Lýðræðið er gulls ígildi – nýtum réttinn!

Jæja, þá er fyrstu kosningabaráttunni minni lokið. Á síðustu þremur vikum hef ég keyrt 5000 kílómetra, talað við marga mismunandi einstaklinga, hlegið, fellt tár og fundið hvað neyðin er hræðileg í þjóðfélaginu.

Ég býð mig fram til að fá tækifæri til að breyta stöðu eldriborgara, öryrkja og taka til í heilbrigðiskerfinu ásamt því að hjálpa Pírötum í þeim málum sem oddivitarnir berjast fyrir að hverju sinni, því við höfum öll okkar sérstöðu. Ef mér tekst ætlunarverk mitt og ég get breytt lífi einhverra þá er þessi slagur þess virði og ég ætla mér ekki að gefast upp.

Ég hvet alla til að mæta á kjörstað. Þeir sem treysta okkur Pírötum bið ég að setja X við Þ, aðra hvet ég til að mæta engu að síður því lýðræðislegur réttur okkar er gulls ígildi og hann má ekki vanvirða.

Mín kosningaloforð eru kannski ekki jafn mikilfengleg og stóru flokkana en ég ætla mér að standa við þau: Ég lofa því að berjast fyrir réttindum eldri borgara og öryrkja, ég lofa því að reyna að taka til í heilbrigðiskerfinu og bæta þjónustuna, þar ég lofa því að hlusta á fleiri en bara sérfræðinga þegar ég leita mér upplýsinga og ég lofa að gefast ekki upp.

Komist ég á þing þá verður mitt fyrsta verk að setja upp svæði á vefnum þar sem fólk getur fylgst með störfum mínum, þeim gögnum sem ég hef aflað og öðrum upplýsingum sem þjóðina varðar.

Takk fyrir allt saman!

Hildur Sif Thorarensen oddviti Pírata í NV

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *