Monthly Archives: July 2013

Íbúðarlánasjóður og illa unnin rannsóknarskýrsla

Út er komið mikið plagg um íslenska húsnæðislánakerfið, rannsóknarskýrsla um hvað varð um peninga sem settir voru í húsnæðislán. Það kemur okkur öllum við því ef rosalegt tap er á húsnæðislánakerfinu þá lendir það tap á okkur, almenningi á Íslandi. Það er nefnilega þannig að þó að Íbúðalánasjóður fái ekki beint peninga frá ríkissjóði heldur sæki sér peninga sem hann endurlánar til húsnæðiskaupenda og byggenda þá  eru skuldabréf Íbúðarlánasjóðs  með ríkisábyrgð. Það er margt gott í þessari miklu skýrslu og það er farið vel ofan í ýmsa hluti t.d. hvernig Íbúðalánasjóður breyttist úr að vera félagslegt íbúðarlánakerfi sem gerði almenningi kleift að eignast húsnæði yfir að spila með í tjúlluðum dansi fjármálagjörninga.

Hvernig Íbúðalánasjóður varð á tímabili að einhvers konar fjármálastofnun sem yfirfylltist af fé vegna uppgreiðslu húsnæðislána af því að bankarnir sem óðu í lánsfé byrjuðu að yfirtrompa Íbúðarlánasjóð og fólk skuldbreytti,  greiddi upp húsnæðislánið hjá Íls og tók bankalán í staðinn. Það sem er magnaðast er að Íbúðarlánasjóður sem var yfirfullur af peningum vegna þessara uppgreiðslna hélt áfram að taka peninga að láni hjá erlendum fjárfestum og það sem er grjótmagnað er að á tímabili þá lánaði Íbúðarlánasjóður bönkunum peningahrúgurnar sínar svo bankarnir gætu boðið ennþá poppaðri húsnæðislán.  Þannig gerðist það að Íbúðarlánasjóður varð að vogunarsjóði og starfsemi hans og orka fór mikið í að gambla með peninga sem hann tók að láni og við almenningur á Íslandi erum ábyrg fyrir. Það fór illa fyrir Íbúðarlánasjóði en það fór ennþá verr fyrir bönkunum sem hann var að lána fé,  bönkunum sem reyndust froðumaskínur sem blésu  eingöngu sýndarverðmætum sem glampaði og glitraði á þegar þau svifu upp en urðu að engu þegar froðan hjaðnaði.

Saga Fjármálahrunsins hérna á Íslandi eða í hinum vestræna heimi kringum okkur verður ekki sögð nema með því að skoða íbúðalán. Það eru einmitt íbúðarlánin, undirmálslánin bandarísku sem eru af mörgum talin orsakavaldur Hrunsins, að spunnin hafi verið upp mikil fjármálaflækja því fjármálastofnanir lifa og hrærast í því að búa til peninga úr skuldum. Þetta er svo sem allt í lagi meðan þú getur búið til meiri og meiri skuldir en ef einhvern tíma kemur að skuldadögum og þegar það rennur upp fyrir öllum  að skuldarar geta ekki borgað og lánin hljóta að fara í vanskil  eins og gerðist á ameríska undirmálalánamarkaðinum þá hjaðnar froðan með leifturhraða þegar skuldabréfavafningarnir verða að engu,  Atburðarásinni er lýst í Wikipedía greininni:

“Bandarísk undirmálslán setti af stað atburði sem leiddu til fjármálakreppunnar og síðar samdráttar sem hófst árið 2008. Það einkenndist af auknum vanskilum og svipting veðþola á rétti til eignar sinnar vegna vanefnda á veðskuld, það að ganga að veði. Það síðar leiddi til falls á hlutabréfamörkuðum og lánalínur lokuðust. Nokkur helstu fjármálafyrirtæki voru að hruni komin í september 2008, með verulega röskun á streymi af lánsfé til fyrirtækja og neytenda og upphafs á alvarlegum alþjóðlegum samdrætti. Það voru þó margar ástæður fyrir kreppunni sem myndaðist í kjölfarið. Sérfræðingar hafa deilt sökinni milli lánastofnana, eftirlitsstofnana, matsfyrirtækja, ríkisstjórnar og neytenda, meðal annarra. Meðal annars var ein orsök, hækkun á undirmálslánum. Erlend fjármálaleg skilyrði versnuðu til muna vegna umhleypinga á erlendum fjármála- og peningamörkuðum. Óróinn sem einkenndi alþjóðafjármálamarkaði um þær mundir átti sér að nokkru leyti rætur í vaxandi vanskilum á bandarískum húsnæðislánamarkaði, þótt upphaf vandans eigi sér dýpri rætur í efnahagsstefnu helstu ríkja heims og ójafnvægi í heimsbúskapnum. Um mitt ár 2005 tók að gæta aukinna vanskila í Bandaríkjunum sem í fyrstu voru einskorðuð við ákveðinn flokk húsnæðislána, þessi umtöluðu undirmálslán, sem veitt voru húsnæðiskaup endum með rýrt lánshæfi. Lækkun húsnæðisverðs og hækkandi greiðslu byrði lántakenda, einkum vegna endurskoðunarákvæða á vaxtaálagi sem voru algeng á þessum tegundum lána, leiddi til þess að vandinn stigmagnaðist. Stigvaxandi vanskil leiddu til þess að markaðsverð skuldabréfavafninga sem tengdust undirmálslánum tók að falla og dró úr seljanleika þeirra” Sjá hérna Wikipepia grein um undirmálslán  (enska Subprime lending)

Ég tel reyndar að það sé ekki rétt að undirmálslánin hafi verið orsakavaldur að fjármálakreppunni og hugsa að þegar tímar líða fram þá munum við sjá að panik vegna undirmálslána var frekar birtingarmynd hennar og þetta var kerfi sem fyrr eða síðar hlaut að kafna í eigin spýju, það bara einfaldlega gekk ekki upp.

Það þarf því engan að undra að eitthvað hafi gengið á hér á landi varðandi húsnæðislánin. Ég reyndi að lesa hinn mikla doðrant Rannsóknarnefndarinnar og skrifaði úrdrátt úr 2. kafla skýrslunnar í wikipedia grein þar sem ég reyndi að segja á eins skýran og einfaldan og ópólitískan hátt og mér var unnt frá niðurstöðum skýrslunnar, sjá þennan úrdrátt hérna:

Wikipedia greinin um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð

En það er mikið að þessari skýrslu. Það er ekki allt að og ágætt að tínd hafi verið til þessi gögn og gerð þessi úttekt. En þetta er þröngsýn og illa unnin skýrsla með bjöguðu markaðshyggjusjónarhorni. Skýrslan er þröngsýn vegna þess að ég merki enga tilraun hjá skýrsluhöfundum að setja Íbúðarlánasjóð í tengingu við umheiminn og hvað þar var að gerast og hvað var að gerast í íslensku samfélagi á þessum tíma. Skýrsluhöfundar virðast einbeittir í þröngri flokkspólitískri sýn, í sinni leit að sukki og spillingu. Þetta er kannski of hart orðað hjá mér og endurspeglar frekar það sem er velt upp í fjölmiðlum sem vissulega eru bara að leita að spillingu og sjokkfréttum en ekki að reyna að skilja, ég hef ekki haft tök á að lesa nema fyrstu kaflana ennþá og reiði mig  í mörgum atriðum á endursögn fjölmiðla um efni skýrslunnar

Skýrslan er með verulegri markaðshyggjubjögun og Ögmundur Jónasson bendir á hve mikil markaðsslagsíða er á skýrslunni og hve ógagnrýnin hún er á fjármálakerfið á þeim tíma sem til skoðunar eru. Hann segir;

Það sem ég hef hins vegar gagnrýnt í starfi rannsóknarnefndarinnar er hve ógagnrýnin hún virðist vera á fjármálakerfið á þeim tíma sem rannsóknin tekur til og hve ákaft hún tekur undir gamalkunnar kröfur um einkavæðingu húsnæðiskerfisins: „Rannsóknarnefndin skoðaði 21 úttekt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gerðu á íslensku efnahagslífi á árunum 1999–2012 og þær athugasemdir sem þar koma fram  um húsnæðisstefnu stjórnvalda. Íbúðalánasjóður hefur verið að meira eða minna leyti í brennidepli í þessum úttektum stóran hluta tímabilsins. OECD hefur hvatt til einkavæðingar húsnæðislánveitinga ríkisins síðan á dögum Húsnæðisstofnunar.“

Rannsóknarnefndin tekur undir með einkavæðingarkröfu þessara aðila – sem eru ekki nýjar af nálinni, hvorki gagnvart húsnæðiskerfinu né heilbrigðisþjónustunni – og varar jafnframt  við „afskiptum stjórnmálamanna“ af húsnæðismálum. Hneykslast er á því að félagslegt kerfi sem lýtur stjórn lýðræðislega kjörinna aðila, skuli „veita almenna lánafyrirgreiðslu á niðurgreiddum kjörum í samkeppni við einkarekna aðila.“ Grundvallartónninn í röksemdarfærslu rannsóknarnefndarinnar er sá að Íbúðalánasjóður hefði ekki átt að vera atkvæðamikill á íbúðalánamarkaði eftir að ljóst varð að  „einkaaðilar höfðu getu og vilja“ til að sinna því verkefni. Í þessu samhengi er Íbúðalánasjóður sakaður um óeðlilega „markaðssókn“ gegn bönkunum. „Raunar er ekki að sjá nein rök fyrir aðkomu hins opinbera að almennum lánveitingum á húsnæðismarkaði eftir að vaxtafrelsi var komið á, nútímavæðingu fjármagnsmarkaða lauk og ríkisbankarnir seldir.“

Það sem vantar í rann­sóknar­skýrsluna Pistill Ögmundar Jónassonar 5. júlí

Hér bendi fólki á að lesa bloggpistil Ögmundar, hann orðar vel þá tilfinningu sem ég fékk við að lesa skýrsluna. Ögmundur hefur manna bestu yfirsýn yfir húsnæðishrun á Íslandi, hann tilheyrði Sigtúnshópnum svokallaða og byrjaði raunar sín stjórnmálaafskipti þar að ég best veit, það var einmitt tími sem líkist nútímanum, þar var snögglega í hamslausri óðaverðbólgu  kippt fótunum undan öllu ungu fólki á Íslandi sem reyndi að koma sér upp húsnæði, lánin vísitölutryggðu stökkbeyttust. Verðbólgan hjaðnaði á Íslandi á sama tíma og það fólk frystist í klakaböndum íbúðarskulda en það er í fullri samhljóman við það sem hagfræðingar eins og Milton Friedman höfðu spáð  – að niðurlög verðbólgu næðist þá fyrst þegar nógu margir hefðu hag af því að það væri engin verðbólga. Gengi myntar byggist á væntingum og á tímum óðaverðbólgunnar var það ekki ríkisstjórnin sem felldi gengið, gengið var löngu fallið þegar fallið var innsiglað í opinberri gegnisskráningu. En stjórnmálamenn hafa barið sér á brjóst og þóst hafa búið til fyrirbrigði sem þeir kalla “Þjóðarsátt” og með þeirra tilstuðlan hafi verðbólgan hamist. Ögmundur lítur yfir sviðið frá sjónarhóli almennings, þess sem tekur húsnæðislán. Það gerir rannsóknarskýrslan ekki. Hún er skrifuð eins og hún hafi verið skrifuð af “Greiningardeild bankanna” þessu sama apparati og fóðraði okkur á þessum árum á öllu sem við vissum um þennan undarlega fjármálamarkað.

En það er ekki nóg með að skýrslan sé þröngsýn  og bjöguð og lítt greinandi fyrir sinn samtíma og sjái ekki stóru línurnar, hún er líka með nokkrum áberandi villum að mér virðist gerðum í því augnamiði að styðja við hið pólitíska sjónarhorn skýrslunnar. Ein villan er t.d. að halda því fram að Hallur Magnússon hafi verið ráðinn án auglýsingar í eitthvað fínt embætti. Það hafa margir gúglað og fundið út á einfaldan hátt að þetta stemmir alls ekki, staðan sem Hallur fékk var auglýst. Það er nú reyndar lenskan í íslenskum stofnunum að margir eru pólitísk ráðnir og búnar til stöður sem eru auglýstar á þann hátt og á þeim tíma að það er hægt að lesa nafn þess sem fá mun stöðuna milli línanna. Þetta er vissulega mein á Íslandi en ekki mein Íbúðarlánasjóðs fremur en annarra ríkisstofnanna. Það er líka mein á Íslandi hvernig kosningakerfið er og hvo oft fámennar stjórnmálahreyfingar eða stjórnmálamenn sem eru í þjónustu og gæta hagsmuna eignaaðals og stórfyrirtækja geta komist í oddaaðstöðu og ráðið miklu m.a. mannaráðningum þrátt fyrir lítinn samhljóm hjá almenningi.

Það eru sum atriði í skýrslunni sem mér finnst beinlínis hlægileg. Eitt er atriðið um litla menntun þeirra sem voru að vasast í húsnæðismálakerfinu með sína Samvinnuskólamenntun eða hvað það var. Þetta var auðvitað skrýtið á þeim tíma þegar Íbúðarlánasjóður fór í þetta fjármálagambl og fór að taka lán og lána bönkum. Það þarf meiri menntun en Samvinnuskólapróf til að skilja afleiðusamningaundirmálsvafningaflétturnar.  En þá fór ég að hugsa um alla íslensku bankanna sem allir voru stútfullir af gríðarlega menntuðu fólki í alls konar fjárglæringafræðum. Hvað hjálpaði öll þessi menntun okkur til að fá faglega og góða banka?  Stóðu bankastjórnir föllnu bankanna sig betur eftir því hve mikla menntun bankaráðsmennirnir höfðu? Ég vil taka fram að ég til að þetta sé góð ábending um menntunarskort en menntun ein og sér er engin trygging fyrir árangri hvorki í opinberra stofnana né stjórnmálum. En ég vildi óska þess að það væri framsýnt og víðsýnt og heiðarlegt fólk, réttsýnt, menntað og með nægilega þekkingu sem velst til slíkra starfa. Ég hugsa að það sé borin von, það er þannig í stjórnmálum í dag að þau hygla lýðskrumurum og svindlurum, þeim sem lofa öllu fögru og vinna fyrir þann sem best borgar. Það fer of mikið af tíma stjórnmálamanna í lýðskrum, tíma sem væri betur varið í að afla sér þekkingar og reyna að sjá inn í framtíðina.

Svo er afar. afar ankannalegt í skýrslunni að þar sé mikil gagnrýni á lán Íbúðarlánasjóðs til fyrirtækja eins og Búmanna. Þetta er vel sett fram og vel rökstytt. Svona var unnið og svona er ennþá unnið. Það eru fyrirtæki í íbúðarlánaútgerð, byggingaraðilar sem byggja ekki af því það sé nein eftirspurn eftir íbúðum og neinir möguleikar til að selja íbúðir. Byggja bara til að “hafa eitthvað að gera fyrir menn og vélar” og taka lán í nafni einhvers félags. Félags sem allir vita að hefur engan rekstrargrundvöll. Það þarf bara að slá inn einni excel formúlu til að sjá það. Þannig er byggt brjálæðislega í dag, íbúðir fyrir námsmenn, íbúðir fyrir aldraða etc, etc. Íbúðir byggðar af félögum sem vitað er að fari í þrot, svo kaupir annað félag (gjarnan tengt sömu aðilum) þrotabúseignirnar á miklu lægra verði. Þorp á Íslandi eru full af verkamannabústaðarblokkum sem voru byggðar fyrir auðfengið lánsfé og eru núna tómar, illseljanlegar eða orðnar sumarbústaðaíbúðir. Þetta er ekkert nýtt og gott að það sé tekið á þessu, þessu sem við sjáum gerast líka í dag. En það er afleitt í rannsóknarskýrslunni að taka  félagið Búmenn sem dæmi. Það var vissulega svona dæmi en málið var bara að Búmenn fékk ekki lán. Það strandaði á einhverju. Það er reyndar áhugavert að vita á hverju strandaði og hvort það var einhver með meiri glóru en aðrir hjá Íbúðarlánasjóði eða hvort þetta var bara heppni. En það er illa valið dæmi að taka sem dæmi um slæma breytni lán sem ekki var veitt.

Uppfært:
Svo hefur komið fram í fréttum að 90% lán Íbúðarlánasjóðs voru sárafá, ekki nema örfá árið 2005. Það var væntanlega vegna þess að bankarnir yfirtrompuðu og það verður að skoða banka sem fullir voru af erlendu lánsfé út af því að erlendar greiningarstofnanir höfðu gefið þeim háa einkunn og gengisskráning var há og fljótandi peninga alþjóðlegra fjárfesta flutu hingað og ráku að landi og fylltu hér allar víkur og voga. Það er alls, alls ekki nógu góð og fagleg vinna í þessari skýrslu ef það er látið í veðri vaka að það hafi verið 90% frá Íbúðarlánasjóði sem spenntu upp verð á húsnæði ef það voru lán sem aldrei voru veitt. Það virðist af öllu hafa skipt verulegu máli innkoma bankanna á húsnæðismarkaðinn og að fólk gat skuldbreytt lánum sínum, fært þau annað án kostnaðar.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð

Skýrsla starfshóps um framtíðarhorfur og hlutverk íbúðarlánasjóðs apríl 2013