Sérstök umræða um stafræna skuggann og símhleranir

Birgitta JónsdóttirBirgitta Jónsdóttir var málshefjandi í sérstökum umræðum á Alþingi í gær um gagnageymd og heimildir lögreglu til símhlerana. Til andsvara var innanríkisráðherra, Ólöf Nordal. Helstu áherslur umræðunnar voru: Úrskurðir dómstóla um heimildir til hlerana, forvirkar rannsóknir lögreglu og leiðir til aukins réttaröryggis. Þátttakendur í umræðunni auk Birgittu og Ólafar voru Guðbjartur Hannesson, Ögmundur Jónasson, Elsa Lára Arnardóttir, Róbert Marshall, Helgi Hrafn Gunnarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir.

Píratar eru ánægðir með umræðuna en svo virðist sem þverpólitísk samstaða sé um að það verði að laga umgjörðina um þessi mál, inngrip í friðhelgi einkalífs sé of mikil og dómstólar hafi ekki staðið nægilega vörð um friðhelgi einkalífs þegar heimildir til hlerunnar eru veittar. Hér fyrir neðan má horfa á umræðuna í heild en hún er hálftími að lengd.

 

Ræða Birgittu við upphaf umræðunnar: 

Forseti. Er einhver að tengja við orðið gagnageymd? Ég held ekki, það hefur ákaflega litla þýðingu fyrir flesta vegna þess að orðið lýsir ekki nægilega vel hvað það felur í sér í raunheimum. En gagnageymd þýðir einfaldlega að stafrænn skuggi fylgir manni, ekki ósvipaður og skugginn í laginu Ég á lítinn, skrýtinn skugga. Yfirleitt hugsar maður ekki mikið um skuggann sinn enda ómögulegt að grípa hann og geyma. Stafræni skugginn okkar er aftur á móti auðgeymanlegur og auðvelt að deila honum með öðrum, hvort er á milli yfirvalda eða einkafyrirtækja, á milli landa eða á milli njósnastofnana. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa skýran og óumdeildan lagaramma um heimildir til að grípa og geyma stafræna skuggann okkar, þegar í ljós kemur, eins og kom fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar um hversu oft dómstólar veittu lögreglunni heimildir til hlerunar, en það var í nánast 99% tilfella,

Forseti. Varnaglarnir sem settir eru í lögum virðast engan veginn virka og hleranir virðast viðgangast í málum sem eru alls ekki nægilega alvarleg til að réttlæta alvarlegt inngrip í friðhelgi einkalífsins. Þetta er úrræði sem eingöngu á að nota þegar um mjög alvarlega glæpi er að ræða. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá árinu 2009 var fjallað um friðhelgi einkalífs og framkvæmd á símhlerunum og öðrum blæbrigðum stafræna skuggans sem er skilgreind í lögum um gagnageymd og er hluti af verkfærakistu lögreglu til að njósna, hvort heldur það er um mál í fortíð, nútíð eða framtíð. Í ljósi þess að dómstólar í Moldavíu samþykktu í raun allar beiðnir lögreglu um beitingu fjarskiptarannsókna árið 2007 féllst dómurinn á að það úrræði að fylgjast með símnotkun með leynd hefði verið stórkostlega ofnotað. Dómurinn komst þar af leiðandi að þeirri niðurstöðu að þau lög sem um þessi efni giltu í Moldavíu hefðu ekki tryggt næga vernd gegn misnotkun valds sem 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs mælir fyrir um. Dómurinn áréttaði jafnframt að símhlerun væri mjög alvarlegt inngrip í réttindi fólks og að eingöngu ætti að heimila hana á grundvelli rökstudds gruns um að viðkomandi hefði framið alvarlegan glæp. Þetta eru nánast sambærilegar aðstæður og eru viðtekin venja hérlendis.

Forseti. Mig langar að spyrja hvernig hæstv. innanríkisráðherra sjái fyrir sér að best sé að bregðast við þeim freistnivanda sem skapast þegar einfalt er að ná utan um stafræna friðhelgi okkar og klófesta stafræna skuggann okkar án þess að fólk sé einu sinni meðvitað um það. Hyggst hæstv. ráðherra bregðast við sívaxandi inngripum og koma með tillögur að lagasetningu til að skýra betur lagarammann sem ætti að tryggja betur réttaröryggi borgaranna?

Þingmenn Pírata hafa nú þegar lagt fram tvö þingmál undanfarið til að bregðast við þessari þróun og það væri okkur alveg að meinalausu að hæstv. ráðherra endurynni þau ef ekki hefur nú þegar verið hafist handa í ráðuneytinu við að laga lög sem snerta gagnageymd og símhlerun til að koma í veg fyrir misnotkun. Við höfum lagt til að skilyrði fyrir heimild til hlerunar verði hert, átta ára fangelsi verði fortakslaust skilyrði og ekki verði hægt að vísa bara til almannahagsmuna vegna þess að það virðist jafnvel vera auðveldara en hitt að fá heimildir til að grípa stafræna skuggann sem er svo sannarlega jafn mikil inngrip og alvarleg inngrip í friðhelgi einkalífs. Leggja Píratar til að sömu skilyrði gildi um gagnageymd og aðrar hleranir, til dæmis símahlustun. Þá leggjum við jafnframt til að sérstakur lögmaður verði skipaður til að gæta hagsmuna þess sem hlera á þegar óskað er eftir heimild frá dómara samkvæmt 84. gr. sakamálalaga, til hlerunar á öllum blæbrigðum fjarskipta.

Forseti. Haft hefur verið eftir hæstv. innanríkisráðherra í fjölmiðlum að eðlilegt sé að við tökum umræðu um hvort veita skuli lögreglunni forvirkar rannsóknarheimildir. Slíkar heimildar þýða einfaldlega að lögreglunni sé veitt heimild til að njósna um borgara landsins vegna gruns um mögulegt saknæmt athæfi í framtíðinni og án þess að nokkur glæpur hafi verið framinn, ekki ósvipað og í skáldsögunni Minority Report.Væri ekki skynsamlegt að byrja á því að laga aðeins þá framkvæmd sem viðhöfð er um þær heimildir sem lögreglan hefur nú þegar og skerða stórkostlega friðhelgi einkalífsins áður en við íhugum að veita lögreglu enn frekari heimildir?