Viljum við að öllu sé lekið?

Að gefnu tilefni þykir þingmönnum Pírata mikilvægt að árétta að vantrauststillaga þingflokksins snýst um annað og meira en leka minnisblaðs úr ráðuneyti innanríkisráðherra. Ef svo væri hefði tillagan verið borin upp miklu fyrr. Eins og þegar hefur komið fram er vantraustið fyrst og fremst tilkomið vegna alvarlegs trúnaðarbrests sem undið hefur upp á sig jafnt og þétt frá því málið kom fyrst upp fyrir mörgum mánuðum.

Ýmsir, þar á meðal forsætisráðherra, hafa haldið því á lofti að vantrauststillaga frá Pírötum vegna lekamálsins komi spánskt fyrir sjónir, enda séu Píratar „helstu stuðningsmenn leka, löglegs eða ólöglegs.“ Þetta er út í hött. Píratar standa fyrir gegnsæi í stjórnsýslu og friðhelgi einkalífsins.

píratalógó

Þessum þáttum eru gerð sérstök skil í grunnstefnu flokksins:

9. gr. Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.

14. gr. Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.

Ergo, Friðhelgi einkalífsins er fyrir einstaklinga, gegnsæi er fyrir hið opinbera. Það er alvarlegt fyrir alla þjóðina ef forsætisráðherra skilur ekki út á hvað gegnsæ stjórnsýsla gengur. Með gegnsærri stjórnsýslu er m.a. átt við aðgengi að upplýsingum um afgreiðslu opinberra málefna, meðferð á skattfé, og meðferð valds almennt. Það er vissulega rétt að Píratar vilja aukna vernd fyrir uppljóstrara, til að stuðla að gegnsæi og opinni stjórnsýslu. Við viljum tryggja vernd uppljóstrara sem miðlar upplýsingum um hverskyns misgerð, s.s. spillingu, valdníðslu, eða refsiverða háttsemi af hálfu opinberra aðila eða einkaaðila á markaði.

Persónuupplýsingar eiga ekki að lúta sambærilegu gegnsæi og stjórnsýslan. Upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga lúta ekki upplýsingalögum heldur persónuverndarlögum; enda er tilgangur gegnsæis og upplýsingafrelsis sá að borgarar í lýðræðissamfélagi geti fylgst með því hvað valdhafar eru að sýsla og að farið sé að lögum. Þessu á ekki að vera öfugt farið.  Þetta skilja Píratar mætavel og það er einlæg von okkar að forsætisráðherra geri það líka. Annars stöndum við frammi fyrir alvarlegum vanda.

Þingflokkur Pírata.