Birgitta á Eldhúsdegi 1. júlí 2015

Forseti, kæra þjóð

Þetta þing hefur verið um margt sérstakt. Þungbært og átakaþrungið og afar óskilvirkt. Ég verð að viðurkenna að vonbrigði mín með stjórnarfarið og stjórnsýsluna á Íslandi eru djúpstæð. Ég er ekki ein um þessi vonbrigði. Vonbrigði þjóðarinnar hafa endurspeglast í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Við lifum á sögulegum tímum, því vantraustið sem ríkir á milli þjóðarinnar og okkar sem vinnum hér á Alþingi er gríðarlegt. Það er umhugsunarefni sem mér finnst að við þingmenn verðum að taka með okkur heim þegar þingi er slitið. Síðan ber okkur að koma til baka í haust, vonandi endurnærð og full staðfestu um að græða rofið sem er á milli þings og þjóðar. Það gerum við með því að temja okkur þau gildi í orði og verki sem þjóðin kom sér saman um á þjóðfundinum árið 2010 þegar fjallað var um nýja stjórnarskrá en þau voru: Jafnrétti, lýðræði, heiðarleiki, mannréttindi, réttlæti og ábyrgð. Þessi gildi hafa ekki verið fyrirferðarmikil á yfirstandandi þingi.

Úti í samfélaginu er ákall um breytta forgangsröðun, um heiðarlegri vinnubrögð, um ábyrgð og aðhald, um jafnrétti og réttlæti, um aukna aðkomu að lýðræðislegum ákvarðannatökum.

Fordæmalaus hegðun og valdhroki margra ráðherra þessarar ríkisstjórnar hefur svo sannarlega ekki aukið tiltrú almennings á að hægt væri að treysta stjórnmálamönnum. Ekki hefur verið vilji til að draga lærdóm af mistökum heldur fjarar viðstöðulaust undan og ekkert lát virðist vera þar á. Segja má að það hafi byrjað að halla verulega undan fæti þegar utanríkisráðherra ákvað að sniðganga þingið, þingræðið sjálft og sendi bréf til Brussel sem átti að marka endalok aðildarviðræðna við Evrópusambandið, þrátt fyrir að því hafi verið lofað fyrir kosningar að þessi ákvörðun yrði þjóðarinnar að taka.

Það getur verið að hæstvirtum forsætisráðherra hugnast ekki þau gildi eins og hefur komið fram í orðræðu hans um þá ógn sem gæti stafað af því ef Píratar myndu koma á þeim breytingum sem eru í raun í samræmi við niðurstöðu þjóðfundar.

Við, sem samfélag þurfum líka að ráðast í grundvallar kerfisbreytingar með gildi þjóðfundsins að leiðarljósi. Til þess að það sé hægt þurfum við að vita á hvaða vegferð við erum sem þjóð. Hvernig samfélagi viljum við búa í eftir 50 ár? Enginn einn veit það en í markvissri samræðu við aðra þá getum við fundið leiðarstefið að takmarkinu.

Birgitta JónsdóttirÞað er nefnilega ekki hægt að fara í neinar grundvallarbreytingar nema í samvinnu við ykkur, þjóðina. Píratar gera sér grein fyrir að við erum ekkert án ykkar og það er okkar einlæga stefna að þú ráðir kæri Íslendingur, að þú ráðir fleiru en að kjósa fulltrúa á þing, að þú fáir tækifæri til að taka þátt í að móta þitt framtíðarland í samvinnu við aðra.

Við þingmenn verðum að nýta tímann vel hér á þingi til að tryggja að forgangsraðað verði í velferðarmálin og undirstöður heilbrigðiskerfisins verði lagaðar. Það eru nefnilega allt of margir Íslendingar sem hafa það ekki gott og hafa búið við langvarandi skort. Við eigum að laga það sem og öll þau mannréttindabrot sem maður heyrir af eins og látlaust og gruggugt fljót sem streymir inn í pósthólfin okkar og við höfum engan rétt á að hunsa.

Ég vil að lokum fara aðeins yfir grunnstefnu Pírata en allar okkar ákvarðanir á Alþingi eru undantekningarlaust teknar í samhengi við hana.

Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir. Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru. Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun. Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.

Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda. Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert. Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.

Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri. Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi. Til friðhelgi telur réttur til leyndar, nafnleysis, og sjálfsákvörðunarréttar. Leynd á aldrei að ná lengra en þörf er til að vernda einstaklinginn, en aldrei svo langt að það hafi áhrif á aðra einstaklinga. Nafnleysi hefur ekki þann tilgang að skjóta einstaklingi undan ábyrgð.

Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.

Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna. Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir. Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni, og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.