Þegar lítill neisti glæðir líf

Það er erfitt að gera sér í hugarlund hversu átakanlegt og niðurrífandi það er að geta ekki eignast börn án hjálpar. Rannsóknir sýna að álagið við baráttuna jafnist á við álagið sem fylgir því að berjast við lífshættulega sjúkdóma. Það er því ekki skrítið að við sem höfum ekki upplifað þessa reynslu á eigin skinni eigum erfitt með að setja okkur í þessi erfiðu spor.

Þegar par stendur frammi fyrir því að þurfa að takast á við ófrjósemi þá tekur við langt og strangt ferli. Konan þarf að sprauta sig með hormónum og fara reglulega í kvennaskoðun svo ekki sé talað um alla vanlíðanina og áhyggjurnar sem ferlinu fylgir. Það er því enginn sem myndi leggja slíkt á sig nema nauðsynlega þurfa á því að halda.

Í dag kostar meðferðin 370-450 þúsund eftir því hvað þarf að gera og fyrsta meðferðin er ekkert niðurgreidd, auk þess bætist við ýmis annar kostnaður eins og lyfja og ferðakostnaður, sem getur hlaupið á tugum þúsunda. Það eru því margir sem ekki geta nýtt sér þessa lausn sökum efnahagslegra aðstæðna. Heildarkostnaður við tæknifrjóvganir á árinu 2011 voru rúmlega 145 milljónir en þar af greiddu sjúklingar um 83 milljónir sjálfir. Á öllum Norðurlöndunum tekur ríkið að jafnaði þátt í eða niðurgreiðir alveg þrjár frjósemismeðferðir á hvert par. Það er því merkilegt að stjórnvöld á Íslandi hafi sett það fyrir sig að borga 100 milljónir á ári fyrir svo mikilvæga þjónustu þegar til samanburðar má nefna að Þjóðleikhúsið kostar 700 milljónir árið 2013 og rekstur Ríkisútvarpsins 3,2 milljarða.

Það sem gleymist jafnan að nefna í þessu samhengi er að fjárhagsáhyggjur geta valdið streitu sem minnka líkur á þungun og eykur líkur á fósturláti. Árangurslausar meðferðir  og ítrekað fósturlát ásamt aukinni streitu auka líkur á andlegri vanlíðan með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Þar að auki geta fjárhagsáhyggjur ofan í erfiðleika við getnað leitt til hjónaskilnaða og kostnaðar fyrir félagslega kerfið. Ofan á þetta erum við að tala um skattborgara framtíðarinnar svo þetta litla framlag ríkisins mun vera greitt mörgum sinnum til baka.

Ég á erfitt með að átta mig á því hvers vegna það hefur verið tregða í íslenska kerfinu varðandi niðurgreiðslu á frjósemisaðgerðum og tel raunar ástæðuna vera skort á upplýsingum. Við megum ekki detta í það far að horfa einvörðungu á kostnaðinn við eitthvað en gleyma ábatanum. Við megum ekki gleyma að hamingjusamt þjóðfélag er líklegra til að stuðla að auknum hagvexti en óhamingjusamt. Það er þess vegna sem við Píratar ætlum að beita okkur í þessu máli og koma því í gegn á komandi þingi að a.m.k. þrjár meðferðir, sem leiða til uppsetningar fósturvísis, verði fríar fyrir par eða einstæða konu óháð fyrri barneignum, óháð kynjasamsetningu parsins og óháð búsetu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *