Opið bréf til Egils Helgasonar

Sæll, Egill. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata hér. Ég ætlaði bara að svara pistli þínum stuttlega en síðan varð svarið rosalega langt. Ég sendi þér það því hér með en birti það einnig opinberlega á bloggsíðu minni.

Svar mitt er við pistli þínum, “Vandræðaleg afstaða Pírata gagnvart þjófnaði”, sem finnst hér: http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2015/09/17/vandraedaleg-afstada-pirata-gagnvart-thjofnadi/

“Það er aumt að vilja borga til dæmis fyrir kleinuhringi og pitsur en ekki fyrir list eða hugbúnað. Og að ala ungt fólk upp í slíku viðhorfi er bara ferlega sorglegt.”

Ókei. Ekkert af þessu stangast á við málflutning Pírata um vandamálin sem fylgja því að framfylgja höfundarétti með lokun vefsvæða. Það er sama hversu sorglegt það þykir, tæknin býður bara samt ekki upp á stjórn yfir höfundaréttarvörðu efni nema með því að gera einföldustu tækniþekkingu tortryggilega og ganga að upplýsingafrelsinu dauðu. Ef við viljum það ekki, sem ég geri ráð fyrir því að ekkert okkar vilji, þá verða lokanir sem leið til að framfylgja höfundarétti óraunhæfar. Sú staðreynd breytist ekki af einhverjum undraverðum hætti fyrir þær sakir einar að vera sorgleg.

“Nú er verið grípa til ráðstafana til að hefta stórfelldan hugverkastuld á netinu.”

Nei. Þetta mun ekki hefta stórfelldan hugverkastuld á netinu svo lengi sem lágmarks þekking á internetinu verður áfram aðgengileg almenningi, svosem á því að að stilla DNS þjón.

“Slíku verður ekki útrýmt, en það er hægt að hrella þjófana og reka úr einni holu í aðra.”

Það er mögulegt með því að sníða framhjá þeim réttarfarslegu ferlum sem frjálslynd lýðræðisríki taka sem sjálfsögðum skilyrðum fyrir því að gera rit upptæk og loka vefsvæðum, en það er ekki hægt án þess að sníða hjá þeim, eins og dæmin sanna. Vissulega er hægt að eyða ógrynni af peningum og tíma í að eltast við menn úr einni holu í aðra, en þeir hlæja samt bara að því og finnst það eflaust bara svolítið gaman.

“Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson slær úr og í, í aðra röndina talar hann um að ekki sé hægt að loka fyrir þjófasíður eins og Deildu eða Pirate Bay (Píratahreyfingin upphófst í kringum hana), en í hina að það megi ekki. Hvort er það?”

Eins og ég hef sagt við hvert einasta tilefni og ætti að vera orðið skýrt, að þessar aðferðir duga ekki fyrr en þær ganga of langt. Það er ekkert mál að hindra höfundaréttarbrot í Norður-Kóreu, en það þarf þá að hafa internetið í tangarhaldi eins og í Norður-Kóreu. Þetta er ekki svo flókið og ég furða mig á því að þetta sé ennþá óljóst. Aðferðirnar sem núna eru notaðar til að loka á Pirate Bay og Deildu.net virka ekki vegna þess að þær ganga ekki svo langt að hindra menn í að komast framhjá þeim með einföldum hætti. Þess vegna þarf að ganga lengra, og lengra, og lengra og lengra. Það er hættan sem við erum að vara við. Hinn möguleikinn er að þetta mistakist fullkomlega, sem þú og þín skoðanasystkini í málaflokknum ætla sér greinilega alls ekki að sætta sig við.

“Er hægt að kjósa flokk sem réttlætir afbrot af þessu tagi?”

Ég veit það ekki. Ég man ekki til þess að hafa réttlætt þessi brot þótt sjálfsagt hafi einhver af okkar 2000 meðlimum einhvern tíma gert það. Við erum bara ekki til í að fórna fallegustu og mikilvægustu eiginleikum internetsins til að stöðva þau. Annars fer að verða mjög þreytandi að sitja stöðugt undir þessum rangfærslum frá þér og öðrum, sama hversu oft þær eru leiðréttar. Það að maður sé ekki reiðubúinn til að gera hvað sem er til að stöðva eina tegund af lögbroti, þýðir ekki að maður styðji lögbrotið. Ég myndi ekki saka þig um að styðja heimilisofbeldi ef þú mótmæltir því að setja upp lögreglumyndavélar inn á öll heimili, né um að styðja nauðganir ef þú vildir ekki eftirlitsmyndavélar á klósettum á hverjum einasta skemmtistað. Það væri óheiðarlegt, ómálefnalegt og ósanngjarnt af mér að saka þig um slíkt.

“Réttlætingarnar eru alltaf jafn vandræðalegar. Yfirleitt er það eitthvað fjas um að menn skilji ekki hvernig internetið virkar eða að höfundarréttur sé úreltur.”

Við höfum bent á þá staðreynd að það þarf ekki meiri þekkingu á internetinu en á DNS þjónum til þess að komast framhjá þessum lokunum. Nú vil ég ítreka að þetta er staðreynd, ekki álit mitt eða markmið eða málstaður, heldur staðreynd. Hún hættir ekki að vera staðreynd við það að við séum rosalega reið og sár og köllum þetta vandræðalegt fjas. Lágmarks þekking á innviðum internetsins, sem 12 ára barn er meira en nógu gamalt til að skilja, nægir til að komast framhjá þessum takmörkunum og það er einfaldlega staðreynd. Eins og ég spáði fyrir seinast, þá gerðu menn þessa beisik tækniþekkingu tortryggilega um leið, og ég spái því að það gerist aftur núna, þegar ég bendi fólki á að fólk hafi aðgang að þúsundum ef ekki milljónum opinna DNS þjóna víðsvegar um heim, meðal annars hjá Google (með hina sérstaklega heppilegu IP tölu 8.8.8.8). Ef það fer pínulítið í taugarnar á þér að ég sé með þessu að útskýra hvernig eigi að komast framhjá þessum lokunum í þessu bréfi, þá undirstrikarðu nákvæman punkt minn. DNS er ekkert vúdú og það er ekkert leyndarmál að Google reki opna DNS þjóna. Það býr sömuleiðis til ömurlegan hvata, að ætla að byggja framfylgni laga á því að fólk viti nákvæmlega ekki neitt um hvernig netið virki. Það má líkja því við að ætla að hindra fjársvindl með því að gera grunnskólastærðfræði tortryggilega. DNS er ekki flókið fyrirbæri, þetta er raunverulega fyrsti hluturinn sem maður getur lært um innviði internetsins. DNS er í alvörunni álíka mikið grundvallaratriði gagnvart internetinu eins og samlagning og frádráttur eru í bókhaldi. Maður myndi ekki setja upp bókhaldsreglur sem stóluðu á að sem fæstir kynnu að leggja saman og draga frá.

“En þjófnaður er þjófnaður hvort sem eiga í hlut áþreifanlegir hlutir eða óáþreifanlegir.”

Nei, enda væru ekki sérlög um höfundarétt ef svo væri. Þú getur sagt að þetta sé hið sama, en einungis með því að hunsa nákvæmlega allt sem viðkemur efninu.

Áþreifanlegir hlutir og óáþreifanlegir eru í eðli sínu frábrugðnir enda gilda allt, allt, allt öðruvísi lög um þá. Ef óáþreifanlegir hlutir gengdu sömu lögmálum og áþreifanlegir undir höfundarétti, þá gæti ég keypt lag, skrúfað það í sundur, skellt því saman eins og mér sýndist og gefið hverjum sem mér sýndist það. Þetta má ég gera við skrifborðið mitt og tölvuna, en ekki bíómyndina sem ég kaupi úti í búð. Það er rosalega þægileg tilhugsun fyrir suma höfunda að líta á þessi tvö fyrirbæri sem sama hlutinn vegna þess að það einfaldar hlutina fyrir þeim, en staðreyndin er samt sem áður sú að áþreifanlegir og óáþreifanlegir hlutir eru mjög ólíkir og lúta öðrum ekki bara misjöfnum eðlisfræðilögmálum heldur lúta mjög ólíkri löggjöf. Siðferðislegu spurningarnar í kringum óáþreifanlegum hluti eru miklu flóknari en þær sem varða áþreifanlega, enda mjög ólík fyrirbæri eins og fyrr greinir og enginn virðist eiga bágt með að skilja nema fólk sem telur sig hlunnfarið vegna höfundaréttarbrota.

En veistu hvað? Gott og vel, köllum þetta bara þjófnað, ef þér líður eitthvað betur þannig. Hvað svo? Byrja þá þessar lokanir skyndilega að virka rosa vel? Þarf þá skyndilega að kunna meira en að stilla DNS þjón til að gera þessar lokanir að engu? Nei. Ef þig vantar samúð, þá skal hef ég alveg veita þá samúð, enda alinn upp í show biz, þar sem pabbi minn er hljóðmaður, mamma mín kvikmyndagerðarmaður og svo er ég sjálfur forritari (og áhugatónsmiður reyndar, ef út í það er farið). En hvað svo? Má þá ganga að upplýsingafrelsinu dauðu til að hindra þennan þjófnað? – Því ekkert minna mun duga. Þar til við göngum svo langt, mun næstum því enga tækniþekkingu þurfa til að sníða framhjá þessum lokunum eins og dæmin sanna og ég bendi þér enn og aftur á, að sé tilfellið einnig nú.

“Enginn myndi láta sér detta í hug annað en að stöðva starfsemi verslunar sem seldi eða dreifði þýfi. Í grundvallaratriðum er þetta ekki flóknara en það.”

Ef þetta væri svo einfalt, þá væru þú og aðrir höfundaréttarhafar löngu búnir að vinna þennan slag. Og veistu, jú, fólk myndi bara fjandakornið víst frekar sætta sig við starfsemi verslunar sem seldi og dreifði þýfi heldur en að afnema friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsið. Í því felst engin réttlæting á því slíkri starfsemi, heldur einföld ábending um það að mannréttindi setja yfirvöldum skorður fyrir því hversu langt megi ganga til að framfylgja lögum. Það er grundvallaratriði réttarríkisins að svo sé. Framfylgni laga er ekki réttlæting á hvaða aðferðum sem er.

“Fyrirlitningin á vinnu listafólks og þeirra sem setja saman hugverk er með ólíkindum.”

Þetta er annað sem er orðið mjög þreytandi að sitja sífellt undir. Við bendum á vandamál og neitum að gefa upp á bátinn það fallegasta við internetið, sem er upplýsingafrelsið – það er ekki okkur að kenna að upplýsingafrelsið og hefðbundin útfærsla á höfundarétti séu ósamhæf. Við höfum hvorki þér né nokkrum öðrum listamönnum sýnt nokkurs konar fyrirlitningu í þessum málaflokki, en það er oft þannig að þegar fólki líkar ekki það sem það heyrir, þá reynir það að gera einhvern annan ábyrgan fyrir sínum eigin tilfinningum. Ég skil að þú sért reiður yfir þessu, enda vægast sagt pirrandi vandamál, en það felst ekki nein fyrirlitning í því sem ég hef sagt um þetta málefni í fjölmiðlum né í neinu sem ég skrifa þér nú.

Sjálfur get ég ekki kallað mig fagmann í nokkrum sköpuðum hlut nema hugverkagerð, nánar til tekið forritun. Ég hef ekki unnið við neitt annað síðan á táningsaldri, þ.e. þar til ég asnaðist inn á þing.

“Við hikum ekki við að stöðva fjársvik á netinu, barnaníð eða hefndarklám.”

Jú, reyndar gerum við það. Þetta eru reyndar allt ólík fyrirbæri sem öll verðskulda heila umræðu fyrir sig en ég skal trukka í gegnum hvert stuttlega til að sýna fram á muninn á þeim og hvaða aðferðum er hægt að beita gegn þeim.

Fjársvik: Fólk vill ekki verða fyrir fjársvikum, en það vill hinsvegar verða fyrir afþreygingarefni. En reyndar þarf hver og einn að passa sig á þeim sjálfur, einmitt vegna þess að lögreglan hefur enga burði (og mun aldrei hafa burði) til þess að garfa í gegnum hvert einasta einkapóstfang til að filtera út fjársvikapóst – jafnvel ef fólk vildi það. En vel á minnst, myndirðu styðja heimild lögreglunnar til að garfa í gegnum einkapóstinn þinn, til þess að berjast gegn fjársvikum? Og ef ekki, ertu að lýsa yfir stuðningi við fjársvikamenn eða fyrirlitningu á fórnarlömbum þeirra? Auðvitað ekki.

Barnaníð: Barnaníð er alls staðar bannað að framleiða, dreifa því og yfirleitt er einnig bannað að neyta þess, hvort sem það er gegn gjaldi eður ei. Afþreygingarefni er hinsvegar löglega framleitt, dreift af milljónum ofan á milljónum manna og neytt af næstum því öllum í gríðarlegum mæli án þess að vera svo mikið sem tabú. Barnaníðingar vilja helst ekki að neinn viti að þeir séu til eða hvað þeir séu að gera, á meðan framleiðendur afþreygingarefnis vilja jafnan ná sem mestri áheyrn þó oft gegn gjaldi (en alls ekkert alltaf). Barnaníðingar vilja ekki sjást og enginn vill sjá þá. Baráttan gegn barnaníð á sér síðan reyndar ekki stað með því að loka vefsvæðum (því barnaníðingar vilja almennt ekki að almenningur sjái sig hvort sem er), heldur með því að hefja lögreglurannsókn með þartilgerðum leitarheimildum, dómsúrskurðum og þvíumlíku, finna níðingana og dæma þá í rétti.

386 börnum var bjargað úr barnaníði með samstilltu átaki lögregluteyma út um allan heim árið 2013. Lokun vefsvæða átti þar engan þátt. – En eins og ég segi, slík vefsvæði reyna að fela sig, þess vegna rekst maður ekkert á barnaklám sisvona. Barnaklám er hvergi velkomið á meðan afþreygingarefni er hinsvegar eftirsótt alls staðar af næstum því öllum.

Hefndarklám: Það er reyndar að einhverju leyti sama sagan með hefndarklám og afþreygingarefnið að það er ógerningur að stöðva útbreiðslu þess nema gripið sé inn í mjög snemma eftir að því er lekið og þá einungis ef vefsetrin þar sem það birtist fyrst eru til í að hjálpa til við að hindra útbreiðsluna. Jafnvel þá er munurinn sá að afþreygingarefni birtist samt sem áður löglega á milljónum eða tugum milljóna staða, á meðan maður myndi reyna að hindra birtingu allra eintaka hefndarkláms ef maður ætlaði að reyna að stöðva það. Annars eru þó sambærileg vandamál við að hefta útbreiðslu hefndarkláms sem hefur þegar verið dreift víða, nefnilega að þá nær maður engri stjórn lengur nema með algerri yfirtöku á netinu. Þó er líka ákveðinn réttarfarslegur munur, nefnilega sá að hægt er að rannsaka hefndarklámsmál sem sakamál á forsendum réttarríkisins, með lögreglurannsókn þar sem er fengin heimild til að skoða hitt og þetta og hugsanlega draga hinn seka til ábyrgðar. Sérstaklega ef fórnarlamb hefndarkláms veit hver eða hverjir höfðu aðgang að efninu sem lekið er (eða hótað er að leka), t.d. þegar það er fyrrverandi maki, þá er ennfremur hægt að draga viðkomandi til ábyrgðar því hann er þekktur og aðgengilegur. En þetta er sambærilegt vandamál að því leyti að ef lekinn á sér stað og er víðtækur, þá er það orðið mjög erfitt ef yfirhöfuð mögulegt að stöðva áframhaldandi dreifingu. Í þessu felst engin réttlæting, meðan ég man, engu frekar en að benda á að ef olía lekur í sjóinn, þá er heljarinnar vesen að ná henni úr og óvíst a það sé yfirhöfuð mögulegt ef lekinn er stór.

“Hatursáróðurssíðum er líka lokað.”

Nei. Allavega ekki með lögbanni heldur ef notendur biðja um það sjálfir eða sætta sig við að netveitur geri það sjálfkrafa. Þá er ennfremur ekkert mál að komast framhjá slíkri lokun ef minnsti áhugi er fyrir hendi, en munurinn er kannski helst sá að áhuginn er sjaldnast fyrir hendi þar sem flest fólk fílar ekki hatursáróður. Næstum því allir sækjast hinsvegar í afþreygingarefni. Ég versla einungis við netveitur sem loka ekki neinu nema samkvæmt dómsúrskurði. Í því felst enginn stuðningur við hatursáróður; þvert á móti, þá vil ég einmitt tækifærið til að stúdera hann, skilja hann og helst berjast gegn honum, en til þess þarf ég aðgang að honum. Einnig er ég á móti því að banna abrahamísk trúarrit en þau eiga það flest sameiginlegt að vera smekkfull af frekar grófum hatursáróðri sem beinlínis ber ábyrgð á stríðum og fjöldamorðum.

“Það er jafn sjálfsagt að stöðva hugverkaþjófa.”

Nei, þetta eru ólík efni sem dreifast með ólíkum leiðum og við berjumst gegn af ólíkum ástæðum með ólíkum leiðum.

“En auðvitað stendur þetta líka upp á foreldra, að kenna börnum sínum að það sé ekki rétt að nota síður af þessu tagi – rétt eins og maður uppáleggur þeim að stela ekki úti í búð eða frá öðru fólki. Enginn myndi láta sér detta í hug að verja þjófnað af því taginu – bara af því það er hægt að stunda hann.”

Ég get svosem alveg tekið undir þetta, en bendi í leiðinni á annað óþolandi vandamál sem listamenn eiga kannski jafnvel ennþá erfiðara með að horfast í augu við heldur en höfundaréttarbrotin; sem er sú staðreynd að framboð af ókeypis efni er orðið mjög mikið og verður sífellt meira, sérstaklega af tónlist. Allar nýjar hljómsveitir sem ætlast til að nokkur maður frétti af þeim birta lög sín í fullum gæðum á YouTube og gætu ellegar alveg eins sleppt því að gefa út efnið sitt. Í þeirri óþolandi staðreynd felst heldur engin fyrirlitning af minni hálfu, engu frekar en neinu öðru sem ég hef skrifað í þessu bréfi til þín, eða sagt opinberlega um galla þess að framfylgja höfundarétti með lokun vefsvæða.

Jæja, nú er þetta orðið nokkuð mikið meira en gott í bili. Ég vona innilega að þú fáir sem mest borgað fyrir þína vinnu, Egill. En sömuleiðis vona ég að þú munir alltaf búa í frjálsu samfélagi þar sem réttarríkið, upplýsingafrelsið og friðhelgi einkalífsins teljast til mannréttindamála.

Posted in Uncategorized

Af hverju geta Píratar ekki sveigt tíma og rúm?

Miklar væntingar eru gerðar til okkar Pírata þessa dagana.

Samkvæmt fjölmiðlum virðast Píratar njóta stuðnings milli 20% og 30% þjóðarinnar en velgengni í skoðanakannanaheimi hefur ekki fært okkur fleiri þingmenn, þeir eru enn þrír; Jón Þór, Birgitta og Helgi Hrafn.
Saman skipta þau með sér þeim störfum og ásamt aðstoðarkonunni sjá þau þrjú um að eiga að setja sig inn í það sama og 19 manna þingflokkar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, 9 menn Samfylkingar, 7 manns VG og 6 þingmenn Bjartrar Framtíðar.

Píratar eiga eins og aðrir flokkar sæti í fastanefndum Alþingis og fá úthlutað sætum eftir þingstyrk. Fundir fastanefnda eru almennt lokaðir og alloft eru fundir í nefndum haldnir á sama tíma þar sem augljóslega er ekki hægt að halda nefndarfundi á sama tíma og þingmenn eiga að vera í þingsal.

Helgi Hrafn hefur nú í tvö ár frá því hann tók sæti á þingi endað hverja einustu ræðu sína á því að fara fram á að fundir fastanefnda Alþingis séu alla jafna opnir, enda séu þar upplýsingar sem varði almenning, en ekki síður vegna þess að Píratar mega hvorki senda varaþingmenn eða aðra Pírata á fundi, heldur eiga þingmennirnir sjálfir allstaðar að geta mætt í eigin persónu, sem er einungis gerlegt þeim sem geta sveigt tíma og rúm.

Það að Alþingi skuli ekki gera lýðræðislega kjörnum fulltrúum eins og varaþingmönnum kleift að mæta í stað aðalmanna á nefndarfundi er í hæsta máti ólýðræðislegt. Hér hefur flokkur fengið lýðræðislega kosningu sem á að tryggja aðkomu að ákvörðunum og vinnu sem er tekin á lýðræðislegum vettvangi (í þingnefndum).

Annað hvort þarf að breyta fundartímum þannig að fólk geti mætt eða hitt, sem væri enn betri lausn, að flokkar fengju að senda sína fulltrúa OG að fundir séu alla jafna opnir nema sérstaklega þurfi að loka þeim vegna viðkvæmra upplýsinga.

Á meðan Alþingi hefur ekki fundið lausn á því hvernig þingmenn eiga að geta setið tvo og jafnvel þrjá nefndarfundi í einu hefur Mogginn ákveðið að notfæra sér viðverukladdann og slær því upp í fyrirsögn að Píratar mæti verst á þingi.

Þessi fréttaflutningur af lélegri mætingu er vægast sagt undarlegur þegar fundarsköp en ekki leti eða náttúrulögmál eru vandamálið. Píratar eiga ekki að vera á fleiri stað en einum í einu og hafa áhuga á að mæta þar sem þeir eiga sæti. Til dæmis hafa fulltrúar Pírata í Reykjavík nær fullkomna mætingu á vettvangi borgarinnar, en þar eru borgarfulltrúi, varaborgarfulltrúi og næstu menn á lista í fjölmörgum nefndum og ráðum þar sem flokkurinn hefur rétt á lýðræðislegri aðkomu. Fyrir vikið komum við mun meira í verk, fleiri Píratar kynnast lýðræðislegu ferli og með því að skipta með okkur verkum næst betri niðurstaða heldur en ef einum og hálfum borgarfulltrúa væri ætlað að sjá um þetta alltsaman.

Píratar þakka Mogganum fyrir það tækifæri að svara þessum “fréttaflutningi” og gera það hér: Hvernig verja þingmenn Pírata tíma sínum?

“Þingmenn Pírata skipta á milli sín setu í átta fastanefndum auk forsætisnefndar, Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, þingskapanefndar og fleiri nefnda. Á fundatímum fastanefnda eru þingmenn Pírata yfirleitt á einhverjum þeirra funda sem á dagskrá eru. Það er hins vegar allur gangur á því í hvaða fastanefnd þeir sitja í hverju sinni. Þannig þarf Jón Þór helst á vera á þremur fundum á sama tíma á mánudags- og miðvikudagsmorgnum; efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, og umhverfis- og samgöngunefnd. Birgitta þarf að vera á tveimur stöðum í einu á þriðjudögum og fimmtudögum; stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og utanríkismálanefnd. Helgi Hrafn er sá eini sem getur mætt í sínar nefndir án árekstra vegna þess hve heppilega fundartímarnir raðast, vegna þessa er Helgi Hrafn eflaust með bestu mætinguna af þingmönnunum þremur.

Þingmennirnir fara vandlega yfir allar dagskrár nefndafunda og forgangsraða tíma sínum og hvaða fundi skuli mætt á eftir því hvað er á dagskrá funda hverju sinni. Hvað er líklegast til að gera grunnstefnu Pírata að veruleika ræður forgangsröðuninni. Þingmennirnir reyna þannig ávallt að að vera þar sem dagskrárliðir hafa snertiflöt við grunnstefnu Pírata hvort heldur er til góðs eða ills.”

Það er óbjóðandi að Pírötum sé ekki gert kleift að senda fulltrúa á þá fundi sem þeir eiga rétt á í umboði sinna kjósenda.
Það er líka óbjóðandi að flytja villandi fréttir um mætingu sem eiga rót í því hvernig innanhússkipulag Alþingis refsar smáum flokkum, og gera svo þingmennina sjálfa ábyrga fyrir að geta ekki beygt tíma og rúm til að vera á fleiri en einum stað í einu.

Það er lágmarkskrafa að varaþingmenn fái að sinna þessum störfum, ef ekki aðrir lýðræðislegir fulltrúar flokksins, en þar sem mál nefndanna eiga erindi við alla tek ég enn og aftur undir með Helga og legg til að fundir fastanefnda Alþingis séu alla jafna opnir.

Birtist einnig á dv.is )

Hér til hliðar má sjá yfirlitsmynd sem sýnir raunverulega mætingu allra þingmanna
mætingánefndarfundi

Uppátækjasamir borgarar

hér er gott dæmi um það hverju einstaklingsframtakið áorkar en Styrmir Barkarson íbúi í Reykjanesbæ einfaldlega lagði fram fyrirspurn og fékk svör frá bæjarfélaginu sínu.

Óskaði eftir upplýsingum um laun æðstu stjórnenda hjá Reykjanesbæ

Ég ætla ekki að fullyrða að Styrmir sé Pírati, en þegar ég las þessa frétt hugsaði ég “örugglega Pírati” 😉

Lýðræðisþynning

3884922343_990dd907f0_oMeirihlutinn ræður sagði Bjarni og miðað við lýðræðissamfélag þá er það alveg rétt. Hvað þýðir annars “meirihluti” í íslensku stjórnkerfi? Jú, við erum með fulltrúalýðræði sem þýðir að kjósendur afsala sér atkvæði sínu til lista af fulltrúum með því að merkja x við ákveðinn listabókstaf í kosningum á fjögurra ára fresti. Möguleikar kjósenda á að hafa áhrif á uppröðun fulltrúa á þessum listum í sjálfum kosningunum er mjög lítill.

Á bak við hvern listabókstaf eru ýmis loforð og samþykktar stefnur félaga þeirra flokka sem merkja sig með viðkomandi bókstaf. Eftir að niðurstöður kosninga eru birtar fær einhver flokkur stjórnarmyndunarumboð og í kjölfarið er búinn til stjórnarsáttmáli sem inniheldur einhvers konar útgáfu af þeim loforðum og samþykktum sem birtust fyrir kosningar.

Lýsingin hér að ofan er skilgreiningin á “lýðræðisþynningu”: Hversu langt er kjósandi frá því að hafa áhrif með atkvæði sínu á ákvarðanatöku. Á Íslandi breytist atkvæði kjósanda í fulltrúa sem kjósandi hefur litla aðkomu að því að velja yfir í stjórnarsáttmála sem inniheldur mögulega ekki loforð og stefnur sem leiddu til þess að kjósandi merkti x við ákveðinn flokk.

Það eru fleiri atriði sem stuðla að lýðræðisþynningu á Íslandi, mismikið vægi atkvæða, fulltrúar sem vinna ekki að almannahag, flokkar sem svara kalli annarra en almennings, 5% þröskuldur (“108. gr. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.”), … og svo mætti lengi telja.

En eins og Bjarni sagði, þá ræður [lýðræðislega útþynntur] meirihlutinn. En! Málið er ekki svona einfalt. Í alþingiskosningunum 2013 voru greidd 193.792 atkvæði*. Af þeim atkvæðum fengu núverandi stjórnarflokkar 96.627 atkvæði. Það eru 49,861191380449141347424042272127% atkvæða … 49,86% er ekki meirihluti atkvæða. Ég verð því að spyrja, hvernig getur núverandi stjórn látið sér detta það í hug að láta út úr sér orðin “meirihlutinn ræður”?

Vandamálið er nefnilega þetta; lýðræðisþynningin þar sem atkvæði teljast á flokka, mismikið vægi atkvæða, lýðræðisþröskuldar og meirihlutamyndun óháð atkvæðahlutfalli leiðir til þess að flokkar sem fá 49,86% greiddra atkvæða fá 60,3% þingsæta.

Bilað? Ekki satt?

En bíðið! Það er ekki allt búið. Kerfið er klikkaðra en þetta. Út af 5% lýðræðisþröskuldinum þá mættu 27.097 manns og greiddu atkvæði en fengu engan fulltrúa á alþingi. Þetta voru kjósendur sem kusu Dögun, Flokk heimilanna, Lýðræðisvaktina, Hægri græna, Regnbogann, Landsbyggðarflokkinn, Sturlu Jónsson, Húmanistaflokkinn og Alþýðufylkinguna – ásamt því að skila auðu eða ógildu. 27.097 manns væru stærra kjördæmi en NV-kjördæmi, pínulítið minna en NA-kjördæmi. Misskipting atkvæða, sem er nægilega mikið vandamál, er því smámál miðað við hversu margir kjósendur fengu ekki fulltrúa á alþingi þrátt fyrir að hafa tekið þátt í kosningunum.

Meirihlutinn ræður. Það er alveg hárrétt. Málið er hins vegar ekki svo einfalt – það er nefnilega ýmislegt sem gerist á milli þess sem kjósandi greinir frá skoðun sinni þangað til að ákvörðun er tekin. Eina leiðin til þess að laga það er að gera leiðina frá kjósanda að ákvörðun styttri; atkvæði leiðir til ákvörðunnar. Einungis þá er hægt að segja með réttu: “meirihlutinn ræður”.

* Inniheldur auð og ógild atkvæði. Þeir sem greiddu þau atkvæði höfðu fyrir því að mæta á kjörstað og greiða EKKI stjórnarflokkum atkvæði sitt. Tæknilega séð eru þau því í stjórnarandstöðuhóp sem situr alltaf hjá í öllumatkvæðagreiðslum. Atkvæði þeirra skipta máli, þetta voru 4.802 atkvæði.

Tímabært að skoða kosti og galla Borgaralauna

1. maí er dagur til að fagna framlagi verkalýðshreyfingarinnar, baráttu hennar og afrekum í gegnum árin. Stéttarfélög hafa eflt verkalýðinn til muna og gefið okkur 40 tíma vinnuviku og 8 klst vinnudag, en í dag hafa hnattvæðing og tækniframfarir heft getu stéttarfélaga til að knýja fram betri kjör.

Samkvæmt skýrslu frá Oxfordháskóla 2013 og nefnist „Framtíð atvinnumála: Hversu viðkvæm eru störf gagnvart tæknivæðingunni?” eru miklar líkur á að helmingur allra starfa í Bandaríkjunum hverfi vegna tækniframfara. Samkvæmt höfundum eru störfin sem eru í mestri hættu láglaunastörf sem krefjast lítillar þekkingar. Allt bendir til að fjölgun nýrra starfa mun ekki halda í við þau sem tölvur og vélmenni taka yfir. Mikill þrýstingur á bótakerfi hins opinbera mun kalla á skilvirkari velferðarkerfi.

Ljóst er að hægt er að líta á þessa þróun sem mikla ógn við núverandi samfélagsuppbyggingu og ríkjandi hugmyndafræði. Spurningin er hvernig við ætlum að bregðast við þessari þróun. Munum við nota mikilvægan tíma okkar og orku í að spyrna við óhjákvæmilegri þróun til þess eins að viðhalda úreltri hugmyndafræði eða munum við líta á þessa þróun sem tækifæri til að byggja öðruvísi framtíð?

Nú þegar að sjálfvirkni starfa fer ört vaxandi er tímabært að skoða nýjar lausnir en ein sú hugsanlega er skilyrðislaus grunnframfærsla eða einfaldlega, borgaralaun.

Borgaralaun er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega og gera það skilvirkara með því að minnka skriffinsku og eftirlit. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum. Þessi upphæð er hugsuð sem grunnframfærsla til að tryggja efnahagslegu og félagslegu réttindi borgara landsins.

Thomas Paine hélt því fram að „jörðin, í sínum náttúrulega ham er, og verður alltaf, sameiginleg eign allra jarðarbúa.“ Paine vildi meina að allir, hvort sem þeir væru ríkir eða fátækir, ættu að fá greiddan arð af sameiginlegum auðlindum landsins. Þessi arður eða laun væru eðlilegur og meðfæddur réttur allra borgara. Paine sagði “Það er ekki góðgerðarstarfsemi, heldur réttindi, ekki ölmusa heldur réttlæti, sem ég tala fyrir.”

Borgaralaun gætu jafmframt, með útrýmingu fátæktar minnkað glæpi, eflt heilbrigði, menntun, lýðræðisþátttöku, sjálfstæði og nýsköpun og myndi hafa þau áhrif að valdefla verkalýðinn á einstaklingsgrundvelli. Getan til að segja „nei“ við vinnuveitenda hefði t.d. óneitanleg áhrif á hlutdeild verkalýðsins í hagnaði fyrirtækja með betri launum, starfsskilyrðum, hlunnindum o.fl. En tilraunir með borgaralaun víðsvegar um Norður-Ameríku sýna jafnframt að atvinnuþátttaka, og því mannauður atvinnulífsins, eykst eins og kemur fram í þingsályktunartillögu Pírata um að kostir og gallar þessa möguleika skuli skoða á Íslandi.

Það er orðið tímabært að rannsaka hvort að yfirvofandi atvinnuleysi sé yfir höfuð eitthvað til að óttast.

Leti og skoðanaleysi Pírata

Varðandi frétt: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/04/hafa_i_flestum_tilfellum_setid_hja/

Ástæðan fyrir því að þingflokkur Pírata situr oftar hjá við atkvæðagreiðslu heldur en aðrir á Alþingi er pínlega einföld. Við erum langsmæsti flokkurinn; þriggja manna þingflokkur í 8 fastanefndum. Ofan á það eru starfshópar, ráðstefnur, hádegisfundir, fundir með ýmsum ytri aðilum, fundir með grasrót, þingflokksfundir, þingflokksformannafundir og síðast en ekki síst, okkar eigin þingmálavinna.

Ríkisstjórnin, EES og aðrir þingmenn leggja hinsvegar fram þingmál óháð því hversu mikinn tíma þingmenn Pírata hafa til aflögu. Kannski eru það tíðindi, en við erum ekki spurð álits að því hvort við megum vera að því að díla við mál annarra flokka eða ríkisstjórnarinnar. Þótt við séum að drukkna í verkefnum, þá koma bara samt ný mál.

Þetta er í rauninni engu flóknara en ástæðan fyrir því að ein manneskja getur ekki lyft bíl. Við höfum einfaldlega takmarkaðan mannafla og takmarkaðan tíma. Þetta er hvorki flókið né ætti að koma neinum á óvart.

Píratar eru 4,76% Alþingis. Sumsé, 95,24% Alþingis eru þingmenn annarra flokka. Á yfirstandandi þingi hafa nú verið lögð fram 827 mál, þar af 299 frumvörp og þingsályktunartillögur. Athugið að á sama tíma eru þingmenn Pírata ekki einu sinni nógu margir til að manna fastanefndir, jafnvel ef við hefðum ekkert annað að gera.

Undir þessum kringumstæðum eru bara tveir möguleikar í stöðunni; sitja oftar hjá en aðrir, eða að taka ákvarðanir út í bláinn. Hið síðarnefnda er ekki bara gegn heilbrigðri skynsemi heldur einnig gegn grunnstefu Pírata, sem felur í sér áherslu á upplýstar ákvarðanir.

Reyndar, ef út í það er farið, þá á ég mjög erfitt með að skammast mín fyrir það að ná þó að kynna mér forsendurnar fyrir næstum því helmingi allra atkvæðagreiðslna sem eiga sér stað á Alþingi. Það kemur mér allavega persónulega á óvart að ég hafi ekki setið hjá oftar, þar sem ég ven mig á að sitja hjá ef ég er ekki viss.

En þingstarfið snýst ekki bara um að ýta á grænan, gulan eða rauðan takka, heldur einnig um að marka stefnu og leggja fram þingmál. Frumvörp og þingsályktunartillögur eru þær tvær helstu tegundir þingmála sem krefjast teljandi vinnu. Aðrar tegundir eru t.d. fyrirspurnir, skýrslubeiðnir og þess háttar.

Tölurnar í yfirstandandi þingi samkvæmt mínum heimildum eru svona:

Fjöldi mála: 827
Fjöldi frumvarpa og þingsályktunartillagna: 299

Fjöldi mála frá Pírötum: 87
Fjöldi frumvarpa og þingsályktunartillagna frá Pírötum: 22

Hlutfall mála frá Pírötum: 10,52%
Hlutfall frumvarpa og þingsályktunartillagna frá Pírötum: 7,36%

Hlutfall Pírata á Alþingi: 4,76%

Þannig að ég á mjög bágt með að sjá hvernig tölfræðin eigi að sýna fram á leti eða skoðanaleysi Pírata. Það segi ég með galopinn huga fyrir því að bæta hvað svosem við getum við okkar vinnubrögð.

Posted in Uncategorized

Af hverju ég tel mig vita að bóluefni séu ekki skaðleg þrátt fyrir að hafa aldrei lesið rannsókn um það

Undanfarið hefur geisað upp umræða sem þrátt fyrir að vera orðin kominn til ára sinna hefur aldrei verið háværari, allavega ef internet bubblan mín er eitthver mælikvarði. Þessi umræða hefur komið upp öðru hverju og alltaf er fólk ósammála, en þó er yfirgnæfandi meirihlutinn samt sem áður alltaf hlyntur bólusetningum og handviss um ágæti þeirra.

Ég hef horft upp á samræður þar sem fólk er kastar hlekkjum af frétta- og rannsóknar-greinum að hvort öðru í von um að sannfæra hvort annað. Ég viðurkenni hérmeð að ég hef aldrei lesið rannsóknargreinar um þessi mál. Ég skammast mín ekki einu sinni fyrir það. Ef ég ætti að lesa allt það sem fólk er að ota að mér að lesa væri lítill tími fyrir nokkuð annað í lífinu hjá mér. Ég er ekki að segja að fáfræðin í þessu máli geri mig að eitthverjum sem getur sagt öðrum hvernig þeir eiga að hugsa í þessu máli en mér finnst ég samt geta tekið afstöðu í þessu máli og það jafnframt frekar markvisst.

Þessi umræða er orðin nógu gömul og fólk búið að deila nógu lengi og hatramlega um þessi mál og umræðan hefur farið nógu víða um að ef það væru eitthverjar ástæður fyrir áhyggjum þá væru þær ástæður komnar fram. Vísindasamfélagið er of stórt og í of mörgum heimsálfum til þess að það geti tekið afstöðu til þess að taka ekki mark á rannsóknum sem sýna fram á skaða eða reyna að koma í veg fyrir slíkar rannsóknir. Ef að um væri að ræða yfirhylmingu eða þöggun á hluta lyfjaiðnaðarins eða vísindasamfélagsins þá væri það einfaldlega komið fram á þessu stigi málsins. Það er ekki bara vísindasamfélagið sem að spannar allan heiminn heldur fréttasamfélagið líka og vísindasamfélagið þyrfti að fá fréttaheiminn með sér í lið til að halda umræðunni þannig að þeir sem trúa á skaðsemi bólusetninga séu með skoðanir bygðar á rangfærslum. Þó að ég lesi ekki þessar rannsóknir en ég veit að það eru nógu marga sem nenna því til þess að það væri meiriháttar ósennilegt að halda eitthverjum sannleika um skaðsemi bóluefna í skefjum.

Fram hafa komið hræðilegar aðferðir og iðjur stundaðar innan læknastéttarinnar í gegn um tíðina, ég nefni thalidomide notkun hjá gangandi mæðrum, radium stangir stungið í nefhol hjá börnum og framheila skurðlækningar á geðsjúklingum. Allar þessar iðjur hættu skömmu eftir að fólk fór að gagnrýna þær og fóru að kafa ofan í skaðsemi þeirra. Miðað við að Dr. Wakefield fór að róta upp efasemdum um bólusetningar árið 1998 og enn er ekkert haldbært komið í umræðuna sem að fær fólk til að sammælast um skaðsemi bólusetninga þá tel ég að mér geti verið rótt með afstöðu mína.

Þó svo að það sé til fólk sem virðist algerlega sannfært um hið gagnstæða þýðir ekki að það sé einnhvað haldbært á bak við áhyggjur þeirra. Ég veit um nógu marga sem, ekki bara trúa á Jesús, heldur eru fyrirmunað að skilja af hverju aðrir sjá endurreisn hanns sem ósennilega. Þetta fólk fær mig til þess að skilja að sumir eru hreinlega orðnir of fjárfestir í eigin raunveruleika til þess að ég eða nokkur annar sé að fara að snúa þeim til betri vegar. Aftur á móti sé ég litla þörf að fara að kasta fúkyrðum eða dónaskap til þerra sem ekki deila minni heimsmynd. Annað með umræðuna er að jafnvel þó að sumir snúast aldrei þá eru ennþá til þeir sem að enn hafa ekki tekið afstöðu og ég myndi segja að umræðan sé fyrst og fremst að þjóna þeim. Þá beri oftast hæst að vera kurteis, málefnalegur og vera með hlekki sem fólk eins og ég nennir ekki að lesa.

Posted in Uncategorized

Fight Hatred With More Freedom

A new year has begun and I eagerly await my flying car while contemplating what new challenges this year will bring. Nobody could have anticipated that a new challenge to free speach would be issued so early in the new year. It caught plenty of people including myself, completely off guard. I have a special soft spot for France. For several years I called the suburbs of Paris my home. As it was with countless others, I was horrified to hear the news of the terrorist attack on the weekly Magazine, Charlie Hebdo on January 7.

This incident is however far from the first time that France has had to deal with a terrorist threat. Long before the terrorist attacks in New York and Washington on 9/11, several bombs exploded in the metro and regional rail network of Paris. It was the year 1995 and it also happened to be around the time that I moved there as an 8 year old. Memories from this time are shady at best but I do remember all the public garbage cans being sealed to prevent potential evil doers from leaving bombs in the trash. The result was of course that garbage started to pile up around the garbage cans. One very vivid memory I have of that time however was the fear of going underground to the metro. I once cried and begged not to go down to the metro because I was scared that bad people where going to blow up me and my family. It’s hard to describe this fear today but thankfully have not experienced sheer terror quite like it since. When it comes to terrorist attacks, body count and number of injured always seem to grab the headlines but the psychological effect that they have on people is certainly more insidious.

It should be considered prudent to think to use horrific events such as this to reflect on the state of affairs. Why did this happen? How should the world community respond? There are plenty of things to contemplate when it comes to terrorist attacks and answers are often hard to come by. This is without a doubt the greatest challenge that freedom of expression has faced since the small Danish newspaper, Jyllands Posten published cartoons depicting the Muslim prophet Muhammed back in 2004 and the resulting fallout that they caused. Those cartoons resulted in news outlets shamefully censoring themselves out of fear of violence, Danish embassies in several countries where attacked and perhaps most shameful of all was that several Islamic majority countries pushed for an anti-blasphemy resolution at the UN. The reaction to the Danish cartoons was a big blow for freedom of expression and too many people condemned the cartoons instead of condemning extremists who where threatening an old man with violence for the rather innocent act of drawing some rather distasteful cartoons.

No matter how distasteful cartoons can be, no matter how much you can disagree with a cartoonist, there is nothing wrong with drawing an image of Muhammed in and of it self. There are plenty of historic examples of Islamic art depicting Muhammed so it is needless to say that the prohibition on depicting Muhammed amongst Muslims is a recent one. So the right response to these attacks is not to start censoring images of Muhammed or playing the racism card for sharing Charlie Hebdo cartoons. The right response is not to call for the death penalty for Islamic extremists or to attack Muslims places of worship. The right response is not to say that the attackers where not real Muslims. It has been pretty well established that they where despite their insane interpretation of the Koran and to deny that is to ignore relevant facts. I would also like to remind the Icelandic police that the right response is not to arm our police, there is no reason to suspect that Islamic extremism is a problem here. The right response is not to blame western military campaigns in Islamic countries. There is a world of difference between a military campaign and terrorist attacks on innocent civilians. The right response is not increased internet censorship Last but not least this attack does not call for the increased surveillance of Muslims.

In a recent interview, MP for the conservative Independence Party, Ásmundur Friðriksson made his contemptible ignorance known to the public. It must be noted that other MP’s and members of his party have been quick to condemn his comments. Ásmundur Friðriksson suggests that Iceland’s roughly 1500 Muslims should be investigated for cases of Islamic extremism despite the fact that Christian extremists probably outnumber all of Iceland’s Muslims. He however saw no reason to investigate Christian extremists and that people like Anders Behring Breivik have no supporters. Breivik has plenty of supporters and he apparently gets thousands of letters each month from nut-jobs all over the globe. Ásmundur’s ideas would only serve to isolate Muslims in Iceland. It should be in the interest of Icelanders to do the exact opposite and do everything in their power to make Muslims feel welcome in this country, that’s how you fight extremism.

The correct response to atrocities such as those that happened in France is to expand freedom of speech. Extremists feed on socially isolated people and immigrants tend to be isolated in societies where they do not get good opportunities to adapt to their new society. It is also worthy to mention the fact that the majority of the victims of terrorism today are Muslims and it is rather sad to see that terrorist attacks in the West are required for people to realize what a threat extremists can be. If we want to combat extremism the best thing we can do is to let them speak their mind and confront their insane beliefs. The social isolation of immigrants must also be confronted to make it more difficult for extremists to lure them into insanity.

A couple of suggestions I would put forward on how to respond to this tragedy in my own country can only be achieved by a broad consensus in our parliament, Alþingi. One would be to put an end to criminal prosecution for blasphemy. Yes you read that right, Iceland in 21. century still has a law criminalizing blasphemy. The second suggestion I have is to finish IMMI (The Icelandic Modern Media Initiative) which would make Iceland amongst the best countries in the world for freedom of expression. It would mean that we could have serious bragging rights on the international stage and lets face it, Icelanders love to brag. This is how we can show the international community how to respond correctly to terrorism and how to honor those who give their lives for freedom of expression.

Posted in Uncategorized

Hugmyndafræðileg blinda

Í frétt Vísis (http://www.visir.is/-ekki-hvarflar-ad-mer-ad-gera-albaniu-ad-fyrirmyndarlandi-vardandi-heilbrigdisthjonustu-/article/2015150109563) kvartar Ásdís Halla undan því að orð hennar um flotta einkarekna heilbrigðiskerfið í Albaníu hafi verið misskilin, hún hafi bara verið að benda á mikilvægi valfrelsis. Hún gefur dæmi:

“Þá segist Ásdís Halla hafa verið að benda á mikilvægi valfrelsis á sviði velferðarmála. Í Garðabæ gætu foreldrar valið leik- og grunnskóla fyrir börn sín og þeim fylgi fjármagn, óháð því hvort skólinn væri einka- eða ríkisrekinn.”

Ég sé ekki betur en Ásdís Halla misskilji ‘einkarekstur’ all svakalega. Þarna er hún að segja að sveitafélagið borgi (úr sameiginlegum sjóðum) fyrir kostnað þeirrar menntunar sem foreldrar velji fyrir börnin sín. Ég endurtek, hið opinbera borgar. Það er ekki skilgreiningin á ‘einkarekstri’ …

Er til of mikils mælst að fólk skilji sjálft hvað það er að segja?

Bætum aðeins við það sem vantar þarna. Án þess að það sé sérstaklega tekið fram býst ég við því að ‘einkaskólarnir’ taki einhver gjöld aukalega fyrir þjónustu sína fram yfir það sem Ásdís kallar ‘ríkisrekna’ skóla. Ef maður samþykkir að það sé skilgreiningin á einkareknum skóla, að sveitafélagið hlaupi undir bagga með foreldrum sem velja einkaskóla – hvað varð þá um ‘valfrelsið’ sem hún talar um? Jú, það er háð tekjum foreldra. Almennt séð kallast það ekki ‘valfrelsi’ heldur efnahagslega þvingað val. Á yfirborðinu hafa allir sama val, en í raun og veru takmarkast það af efnahag foreldra – sem er mjög merkilegt því málið snýst um menntun barnanna sem get ómögulega aflað sér tekna til þess að standa undir kostnaði af eigin menntun.

Þessi blindni, sem er knúin af hugmyndafræði, á hvað raunverulega virkar endurspeglast í í orðum Ólafar Nordal:

“Engar sérstakar aðgerðir eða eftirlit hefur verið skipulagt til að fylgjast með því hvort afnám vörugjalda skili sér í lægra vöruverði. Markaðurinn mun hins vegar sjá um að veita fyrirtækjum aðhald og sjá til þess að þau lækki vöruverð til samræmis við breytingarnar. Þetta sagði Ólöf Nordal, ráðherra neytendamála, í kvöldfréttum stöðvar 2.” (http://www.vb.is/frettir/112864/)

og Styrmis Gunnarssonar í hringborðsumræðum Rúv:

“Þurfum við einhverjar sérstakar mælingar og einhverjar sérstakar rannsóknir til þess að vita að það er fátækt á Íslandi. Við erum svo fá, við lifum í þessu litla samfélagi hér. Er okkur ekki öllum ljóst að þessi fátækt er hér til staðar, við sjáum hana og er ekki meiri ástæða til þess að leggja áherslu á að grípa til einhverra aðgerða gegn henni – heldur en að eyða of miklum tíma í rannsóknir og mælingar?” (http://www.ruv.is/sarpurinn/hringbordid/05012015)

Fólki er semsagt boðið upp á efnahagslega þvingað val þar sem markaðurinn reddar öllu án þess að hann þurfi nokkuð eftirlit (rannsóknir og mælingar) og ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það bara misskilningur. Skoðum nýlega frétt Rúv (http://www.ruv.is/frett/felagsleg-heilbrigdiskerfi-komi-best-ut):

“Rúnar Vilhjálmsson prófessor fór yfir fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum og Evrópu um árangur ólíks reksturs heilbrigðisþjónustu. Niðurstöðurnar sýna að þegar mat er lagt á aðgengi að þjónustu þá koma félagsleg kerfi, eins og hér hefur verið, best út. Blönduð kerfi, eins og eru í Vestur-Evrópu, næst best en lakast er aðgengi að þjónustunni í kerfum sem eru í einkarekstri. Kostnaður er lægstur í félagslega kerfinu og lýðheilsa best. „Þannig að eftir því sem bæði fjármögnun og rekstur fer frá því opinbera og til einkaaðila þá verður stýring eða stjórnun þjónustnnar eða kerfisins erfiðari,“ segir Rúnar.”

Þarf einhver að rifja upp hvað eftirlitslaust bankakerfi gerði fyrir nokkrum árum síðan? Nei. Hvað er þá að? Er verið að misskilja eitthvað meira? Nei, þetta er einfaldlega afneitun á því að hugmyndafræði þessa fólks sé að hruni komin. Þetta er valkvæm blindni á staðreyndir málsins. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er ekki að segja að hugmyndafræði hins frjálsa markaðar sé að hruni komin, ég er að segja að _eftirlitslaus_ markaður virki ekki, hafi aldrei virkað og geti ekki virkað. Hvorki sem kerfi til þess að búa til valfrelsi fyrir neytendur né til þess að verja neytendur og samfélagið fyrir einokun og öðru svindli. Markaðurinn virkar ekki ‘af því bara’.

Þess vegna þarf rannsóknir og mælingar. Við þurfum að þekkja núverandi aðstæður til þess að geta borið saman afleiðingar af ýmsum stjórnskipunarákvörðunum, svo sem afnáms vörugjalda eða lækkunar skatts, á markaðinn. Ef við vitum ekki hverjar afleiðingar aðgerða eru þá getum við ekki valið úr þeim aðgerðum sem eru í boði. Við getum ekki vitað hvort markmið sem við höfðum fyrirfram náðist út af stjórnskipunarákvörðunum eða einhverju öðru.

Tökum dæmi. Segjum sem svo að lækkun virðisaukaskatts um 1% leiði til 0,5% lækkunar vöruverðs og hækkun um 1% leiði til 2% hækkunar vöruverðs (uppskáldað dæmi og gerum ráð fyrir línulegri fylgni). Ef við vitum þetta fyrirfram, af því að við höfum skoðað afleiðingar þess að breyta skattprósentunni – að ef við viljum ná 1% lækkun á vöruverði þá þurfum við að lækka vsk um 2%.

Upplýst ákvörðun. Ekki hugmyndafræðileg blinda.

Gleðilegt árið 2015!

Gleðilegt árið!

Þá er að gera upp hið gamla.

Það langbesta við árið 2014 var tvíþætt, að vakna flesta daga við hliðina á ljósinu í lífu mínu, Ingu Auðbjörgu, sem í þokkabót virðist alveg jafn mikið til í að hanga með mér og við upphaf árs. Hún er og verður það besta í mínu lífi.

Í pólitíkinni gerðist allavega eitt skemmtilegt, að stefna Pírata í vímuefnamálum komst á kortið. Fyrstu stóru skrefin tekin í þeim efnum sem mun vonandi leiða af sér mikla réttarbót fyrir vímuefnaneytendur (hvort sem þeir eru fíklar eða ekki), ekki einungis gagnvart yfirvöldum heldur einnig undirheimunum. Flest er enn óunnið í þeirri vegferð og þótt ferðin verði löng, þá er hún hafin.

Annað sem ég verð að fagna við árið 2014 eru að hafa séð almenning láta í sér heyra með beinum stjórnmálalegum afleiðingum. Þótt það þyki ekki við hæfi að stjórnmálamenn hvetji til mótmæla, þá verð ég samt að segja að það gleður mig að sjá þvílíkan fjölda fólks láta sig apaganginn á Alþingi varða og sýna í verki að hann láti ekki bjóða sér hvað sem er. Sérstaklega var gleðilegt að sjá fólk sjá að brotið væri á sér þegar afgreiða átti ESB-umsóknina endanlega án þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnvel enn gleðilegra var að þessi andspyrna hafði afgerandi áhrif. Því vil ég bara upplýsa fólk sem tók þátt í mótmælunum að þau voru lykilatriði í því að minnihlutanum tókst að stöðva málið. Okkur hefði aldrei tekist þetta án afgerandi stuðnings mótmælenda á Austurvelli.

Þá vil ég leggja til að þótt fagna beri slíkri þátttöku almennings í stjórnmálum, þá ætti ekki að þurfa alla þessa reiði og þessi læti til þess eins að almenningur hafi eitthvað um málin að segja. Almenningur átti að hafa formlegan rétt til þess að leggja tillöguna fyrir þjóðaratkvæði með engu nema sannanlegum vilja nógu margra kjósenda.

Því stendur eftir erfiðasti bardagi Pírata og annarra lýðræðissinna; baráttan fyrir auknu og betra lýðræði. Sú er heilt safn af verkefnum sem meðal annars samanstendur af rétti borgaranna til að knýja fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur, aukin kosningaþátttaka og síðast en ekki síst; víðtækari, skilvirkari og ítarlegri upplýsingamiðlun til almennings.

Þótt ýmislegt slæmt hafi gerst 2014 vil ég að lokum segja þetta.

Heimsendir hefur margsinnis komið til. Hvort sem maður les heimildir um atburði 20. aldar eða þær elstu sem þekkjast, þá er ljóst að mannkyn hefur meira en nægan styrk til að komast í gegnum hörmungar verri en þær sem flest nútímafólk getur gert sér í hugarlund. Bregðumst við brestum með von, lítum aftur í tímann til að læra og horfumst í augu við örlögin með þá vitneskju að þrátt fyrir allt sem við höfum lært, þekkjum við þau ekki. Aldrei hætta að læra.

Aldrei gefast upp.

Posted in Uncategorized