkomandi eign ætti að lenda og áætla verð hennar. Þá er einnig bent á að forræði eignanna væri á hendi nokkurra ráðuneyta, svo sem ráðuneyta landbúnaðar-, mennta- og innanríkismála. Eins og fram kemur í svari ráðherra er því erfitt að segja til um verðmæti allra jarða, fasteigna og landspildna, bæði að þávirði og núvirði, sem tilheyra ríkissjóði samkvæmt samkomulaginu frá 1997. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um þær jarðir, lóðir og fasteignir sem ríkið hefur selt á þessu tímabili en tekið var fram að ekki væri tilgreint hvort einstakar eignir hefðu áður talist kirkjueignir. Af þessum ástæðum, eins og segir í svarinu, verði aldrei hægt að gera tæmandi lista sem gefi heildstæða mynd af verðmæti og fjölda seldra kirkjueigna þótt greining yrði gerð.

Flutningsmenn tillögunnar telja ljóst að ríkið sé löngu búið að greiða fyrir þær kirkjujarðir sem það fékk afhentar með samkomulaginu um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá árinu 1997 en eins og réttilega hefur verið bent á liggur enginn ákveðinn listi fyrir yfir þær eignir. Ríkið hefur nú þegar greitt yfir 30 milljarða til þjóðkirkjunnar vegna samningsins, eða um það bil 1,5 milljarða á ári.

Á undanförnum áratugum hefur íslenskt samfélag tekið miklum breytingum, t.d. hvað varðar trúarbrögð og trúarvitund fólks. Samkvæmt skoðanakönnunum fer þeim fjölgandi sem eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju. Krafan um fullan aðskilnað ríkis og kirkju verður því sífellt háværari sem og krafan um að stuðla skuli að jafnri stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga. Það verður því að teljast eðlileg krafa að samningar sem ríkið gerir við þjóðkirkjuna eða önnur trú- og lífsskoðunarfélög byggist á nákvæmari útreikningum og á rökrænum forsendum en ekki á táknrænum grunni. Æ fleiri öðlast meiri skilning á því að það ójafnræði og óréttlætið sem felst í lagalegum, félagslegum og fjárhagslegum forréttindum þjóðkirkjunnar samræmist ekki lýðræðislegum hugmyndum um jafnan rétt borgara og jöfn tækifæri, t.d. til að standa að útför sinna nánustu á sómasamlegan máta. Krafan um aðskilnað felst ekki í því að gagnrýna sjálfsstjórn þjóðkirkjunnar heldur forréttindi og óeðlileg fjárútlát ríkisins til hennar. Þjóðkirkjan á fjölda félagsmanna sem getur alið önn fyrir henni.

Í stjórnarskránni felast gildi gagnkvæmrar virðingar, persónufrelsis, jafnréttis og mannréttinda og með faglegri stjórnsýslu og opinni umræðu tryggja stofnanir ríkisins framgöngu þeirra siðferðilegu verðmæta sem hugnast öllum þegnum þjóðfélagsins. Flutningsmenn tillögunnar telja löngu tímabært að binda enda á greiðslur ríkisins fyrir kirkjujarðirnar og leggja því til að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning að slitum samkomulagsins frá 1997 og öðrum samningum sem því tengjast. Eftir slit samkomulagsins yrðu kirkjujarðirnar í ríkiseigu eins og þær hafa verið samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Þjóðkirkjan þarf hins vegar, eftir slit samkomulagsins, að standa sjálf straum af launakostnaði presta og annarra starfsmanna kirkjunnar. Í tillögunni er gert ráð fyrir rúmum tíma til verksins. Verði tillagan samþykkt kæmi það til kasta þingsins á næsta kjörtímabili að samþykkja þær lagabreytingar sem gera þarf til að umræddu samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar verði endanlega slitið.