“I told you so”

Helgi Hrafn Gunnarsson fór á kostum í störfum þingsins og kenndi þingheimi að fara framhjá lögbanni á deildu.net og thepiratebay.se

Farið á Google, stimplið inn „access piratebay“ og smellið á enter. Veljið fyrsta tengilinn.

Hér má hlusta á hina stórskemmtilegu tveggja mínútna ræðu þingmannsins:

Virðulegi forseti. Nýlega féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem lögbann var staðfest gegn netveitunum Hringdu og Vodafone. Lögbannið skyldaði þessi fyrirtæki til að loka fyrir vefsvæðin deildu.net og thepiratebay.se. Þetta eru tveir vefir sem eru alræmdir fyrir það að gera notendum kleift að ná í höfundarréttarvarið efni án endurgjalds og á því byggði jú lögbannsbeiðnin.
Í kjölfarið fór ég hingað í pontu á hinu háa Alþingi og spáði fyrir tvennu. Í fyrsta lagi að lögbannið mundi ekki virka og þess vegna þyrfti strax að fara í róttækari aðgerðir og í öðru lagi að jafnvel hin minnsta tækniþekking á innviðum internetsins yrði gerð tortryggileg. Ég stíg nú í pontu til að segja: I told you so, eða á íslensku, virðulegi forseti: Ég sagði ykkur það.

Helgi HrafnHv. héraðsdómslögmaður Tómas Jónsson skrifaði grein stuttu eftir ræðu mína þar sem hann kvartaði undan því að þingmaður á hinu háa Alþingi hótaði því fyrir opnum tjöldum að aðstoða menn við að komast fram hjá lokunum á þessum vefum. Hann líkti þessu við að maður hjálpaði innbrotsþjófum því að maður vissi hvar lykillinn væri falinn. En ekki er um að ræða neinn falinn lykil heldur hina einföldustu tækniþekkingu á internetmálum sem hægt er að hafa til að segjast hafa nokkra yfir höfuð. Eins og ég spáði fyrir um hefur eitthvað jafn einfalt og þekking á því hvað DNS sé verið gerð tortryggileg af þeim sem aðhyllast þessar lokanir.

Nú veit ég að ég hef sennilega ruglað hv. þingheim með því að nota tæknilega skammstöfun þannig að ég skal sýna þingheimi með jafnvel enn einfaldari hætti hvernig komast má hjá þessum lokunum: Farið á Google, stimplið inn „access piratebay“ og smellið á enter. Veljið fyrsta tengilinn. Þetta er hin ógurlega undirheimatækniþekking sem menn ætla væntanlega að halda frá augum almennings. Svo hvað er til ráða? Jú, auðvitað að ganga lengra og lengra og lengra eins og ég sagði. Ég segi enn og aftur að þessi barátta við höfundarréttarbrot sé vonlaus. Ég legg til að við endurskoðum höfundarrétt ef tryggja ber hagsmuni listamanna.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.