Þjóðin treystir ekki stjórninni til að einkavæða banka

Könnun, einkavæðing

Þann 19. nóvember sl. voru sérstakar umræður á Alþingi um hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans. Málshefjandi var Ásta Guðrún Helgadóttir þingmaður Pírata en til andsvara var fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson. Í kjölfar umræðunnar ákvað Þingflokkur Pírata að fela Gallup að kanna hversu vel fólk treystir núverandi ríkisstjórn fyrir sölu á hlut ríkisins í bönkum. Könnunin var gerð á tímabilinu 3. – 14. desember 2015  og í könnuninni var spurt: “Hversu vel eða illa treystir þú núverandi ríkisstjórn til að sjá um sölu á hlut ríkisins í bönkum?”

Niðurstaðan er skýr. Aðeins 21.5 prósent treysta ríkisstjórninni vel fyrir þessu verkefni, en 61,4 prósent treysta henni illa fyrir einkavæðingu banka.

70% háskólamenntaðra treysta ríkisstjórninni illa fyrir einkavæðingunni

Ekki er að sjá mikinn mun á viðhorfum eftir kyni, aldri, búsetu, menntun eða tekjum. Þó eru þeir svarendur sem eru 65 ára eða eldri, líklegri til að treysta ríkisstjórninni fyrir verkefninu en aðrir aldurshópar. Þá virðist traustið til ríkisstjórnarinnar minnka hjá fólki eftir því sem menntun eykst. Þannig vantreysta 70 prósent háskólamenntaðra ríkisstjórninni þegar kemur að einkavæðingu banka. Vantraust til stjórnarinnar er mest í Reykjavík eða 70 prósent en minna í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins þar sem 26% treysta ríkisstjórninni vel fyrir einkavæðingu banka.

Um netkönnun var að ræða og var úrtakið 1433 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri. Fjöldi svarenda var 881 og þátttökuhlutfallið því 61,5 prósent.

Sjá nánar hér: Gallup_einkavæðing banka.