Tjáningarfrelsi til verndar lýðræði í samfélaginu

Í tilefni pistils: “Takmörkun tjáningar til verndar lýðræði í samfélaginu” (http://www.visir.is/takmorkun-tjaningar-til-verndar-lydraedi-i-samfelaginu/article/2016160629601)

Það eru til réttmætar tálmanir á tjáningarfrelsi.

En tjáningarfrelsið er samt ekki einhver þægileg forréttindi sem við eigum “almennt” að njóta, heldur réttur sem aldrei má skerða nema til verndar tilteknum réttindum annarra og einungis af nauðsyn.

En það er eitt sem virðist ekki alveg hafa komist á hreint í íslensku samfélagi og þó víðar væri leitað: Það er ekki réttur eins eða neins að allir aðrir tjái einungis æskilegar og meinlausar skoðanir.

Tjáningarfrelsið getur ennfremur ekki verið bundið því að umræðan sé geðsleg eða jafnvel málefnaleg, vegna þess að samfélagið þarf að hafa þess kost að útkljá ágreining um ógeðsleg mál einnig.

Yfirvöld geta ekki ákveðið hver sá ágreiningur skuli vera, heldur kemur hann einfaldlega upp í samfélaginu án sérstakra leyfisveitinga eða heimildar. Þá er mikilvægast af öllu að í stað þess að reyna að móta umræðuna í samræmi við eigin þægindastuðul, þá standi yfirvöld vörð um tjáningarfrelsið til þess að samfélagið sjálft, en ekki ríkið, geti útkljáð sinn ágreining í opinni, heiðarlegri umræðu. Eins og fólk sem pælir í pólitík hlýtur að vita, þá er heiðarleiki ekki það sama og kurteisi.

Um leið og sett eru þau lagalegu skilyrði fyrir tjáningu að hún megi ekki vera taumlaus, taktlaus, ókurteis, óþægileg, virðingarsnauð, heimskuleg, hneykslanleg, ónærgætin, óæskileg eða hreint út sagt viðbjóðsleg, þá er tjáningarfrelsið orðið tilgangslaust. Tjáningarfrelsið verður að fela í sér réttinn til orðræðu sem inniheldur allt hið fyrrgreinda. Tjáningarfrelsið er verkfærið sem siðmenntuð samfélög nota til að moka hinn málefnalega flór.

(Til að bregðast strax við fyrirsjáanlegum viðbrögðum: Þetta felur ekki í sér að hömlurnar séu engar. Áður en einhver tekur sig til og finnur dæmi um viðbjóð sem er líka brot á réttindum annarra, þá vek ég athygli á því að í fyrrgreindri upptalningu er ekki að finna brot á réttindum annarra, vegna þess að tjáningarfrelsið veitir ekki réttinn til að brjóta á réttindum annarra. Vonandi er þetta skýrt. Höldum áfram.)

Lýðræðislegt hlutverk tjáningarfrelsisins er fyrst og fremst sá að tryggja að vondar skoðanir sé hægt að ræða opinskátt, þar á meðal af þeim sem vita betur. Sú umræða á sér ekki stað með þöggun, og þá skiptir engu máli hvort þöggunina megi réttlæta lagatæknilega eða ekki: sú nauðsynlega umræða á sér samt ekki stað með þöggun, en hún þarf samt að eiga sér stað. Engin lagarök breyta þeirri staðreynd. Löglegt er ekki það sama og skynsamlegt.

Hótun um lögsókn er hótun.

Jafnvel ef hótun um lögsókn er rökrétt og lögmæt, þá er hún samt hótun, en hótanir sannfæra engan raunverulega heldur eru í reynd tegund af valdbeitingu. Hótanir um beitingu lögreglu- og dómsvalds eru því ekki málefnaleg sókn, heldur málefnaleg uppgjöf. Stundum getur það verið nauðsynlegt að hóta lögsókn, til dæmis ef einstaklingur beitir annan hótunum, eða brýtur á friðhelgi einkalífs einhvers, eða getur spillt rétti annarra til réttlátrar málsmeðferðar; en þá eru það hótanir byggðar á nauðsyn, ekki rökum.

Þá er einnig grundvallaratriði að hótunin sé byggð á raunverulegri nauðsyn til verndar réttinda annarra, en sé ekki bara lagatæknileg afsökun fyrir því að losna við ógeðslega orðræðu. Alveg eins og að þótt lögreglan þurfi að geta beitt líkamlegu valdi við ákveðnar aðstæður, þá á hún einungis að beita því þegar nauðsyn krefur, ekki til að spara sér ómak, sem dæmi.

Hótun um lögsókn er alvarlegt inngrip í tjáningarfrelsið og jafnvel þótt hún geti verið nauðsynleg, þá er hún samt sem áður alltaf alvarlegt inngrip.

Hótanir eru ekki rök.

Í engum málefnalegum umræðum eru hótanir málefnaleg rök. Þegar gripið er til hótana er hótandinn í raun búinn að segja þeim sem hótað er, að þá sé umræðum lokið og málin verði ekki útkljáð út frá því hvað sé satt og rétt, né út frá staðreyndum sem beri að hafa í huga, heldur út frá valdbeitingu. Bann við fordómafullum skoðunum sendir þau einu skilaboð til hinna fordómafullu, að talsmenn umburðarlyndis séu orðnir svo rökþrota og hafi svo vonlausan málstað að verja, að þeir verði að grípa til lögsókna. Þess vegna sannfærir ekkert fordómafullt fólk meira, um að fordómar þess séu réttmætir, heldur en þegar talsmenn umburðarlyndis beita hótunum um lögsóknir frekar en rökum máli sínu til stuðnings.

Það sorglegasta er að þetta er alger óþarfi vegna þess að… í alvöru, lýðræði, mannréttindi, umburðarlyndi og frelsi eru ekki svo vonlausir málstaðir að við talsmenn þeirra eigum í neinum vandræðum með að rökræða þá. Því miður er það hinsvegar þannig að fólk sem ýmist nennir ekki í þá umræðu, telur sig of fínt fyrir hana eða hreinlega treystir sér ekki til að rökstyðja mál sitt, vill frekar fara einhvers konar þöggunarleið.

Tjáningarfrelsi gegn hatursáróðri.

Mikilvægi tjáningarfrelsisins er engin réttlæting fyrir hatursáróðri heldur mikilvægt vopn í baráttunni gegn honum. Það sem skortir á er að það vopn sé raunverulega nýtt af talsmönnum umburðarlyndis og frelsis frekar en ákall um að móta umræðuna beinlínis með lagavaldi.

Ég tek sjálfur virkan þátt í því að vinna gegn fordómum með því að ræða (misdónalega) við fordómafullt fólk, sennilega oftar en er manni hollt. En þessar hugmyndir um að takmarka tjáningu málefnalegra andstæðinga minna hjálpar mér ekki heldur þvert á móti þvælist fyrir og gefur þeim byr undir báða vængi. Þeir fá lítinn frið fyrir mér nema þegar ég þarf að snúa mér í lið með þeim sjálfum til að verja rétt þeirra til að tjá sínar oft á tíðum nautheimskulegu, óþolandi og ógeðslegu skoðanir. Reyndar lendi ég sennilega síðan í því að talsmenn umburðarlyndis saka mig um að verja fordóma, meðan fordómafulla liðið sakar mig um að vera svokölluð “múslimasleikja” fyrir að vera á móti mismunun á grundvelli trúarskoðana, en það ku vera fúkyrði þeirra á meðal ef ég skil rétt.

Markmiðið.

Þegar allt kemur alls snýst þessi umræða um að verja lýðræðið, mannréttindi, umburðarlyndi og frelsi fyrir ágangi afla sem eiga erfitt með að ná sínu fram þegar þessi gildi fá að ráða. En þessi gildi krefjast ekki þöggunar til að bera sigur af hólmi heldur einmitt þvert á móti. Þau stóla fyrst og fremst á opna og heiðarlega umræðu þar sem fólk getur tjáð sig án ótta við hótanir, hvort sem þær eru í formi líkamlegra hótana eða hótana um lögsókn.

Hótum því sem varlegast og sem allra, allra sjaldnast.

Posted in Uncategorized

Glópagullskerfi Menntamálaráðherra: LÍN frumvarpið

Nýútkomið frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna virðist vera glópagull. Það er mín niðurstaða eftir að hafa skoðað þetta í dag með opnum hug og von um að það gæti eitthvað gott komið frá þessu ráðuneyti. Þó það sé boðið upp á 65.000 kr í styrk óháð því hvort viðkomandi taki sér framfærslulán eður ei, þá er margt annað sem þarf að athuga.

Það er komið hámark á því hversu mikið einstaklingur getur fengið í lán. 15 milljónir. Ofan á það leggst 65.000 kr styrkur í allt að 40 mánuði. Þetta 15 milljóna króna hámark er ákveðið án þess að taka tillit til fjölskylduaðstæðna, þ.e. fjölda barna á framfærslu námsmanns eða dýr skólagjöld. 

Til að setja þetta í samhengi þá eru skólagjöldin í Cambridge til þess að fara í efnaverkfræði eða tölvunarfræði £24,069 sem eru 4,4 milljónir íslenskra króna. Það þarf engan sérstaka hæfileika í stærðfræði til þess að sjá að íslenskir stúdentar muni eiga eftir að eiga erfitt með að fjármagna skólagjöld að fullu fyrir mikilsvirta skóla á borð við Harvard og Cambridge frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hvað kemur í staðinn? Einkareknir námslánasjóðir? Bankalán?

Verðtrygging og vextir

Lánin verða verðtryggð. Þar að auki  eru 2,5% vextir og 0,5% vaxtaálag. Eins og staðan er núna er 1% vextir á námslánum og skuldabréfið lokast þegar stúdentinn er búinn með nám. Með breytingunum þá mun verða til eitt skuldabréf á hverja útborgun, sem þýðir að við lok 180ECTS BA gráðu verður stúdent með 6 skuldabréf. Við lokun skuldabréfs þá byrjar það að safna vöxtum. Þannig, eftir fyrstu önnina í háskóla þá byrjar klukkan strax að tifa og fyrsta útborgunin upp á kannski hálfa milljón safnar vöxtum þangað til að stúdent hefur lokið námi og byrjar að borga af námslánunum sínum. Það eru þrjú og hálft ár á fyrsta skuldabréfið, þrjú ár á annað skuldabréfið og svo koll af kolli. 

Á fyrsta skuldabréfinu, gefum því þægilega tölu upp á hálfa milljón og vextir samtals upp á 3% þá er mánaðarleg vaxtasöfnun 1.250 kr.. Það þarf ekki að byrja að borga á fyrsta skuldabréfinu fyrr en eftir 42 mánuði og á þeim tíma safnast vextir ofan á höfuðstólinn, upp á samtals 52.500 kr. Næsta skuldabréf safnar vöxtum í 36 mánuði, eða 45.000 kr. og svo koll af kolli. Samkvæmt mínum frumstæðu útreikningum þá hefur bæst við höfuðstólana 202.500 kr í ógreidda vexti miðað við að á sex mánaða fresti í þrjú ár fái námsmaður 500.000 kr. í námslán og byrji að borga af láninu ári eftir útskrift. borgað er af skuldabréfunum samhliða, ekki þannig að það sé byrjað að borga af einu í einu heldur er einn reikningur sendur út þar sem þetta er allt saman: 6 lán upp á 500 þúsund sem bera 3% vexti, samtals upp á 3 milljónir og samtals uppsafnaðir vextir upp á 200 þúsund. Og svo er byrjað að borga af því. 

Afborgarnirnar eiga að vera jafngreiðslur. Það kemur ekki skýrt fram í frumvarpinu hversu háar afborganirnar eiga að vera — en reikni maður dæmið þá er hugsanlega verið að ræða um 30-40 þúsund krónur á mánuði fyrir fimm ára háskólanám. Fimm ára háskólanám er núna skilyrði fyrir ýmis störf í samfélaginu sem borga ekki hálfa milljón á mánuði eftir skatt í laun. Það er því há greiðslubyrði fyrir fólk sem er með útborgað 200-250 þúsund á mánuði eftir skatt eftir fimm ára háskólapróf að greiða 30 þúsund á mánuði eða um 15% af heildarútgjöldum. Verði þetta að veruleika þarf að semja um sérstakar hækkanir á launamarkaði sem tekur til greina það að stúdentar sem útskrifast með 3-5 ára háskólapróf og eru ekki með tekjutengdar afborganir á lánum sínum hafi meiri og dýrari greiðslubyrði heldur en áður. 

Það vekur að auki athygli að viðmiðun útreikninga á blaðsíðu 32 er reiknað með því að viðkomandi hafi hálfa milljón á mánuði ári eftir að hafa útskrifast með master í einhverju. Er það raunveruleikinn á Íslandi í dag?

Glópagull eða styrkur?

Styrkurinn virðist því vera glópagull. Það kemur út á sléttu þar sem vaxtagreiðslurnar hækka úr 1% upp í 3%, lánið byrjar að safna vöxtum um leið og lánið er greitt út og safnar vöxtum allan lánstímann og allan afborgunartímann. Fyrir fólk sem ætlar í langt nám þá er þetta allt að tíu ár af uppsöfnuðum vöxtum. Fimm ár fyrir þá sem ætla að taka bachelor og master. 

 Það sem þetta glópagull mun hugsanlega gera er að vera meiri hvati fyrir ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu til þess að búa lengur hjá foreldrum sínum. Þessi styrkur mun því helst gagnast fólki á höfuðborgarsvæðinu sem býr við öruggar heimilisaðstæður. Þannig mun þetta mismuna fólki út frá því hvar þar býr og hvernig fjölskyldu hagir þeirra eru. Þeir sem munu njóta mest góða af þessum styrkjum eru nefnilega stúdentar sem eiga gott bakland – efri og millistéttarfjölskyldur og á höfuðborgarsvæðinu eða Akureyri, finni stúdent þar nám við hæfi. Þessi styrkur verður góður vasapeningur fyrir þá sem þurfa ekki að taka lán til þess að sjá fyrir framfærslu.

Hinir, sem þurfa að sækja skólann um langan veg og/eða geta ekki búið í foreldrahúsum. Þeir sem þurfa að fullorðnast hratt, eru fullorðnir og eru sjálfstæðir munu þurfa að taka námslán – hinir ekki og þar af leiðandi munu ekki þurfa að fara út í lífið með námslánabyrðina. Ég hygg þetta muni koma verulega illa fyrir nýstúdenta sem koma utan að landi.

Leysir ekki helstu vandamál stúdenta

Stærsta vandamál stúdenta til þess að standa sjálfstæðum fótum í núrverandi kerfi er að námslánin eru greidd út eftir á. Á hinum Norðurlöndunum þá er styrkurinn eða lánið greitt út í hvejrum mánuði. Á bls. 28 í frumvarpinu er rakið hversu mikið ‘óhagræði’ það hafi verið af því að greiða út námslánin fyrirfram vegna þess að það var of erfitt að endurheimta ofgoldin námslán, hinsvegar þá hafa hin norðurlöndin tekist að gera það án þess að það hafi verið eitthvað þvílíkt vesen.

Eins og staðan er í dag þá eru nemendur að sækja í námsmannayfirdrætti með tilhlítandi kostnaði og lenda svo í útistöðum við bankann ef þeir falla í kúrs eða fá ekki námslánin eins og vera ber. Frumvarp þetta gerir hinsvegar ráð fyrir að “námenn [fái] greiddan vaxtastyrk vegna þessa óhagræðis sem það hefur í för með sér”. Það sem þetta er að búa til er tilgangslaus peningamyndum í formi útgáfu skuldabréfa hjá bönkunum. Það er alveg hægt að greiða þetta út jafnt og þétt – ég hugsa að það hefði jákvæð áhrif á námsframvindu hjá stúdentum þar sem það eykur fjármagnsöryggi stúdenta yfir námstímann. Ef tilgangurinn með námslánum er að gefa bönkum eitthvað rúm til þess að græða á þeim, þá er uppi einhver misskilningur með tilgang lánasjóð íslenskra námsmanna hjá ráðamönnum vor.

Einkavæðing námslánakerfisins?

Þetta frumvarp menntamálaráðherra er á heildina litið mjög slæmt. Þarna er verið að auka vaxtabyrði námsmanna, þarna er verið að gera frekari takmörk á hversu hátt lán námsmenn geti fengið yfir námstímann og þannig takmarka barnafjölskyldur eða einstæða foreldra með börn á framfærslu að stunda nám. Þarna er verið að takmarka möguleikana á því að geta farið í góða háskóla sem eru oftar en ekki dýrir. Þarna er verið að búa til glópagulls styrkjakerfi sem lántakandinn sjálfur borgar fyrir með vaxtafyrirkomulaginu.

Posted in Uncategorized

Um afsagnir og traust

Heiðarlegur og algengur misskilningur kemur fram í máli stjórnarþingmanns í viðtali sem ég heyrði rétt í þessu.

Þingmaðurinn sagði að með því að segja af sér, hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að einhverju leyti viðurkennt mistök. Þessi ranghugmynd um afsagnir stjórnmálamanna er sennilega með stærstu ástæðum þess að menn segja svo sjaldan af sér hérlendis og þá ekki fyrr en allt er komið í kaldakol. Afsögn er nefnilega ekki það sama og viðurkenning á mistökum. Stundum segja menn af sér vegna mistaka en það er þó ekki það sama.

Afsögn getur þýtt það eitt að maður telji betra fyrir embættið sjálft eða umbjóðendur þess, að fjarlægja eigin persónu úr því af einhverjum ástæðum. Sem dæmi vék Illugi Gunnarsson af þingi þegar Sjóður 9 var til rannsóknar og með því var hann ekki að viðurkenna nein mistök, heldur þvert á móti að forðast mistök, ásakanir um mistök eða grun um misferli. Það var betra fyrir stöðuna, fyrir hann sjálfan og fyrir Alþingi.

Eitt lærdómsríkasta dæmið er afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem vissulega gerði mörg, mjög veigamikil mistök, en ef hún hefði sagt af sér sem ráðherra um leið og lögreglurannsókn hafði hafist á innanríkisráðuneytinu, þá hefði það þvert á móti gefið henni trúverðugleika sem hún glataði gjörsamlega með þrásetu sinni.

Það vantar sárlega hugarfarsbreytingu í garð pólitískrar ábyrgðar á Íslandi. Menn eiga ekki bara að segja af sér eða stíga til hliðar þegar allt er komið í kaldakol og búið er að sanna upp á fólk einhverja stórfellda glæpi, afglöp eða blekkingar. Stjórnmálamenn eiga að stíga til hliðar, ýmist tímabundið eða fram að endurnýjun umboðs, til þess að öðlast virðingu og traust en ekki öfugt. Lykilatriði, til þess að svo geti verið, er að gera það áður en þrásetan gerir að engu þann trúverðugleika sem afsögn getur veitt þeim tækifæri til að öðlast.

Posted in Uncategorized

Ætla þingmenn stjórnarmeirihlutans að verja þetta?

Í ljósi umfjöllunar Kastljóss um tengsl ráðamanna við aflandsfélög:

Í þingmannahópi meirihlutans á Alþingi, í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, er margt gott fólk með hjartað á réttum stað og höfuðið rétt skrúfað á, sem raunverulega fór í pólitík af góðum hug og með það að markmiði að gera Ísland betra samkvæmt sínum skilningi. Eðlilega er maður oft ósammála þeim, ýmist um aðferðafræði, sjónarmið eða jafnvel grunngildi, enda eðlilegt í pólitík.

En núna virkilega liggur á því að þingmenn stjórnarmeirihlutans velti fyrir sér hvers vegna þeir fóru í pólitík. Fóru þeir í pólitík til að verja þetta? Eru þeir reiðubúnir til þess að leggja nafn sitt gegn vantrauststillögu eftir það sem nú hefur verið opinberað?

Sjálfur hef ég orðið vitni að hreint út sagt ótrúlegum hlutum í pólitík, til dæmis það að yfirhöfuð komast inn á þing í kosningunum 2013. Eftir það, sögulegt stökk flokksins okkar í skoðanakönnunum sem ekkert lát virðist vera á, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. Við búum í heimi þar sem fáránlega ólíklegir atburðir eiga sér stað á hverjum einasta degi og það hættir í sjálfu sér að koma manni á óvart að eitthvað stórkostlega ólíklegt hafi átt sér stað.

En ég neita að trúa því og ætla ekki að trúa því að meirihluti þingsins muni greiða atkvæði gegn tillögu um vantraust eftir þetta.

Posted in Uncategorized

Vanhæf þjóð?

gaFyrir örfáum árum vorum við með Búsáhaldabyltingu þar sem íslensk þjóð, sem seinþreytt er til vandræða, barði potta og pönnur af því að henni fannst nóg komið. Aðalslagorð þeirrar byltingar var “Vanhæf ríkisstjórn!” Hrökklaðist sú stjórn frá þegar ekki var lengur vært í þinghúsinu og stólarnir orðnir óþægilega heitir.

Í kjölfar þessa fengum við aðra fjórflokksstjórn, sú hneygðist til vinstri sem þótti ávísun á að nú yrði hugsað um almenning í landinu og hann settur í forgang. Ekki varð landanum að þeirri ósk sinni þar og skjaldborgin sem boðuð var um heimilin lét á sér standa. Á meðan missti almenningur eignir sínar í hendur bankanna og gerðist í stórum stíl í kjölfarið efnahagslegir flóttamenn í Skandinavíu.

Endurreisnin svokallaða gekk heldur hægt og þar sem Íslendingar eru ekki með þolinmóðari þjóðum var megn óánægja með þessa stjórn líka. Endaði vinstristjórnin á að verða síst hæfari í augum almennings en sú sem hann hafði losað sig við áður. Til að bíta höfuðið af skömminni guggnaði hún svo á að koma nýrri stjórnarskrá í gegn. En hafði hún verið unnin með aðkomu hins almenna borgara í bland við sérfræðinga, og var þjóðin þar með svikin um langþráðar lýðræðisumbætur.

Víkur þá sögunni að síðustu kosningum. Fram á sjónarsviðið steig Framsóknarflokkurinn með nýjan formann í fararbroddi. Sá sagðist skilja vanda almennings og hafði þungar áhyggjur af þeim byrðum sem honum hefði verið gert að axla. Boðaði formaðurinn að nú skyldi haldið í víking á hendur vondum útlendingum sem kallaðir væru hrægammar. Með því að láta þeim blæða skyldi gert myndarlega við heimilin með svokallaðri skuldaleiðréttingu. Einnig myndu finnast peningar til að endurreisa heilbrigðiskerfið og annað sem hafði verið látið dánkast.

Almenningur að sjálfsögðu tók þessu fagnandi og taldi að þarna væri fram kominn leiðtoginn mikli sem væri treystandi fyrir hag sínum. Einnig hafði Sjálfstæðisflokkurinn fundið sér Engeyjing til að halda um stjórnvölinn þar á bæ, og voru loforð þeirra síst minna heillandi.

Einhverjir voru samt svo óskammfeilnir að kokgleypa þetta ekki og spruttu nú upp allskonar flokkar ósáttra kjósenda. Einn slíkur flokkur nefndist Píratar og höfðu “húsmæður í Vesturbænum” fyrir satt að þeir vildu helst stela menningarefni af internetinu á meðan þeir reyktu hass.

Ekki voru þó allir sammála þessu og þó að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ynnu sætan sigur. Aðallega sökum þess að aðþrengdur almenningur var orðin langeygur eftir betri tíð, þá voru nokkrir sem greiddu Pírötum atkvæði sitt. Fengu þeir þrjá þingmenn kjörna, sem hafa verið hinu vanheilaga bandalagi helmingaskiptaflokkanna til óþurftar alla tíð síðan.

Eftir að hafa gætt sér á ýmsu góðmeti uppi í sveit gengu helmingaskiptaflokkarnir enn eina ferðina í eina sæng og mynduðu stjórn. Eitthvað stóð nú á efndum loforðanna, enda pizzupantanir meira mál en formaður Framsóknarflokksins hafði haldið, og leiðréttingin mikla varð heldur aum í flestum tilfellum – fyrir utan að ekki er séð fyrir endann á því hver borgar fyrir hana. Endurreisn heilbrigðiskerfisins gengur nú svona og svona, en kostnaðarvitund almennings er allavega í lagi þar sem hann borgar nútildags himinháar upphæðir fyrir að greinast með alvarlega sjúkdóma, og er því steinhættur að leika sér að slíku á kostnað ríkisins.

Nú erum við komin í seinni hálfleik kjörtímabilsins – og hér gerast undur og stórmerki!
Kári Stefánsson sem er áhugamaður um heilsufar almennings, hafði þungar áhyggjur af því að þrátt fyrir allan fagurgalann væri heilbrigðiskerfið samt sem áður ekki alveg að gera sig. Blés hann því til undirskriftasöfnunar til að fá úr því bætt og virðist hinn almenni borgari vera á sama máli og Kári, eða rétt um 85 þúsund þeirra.Telst það saga til næsta bæjar að svo margir Íslendingar séu sammála um nokkurn hlut!

Víkur nú sögunni til suðurhafa og þá sér í lagi eyjunnar Tortóla – ku sú eyja vera algjör paradís – en ótrúlegt en satt þá er það ekki sökum góðviðris né landgæða heldur skattalaga.

Alræmd kona nokkur, kölluð Gróa á Leiti hafði verið þar í heimsókn og rekist á svokallað aflandsfélag, sem við nánari eftirgrennslan reyndist tilheyra Framsóknarformanninum og hans ektakvinnu, sem þegar hér er komið sögu eru orðin bændur austur á landi í hjáverkum.
Formaðurinn varðist vasklega og benti á að hér væri allt í sómanum og engin undanbrögð á ferðinni, en kjósendur fóru að hugsa sinn gang. Sumir jafnvel gengu svo langt að vilja hrekja formanninn frá völdum og hafa nú yfir tæplega 14.000 manns lýst sig sammála því.

Gróa á nokkrar frænkur jafn forvitnar og þegar þetta spurðist út fóru þær á stjá og fundu slík félög út um allar koppagrundir bæði í Evrópu og í Indlandshafi. Þessi félög eru sögð í eigu ráðherra og annarra fyrirmanna sem að eigin sögn kannast bara ekki við neitt. Sannast hér hið fornkveðna að hægri hendin veit ekki hvað sú vinstri gerir. Milljónirnar virðast bara hafa tekið sig upp og lagst í útrás upp á sitt eindæmi án vitneskju eigendanna. Það er í það minnsta alveg greinilegt að þessu fé vantar hirði, það er allavega ekki á færi ráðherra sem sýsla með fjármál og dómsmál fyrir hönd almennings að hafa yfirlit yfir svona.

Þó að Jóhannes “útskýrari” hafir verið í yfirvinnu við að leiðrétta misskiling amennings á orðum formannsins, þá hefur sami almenningur farið að líta í kringum sig. Hafa sjónir hans í æ ríkari mæli beinst að Pírötunum þremur á þingi og félögum þeirra. Píratar hafa lagst í standhögg og herjað á hylli almennra kjósenda með góðum árangri. Þeir hafa líka reynst hafa stefnur í ýmsum málum öðrum en hassreykingum þegar vel var að gáð.

Nú er svo komið að hið virðulega Alþingi kemur aftur saman 4. Apríl, eftir að hafa eytt páskafríinu í súkkulaðiát og annað sukk. Þá fer að reyna á blessaða þjóðina enn og aftur. Boðað hefur verið til mótmæla og standa vonir til að almenningur sé búin að fá nóg af siðleysi og hreinum lygum. Til dæmis því að þrátt fyrir að vegsama krónuna við hvert tækifæri, hefur ráðherrum og öðrum fyrirmennum þó ekki fundist hún þess verð að standa á bak við heimilisfjármálin og því flýtt sér að koma mjólkurpeningunum fyrir í suðrænum sjóðum.

Þó að það sé náttúrulega hressandi að láta ljúga að sér, svíkja sig og láta svindla á sér reglulega, þá segi ég fyrir mína parta að ef Íslendingar gera ekki eitthvaða róttækt núna, þá erum við kannski ekki eingöngu með vanhæfa stjórnmálamenn heldur ættum við að gangast við því að vera vanhæf þjóð.

Posted in Uncategorized

Venjulega fólkið í Pírötum

gaUm daginn héldum við Píratar á Norðausturlandi aðalfund. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, heldur það að þarna komu saman yfir 40 manns úr 5 sveitarfélögum. Þetta var bara ósköp venjulegt fólk á öllum aldri, frá menntaskólafólki upp í eldri borgara. Það sem gerir þetta venjulega fólk óvenjulegt er að það var tilbúið til að koma saman og lýsa stuðningi við stjórnmálaafl sem í upphafi var frekar hlegið að heldur en tekið alvarlega.

Þetta er fólk sem þú sérð hvar sem er; kennarar, iðnaðarmenn, verkamenn, sjómenn, námsmenn, listamenn, öryrkjar, sem sagt bara fólk eins og þú og ég. Þetta er fólkið sem þarf að forgangsraða tekjunum, spáir í hvað maturinn kostar, hvað bensínið er dýrt og húsnæðið kostnaðarsamt.

Það sem þetta fólk á hins vegar sameiginlegt er að vera komið með nóg af spillingu, sviknum loforðum og siðleysi í samfélaginu og setur traust sitt á Pírata til að gera eitthvað í málunum.

Þrátt fyrir að vera ungur flokkur eru Píratar vel mannaðir. Við eru með hugsjónafólk og allskonar fagfólk og fólk sem er fullt af eldmóði til að breyta samfélaginu.

Okkur skortir sem betur fer svokallaða auðmenn og sjálfskipaðar Séð & Heyrt-stjörnur og ég vona að það breytist ekki. Við erum búin að sjá hvað gerist þegar svoleiðis fólk er við stjórnvölinn.

Posted in Uncategorized

Vandinn er stærri en vanhæfi

Í ljósi Wintris-málsins (einnig þekkt sem “Jómfrúarmálið”) hefur Jón Þór Ólafsson fyrrverandi þingmaður Pírata bent á eitt athyglisvert.

Sumarið 2015 samþykkti Alþingi frumvarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um stjórnarráðið. Þar var að finna heldur viðamikla breytingu á fyrirkomulagi um siðareglur.

Í þágildandi lögum var ákvæði um samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna og var verkefni hennar, skv. 3. og 4. mgr. 25. gr. laga 115/2011 (eins og lögin voru um vorið 2015):

“Helstu verkefni samhæfingarnefndarinnar eru:
a. að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu,
b. að veita umsögn um drög að siðareglum á grundvelli laga þessara og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gefa stjórnvöldum ráð um túlkun þeirra,
c. að beita sér fyrir upplýsingaöflun og fræðirannsóknum á málefnasviði nefndarinnar,
d. að stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum eftirlitsembætta Alþingis og öðrum tiltækum upplýsingum um brot á siðareglum eða hættu á spillingu hjá ríkinu,
e. að taka þátt í samstarfi við félagasamtök, stofnanir og embætti hér á landi og erlendis sem vinna gegn spillingu í opinbera geiranum,
f. að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starf sitt þar sem komi fram ef ástæða þykir til tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir til að efla traust á stjórnsýslu ríkisins, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka í stjórnsýslunni. Skýrslan skal lögð fyrir Alþingi. Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal samhæfingarnefndin hafa reglulegt samráð við þau embætti.”

En í lok árs 2014 lagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fram frumvarp þar sem þessu var breytt. Í stað þess sem stendur að ofan, ásamt fleiru, kom þetta:

“Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum. Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal ráðuneytið hafa reglulegt samráð við þau embætti.”

Í stuttu máli; út með samhæfingarnefndina, inn með vald forsætisráðherra yfir því hvernig túlka beri siðareglurnar.

Margir þingmenn, þ.á.m. þingmenn Pírata gagnrýndu þessa breytingu á sínum tíma en það vakti ekki mikla athygli. Allir viðstaddir þingmenn stjórnarandstöðunnar (þ.á.m. allir þingmenn Pírata) greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson greiddi hinsvegar atkvæði með því og allir viðstaddir þingmenn meirihlutans.

Ég er ekki að fjalla um þetta til að vera leiðinlegur við neinn, hvorki forsætisráðherra né neinn annan. Það er lexía í þessu sem okkur ber að taka alvarlega: Við eigum að tortryggja valdeflingu yfirvalda. Við eigum að taka eftir því þegar forsætisráðherra leggur fram frumvarp sem eykur valdsvið og hlutverk hans og Alþingi samþykkir það af þeirri einu ástæðu að sömu flokkar mynda meirihluta Alþingis og ríkisstjórn.

Hafið þið áttað ykkur á því að undir núverandi fyrirkomulagi, þeim reglum sem stjórnkerfi Íslands byggir á og þeim hefðum sem hafa skapast, eru í sjálfu sér engar líkur á því að vantrauststillaga á hendur forsætisráðherra yrði samþykkt, þrátt fyrir það sem er komið fram? – Ég er ekki að mæla gegn vantrauststillögu, þvert á móti finnst mér hún þurfa að koma fram ef ekki kemur til afsagnar fyrir þann tíma (Alþingi kemur ekki aftur saman fyrr en 4. apríl, meðan ég man), en hafið þið virkilega áttað ykkur á því að líkurnar á því að hún verði samþykkt, jafnvel eftir þetta, og jafnvel með því ofangreinda, séu í sjálfu sér engar? – Það er ekki vegna þess að einhver ráðherra eða flokkur sé svo vondur, heldur vegna þess að við búum við fyrirkomulag sem virkar bölvanlega til lýðræðislegs aðhalds milli kosninga.

Það er auðvelt að dæma forsætisráðherra harkalega í þessari stöðu, en við megum ekki missa sjónar af undirliggjandi vandamálinu, því að þótt þetta sé óþolandi, þá er vandamálið samt sem áður hvorki persóna né kröfuhafi, heldur rótgróinn galli í kerfinu sem vald ráðamanna byggir á, í lýðræðisfyrirkomulaginu sjálfu.

Nánar til tekið, í stjórnarskrá.

Posted in Uncategorized

Af veiku fólki og veiku kerfi

gaSuma daga fallast mér nánast hendur. Það er ekki hægt að opna netið, blað eða annan miðil án þess að lesa um hörmungar fólks sem á við veikindi að stríða. Það kaldhæðnislegasta er að það eru ekki veikindin sem eru að buga þetta fólk, heldurheilbrigðiskerfið og kostnaðurinn við veikindin.

Við eigum frábært heilbrigðis starfsfólk. Það vinnur hins vegar bæði undir alltof miklu álagi og oft við heilsuspillandi aðstæður samanber mygluna á LHS. Aðstaðan á LHS er líka ekki til fyrirmyndar fyrir neinn, sjúklingar liggja í geymslum, salernum og á göngum sem er náttúrulega ekki boðlegt. Síst af öllu fyrir veikt fólk.

Það er líka sérstakt að þessa dagana eru alltaf í gangi safnanir fyrir fólk sem er veikt eða er með veik börn, þetta er bara birtingarmynd þess hvernig ástandið er. Veikt fólk eða fólk með veik börn á ekki að þurfa að treysta á aðstoð fólks út í bæ til að standa undir kostnaði. Ég er nokkuð viss um að við erum flest sammála um það.

En þetta er ekki allt og sumt. Hvað með þá sem búa úti á landi? Þeir þurfa ekki bara að eiga við erfið veikindi heldur einnig mikinn kostnað vegna ferða og uppihalds fjarri heimabyggð. Sjúkratryggingar Íslands greiða eingöngu 2 ferðir á 12 mánuðum til sérfræðings sem ekki er í heimbyggð, nema um alvarlega króníska sjúkdóma sé að ræða.

Ef við skoðum þetta nánar þá er þetta ansi galið. Hvað með þá sem þurfa að fara til fleiri en eins læknis til dæmis? Það þarf nú ekki að vera neitt alvarlegt að svo sem, en flestir þurfa að leita lækninga utan heilsugæslunnar eftir því sem fólk eldist eða börn veikjast. Á fólk að þurfa að leggja fyrir til að geta farið til hjartalæknis, augnlæknis eða giktarlæknis eða á það að velja í hvað það vill eyða þessum ferðastyrk og láta hitt mæta afgangi? Að mínu mati ætti rökstuðningur heimilslæknis að vera næg forsenda fyrir endurgreiðslu ferðakostnar og ekki takmarkaður við ákveðið margar ferðir á ári. Það er líka hægt að ræða þetta útfrá réttindum sjúklinga til að velja sér lækni en það er önnur umræða.

Fólk á heldur ekki að þurfa að rífa sig upp með fjölskylduna til að vera nær læknishjálp af því að það er búið að hola að innan heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni. Það er ekki þannig sem við höldum landinu í byggð.

Gott dæmi um þá heilbrigðisþjónustu sem hefur verið færð á færri hendur eru fæðingar. Hér á árum áður gátu konur fætt á mörgum stöðum á landinu, þar voru ljósmæður til staðar og öll aðstaða. Í dag er þetta ekki hægt og þess vegna þurfa fæðandi konur og makar þeirra að leggja í ferðalög á öllum árstímum til að sækja þessa sjálfsögðu þjónustu.

Enduruppbygging heilbrigðiskerfisins er forgangsatriði, í þeirri uppbyggingu þarf að huga sérstaklega að landsbyggðinni og tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem næst heimabyggð.

Sumt er ekki mælt í peningum eins og stuðningur fjölskyldu og vina í gegnum erfið veikindi. Ein forsenda þess að geta nýtt þennan stuðning er að vera sem næst fólkinu sínu og það ættu að vera sjálfsögð mannréttindi sjúklinga. Það á ekki að flytja gamlar konur frá Patreksfirði til Ísafjarðar án þess að spyrja kóng eða prest svo við tökum nýlegt dæmi. Hvað þá að vísa fólki sem kemur á bráðadeild til rúms í bílageymslum.

Kerfið á vinna með okkur en ekki á móti!

Posted in Uncategorized

Öfgar

Öfgar eru alltaf slæmar. Ekki bara þegar maður aðhyllist rangan málstað heldur líka þegar maður aðhyllist réttan. Allir öfgamenn réttlæta öfgar sínar á þeim forsendum að þeir hafi svo hrikalega rétt fyrir sér. Það má vel vera að þeir hafi rétt fyrir sér en það réttlætir ekki öfgar, ekki í neinum málaflokki.

Það er líka mikill en algengur ósiður að gera öðrum sjálfkrafa upp öfgar fyrir tiltekna merkimiða. Tvö dæmin sem koma helst til hugar eru “femínisti” og “frjálshyggjumaður”. Það að einhver sé femínisti og telji ennþá halla á konur í samfélaginu, þýðir ekki að viðkomandi ætli að höggva útlim af hverjum sem mótmælir kynjakvóta. Það þýðir ekki einu sinni að viðkomandi sé endilega hlynntur kynjakvóta. Það að einhver sé frjálshyggjumaður þýðir ekki heldur að hann ætli að lækka skatta bara á ríkt fólk og gefa skít í alla aðra. Ef þér líður eins og að þegar manneskja kalli sig femínista eða frjálshyggjumann, þá sé viðkomandi sjálfkrafa orðinn öfgamaður eða einfaldlega illa innrætt manneskja, þá eru það þínir eigin fordómar að verkum en ekki öfgar manneskjunnar sem þú dæmir. Jafnvel ef svo vill til að manneskjan sé líka fyrir heppilega tilviljun óttalegur vitleysingur.

Það getur verið erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað séu öfgar og hvað ekki, helst þá vegna þess að hugtakið gerir ráð fyrir því að það sé til eitthvert norm, sem er ekki endilega tilfellið. Sömuleiðis getur verið þörf á harðri baráttu, róttækum aðgerðum eða staðfestu sem jaðrar við þrjósku, sem einfaldar ekki spurninguna heldur.

En ég hef heyrt af tveimur áhugaverðum skilgreiningum á öfgum í gegnum tíðina sem mig langar að deila með lesendum, aðallega til umhugsunar frekar en sem nákvæm úttekt á þýðingu orðsins.

Ein er sú að með öfgum hafi málstaður tilhneigingu til að snúast upp í andhverfu sína. Nærtækt dæmi þurfti ég að eiga við sjálfan mig frekar nýlega, sem var afnám við banni á guðlasti. Frá táningsaldri hef ég kvartað undan því að tjáningarfrelsið sé í molum á Íslandi. Hin algera sönnun þess, var þar til nýlega bann við guðlasti (125. gr. laga 19/1940, hæstaréttarmál 16/1983). Pírötum tókst að afnema þetta fáránlega bann sumarið 2015 og núna má loksins löglega gera létt grín að trúarbrögðum á Íslandi.

En vegna þess að bann við guðlasti hefur alltaf verið skýrasta röksemdafærslan fyrir því að hér ríki ekki raunverulegt tjáningarfrelsi, þá gat verið freistandi að leyfa banninu að standa, til að létta ekki á þrýstingnum á umbætur í tjáningarfrelsismálum: Að það myndi minnka þrýstinginn á meiri umbætur að samþykkja smávægilegar umbætur sem ekki næðu langtíma markmiðinu. Að skref í rétta átt myndi fyrirbyggja fleiri.

En þá hefði baráttan snúist upp í andhverfu sína, og Píratar hefðu orðið ein stærsta hindrunin til umbóta í tjáningarfrelsismálum. Ef við hefðum harðneitað að afnema bann við guðlasti ef ekki væri gengið alla leið og gjörvallur málaflokkurinn lagaður á einu bretti, þá hefðum við beinlínis staðið í vegi fyrir auknu tjáningarfrelsi. Í því felst mótsögn öfganna: Að frekar skuli taka versta kostinn en þann næstskásta, af ótta við að aðrir sjái ekki lengur tilganginn með baráttunni. Sá ótti er ekki bara órökréttur, heldur beinlínis skaðlegur baráttunni sjálfri.

Hin skilgreiningin á öfgum er einnig áhugaverð en kannski erfiðari að nota sem viðmið. Hún er sú að skoðun eða barátta sé komin út í öfgar þegar það er orðið erfitt að rægja hana með ýkjum. Það er stundum hægt að gera grín að hugmyndum með því að ýkja þær stórlega og felst grínið þá í absúrdismanum sem fylgir. En þegar grínið sést ekki vegna þess að absúrdisminn passar einfaldlega of vel við það sem gert er grín að, þá má gera ráð fyrir því að um öfgar sé að ræða. Þarna er þó engin skýr lína.

Jafnvel með svona skilgreiningar að vopni er erfitt að tilgreina með einhverjum hlutlausum hætti hvað séu öfgar og hvað ekki. En ég hygg að það sé best að maður leiti að þeim í sjálfum sér fyrst, áður en maður leitar að þeim í öðrum. Náttúran hefur nefnilega gefið okkur aðdáunarvert úthald til að dæma aðra, en hinsvegar litla sem enga hæfileika til sjálfsskoðunar. Þannig að dómur manns verður sjálfsagt fljótt öfgakenndur ef maður fjarlægir ekki bjálkann úr eigin auga fyrst. Og stundum þarf ekki nema flís til að hann sjáist ekki.

Posted in Uncategorized

Þjóðaratkvæðagreiðslur ráðamanna

Vegna fréttar: Sigmundur Davíð reiðubúinn í þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna

Krafan um beint lýðræði í formi þjóðaratkvæðagreiðslna er krafa um að efla aðhald almennings að ráðamönnum. Þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru einungis haldnar að frumkvæði ráðamanna geta hinsvegar aldrei orðið að slíku aðhaldi, heldur fyrst og fremst að pólitísku vopni ráðamanna sjálfra til þess að búa til pólitískan þrýsting sjálfum sér til stuðnings.

Það er ekki aukaatriði, heldur lykilatriði, að frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um mál á Alþingi komi frá þjóðinni en ekki ráðamönnum sjálfum. Ekki einn einasti einræðisherra er á móti þjóðaratkvæðagreiðslum svo lengi sem hann getur sjálfur ákveðið hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvenær.

Það er því ekki stigsmunur heldur eðlismunur á þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði þjóðar annarsvegar og að frumkvæði ráðamanna hinsvegar. Hið fyrra eru lýðræðisumbætur, hið síðara pólitískt vopn handa ráðamönnum. Lýðræðislegir ferlar eru ekki til þess að ráðamenn geti notað þá til að afla sér vinsælda heldur til þess að þjóðin sjálf geti ýmist tekið fyrir hendurnar á Alþingi eða knúið það til að fjalla um tiltekin mál.

Það er ennfremur mikilvægt að lýðræðislegir ferlar séu skýrir, formlegir, lögfestir og fyrirsjáanlegir. Þjóðin á að geta vitað fyrirfram hvaða leiðir hún hefur til að hafa áhrif á það hvaða mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru ekki lýðræðisumbætur að þjóðin fái góðfúslega að tjá skoðanir sínar formlega í opinberri skoðanakönnun þegar það hentar ráðamönnum um einstaka fullyrðingar eða spurningar sem stjórnmálamenn þurfa síðan að leggja pólitískt mat á eftirá. Það sem þarf er að lýðræðisferlarnir sjálfir, sem eru í grunninn tilgreindir í stjórnarskrá, setji ákvörðunina um þjóðaratkvæðagreiðslur í hendur fólksins sjálfs og að slíkar ákvarðanir séu ekki bara raunhæfar, heldur niðurstaðan einnig bindandi.

En þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki markmið í sjálfu sér, heldur tæki til að valdefla þjóðina gegn valdhöfum. Það eru ekki lýðræðisumbætur að ráðamenn leggi fram spurningar að eigin vali og að eigin frumkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að það valdeflir fyrst og fremst ráðamenn sjálfa. Það er til dæmis nákvæmlega ekki neitt sem kallar á hugmynd forsætisráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna; nærri lagi væri að leggja tillöguna fram yfirhöfuð og svo gæti þjóðin kosið um hana ef hún sjálf kærði sig um það – en það á þá að vera að kröfu þjóðarinnar, ekki forsætisráðherra. (Svo er hitt að forsætisráðherra hefur forðast umræðu um verðtrygginguna á Alþingi eins og heitan eldinn og skiljanlega, en það er önnur saga.)

Það er ágætt að forsætisráðherra segist hlynntur því að þjóðin hafi meiri rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum, en það verður líka að segjast eins og er, að sá málflutningur minnir óneitanlega á málflutning hans í sambandi við Evrópusambands-viðræðurnar fyrir kosningar. Ég hef nefnilega aldrei heyrt stjórnmálamann segjast vera á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, svo lengi sem þær annaðhvort eigi sér ekki stað eða skipti ekki máli.

Posted in Uncategorized