Stefnumótun í vímuefnamálum

Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um mótun heildstæðrar stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Ásamt þingmönnum Pírata eru þingmenn úr öllum flokkum skráðir flutningsmenn tillögunnar.

Þingsályktunartillagan:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að innleiða nýja stefnu í vímuefnamálum þar sem horfið verði frá refsistefnu og byggt á lausnamiðuðum og mannúðlegum úrræðum, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.

Heilbrigðisráðherra skal í þessu skyni skipa starfshóp til að vinna að mótun stefnunnar. Skulu landlæknir, stjórn SÁÁ, ríkislögreglustjóri, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, Rauði Kross Íslands og velferðarsvið Reykjavíkurborgar tilnefna einn fulltrúa hver en einn fulltrúa skipar heilbrigðisráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður starfshópsins. 

Verkefni starfshópsins verði að   

a.  gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka megi viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa lagabreytingar og/eða nýja löggjöf,

b.  líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og tillagna alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði rannsókna í forvörnum gegn vímuefnaneyslu, 

c.  skapa heildstæða stefnu, sem leggur höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda, sem dregur úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu og með því stuðla að auknu trausti  jaðarhópa til samfélagsins og þeirra stofnana sem eiga að veita þeim þjónustu og skjól.    

Við starfið verði leitað aðstoðar og leiðsagnar hagsmunaaðila og hjálparsamtaka, sem og innlendra og erlendra sérfræðinga eftir þörfum.

Heilbrigðisráðherra upplýsi Alþingi um framgang verkefnisins á þriggja mánaða fresti og skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps, sbr. c-lið, fyrir 1. maí 2015 og leggi fram frumvarp byggt á niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en á haustþingi 2015.

(Linkur á tillöguna í heild, ásamt greinargerð, er hér fyrir neðan)

Helstu markmið stefnunnar sem lögð er til eru:

  1. Að neyendum vímuefna og aðstandendum þeirra verði veitt manúðleg þjónusta og öflug mannréttindavernd.
  2. Að lágmarka hin margvíslegu skaðvænlegu áhrif sem neysla ólöglegra vímuefna hefur fyrir neytendur efnanna, aðstandendur þeirra og samfélagið allt.
  3. Að efla traust vímuefnaneytenda til þeirra stofnanna samfélagsins sem hafa það hlutverk að veita borgurunum þjónustu og mannréttindavernd.
  4. Að efla rannsóknir og upplýsta umræðu um vímuefni, afleiðingar neyslu þeirra og stefnumótun í málaflokknum.
  5. Að til lengri tíma muni eftirspurn eftir ólöglegum vímuefnum minnka, fyrir tilstuðlan öflugra forvarna og gagnvirkra meðferðar- og félagslegra úrræða.

 

Þingsályktunin: Tillaga um mótun stefnu í vímuefnamálum

Umfjöllun um stefnuna á vef Alþingis er hér að finna.

 

Yarr !