Einar Brynjólfsson

einarbNafn, aldur og fjölskyldustaða?

Ég heiti Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, fæddur á Akureyri 26.október 1968, kvæntur Helgu Hákonardóttur, hjúkrunarfræðingi á Dvalarheimilinu Hlíð. Við eigum þrjú börn og eitt barnabarn hefur boðað komu sína.

Uppruni og áhugamál?

Ég er fæddur á Akureyri og hef búið þar alla tíð, ef undan eru skilin níu ár (átta ár í Þýskalandi og eitt ár á Sauðárkróki). Foreldrar mínir voru Brynjólfur Jónsson frá Rauðhúsum í Saurbæjarhreppi og Guðný Halldóra Árelíusdóttir frá Geldingsá á Svalbarðsströnd.

Ég er mikill bókaormur og áhugamaður um þjóðmál í víðum skilningi, sérstaklega sögu og stjórnmál. Ég hef stundað útivist og ferðalög til margra ára, t.d. verið fararstjóri fyrir Ferðarfélag Akureyrar. Ég fylgist með íþróttum þegar tími gefst, sérstaklega knattspyrnu.

Hver er menntun þín og starfsreynsla?

Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri stundaði ég nám í sagnfræði og þýsku/norrænum fræðum við háskólana í Trier og í Göttingen í Þýskalandi. Því námi lauk ég með Magister Artium prófi 1997. Á árunum 1997 og 1998 stundaði ég doktorsnám við norrænudeild háskólans í Göttingen. Árið 2014 tók ég upp þráðinn í því námi að nýju.

Veturinn 1999-2000 stundaði ég nám í kennslufræðum við Háskólann á Akureyri og hlaut að því námi loknu réttindi til að starfa sem framhaldsskólakennari. Auk þess stundaði ég nám í íslensku í fjarnámi frá Háskóla Íslands samhliða starfi mínu um nokkurt skeið.

Frá hausti 1998 hef ég starfað sem framhaldsskólakennari, fyrst við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, svo við Verkmenntaskólann á Akureyri og síðustu sex ár við Menntaskólann á Akureyri. Ég hef kennt sögu, þýsku, íslensku, aðferðafræði, stjórnmálafræði og lífsleikni við þessa skóla. Auk þess hef ég sinnt stundakennslu við norrænudeild háskólans í Göttingen og við kennaradeild Háskólans á Akureyri, unnið við prófarkalestur texta á íslensku og þýsku og verið ritstjóri Súlna, tímarits Sögufélags Eyfirðinga.

Ég hef sinnt ýmsum trúnaðar- og stjórnunarstörfum. Ég var trúnaðarmaður kennara og deildarstjóri íslenskudeildar VMA um skeið og síðustu fjögur ár hef ég verið fagstjóri félagsgreina, sögu og heimspeki við MA.

Ég hef í gegnum tíðina unnið margvísleg störf sem ekki tengjast menntun minni. Ég hef unnið í frystihúsi, á vinnuvélum og við dagskrárgerð á útvarpsstöð. Ég hef líka unnið sem vörubílstjóri, flutningabílstjóri og rútubílstjóri, auk þess sem ég hef starfað sem leiðsögumaður.

Hverja telur þú vera helstu kosti þína og galla?

Helstu kosti mína tel ég vera dugnað, þrautseigju og hæfni í mannlegum samskiptum. Ég geng aldrei frá ókláruðu verki og get skilað miklum afköstum. Mér hefur alltaf gengið vel að vinna með fólki enda reynir á þann eiginleika dag hvern í starfi mínu með ungu fólki í Menntaskólanum á Akureyri, sem og í samskiptum við samkennara mína og stjórnendur. Aðrir eru aðrir betur fallnir til að benda á galla mína.

Af hverju viltu bjóða þig fram fyrir hönd Pírata?

Lífs- og starfsreynsla mín og menntun hefur gert mig að Pírata. Í starfi mínu fjalla ég um samfélög fyrr og nú og hugmyndakerfi þeirra, sem oftar en ekki hafa gengið út á frelsissviptingu, kúgun og annan níðingshátt stjórnvalda í garð alþýðu. Ég hef sem forfallinn áhugamaður um stjórnmál fylgst með öfgum og úrkynjun stjórnmálanna undanfarna áratugi. Þessi reynsla hefur sannfært mig æ betur um nauðsyn þess að berjast fyrir bættum stjórnarháttum og gegnsæi í öllum stjórnvaldsaðgerðum til að auðvelda almenningi og fjölmiðlum gagnrýni og eftirlit. Það verður gert með því að opna stjórnsýsluna og gera gögn aðgengileg.

Við þurfum að jafna leikinn með því að gefa auðmönnum frí frá störfum á Alþingi. Við skulum gera þá kröfu að allir landsmenn séu með eignir sínar í íslensku hagkerfi og leggi sitt af mörkum til samfélagsins.

Fulltrúalýðræðið þarf að bæta. Eins og staðan er núna, sækja fulltrúar atkvæði sín til almennings en þiggja vald sitt ofan frá, frá hinum ýmsu hagsmunasamtökum og klíkum sem óþarft er að nefna, líkt og konungar fyrr á öldum sem þóttust fá vald sitt frá guði. Almenningur þarf að sækja þessi völd. Hann þarf að fá aðgang að öllum upplýsingum og síðast en ekki síst, að fá að greiða atkvæði um stóru málin. Stjórnvöld eiga nefnilega að vinna fyrir almenning og með almenningi í landinu.  Íslendingar standa á mikilvægum tímamótum. Núna bendir flest til þess að þjóðin hafi fengið nóg af þjóðfélagsástandinu og vilji gagngerar breytingar. Ég vil leggja mitt af mörkum til þessar breytingar nái fram að ganga. Þess vegna vil ég bjóða mig fram fyrir hönd Pírata?

Hve lengi hefur þú verið Pírati og hefur þú starfað eitthvað innan flokksins?

Ég gekk formlega til liðs við Pírata í janúar á þessu ári. Á aðalfundi Pírata á Norðausturlandi, þann 12. mars, var ég kosinn í stjórn og hef gegnt embætti meðstjórnanda síðan þá. Mér hefur hlotnast sá heiður að taka þátt í því öfluga starfi sem Píratar standa fyrir, m.a. með framsöguerindi um stjórnarskrármál á fjölsóttum fundi í apríl sl. Þann 5. júní vék ég tímabundið úr stjórninni, líkt og aðrir stjórnarmenn sem taka þátt í prófkjöri í kjördæminu.

Hverju viltu áorka sem frambjóðandi Pírata í Norðausturkjördæmi og hverjar eru þínar áherslur?

Hér er af ansi mörgu að taka. Mínar áherslur er ekki sértækar fyrir þetta kjördæmi sem slíkar, heldur á landsvísu og koma sér vel fyrir öll kjördæmi. Hér koma þær helstu:

Stjórnarskrá
Fyrst vil ég nefna tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Það er einstakt í heiminum að almenningur í einu landi semji sína eigin stjórnarskrá. Reglan hefur verið sú að stjórnarskráin komi „ofan frá“, þ.e. frá stjórnvöldum. Stjórnarskráin er í raun safn þeirra leikreglna sem gilda skulu í þjóðfélaginu og nú hefur almenningur sett leikreglurnar sjálfur, ekki stjórnvöld. Helsti efnahagslegi ávinningur nýrrar stjórnarskrár snýr að 34. grein en hún fjallar um að auðlindir megi nota „gegn fullu gjaldi og til tiltekins tíma“. Það myndi þýða að tekjur ríkissjóðs myndu aukast mikið, sem gæfi færi á styrkingu innviða, ekki síst mennta- og heilbrigðiskerfis alls staðar á landinu, líka í Norðausturkjördæmi.

Menntamál
Menntamál eru mér hugleikin, enda búinn að starfa lengi í þeim geira. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að núverandi stjórnvöld hafa framið einhver mestu skemmdarverk á menntakerfinu sem sögur fara af. Þau hafa skert bóknám í framhaldsskólum um 20-25%, auk þess sem fjárveitingar til framhaldsskólanna hafa verið skornar svo mikið niður að skólarnir ramba á barmi gjaldþrots, eins og í dæmi Verkmenntaskólans á Akureyri. Fjárveitingar fyrir nemendur sem eru eldri en 25 ára hafa einnig verið skornar niður. Afleiðingin er sú að unga fólkið okkar kemur verr undirbúið í háskólana en áður.

Háskólanám verður þar af leiðandi erfiðari hjalli en nú verið hefur þannig að nemendur gætu í mörgum tilfellum þurft að brúa bilið með einhvers konar aðfararnámi, sem yrði á þeirra kostnað. Jafnrétti til náms, eða hvað?

Ég get ekki láti hjá líða að minnast á alvarlegustu atlögu sem gerð hefur verið að íslensku námsfólki er fólgin í frumvarpi Illuga Gunnarssonar um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með frumvarpinu er vegið mjög að jöfnuði til náms eins og sýnt hefur verið fram á. Þetta frumvarp verður að stöðva.

Framtíð iðnnáms er mér mikið áhyggjuefni, en yfirvöld menntamála hafa sýnt því lítinn áhuga, svo skömm er að. Eina þróunin sem sýnileg er á þeim vettvangi er í átt til einkavæðingar og sparnaðar sem leiðir til minni gæða. Það sést á því að stjórnvöld hyggjast leyfa fyrirtækjum að skipa svokallaðan „iðnmentor“ til að hafa umsjón með iðnnemum á vinnustöðunum í stað iðnmeistara. Sá grunur læðist að mér að markmiðið sé að leggja niður meistarakerfið, þrátt fyrir varnaðarorð skólameistara og iðnmeistara.

Í Norðausturkjördæmi eru starfræktir 7 framhaldsskólar sem búa flestir eða allir við bágan fjárhag. Það eru svosem engar sérstakar fréttir, því miður. Ég vil stuðla að því að fjárveitingar til allra framhaldsskóla á landinu verði auknar.

Heilbrigðismál
Heilbrigðismál vil ég nefna næst en auka þarf fjárveitingar til þessa málaflokks. Öflug heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni er mér mikið hjartans mál, enda ótækt að fólk hafi ekki greiðan aðgang almennri heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Ég geri mér grein fyrir því að ekki er hægt að bjóða upp á mjög sérhæfða heilbrigðisþjónustu alls staðar á landinu, en í slíkum tilfellum ber ríkinu að styðja vel við fólk sem verður að sækja svoleiðis þjónustu um langan veg.

Ferðaþjónusta og náttúruvernd
Þessu næst vil ég nefna náttúruvernd og ferðaþjónustu en þau mál er ekki hægt að aðskilja.  Öllum er ljóst að innviðir landsins eru ekki í stakk búnir til að taka við þeim mikla fjölda ferðamanna sem hingað sækir. Við þurfum að veita miklu fé til vegagerðar, til framkvæmda við þær fjölmörgu náttúruperlur sem verða fyrir gríðarlegum ágangi ferðamanna og til að koma upp viðunandi salernisaðstöðu um landið. Síðast en ekki síst þurfum við að dreifa álaginu sem hlýst
af þessum fjölda ferðafólks með því að beina því meira um landið, t.d. með því að efla flugvellina á Egilsstöðum og á Akureyri.

Ferðaþjónusta þarf augljóslega einhvern stuðning næstu misserin en ætti að geta orðið sjálfbær atvinnugrein fyrr en síðar. Náttúrupassi eða skilvirkara gistináttagjald, sem mér líst best á, gæti staðið undir hluta af þessum auknu útgjöldum sem ég boða.

Náttúruvernd má ekki gleymast. Íslendingar verða að stíga varlega til jarðar í tengslum við virkjanir í framtíðinni, sérstaklega ef þær eiga að þjóna stóriðjunni. Dæmin sanna nefnilega að stóriðjan, sem vissulega skilar miklum tekjum í þjóðarbúið, beitir bellibrögðum til að sleppa við hluta af skattgreiðslum. Það er líka alveg ljóst að ferðfólk sem hingað kemur, hefur mestan áhuga á ósnortinni náttúru, ekki stórum miðlunarlónum eða viðlíka mannvirkjum.

Sjávarútvegur
Það ætti engum að dyljast að Íslendingar hafa misst takið á auðlindum sjávar í hendur fámenns hóps útgerðarmanna og –kvenna sem svífst einskis til að halda fengnum hlut. Umræddur hópur heldur úti rándýru áróðursriti, Morgunblaðinu, styrkir suma stjórnmálaflokka mjög rausnarlega og einstaka þingmenn einnig. Ofsagróði útgerðarinnar, sem mælist í hundruðum milljarða á hverju ári, fer í vasa þessarar fámennu klíku. Af borðum klíkunnar falla brauðmolar til almúgans
í formi styrkja til íþróttafélaga o.s.frv.

Þessi klíka á sér líka dökka hlið eins og kom í ljós þegar hún hótaði að leggja niður heilu og hálfu bæjarfélögin, en það var þegar mestöllum fiskiskipaflotanum var stefnt til hafnar í Reykjavík fyrir nokkrum árum til að mótmæla auðlindagjaldi.
Auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár mun gera okkur kleift að fá auðlindirnar í okkur hendur. Þá skulum við gera gagngerar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, breytingar sem ættu að koma hinum dreifðu byggðum til góða, sem og landsmönnum öllum.

Landbúnaður
Ég er sannfærður, eftir átta ára búsetu í útlöndum, að íslenskar landbúnaðarafurðir séu einstaklega vandaðar. Þær eru hins vegar ansi dýru verði keyptar. Styrkjafyrirkomulag og fákeppni er íslenskum bændum jafnt sem neytendum til trafala. Einokun í mjólkuriðnaði og misheppnaðir tollkvótar á innfluttar landbúnaðarafurðir þýða óeðlilega hátt verð til neytenda og kemur bændum í koll, svo dæmi sé tekið. Það er alveg ljóst að aukin samkeppni í landbúnaði kemur neytendum til góða og styrkir íslenska bændur sem reka bú sín af dugnaði og ráðdeild.

Hefur þú hagsmunatengsla að gæta sem gætu haft áhrif á stöðu þína sem frambjóðandi eða þingmaður?

Ásamt eiginkonu minni á ég blokkaríbúð við Skálateig 3 á Akureyri, fjórðungshlut í gömlum sumarbústað, tvær Skoda-bifreiðar, aðra mjög gamla, og fellihýsi. Ég á engar eignir í hlutabréfum, fyrirtækjum, tólum eða tækjum, sem gætu gefið söluhagnað eða arð. Eins og ansi margir Íslendingar skulda ég námslán, sem ég mun borga af meðan ævin endist. Svarið við spurningunni hlýtur því að vera neikvætt.

Annað sem þú villt koma á framfæri?

Ég er svo sannarlega reiðubúinn að takast á við þá stóru áskorun að setjast á þing til að starfa að bættum hag almennings, með stefnu Pírata að leiðarljósi. Eins og fram kemur hér að ofan, hef ég víðtæka starfsreynslu, bæði af verkamannastörfum og á sviði kennslu og fræða. Sú reynsla hefur opnað mér sýn á veruleika mismunandi þjóðfélagshópa. Ég er kominn af heiðarlegu verkafólki, sem skilaði sínum skerf til þjóðfélagsins, þannig að ég get fullyrt að ég hafi ekki fæðst með silfurskeið í munni, líkt og ansi margir ráðamenn þjóðarinnar hingað til.  Starf mitt sem framhaldsskólakennari hefur verið mjög gefandi, enda snýst það um samskipti við ungt fólk, sem er án efa stærsti kjósendahópur Pírata. Ég hef kennt milli fimm og sex þúsund nemendum á ferlinum, auk þess að kynnast miklu fleiri. Ég efast ekki um að góð samskipti og tengsl mín við þetta unga fólk og aðstandendur þess muni koma mér og öðrum Pírötum til góða þegar talið verður upp úr kjörkössum í næstu Alþingiskosningum, fari svo að ég fá brautargengi í þessu prófkjöri.