Þingsályktunartillaga um sjálfstætt eftirlit með lögreglu

Þingflokkur Pírata hefur lagt fram ítarlegt þingmál um sjálfstætt eftirlit með starfsháttum og starfsemi lögreglu. Með tillögunni er lagt til að unnið verði lagafrumvarp um sérstaka stofnun á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Við undirbúning frumvarpsins beri líta til eftirfarandi verkefna slíkrar stofnunar:

a. að hefja athugun að eigin frumkvæði,

b. að taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum,

c. að rannsaka meint brot lögreglumanna í starfi,

d. að rannsaka tilkynningar innan úr lögregluliðum um einelti og kynferðislega áreitni,

e. að rannsaka upplýsingar frá nafnlausum afhjúpendum innan lögreglu eða stjórnsýslu.

Píratar telja einnig að meta eigi hvort stofnunin geti einnig farið með ákæruvald í slíkum eftirlitsmálum. Í frumvarpinu verði kveðið sérstaklega á um sjálfstæði stofnunarinnar.

Vegna þeirra mikilsverðu hagsmuna sem almenningur hefur af trúverðugleika rannsókna á meintum brotum lögreglu og lögreglumanna telja Píratar skynsamlegt að koma á fót eftirlitsstofnun sem sérstaklega er falið að hafa eftirlit með lögreglu og rannsaka kærur og brot lögreglumanna gegn lögum, verklagsreglum og siðareglum lögreglumanna. Til að vernda þennan trúverðugleika er nauðsynlegt að stofnunin sé aðskilin frá lögreglunni og sjálfstæð í störfum sínum. Flutningsmenn tillögunnar telja að vel fari á því að eftirlitsstofnun af þessu tagi heyri undir Alþingi, sem hefur það stjórnskipulega hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Þingmenn PírataÍ opinu lýðræðisþjóðfélagi er nauðsynlegt að verja gagnkvæmt traust milli lögreglunnar og borgaranna. Í því sambandi er nauðsynlegt að almenningur hafi trú á því að kvartanir og kærur borgaranna vegna framkvæmd lögreglustarfa og brota lögreglumanna innan starfs sem utan, fái réttláta og óvilhalla meðferð stjórnvalda, ákæruvalds og dómstóla.

Það hefur ekki yfirbragð trúverðugleika að ríkissaksóknari, héraðssaksóknarar eða lögreglustjórar, þar með talinn Ríkislögreglustjóri, fari með rannsóknir mála af þessu tagi. Óhjákvæmilegt er að koma á fót sérstakri stofnun til að fara með þessi mál, rannsaka þau og afgreiða þau. Eðlilegt má telja, einkum þegar litið er til náinna tengsla lögreglu og ákæruvalds, að stofnunin fari með ákæruvald í þessum málum, auk þess að geta afgreitt mál með stjórnvaldssektum og áminningum. Stofnuninni yrði skylt að fara að almennum, faglegum tilmælum ríkissaksóknara og ákvarðanir hennar um að ákæra ekki vegna brots, fella rannsókn niður eða vísa kæru frá, væru kæranlegar til ríkissaksóknara.

Til að vernda sjálfstæði stofnunarinnar væri nauðsynlegt að hún heyrði ekki undir ráðherra sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Í stað þess væri rétt að hún heyrði beint undir Alþingi, ekki ósvipað og Umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Það mætti tryggja með því að Alþingi kysi annaðhvort forstöðumann stofnunarinnar eða stjórn hennar, eftir atvikum að hluta til eftir tilnefningum frá almenningi, Lögmannafélagi Íslands og óháðum mannréttindasamtökum.

Vegna þess eðlis stofnunarinnar að vera bæði eftirlitsstofnun á stjórnsýslustigi og stofnun sem annaðist sakamálarannsóknir, er nauðsynlegt að hún hafi hvort tveggja þær heimildir sem eftirlitsstofnunum sama eðlis eru veittar í sérlögum um þær stofnanir og jafnframt sömu valdheimildir og lögregla hefur samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála, þar með talið vald til að handtaka starfsmenn lögreglu og ákæruvalds.

Sú tillaga sem hér hefur verið lýst er nokkuð róttækari en þær tillögur sem reifaðar hafa verið áður um þessi efni. Flutningsmenn tillögunnar óska þess engu að síður að hún fái málefnalega umræðu bæði innan og utan þingsins enda telja flutningsmenn hana mikilvægt innlegg í umræðu um óháð eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu.

Greinargerðin með tillögunni er ítarleg og við kvetjum áhugasema eindregið að kynna sér málið nánar. Tillaga til þingsályktunar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.