Sérstakar umræður um TISA

Birgitta Jónsdóttir var málshefjandi í sérstökum umræðum í þinginu um TISA viðræðurnar. Í ræðu Birgittu kom meðal annars fram að:

Með TISA-samkomulaginu, og öðrum slíkum yfirþjóðlegum viðskiptasáttmálum, sé verið að festa í sessi rétt fjárfesta og koma í veg fyrir að ríkisstjórnir geti gripið til aðgerða á fjölmörgum sviðum sem tengist viðskiptum. Á meðal þess sem PSI segir að TISA-samkomulagið muni hafa í för með sér er að ríkisstjórnir muni ekki geta tekið aftur yfir opinbera þjónustu ef einkavæðing hennar hafi mistekist, reglugerðir þjóða sem snúa að öryggi verkamanna verði takmarkaðar, sömuleiðis umhverfisverndarregluverk, neytendavernd og eftirlitsstarfsemi með heilbrigðisþjónustu, orkuverum, úrgangslosun og faggildingu í menntakerfinu. „Þetta samkomulag mun koma fram við farandverkamenn (e. migrant workers) sem vörur og takmarka getu ríkisstjórna til að tryggja réttindi þeirra,“ segir enn fremur í skýrslu PSI.”

TISA-viðræðurnar hafa staðið yfir frá því vorið 2013 og samkvæmt þeim litlu tíðindum sem borist hafa af framvindu þeirra hafa þær gengið vel. Sjöttu viðræðulotu lauk í byrjun maí síðastliðins. Viðræðurnar snúast um alla anga þjónustu og aukin réttindi stórfyrirtækja á alþjóðavettvangi. Skjölin sem lekið var til Wikileaks fjalla eingöngu um þær áherslur sem stefnt er á að ná í gegn í tengslum við fjármálafyrirtæki. En þær setja svo sannarlega tóninn um hvernig restin af þessum stórhættulega samningi mun verða samansett.

Birgitta lagði svo nokkrar og ítarlegar spurningar fyrir ráðherrann:

Hve marga fundi um TiSA-samninginn hafa fulltrúar frá Íslandi setið og hverjir hafa setið þá og tekið ákvarðanir fyrir Íslands hönd?

Hvernig er upplýsingum um gang mála miðlað til ráðherra og hvenær stendur til að upplýsa Alþingi með fullnægjandi hætti um gang mála áður en samningurinn verður bindandi?

Er möguleiki fyrir utanríkismálanefnd að koma með bókanir eða breytingartillögur áður en samningurinn verður undirritaður og fá nefndarmenn tækifæri til að sjá samninginn og þau gögn er liggja til grundavallar honum? Ef svo er, verða þá nefndarmenn bundnir trúanaði eins og aðalsamningamaður fyrir Íslands hönd?

Mun ráðherra fá aðgang að þessum gögnum ef hann situr ekki fundina? Því mér skilst að þeir sem taka þátt í samningaviðræðum séu bundnir trúnaði í fimm ár eftir að samningur hefur verið undirritaður, hvort heldur við samþykkjum hann eður ei. Hvernig hyggst hæstvirtur ráðherra gera þinginu grein fyrir samningnum ef slíkar takmarkanir eru í gildi?

Er rétt sem fram hefur komið að verið sé að setja á fót yfirþjóðlegan dómstóll sem á að útkljá deilumál sem gætu komið upp á milli þeirra sem aðild eiga að samkomulaginu til að auðvelda alþjóðafyrirtækjum að sniðganga skorður og lög sem einstöku þjóðríki reyna að setja þeim?

Ef þetta er rétt, má ekki segja að með því sé hæstvirtur ráðherra að leggja grunn að víðtæku framsali valds sem er ólögmætt samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins?

Hjá utanríkisráðherra var því miður heldur fátt um svör. Fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðisson, veitti sitjandi ráðherra dyggan stuðning. Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, tók hins vegar undir með Birgittu og varaði við þeim lýðræðisógnum sem samningar sem þessir hafa í för með sér vegna þeirrar leyndarhyggju sem um þá ríkir. Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði eiginlega ekkert að segja, nema það að hann tryði ekki orðum málshefjenda um viðræðurnar, leyndarákvæði og hugmyndir um yfirþjóðlegan dómstól. Helgi Hrafn Gunnarsson lagði áherslu á að gegnsæi skipti hér höfuðmáli og lýðræðisleg samræða um málefni sem hefur svo víðtæk áhrif, sé höfuðatriði í lýðræðislegu samfélagi, áður en gegnið til samninga. Birgitta ítrekaði spurningar sínar til ráðherra undir lok umræðunnar. Spurningu hennar um hvernig ráðherra er upplýstur um viðræðurnar, svaraði ráðherra með almennri umfjöllun  um upplýsingaskyldu stjórnvalda og nefndi ráðherrann einnig upplýsingafundi um málið meðal hagsmunaaðila í viðskiptalífinu og aðilum vinnumarkaðarins. Vitað er hins vegar að ekki hafa öll félagasamtök fengið áheyrn ráðherra og embættismanna um málið.

Birgitta Jónsdóttir hefur þegar lagt fram fyrirspurn til ráðherra með áþekkum spurningum og lagðar voru til grundvallar í umræðunni. Ljóst er að bíða verður skriflegs svars við þeirri fyrirspurn til að fá skýrari svör um málið.