Birgitta ræddi við Sigmund Davíð um forseta Íslands

Birgitta Jónsdóttir ræddi við forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag og spurði hann hvor færi með utanríkisstefnuna, ríkisstjórnin eða forseti Íslands. Samræða Birgittu og forsætisráðherra var áhugaverð í marga staði.

Forseti.

Mig langaði að heyra álit hæstv. forsætisráðherra á mjög svo misvísandi utanríkisstefnu sem hér er við lýði. Ég átta mig ekki alveg á því hver fer með utanríkisstefnu landsins, hvort það er ríkisstjórn Íslands eða forseti Íslands.

Birgitta JónsdóttirÞað verður að viðurkennast að þegar ég sá forseti Íslands setja ofan í við ráðamenn frá Noregi fyrir að tjá sig um ástandið í Úkraínu þá fór ég svolítið hjá mér, mér þótti það frekar neyðarlegt og fleiri þingmönnum sem voru nærri mér á þeim tíma.

Mig langaði að spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra hafi rætt það eitthvað við forseta Íslands hver sé handhafi utanríkisstefnu landsins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forseti Íslands fer fram með mjög afgerandi utanríkisstefnu.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra af hverju það er svona algengt að forseti Íslands sé sendur á samkundur þar sem utanríkisstefna landsins er rædd eða kemur upp á yfirborðið.

Nú hefur forseti Íslands gjarnan mætt í stóra erlenda fjölmiðla og komið þar með utanríkisstefnu sem ég kannast hvorki við að sér utanríkisstefna fyrrverandi ríkisstjórnar né núverandi ríkisstjórnar. Mér finnst þetta ekki bara vera orðið vandamál heldur er þetta mjög ruglingslegt fyrir vini okkar sem við eigum í samstarfi við í öðrum löndum.

Forsætisráðherra svaraði með eftirfarandi hætti:

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi fyrsta hluta spurningarinnar, um það hver fari með utanríkisstefnu Íslands, þá er það að sjálfsögðu utanríkisráðherra, ríkisstjórnin og þingið og utanríkismálanefnd heldur að sjálfsögðu alveg sérstaklega utan um það af hálfu þingsins.

Hvað varðar næstu spurningu, hvort ég hafi rætt það sérstaklega við forseta Íslands hver sé eins og hv. þingmaður orðaði það handhafi utanríkisstefnunnar, þá hef ég ekki talið ástæðu til að gera það. Ég held að forseta Íslands sé vel kunnugt um það hvernig menn skipta með sér verkum hvað þetta varðar. Forsetinn hefur hins vegar, eins og hv. þingmaður gat um, oft og tíðum mætt á hinar ýmsu ráðstefnur eða í viðtöl við erlenda fjölmiðla og rætt um þau mál sem hæst ber hverju sinni. Það er hins vegar ekki svo að forsetinn sé sendur á slíka fundi eins og spurt var um. Hvorki ríkisstjórnin né aðrir senda forseta Íslands á fundi til að svara þar fyrirspurnum eða reka erindi. Eðli málsins samkvæmt mætir forseti Íslands á hina ýmsu fundi víða um lönd og er eðlilegt að hann tjái sig þegar hann er spurður álits um stórmál sem eru til umræðu þá dagana.

Forseti Íslands hefur málfrelsi. Hann má lýsa skoðun sinni á málum, stórum sem smáum, og hefur á undanförnum árum oft og tíðum gert það ágætlega, einkum og sér í lagi hvað varðar þá áherslu forsetans að verja hagsmuni þjóðarinnar út á við í erfiðum deilumálum sem Íslendingar hafa átt í á undanförnum árum.

Í síðari ræðu sinni, skýrði Birgitta fyrirspurn sína nánar og vísaði til þess að forseti væri að skipta sér af áliti Norðmanna í utanríkismálum. Það væri stór munur á því og hvort beðið væri sérstaklega um hans álit. Íslendingar hefðu lagt áherslu á að vera með eina sameiginlega utanríkisstefnu sem kristallaðist af vilja þingsins sem ríkisstjórn kæmi til framkvæmda. Birgitta ítrekaði að lokum ósk sína um að forsætisráðherra ræddi þetta við forseta.

Samræðu þeirra Birgittu og forsætisráðherra má sjá hér.