Forgangsmál Pírata á nýju þingi

Þingmenn PírataVið þingmenn Pírata erum klár í slaginn við upphaf þings. Þar sem Píratar hafa flatan strúktúr skiptumst við á að gegna formennsku flokks og þingflokks, en nauðsynlegt er að hafa báðar þessar stöður skipaðar vegna starfa þingsins. Helgi Hrafn Gunnarsson tekur nú við þingflokkformennsku af Birgittu Jónsdóttur og Jón Þór Ólafsson verður varaformaður þingflokks. Birgitta Jónsdóttir tekur við flokksformennsku af Jóni Þór. Þá verður Jón Þór áheyrnarfulltrúi Pírata í fjárlaganefnd og í forsætisnefnd.

Forgangsmál

Þingmenn Pírata leggja fram þrjú forgangsmál við upphaf 144. löggjafarþings.

Í fyrsta lagi tillögu til þingsályktunar um um vistkerfi fyrir hagnýtingu internetsins og réttindavernd netnotenda. Í tillögunni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að móta stefnu um að skapa á Íslandi vistkerfi eins og best verður á kosið fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt því að verja réttindi netnotenda, og gera svo nauðsynlegar lagabreytingar til að innleiða stefnuna. Þessi tilllaga var lögð fram til kynningar á síðasta þingi og hafa þingmennirnir fengið meðflutningsmenn úr öllum flokkum með á málið. Jón Þór Ólafsson er fyrsti flutningsmaður málsins.

Í öðru lagi, tillögu til þingsályktunar um stofnun samþykkisskrár. Tillagan gerir ráð fyrir að innanríkisráðherra verði falið að láta hefja skráningu á óskum einstaklinga varðandi brottnám líffæra eða lífrænna efna við andlát til nota við læknismeðferð annars einstaklings eða til vísindarannsókna, nýtingu skýrt afmarkaðra persónugagna til vísinda- og fræðirannsókna og aðrar óskir er varða persónuréttindi. Þingmenn Pírata eru einu flutningsmenn tillögunnar en Helgi Hrafn Gunnarsson sem unnið hefur að tillögunni í sumar, er fyrsti flutningsmaður hennar.

Í þriðja lagi, tillögu til þingsályktunar um jafnt aðgengi að internetinu (net neutrality).  Tillagan gerir ráð fyrir að ríkisstjórninni verði falið að vinna aðgerðaráætlun með hliðsjón af net-hlutleysis hugmyndafræðinni um hvernig tryggja skuli jafnt aðgengi allra landsmanna að internetinu óháð búsetu og fjárhag. Flutningsmenn tillögunnar eru þingmenn Pírata. Birgitta Jónsdóttir er fyrsti flutningsmaður. Tímasetning þessarrar tillögu tekur nokkurt mið af internet slowdown deginum á morgun 10. september.

Önnur mál

Þetta eru fyrstu forgangsmálin en við Píratar erum að sjálfsögðu að vinna að ýmsum öðrum málum. Við leggjum mikla áherslu á afnám gagnageymdar og frumvarp þess efnis er til skoðunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þá eru höfundaréttarmálin í vinnslu, fangelsismál og fullgilding OPCAT samningsins, meiðyrðamálin og afnám fangelsisrefsingar fyrir tjáningu verða í brennidepli og vinna er hafin við þingmál um bardagaíþróttir, auk ýmissa mála sem varða aukna réttindavernd fyrir jaðar- og minnihlutahópa.

Við munum að sjálfsögðu halda áfram að vera óþolandi flugurnar í tjaldinu og veita stjórnarmeirihlutanum (og minnihlutanum) öflugt aðhald. Við höldum áfram að standa vörð um grundvallarréttindi á borð við tjáningar- og upplýsingafrelsi, friðhelgi einkalífsins, sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsis og frjálst internet.

Eruði með?

Birgitta, Helgi Hrafn og Jón Þór