Sérstakar umræður um stefnumótun í vímuefnamálum

 

Á morgun, miðvikudag, fara fram sérstakar umræður á Alþingi um stefnumótun í vímuefnamálum. Þingflokkur Pírata átti frumkvæði að umræðunni og verður Helgi Hrafn Gunnarsson frummælandi og beinir máli sínu til heilbrigðisráðherra. Helstu áherslur í umræðunni á morgun verða árangur og afleiðingar refsinga fyrir neyslu ólöglegra vímuefna, mannréttindavernd og þjónusta fyrir vímu-efnaneytendur; og framtíðarstefnumótun í vímu- og fíkniefnamálum.

Birgitta og Helgi

Þingmenn Pírata hafa að undanförnu verið að kynna drög að þingsályktun um þessi efni, fyrir þingmönnum allra flokka og er umræðan á morgun liður í því að kynna málið og gefa öðrum þingmönnum kost á að viðra sín sjónarmið. Píratar líta ekki á málið sem sitt einkamál og leggja áherslu á gott þverpólitískt samstarf um þetta mannúðarmál.

Umræðan á morgun hefst kl. 15.30. Það er einlæg von Pírata að hún verði uppbyggileg og góð.