Helgi Hrafn bendir á ábyrgð forsætisráðherra

Helgi HrafnÁrni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi sérstakrar umræðu, í þinginu í dag, um Stjórnarráð Íslands með Bjarna Benediktsson til andsvara. Áherslur Árna Páls voru; Forsendur þess að brjóta upp innanríkisráðuneytið og afleiðingar þess fyrir stjórnfestu; ábyrgð formanns flokks á að tryggja að ráðherrar axli pólitíska ábyrgð.

Helgi Hrafn tók þátt í umræðunni af hálfu Pírata. Um ábyrgð formanns flokks á að tryggja að ráðherrar axli pólitíska ábyrgð, hafði Helgi Hrafn Gunnarsson þetta að segja:

Þetta finnst mér skjóta skökku við.  Formaður flokks gegnir EKKI því hlutverki að tryggja að aðrir ráðherrar axli ábyrgð. Um þetta má vitna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er forsætisráðherra sem ber ‘ábyrgð’ á ráðherrum í sinni ríkisstjórn, að því marki sem þeir rísa ekki undir henni sjálfir.

Um þetta segir einnig í fræðiritinu „Þingræði á Íslandi“ með leyfi forseta: „Gæta verður að því í umfjöllun um ráðherra að embætti þeirra eru að því leyti sérstök að ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnsýslunni en eru háðir meirihluta þingsins og forsætisráðherra um stöðu sína. ERGO – ráðherra er háður forsætisráðherra um stöðu sína, en ekki formanni síns flokks!

Hér bendir Helgi Hrafn á að málið er alls ekki einkamál Sjálfstæðisflokksins eins og málshefjandi gaf til kynna, heldur ber Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem forsætisráðherra og verkstjóri ríkisstjórnarinnar, ábyrgð á ráðherrum í sinni ríkisstjórn. Um stöðu sína í ríkisstjórn er Hanna Birna Kristjánsdóttir, í lagalegum og stjórnskipulegum skilningi, háð forsætisráðherra en ekki formanni Sjálfstæðisflokksins.