Málflutningur Birgittu Jónsdóttur í umræðu um ESB

birgitta_jonsdottir_republicaÍ ljósi fjölmiðlaumfjöllunar í dag, um umræður á Alþingi um stöðu aðildarviðræðna við ESB, er rétt vekja athygli á því um hvað málflutningur Birgittu Jónsdóttur snérist í raun. Birgitta vék sérstaklega að tvennu og hvorttveggja varðar vinnubrögð þingsins og ríkisstjórnarinnar. Annars vegar um þjóðar-atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Þar vék Birgitta sérstaklega að því að henni þætti eðlilegt að þjóðin segði sitt álit á afdrifum aðildarviðræðnanna. Sagan kenndi henni þó að hafa áhyggjur af því hvernig farið væri með niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna.

Orðrétt sagði Birgitta um þetta í svari sínu við andsvari Össurar Skarphéðinssonar:

Mér finnst ótrúlegt að þingmenn leyfi sér að horfa fram hjá því að mjög mikilvæg þjóðaratkvæðagreiðsla um grundvallarbreytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var hunsuð. Hún var hunsuð af öllum flokkum hér rétt fyrir lok síðasta þings. Ég yrði fyrst manna til að krefjast þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla ef ég hefði eitthvað, eins og hv. þingmaður [Össur Skarphéðinsson] hefur kannski heyrt, sem geirnegldi það að sú þjóðaratkvæðagreiðsla yrði virt. Það er það sem ég kalla eftir frá ríkisstjórninni, að ef fara á út í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verði hún virt. Ekkert í sögunni tryggir það. Það er ákallið. Ef við erum að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu verðum við að kalla eftir því að öruggt sé að hún verði ekki vanvirt eins og þjóðaratkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá.“

Í síðara andsvari tók Birgitta fram að sér þætti það hræsni, með tilliti afdrifa þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána, að „ýta á eftir einhverju sem gefur fólki falsvonir.“

Hins vegar og í ljósi framangreindra umræðna um þjóðaratkvæðagreiðslur, vék Birgitta að framhaldi aðildarviðræðnanna. Hún lýsti því yfir að sjálf hefði hún ekki tekið endanlega afstöðu til aðildar að ESB, en taldi réttast að forsvarsmenn stjórnarflokkanna, kæmu til dyranna eins og þeir eru klæddir og hættu öllum skrípaleik með þetta mál:
Eins og sagan sýnir er ekki neitt sem tryggir að ekki fari eins fyrir þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér er kallað eftir frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og þeirri sem haldin var um stjórnarskrána. Það er ekkert sem tryggir að hún verði virt, ekki neitt. Er þá ekki heiðarlegra að ríkisstjórnin, sem vill ekki ganga í Evrópusambandið, lýsi því hreinlega yfir að hún sé hætt við eða ætli að halda áfram? Hún hefur valkost. Við þurfum að fá þessi mál upp á yfirborðið hrein og klár í staðinn fyrir að vekja hjá fólki einhverjar falsvonir.“
Andsvör Össurar Skarphéðinssonar og Unnar Brár Konráðsdóttur og svör Birgittu við þeim.

Ræða Birgittu Jónsdóttur í heild ásamt andsvörum: