Píratar óska eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Píratar hafa óskað eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um meintar ástæður brotthvarfs Stefáns Eiríkssonar úr starfi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Svohljóðandi bréf var sent til nefndarinnar fyrir stundu.

Á málefnasviði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru m.a. málefni stjórnarráðsins í heild sbr. 8. tl. 1. mgr. 13. gr. þingskaparlaga. Þá hefur nefndin skv. sama ákvæði, frumkvæði að því að “kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur með framkvæmdarvaldinu.”

Með hliðsjón af framangreindu og í  fjarveru aðal- og varamanns Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óska ég eftir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verði kölluð saman til að leita svara við því hvort ráðherra hafi beitt opinbera starfsmenn á sviði lögreglu og ákæruvalds þrýstingi eða haft óeðlileg afskipti af störfum lögreglunnar vegna lögreglurannsóknar sem beinst hefur að ráðuneytinu og starfsmönnum þess vegna svokallaðs lekamáls. Ég óska eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri og Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, verði kölluð fyrir nefndina til að svara spurningum nefndarmanna um málið.

Með kveðju,

Helgi Hrafn Gunnarsson

 Þingflokkur Pírata