Kristín Pírati bloggar
Beint lýðræði. Yarr! Why are Pirates called Pirates? Because they arrr!
Tyrfum yfir bílastæðin í Reykjavík, bílar til útláns við borgarmörkin í sunnudagsbíltúrana
Categories: Uncategorized

Við þurfum enga bíla í Reykjavík nema farþegaflutningabíla, vöru- og búslóðaflutningabíla og öryggisbíla. Þ.e. almenningsvagna (strætó eða sporvagna), lögreglu,- sjúkra- og slökkvibíla, flutningabíla og bíla fyrir fatlaða. Þetta myndi nánast þurrka út þörfina fyrir bílastæði. Í fljótu bragði sýnist mér að stefna okkar í bílastæðamálum sé ívið nær stefnu Bandaríkjanna en Evrópu, en ég hef þó ekkert haldbært fyrir mér í þessu annað en þessa heimild (sem sýnir ástandið í BNA) og að hafa búið í Evrópu.

Ef við tyrfum yfir megnið af bílastæðum borgarinnar breytist margt til betri vegar. Byggð þéttist, mengun minnkar, það dregur úr streitu og slysum, kostnaður heimila við samgöngur dregst verulega saman, viðhaldskostnaður vega snarminnkar, að ekki sé minnst á kostnað við bílastæðamannvirki sem nánast hverfur. Þess í stað verður hægt að stórbæta almenningssamgöngur og styrkja hjólreiðasamgöngur, samgöngur gangandi fólks og jafnvel líka hestasamgöngur, en hestamenn hafa lengi kallað eftir auknum stuðningi til gerðar hestavega.

Heimspekikennarinn hann mágur minn fékk frábæra hugmynd um daginn. Hún er svona: Tyrfum yfir bílastæðin og komum á einkabílum í almenningseigu sem eru staðsettir við borgarmörkin. Fólk kaupir sér bílakort, sambærilegt við sundkort, menningarkort og bókasafnskort. Þegar það ætlar út á land og rúturnar henta ekki fer það á einn af nokkrum stöðum í borgarjaðrinum þar sem bilar bíða eftir þeim sem vilja skreppa út á land. Þetta fyrirkomulag skapar þó nokkuð mörg störf um stjórnun, eftirlit, viðhald, bílainnkaup og þjónustu.

Enginn verður auðvitað píndur í að nota þessa þjónustu og leggja einkabílnum, að öðru leyti hugsanlega en því að fleiri götum yrði lokað fyrir umferð einkabíla en nú er, til dæmis öllum miðbænum. En þegar stæðin vantar og hin þjónustan stendur til boða er það öflug hvatning til að að nýta sér hana. Svo myndi þetta fyrirkomulag vera vel kynnt og lagt í atkvæðagreiðslu borgarbúa. Aðrir byggðakjarnar fengju þá tækifæri til að kynna sér þetta fyrirkomulag og sjá hvort það hentaði í þeirra byggðalagi, en til þess fengjust ríkisstyrkir.

Í lokin: Við verðum líka að hugsa um framtíðina. Það er gott og nauðsynlegt að geta lifað í núinu með tilliti til þess að njóta lífsins og hafa ekki áhyggjur af eigin komandi þrengingum og andláti. En með tilliti til þess að skapa góðan heim er afspyrnu vitlaust að lifa í núinu. Dóttir mín byrjaði að tala og vinna gegn einkabílisma þegar hún var átta ára ánss að hafa fengið neina hvatningu til þess á heimilinu, þar sem einkabíllinn var í hávegum hafður. Ætlum við virkilega að sitja og gera ekki neitt á meðan krakkarnir skjóta okkur ref fyrir (síbreikkandi) rass? .

Leave a Reply