Mælt fyrir tilllögu um að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012

Jón Þór ÓlafssonÞann 20. október síðastliðinn lagði Birgitta Jónsdóttir, ásamt öðrum þingmönnum Pírata, fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að Alþingi álykti að fara skuli að vilja þjóðarinnar eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána 20. október 2012. Í dag mælti Jón Þór Ólafsson fyrir tillögunni á Alþingi. Í ræðu Jóns Þórs segir meðal annars:

Þjóðin hefur verið að skoða upp á nýtt á síðustu árum hvaða leikreglur þurfa að vera til staðar til að við getum treyst handhöfum almannavaldsins, treyst þeim til að misfara ekki með það. Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 voru að afgerandi meiri hluti þjóðarinnar vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, að þær verði lagðar til grundvallar, ekki bara hafðar til hliðsjónar.

Þær voru líka að afgerandi meiri hluti þjóðarinnar vill að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindirnar sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign.

Það kom líka fram að meiri hluti þjóðarinnar vill að í nýrri stjórnarskrá verði áfram ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi.

Afgerandi meiri hluti þjóðarinnar vill að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í æ meira mæli en nú.

Afgerandi meiri hluti þjóðarinnar vill að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt.

Að lokum vill afgerandi meiri hluti þjóðarinnar að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi þingsályktunartillaga Pírata, sem ég mæli hér, fyrir segir að Alþingi álykti að fara beri að skýrum vilja meiri hluta kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og skori á forsætisráðherra að hafa þessa ályktun að leiðarljósi við endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins á yfirstandandi kjörtímabili. Í þeirri vinnu skuli tekið fullt tillit til þess mikla starfs sem fólkið í landinu, stjórnlagaráð og Alþingi lögðu sameiginlega af mörkum við endurskoðun stjórnarskrárinnar á liðnu kjörtímabili.

Að lokum vil ég þakka kærlega fyrir þetta mikla starf sem svo margir lögðu í það að endurskoða leikreglur samfélagsins til að við getum fengið að lifa hér á Íslandi við meira en bara tímabundna velferð og velmegun. Það er allt til staðar — nema stjórnkerfi sem takmarkar betur spillingu og gerir auðveldara að uppræta hana þar sem hún þrífst.

Í umræðu um málið á Alþingi tóku einnig þátt, Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall og Helgi Hrafn Gunnarsson. Hér má horfa á umræðuna í heild.

 

Hér má lesa þingsályktunartillöguna í heild ásamt greinargerð. Hér má fylgjast með ferli málsins á Alþingi.