Finnska barnaboxið

barnabox
Í Finnlandi hefur tíðkast í 70 ár að öll nýfædd börn frá gjöf frá samfélaginu, það er box sem inniheldur allt það helsta sem nýburinn þarf fyrstu mánuðina, útigalla, vetlinga og húfur, barnaföt og ábreiðu. Svo er þar líka dýna og kassann sjálfan má nota til að láta barnið sofa í. Finnskir hönnuðir hanna falleg og notadrjúg föt og hönnunin breytist á hverju ári og líka efnisvalið. Á tímabili voru pappírsbleyjur en núna eru þar taubleyjur af því það er umhverfisvænna.

Hér er grein sem birtist nýlega á BBC vefnum um finnska barnaboxið:
http://www.bbc.co.uk/news/magazine-22751415

Hér er listi yfir innihald í finnska barnaboxinu 2012-2013
http://www.kela.fi/web/en/maternitypackage

Finnska barnaboxið er meiriháttar. Ég vissi ekki að umbúðirnar þ.e. boxið sjálft væri notað sem vagga en ég veit að innihaldið er kærkomin gjöf. Ég held að allir Finnar séu mjög ánægðir með þessi box og þetta er líka táknrænt, hver nýr þjóðfélagsþegn er boðinn velkominn með gjöf sem inniheldur það helsta sem hann þarf af fötum fyrstu mánuðina. Svo er boxið og fötin hönnuð af frábærum finnskum hönnuðum . Ég hef lengi reynt að fá þetta tekið upp á Íslandi, mig minnir að ég hafi einu sinni fengið samþykkta ályktun hjá Landssambandi Framsóknarkvenna að sambandið skyldi vinna að því íslensk stjórnvöld taki upp svona fatapakkagjafir til nýbura. Fólk setur fyrir sig kostnaðinn og vissulega er þetta ekki ódýrt, vinsældir finnsku pakkana er ekki síst að innihaldið er gæðavara, finnsk hönnun fyrir nýbura gerð af alúð úr bestu efnum sem hæfa litlum krílum. En þetta er hvort eð er kostnaður sem lendir á einhverjum og það sparar umstang og fyrirhöfn og peninga fyrir nýbakaða foreldra að þetta sé í svona pakka og þetta er þetta er ekki bara styrkur til nýbakaðra foreldra heldur líka merki um jöfnuð í samfélaginu og að það sé tekið vel á móti öllum og börnin skipti máli. Fínt að fá þessa grein með myndum af hvað er í pakkanum, það hafa svo fáir hérna á Íslandi vitað af þessari mjög svo skemmtilegu hefð í Finnlandi, hefð sem aðrar þjóðir ættu að tileinka sér.

Það er nú allt í lagi að hver nýburi fái einn pakka af nýjum baðmullarfötum, dýnu og og teppi og einn útigalla, það er ekki mikið bruðl miðað við þetta venjulega ungbarnastúss þar sem allir gefa föt á pínkulítil og foreldrar hafa ekki við að klæða hvítvoðunginn í krúttlega gjafamúdderingar. Ef krakkar fengju svona pakka þá er það líka vinsamleg ábending til allra annarra að gefa eitthvað fatakyns til barnsins EFTIR að það vex upp úr fæðingarpakkagöllunum. Og það er ekki alltaf gott að nýta gamalt, það fylgir dýna með pakkanum og kassi sem má nota sem rúm ef fólk vill og þarf. Ein kenning um vöggudauða er að hann geti stafað af ónýtum og margnotuðum dýnum. Það er allt í lagi að börn fái vandaða designgalla, það er líka hönnun að hanna úr góðum efnun sem fara vel með börn og hanna hagkvæm og falleg föt. Með því að framleiða svo marga pakka og þurfa engu að eyða í auglýsingar næst hagkvæmni þannig að ég trúi ekki að þessir fallegu og vel hönnuðu ungbarnaföt séu dýr í framleiðslu – ekki nema að því leyti að þau eru úr vönduðum efnum. Það er lífsgæði allra nýbura og nýrra foreldra að barnið eigi falleg og hagkvæm og vönduð föt sem þola vel þvotta. Ríkir geta náttúrulega keypt sér svona pakka en það er einmitt svo mikið segjandi í þessu að allir fá það sama, enginn mannamunur. Ég geri líka ráð fyrir að hugað sé að því að innihald þessa pakka sé framleitt við góðar og vistvænar aðstæður, ekki í hræðilegum 3. heims vinnufangabúðum eins og margt af ódýru stöffi sem fæst í búðum. Það getur vel verið að þetta séu föt sem eru alfarið framleidd í Finnlandi og þetta er þá líka statement um finnska framleiðslu versus innfluttar vörur.

Ég heyrði á Bylgjunni í vikunni umræðu um fæðingarpakka Finna og vona að umræðan haldi áfram. Það má alveg byrja smátt hér á Íslandi og það þarf ekki að vera neitt eins og á Finnlandi, bara lítil vertu velkomin gjöf til hvers barns sem hér fæðist. Það mætti líka vera eitthvað sérstakt sem tengist íslenskum aðstæðum t.d. húfa eða skjólföt. Eyrnarbólga er t.d. eitthvað sem mörg íslensk börn þjást af og ég held að meðvitund um það hjá nýjum foreldrum geti skilað hraustari og ánægðari börnum. Ég átti yngri dóttur mína á spítala í USA og þar fékk ég alls konar dót með heim, margt voru gjafir frá fyrirtækjum t.d. papírsbleyjur en margt var frá spítalanum t.d. húfa og hitamælir og svona emergency kit sem ég man nú ekki hvað var. Svo alls konar fræðsluefni, margar bækur. En finnski pakkinn og hönnun hans er líka fyrstu kynni barnsins af sinni menningu, menningu sem leggur áherslu á hönnun, gæði, list og jöfnuð og tengsl við umhverfi, við skóginn. Nægjusemin og allir deili kjörum og pakkinn kemur úr Karelia menningunni þegar allir Finnar þjöppuðu sér saman til að taka á móti gríðarlega mörgum sem þurftu að yfirgefa heimkynni sín í Rússlandi vegna stríðssamninga. Það voru einir mestu þjóðflutningar síðari tíma í Evrópu og er stór partur af finnskri menningu – menningu sem hver nýburi fær í gegnum fæðingarpakkann sinn.