Ísland verði leiðandi í hagnýtingu internetsins

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, er formaður nýskipaðs starfshóps um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar. Það er Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra sem skipar starfshópinn, en honum er ætlað að leggja fram tillögur um leiðir til að auka afrakstur af hagnýtingu internetsins í þágu efnahagslegra og samfélagslegra framfara.

Jón Þór að störfum. Starfshópnum er ætlað að meta þau sóknarfæri sem internetið býður upp á og þær hindranir sem hamla nýtingu þess til fulls. Þá skal starfshópurinn einnig meta helstu tækifæri og ógnir internetsins fyrir íslenskt atvinnulíf; styrkleika og veikleika hér á landi sem ýmist hjálpa eða hindra atvinnulífið í að nýta tækifæri netsins til fulls.

Starfshópurinn er skipaður með vísan til draga að nýrri nýsköpunar- og atvinnustefnu og er honum  markaður skammur tímarammi til að skila af sér greinargerð eða til 15. mars 2014. Markmiðið að þá verði lögð fram þingsályktunartillaga um mótun heildstæðrar stefnu um að skapa á Íslandi vistkerfi í fremstu röð fyrir verðmætasköpun með internetinu og annarri upplýsingatækni ásamt vernd á réttindum notenda. 

Sjá frétt Atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneytisins.