Ég kvíði því að eldast

Ég var svo heppin að alast upp hjá ömmu minni. Amma er bóndakona af Hrauni á Skaga sem vann sem vinnukona um sveitirnar frá Skagafirði að Borgarnesi og seinna sem póstburðarkona í Reykjavík. Hún er harðdugleg, gefst aldrei upp þótt á móti blási og tekur lífinu með bros á vör. Amma er fyrirmyndin mín.

Ég kalla það heppni að hafa fengið tækifæri til að umgangast eldra fólk þegar ég var barn því í dag er það ekki sjálfgefið og sjaldgæfara en hitt. Viðhorfið gagnvart eldra fólki er neikvætt, svo neikvætt að stundum finnst mér eins og við bíðum eftir því að það fari yfir móðuna miklu því þangað til er það hreinlega fyrir okkur. Við heyrum talað illa um gamlan karl með hatt í umferðinni eða konu sem telur klinkið sitt á kassanum Bónus. Skilningurinn og umburðarlyndið er ekkert og þetta virðingarleysi hefur smitast út í stjórnsýsluna og kemur þar fram í bótaskerðingu og réttleysi.

Kjör eldri borgara versna ár frá ári og þjóðfélagið stuðlar að einangrun og útskúfun. Eldri borgarar hitta sjaldnast yngra fólk nema þá sem starfsmenn á dvalarheimilum eða náskylda ættingja. Öllum brögðum er beitt til að auka á óréttlætið, tekjutenging við bæturnar gerir það að verkum að fólk sem vill vinna getur ekki gert það með góðu móti og hættir því að sjást í þjóðfélaginu. Ríkisstarfsmönnum eftir 70 ára er bannað að vinna nema þeir séu alþingismenn, ráðherrar eða forsetinn því sá hópur er auðvitað öðrum æðri. Æskudýrkunin er orðin svo mikil að fólk eftir fimmtugt á í vandræðum með að fá vinnu aftur missi það hana. Ástandið er hræðilegt og fáir virðast láta það sig varða.

Árið 2005 skrifaði ég ritgerð sem ber nafnið Ofbeldi gegn öldruðum þar sem ég tala meðal annars um þjóðfélagslegt ofbeldi gegn eldri borgurum. Það eru 8 ár síðan og þá var engin kreppa, engar yfirgnæfandi þjóðarskuldir en samt voru kjör þessa hóps mjög slæm og margir lifðu við sára fátækt og höfðu ekki efni á að bíta og brenna. Við þurfum að fara að horfast í augu við að gengið hefur verið á eldri borgara mikið lengur en við viljum viðurkenna. Við þurfum að horfast í augu við að níðst hefur verið á þessu fólki því við komumst upp með það þar sem það kvartar ekki og sækir ekki rétt sinn. Við þurfum að hætta að eyðileggja framtíð okkar og nútíð fólksins sem lagði grunninn að þjóðfélaginu okkar. Þetta er ekki mannúðlegt, þetta er ekki réttlætanlegt og nú er nóg komið!

Það sorglegasta er að vandamálið hefur ekkert með skort á fjármagni að gera heldur skort á áhuga. Tekjutenging þeirra sem hafa það verst er kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið. Hún stuðlar að einangrun sem veldur veikindum og kostnaði fyrir heilbrigðis og félagslega kerfið. Hún kemur í veg fyrir að fólk sem langar að vinna vinni og skili tekjuskatti en ef það vinnur þá er eina leiðin að vinna svart.  Fátækt er rándýr fyrir þjóðfélagið. Króna á móti krónu segja þeir og telja það í lagi. Aldraðir hafa það ágætt segja þeir og hafa aldrei lifað við skort.

Ég get ekki lofað árangri en ég mun reyna. Ég get ekki lofað áhuga annarra en ég mun vera ákveðin og beita rökum. Ég get ekki lofað að ég mæti ekki mótspyrnu en ég mun ekki gefast upp. Þetta er mér hjartans mál og það hefur ekkert með þessar kosningar að gera. Ég vona að þessi hugleiðing mín veki upp reiði hjá fleira fólki en mér og við sjáum betri tíð á komandi árum.

Takk fyrir mig.

2 thoughts on “Ég kvíði því að eldast

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *