Enga samninga við útgerð nema þjóðareign verði tryggð í stjórnarskrá

Birgitta Jónsdóttir kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins í dag og krafðist þess að þjóðareign á auðlindum yrði tryggð í stjórnarskrá áður en samningar verða gerðir við útgerðarmenn um nýtingu fiskveiðiauðlinda þjóðarinnar. Hér fyrir neðan má hlusta og horfa á ræðuna.

Forseti. Ég hef verið að rýna léttilega í upplýsingar um hið nýja kvótakerfi. Út frá því litla sem ég hefur fengið upplýsingar um og má deila þá verð ég að segja að mér líst afar illa á nýja kvótakerfið og vil því minna þingheim á að það er ekkert vit í því að samþykkja nýtt kvótakerfi eða nýtt fiskveiðistjórnarkerfi fyrr en við erum búin að fá ákvæðið um náttúruauðlindirnar í stjórnarskrá. Því legg ég til og mæli með að fiskveiðistjórnarfrumvarpið verði ekki afgreitt hér á Alþingi fyrr en sú stjórnarskrárbreyting hefur átt sér stað. Ég mun í það minnsta gera allt sem ég get til þess að tryggja að þær breytingar muni ekki eiga sér stað að auðlindin verði rótfest í höndum auðmanna.

Birgitta JónsdóttirÉg ætla að lesa hér örsnöggt upp úr þessu fallega riti, Ný stjórnarskrá, sem er enn þá í kóma og ég á von á að okkur takist einhvern tíma koma úr því. Þar stendur í 34. gr. undir yfirskriftinni Náttúruauðlindir:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Ég skora á þingmenn (Forseti hringir.) að samþykkja ekki þetta fiskveiðistjórnar-frumvarp fyrr en við höfum breytt stjórnarskrá okkar.