Lára Hanna Einarsdóttir kosin í stjórn RÚV

Kosið hefur verið í nýja stjórn RÚV á Alþingi.  Málefni stjórnar RÚV hafa verið með eindæmum furðuleg allt þetta kjörtímabil. Við upphaf kjörtímabils var stjórnarmönnum fjölgað úr 7 í 9 og var það gert til að auka þverpólitíska breidd í stjórninni. Eins og frægt varð, stóð til að svíkja Pírata um fulltrúa í stjórninni en öllum til mikillar furðu sveik einhver þingmaður lit í leynilegri kosningu og fulltrúar Pírata; Pétur Gunnarsson, rithöfundur (aðalmaður) og Lára Hanna Einarsdóttir, samfélagsrýnir (varamaður), fengu kosningu.

Næstu árin sá meiri hlutinn til þess að enginn sviki lit og Pétur Gunnarsson vék úr stjórn RÚV.  Píratar hafa tilnefnt þau Pétur og Láru Hönnu á hverju ári allt kjörtímabilið og gerðu slíkt hið sama nú en að ósk Péturs sjálfs var hann tilnefndur sem varamaður en Lára Hanna sem aðalmaður. Vegna mannahrókeringa hjá meiri hlutanum losnaði eitt sæti og Lára Hanna hefur því hlotið kosningu í stjórn RÚV og verður Pétur Gunnarsson varamaður hennar. Við þetta tækifæri er rétt að rifja upp rökstuðning fyrir vali Pírata á aðal- og varamanni í stjórnina:

Hóp_minniPíratar tóku harða afstöðu gegn frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um val á fulltrúum í stjórn RUV sem fallið var til þess að auka flokkspólitísk afskipti af RÚV: Í þeim tilgangi að sporna við flokkspólitískri yfirtöku ríkisfjölmiðilsins, ákváðu Píratar að tilnefna fulltrúa sem eru algerlega ótengdir stjórnmálaflokkum. Enn fremur lögðu Píratar áherslu á að finna fulltrúa sem veitt geta hinni pólitísku stjórn öflugt aðhald og hafa góðan skilning á mikilvægi frjálsra fjölmiðla, upplýstrar umræðu og réttindum frétta- og blaðamanna. Þá vildu Píratar einnig tilnefna fulltrúa i anda áðurgildandi reglna sem gerðu ráð fyrir aðkomu bandalags íslenskra listamanna að vali á fulltrúa í stjórn RÚV en markmið þess var að tryggja að fulltrúi með þekkingu á menningarmálum yrði valinn í stjórn.

Það er mat þingflokks Pírata að Lára Hanna Einarsdóttir, óháður samfélagsrannsakandi og Pétur Gunnarsson, rithöfundur, falli vel að framangreindum áherslum Pírata við tilnefningar fulltrúa í stjórn RÚV.

Píratar óska Láru Hönnu og Pétri góðs gengis á þessum vettvangi.