Monthly Archives: May 2013

Alþjóðlegur baráttudagur gegn DRM aðgangsstýringu

Stop the Hollyweb! No DRM in HTML5.Í dag 3. maí 2013 er baráttudagur gegn DRM en með DRM (Digital Right management er átt við hvers konar  aðgangsstýringu á stafrænu efni. Við þekkjum öll dæmi um DRM, það eru t.d. læsingar á rafbókum og forritum og tónlistarefni sem koma í veg fyrir að við getum afritað efni eða blandað því saman við annað efni og unnið með það eins og við viljum.  Tilgangur með DRM er sagður að hindra að efni sé afritað eða notað á einhvern hátt sem höfundarrétthafar og söluaðilar  vilja ekki, með þessu er reynt að  stýra hvernig efni er notað eftir að sala hefur átt sér stað. DRM er hvers konar tækni sem hindrar notanda í að nota stafrænt efni á hátt sem framleiðandi telur óæskilega eða hefur ekki gert ráð fyrir. Stórfyrirtæki eins og Amazon, AT&T, AOL, Apple Inc., Google, BBC, Microsoft, Electronic Arts og Sony nota DRM. Árið 1998 voru lög sem kallast Digital Millennium Copyright Act (DMCA) samþykkt í Bandaríkjum Norður-Ameríku en þau lög gerðu það saknæmt ef aðrir veittu aðgang að tækni sem hefði þann tilgang að brjóta afritunarvarnir.

DRM er umdeild og telja sumir slíka tækni nauðsynlega til að gæta hagsmuna höfundarrétthafa og listamanna og tryggja tekjur af sölu stafrænna verka en aðrir mótmæla því og segja að það sé ósannað að DRM hjálpi höfundarrétthöfum en valdi hins vegar ómældum óþægindum hjá löglegum kaupendum efnis og DRM sé tæki stórfyrirtækja til að hindra samkeppni og nýsköpun og hætta sé á að afritunarvarið efni verði að eilífu óaðgengilegt ef þjónustuaðili hættir. DRM-læsing geti einnig hindrað notendur í að gefa fullkomlega löglega hluti eins og að taka afrit af geisladiskum, lána efni og fá efni að láni í bókasöfnum og fá aðgang að efni sem ekki er höfundarréttur á.

Frjálsa hugbúnaðarstofnunin Free Software Foundation (FSF) hefur barist gegn slíkri aðgangsstýringu í baráttuherferðinni Defective by Design campaign og heldur því fram að það sé rangt að nota orð eins og réttindi um það sem er meira takmörkun á notkun og DRM standi fremur fyrir “digital restrictions management” og höfundarrétthafar séu að takmarka notkun á efni á vegu sem falla ekki undir núgildandi höfundarréttarlög og ættu ekki að vera í framtíðarlagasetningu. Stofnanirnar The Electronic Frontier Foundation (EFF) og FSF telja að notkun á DRM kerfum sé liður í að hindra samkeppni.

Tveir miklir baráttumenn fyrir netfrelsi hafa komið til Íslands og flutt hér fyrirlestra sem hafa haft áhrif á mín viðhorf og skilning á hvað mikið er í húfi að koma í veg fyrir að framleiðendur geti sett alls konar óumbeðnar viðbætur inn í stafrænt efni og tól sem við notum,  annar er Benjamin Mako  og hinn er Richard Stallman.  Mako flutti hér erindi um Antifeatures og núna er staðan þannig að í sjálfan kjarna Internetsins, forritunarstaðalinn HTML5 eru uppi hugmyndir um að setja inn DRM til að þóknast höfundarrétthöfum og öðrum sem vilja ráða hvernig við notum efni.

Í tilefni dagsins byrjaði ég á grein um DRM á íslensku wikipedia.