Afnám refsinga fyrir tjáningu skoðanna

Þingflokkur PírataHelgi Hrafn Gunnarsson er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem þingmenn Pírata leggja nú fram í annað sinn, um afnám refsinga fyrir tjáningu skoðanna. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.:

Frumvarp þetta var lagt fram á 143. löggjafarþingi en var ekki rætt. Er það nú lagt fram að nýju óbreytt. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður verði breytt á þann veg að ekki verði heimilt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir að tjá skoðanir sínar. Flutningsmenn frumvarpsins telja slíkar heimildir ekki standast nýrri viðhorf til mannréttinda, sérstaklega með hliðsjón af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki lýst því með skýrum hætti yfir að refsiákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi séu andstæð sáttmálanum hefur dómstóllinn í auknum mæli gagnrýnt beitingu refsinga á þessu sviði, ekki síst fangelsisrefsinga. Þá hefur Evrópuráðið einnig ályktað um að rétt sé að ríki endurskoði refsiákvæði vegna ærumeiðinga. Í nóvember 2013 lýsti erindreki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) miklum áhyggjum af takmörkunum á tjáningarfrelsi á Íslandi, vegna frumvarps til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot), sem var samþykkt 29. janúar 2014 (109. mál á 143. löggjafarþingi). Í fréttatilkynningu frá stofnuninni kemur fram að fangelsisdómur sé of hörð refsing fyrir ákvæði sem takmarki tjáningarfrelsi og séu veikt orðuð með miklu svigrúmi til lagatúlkunar. Er því með þessu frumvarpi lagt til að heimild til að dæma fangelsisrefsingu verði felld brott úr þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður.

Vert er að vekja athygli á því að þau réttindi sem geta skarast við tjáningarfrelsið, til að mynda æra manna, njóta einnig verndar að einkarétti og geta menn sem telja að sér vegið höfðað einkamál og krafist bóta eftir atvikum. Það er ekki ætlun flutningsmanna að hrófla við þeim réttindum, enda með frumvarpinu einungis lagt til að ekki verði lengur unnt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir tjáningu skoðana.

Flutningsmenn telja of langt gengið á tjáningarfrelsið í XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Frumvarpið sem hér er lagt fram breytir því ekki í grundvallaratriðum og gengur ekki nægilega langt til að koma tjáningarfrelsisverndinni í ásættanlegt horf hér á landi. Hins vegar telja flutningsmenn raunhæft að ná samstöðu um þær breytingar sem hér eru lagðar til enda eru þær skref í rétta átt.

Frumvarpið í heild: Afnám refsingar fyrir tjáningu skoðanna.

Hér má fylgjast með ferli málsins á Alþingi.