PRISM njósnir, Edward Snowden og griðastaðurinn Ísland

Síminn var hleraður í síðasta torfbænum í Reykjavík á Kaldastríðsárunum  en þá voru einu rafrænu samskiptatæki okkar símar og þeir voru hleraðir af stjórnvöldum ef þurfta þótti. Eina ástæðan fyrir hlerun í torfbænum  var að þar bjó verkalýðsleiðtogi og það eitt nægði til að vera grunsamlegur á þeim árum að berjast fyrir bættum kjörum alþýðu. Síminn var líka hleraður hjá fjölskyldunni sem bjó á hæðinni fyrir neðan mig  þar sem ég ólst upp á Laugarnesvegi  því þar bjó einnig verkalýðsforingi (sjá hérna Hlerunin á Laugarnesvegi 100 ) og síminn var líka hleraður hjá föður æskuvinar föður míns honum Haraldi tollverði. Hann hafði ekkert gert af sér hann Haraldur, hins vegar var einn af sonum hans róttækur vinstri maður og hafði verið í slagnum fræga á Austurvelli þegar því var mótmælt að hér yrði herstöð og þess vegna voru öll símtöl hans Haraldar hleruð.

En nú er öldin önnur og nú eru samskiptatækin meiri og betri en bara símar og það eru ekki bara hin vesælu íslensku stjórnvöld sem hlera það sem grunsamlegir Íslendingar gera og ákveða hver er grunsamlegur. Bandarískar njósnastofnanir hlera nethegðun Íslendinga sem og annarra og skilgreina hverjir eru grunsamlegir og þannig í sjónlínu þeirra sem vakta og við vitum ekkert af þessari vöktun og hvers vegna hún stafar.

Uppljóstrað var í síðustu viku að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna NSA  og Alríkislögreglan FBI hafa  um langt skeið safnað  og samkeyrt upplýsingar um fólk  bæði frá  símafyrirtækjum  og hafa einnig  leynilega  áætlun sem kölluð er PRISM en samkvæmt þeirri  áætlun þá hlera þessar stofnanir NSA og FBI netheima og safnað upplýsingum frá mörgum algengum netveitum eins og Microsoft, Yahoo, Google, Facebook, PalTalk, AOL, Skype, YouTube og Apple. Hér er á glæru  yfirlit yfir hvaða gögnum er safnað. Eins og sjá má eru það símtöl, myndir, loggskrár, tölvupóstur og margt fleira.

prism-slide-4

Hér er svo glæra sem sýnir hvenær hleranir á hverri netveitu hófust. Þannig virðast gögn frá Facebook og Google hafa verið safnað alveg frá árinu 2009. Bandarísk stjórnvöld reyna núna að sannfæra þegna sína um að þessar hleranir og gagnasöfnun sé eingöngu á erlendum aðilum og þá væntanlega aðilum sem bandarísk stjórnvöld tortryggja og telja hugsanlega hryðjuverkamenn. Sem á sennilega við um okkur flest sem eitthvað tökum þátt í andófi netheima gagnvart því lögreglu- og eftirlitskerfi sem umlykur okkur en hefur ekki náð inn í alla kima  Internets.

prism-slide-5

Glærurnar eru frá þessari slóð NSA slides explain the PRISM data-collection program

Uppljóstrarinn Edward Snowden

edward-snowden

Það var uppljóstrarinn Edward Snowden  sem lak upplýsingum um þessar njósnir á  grunlausu fólki en hann sem vann hjá einu af fyrirtækjunum sem aðstoðaði NSA og FBI í PRISM áætluninni. Það er ljóst að það vakti ekki fyrir Edward Snowden að koma höggi á Bandaríkin eða grafa undan öryggiskerfi ríkisins þar heldur að vekja athygli á gríðarlega alvarlegu máli, hvernig ferðir saklauss fólks eru vaktaðar og kerfisbundið skráðar, fólks sem ekkert gert af sér. Það getur verið að fylgst sé með þér bara ef einhver telur að þú sért grunsamlegur, þú þarft ekki að hafa gert annað en hringt í skakkt númer einhvern tíma til að komast í þann hóp. Við sem höfum verið í baráttu og andófi í netheimum erum alveg örugglega fólk sem þannig er grunsamlegt, fólk sem tengist baráttu fyrir netfrelsi og frjálsu flæði þekkingar, fólk sem styður og tekur þátt í Píratahreyfingunni og finnst margt sem Wikileaks gerir vera hið besta mál. Það getur verið að einhver sé að fylgjast með þér og safna gögnum og loggskrám um nethegðun þína þó þú hafir ekkert gert af þér og það getur verið að þessar bandarísku stofnanir séu að safna upplýsingum um ákveðna Íslendinga í gegnum PRISM áætlanir sínar því mikið af netumferð og þeim netveitum og samskiptamiðlum sem við notum tengjast og fara um Bandaríkin. Það er áhugavert að Google biður okkur núna að tengja Google reikninga við farsíma og Youtube endalaust pestar notendur til að tengja youtube persónu sína við aðra netmiðla – Eru þetta upplýsingar sem fara beint inn í einhverja gagnagrunna fyrir PRISM áætlunina. Eru kannski myndirnar sem maður póstar á facebook komnar þar inn og einhverjir sjálfvirkir rekjarar rekja tengslin milli mín og einhverra grunsamlegra og ef ég tengist einhverjum grunsamlegum, er ég þá sjálfkrafa komin í radarinn hjá PRISM áætluninni.

Uppljóstrarinn Daniel Ellsberg

Daniel Ellsberg sem sjálfur er frægur uppljóstrari (sjá Pentagon Papers ) ritar þessa grein  Edward Snowden: saving us from the United Stasi of America í Guardian 10. júí 2013 og honum er umhugað um hvernig vernda eigi borgara fyrir njósnum og hlerunum stjórnvalda í einkalíf. Hann varar við að þó Bandaríkin séu ekki lögregluríki þá hafi sé bæði tæknilega og lagalega framkvæmanleg slík rafræn vöktun og það sé ekki réttlætanlegt að búa til leyndarkerfi til að leyna viðfangsefnum sem eru í andstöðu við stjórnarskrá og bjóði upp á valdníðslu og hættu á misnotkun.

Edward Snowden vill griðastað á Íslandi

Uppljóstrarinn Edward Snowden fer núna huldu höfði og hann á ekki von á að hann eigi afturkvæmt til ættlands síns Bandaríkjanna nema hann verði handtekinn og framseldur þangað. Hann er núna landlaus flóttamaður og hann hefur lýst yfir áhuga á að koma til Íslands vegna þess að Ísland hefur skapað sér það orðspor að vera í fararbroddi fyrir netfrelsi og í gegnum viðfangsefni eins og IMMI  og tengingu við Wikileaks verið áberandi varðandi netfrelsi og andóf gegn leyndarhyggju valdamikilla miðstýrða kerfa. Hér er umfjöllun um málið:

Á ýmsum netmiðlum er  einnig spáð og skeggrætt um tengingu Edward Snowden við Ísland t.d. þessum:

Vonandi fær Snowden hæli á Íslandi sem pólitískur flóttamaður og vonandi verður Ísland griðastaður fyrir alla sem reyna að benda á þá hættu sem felst í hvernig valdamiklir aðilar geta notað stafræna miðla til að vakta og njósna um fólk með leynd. Hér á landi er ennþá ekki mikill skilningur á hversu mikilvægt þetta er, margir eru afar jákvæðir fyrir hlutum eins og forvirkum rannsóknarheimildum þ.e. að vakta og fylgjast með aðilum sem liggja undir grun um að geta hugsanlega framið einhverja glæpi. En það er mikilvægt að ríkisvaldið líti ekki sjálfkrafa strax á borgarana sem óvini sína og gefi þeim svigrúm og einkarými þar sem þeir eru ekki undir rafauga stórabróðurssamfélags. Þess vegna þurfum við tæki og tól sem við skiljum og höfum vald yfir, við þurfum opinn hugbúnað og opinn vélbúnað og samfélag opinna lausna og leyfi til að ferðast óáreitt og án vöktunar í netheimum og reyndar raunheimum líka. Við verðum sífellt fyrir meira áreiti lögregluríkis sem dæmi um það er hvernig hver einasti flugfarþegi er meðhöndlaður núna eins og grunaður hryðjuverkamaður amk í vissum ríkjum.

 

Fleiri tenglar