Af réttindum og dópi

Varðandi frétt:
Lögreglan gagnrýnd fyrir líkamsleit – „Leitir lögreglu eru byggðar á grun“

Það gleður mig að leitir lögreglunnar á blásaklausu fólki fái almennilega fréttaumfjöllun. Þessi mál eru ekki í lagi á Íslandi.

Ef ég skildi Stefán Eiríksson rétt á opnum fundi okkar á sínum tíma, þá eru leitirnar samt ekki beinlínis byggðar á grun heldur virkar þetta svona:

* Lögregla má einungis leita á manneskju með samþykki þess sem hún ætlar að leita á, eða dómsúrskurði. Hljómar vel! Rosa siðmenntað og frjálslynt, lýðræðislegt og gott.

* Lögregla má hinsvegar hefja rannsókn, þ.á.m. með handtöku með því einu að hafa svokallaðan „grun“, en það er líklega með veikari hugtökum þeirrar lögfræði sem þetta varðar. Athugið að það þarf ekki að vera „rökstuddur grunur“, sem er annað fyrirbæri, heldur eingöngu „grunur“, án rökstuðnings. Lögreglan þarf ekki að geta útskýrt með orðum hvers vegna hana grunar eitthvað. Lögreglumanni þarf einvörðungu að detta það í hug að maður hafi brotið eitthvað af sér til að „hefja rannsókn“, sem í þessum tilfellum hefst með handtöku. Þannig að ef einstaklingur þekkir réttindi sín og neitar leit, þá einfaldlega grunar lögreglan hann um að hafa eitthvað að fela, og handtekur. Þá er væntanlega farið niður á stöð og fenginn dómsúrskurður og krakkaskrattanum kennt að vera ekki með „einhverja vitleysu“ eins og viðlíka stjórnarskrárvarin mannréttindi eru jafnan kölluð ef þau ganga svo langt að þvælast fyrir yfirvöldum, sem er reyndar einmitt tilgangur þeirra, ef út í það er farið.

Ef fólk er öðru fólki ógn, þá er rökrétt að lögreglan hafi heimild til að handtaka það, en í fyrsta lagi er það ekki það sem hér er gagnrýnt og í öðru lagi eru slíkar heimildir óháðar því hvort fólk sé með vímuefni á sér eða ekki. Stjórnarskráin heimilar sérstaklega takmörkun á friðhelgi einkalífsins „ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra“. Líkamsleitir lögreglunnar byggja hinsvegar ekki á réttindum annarra, heldur á þeim grátlega galla í framkvæmd laganna, að ef einstaklingur nýtir stjórnarskrárvarin réttindi sín, þá er það eitt og sér nóg til þess að heimila handtöku vegna þess að þá hlýtur hann nú aldeilis að hafa eitthvað að fela.

Samhengi aðstæðnanna er einnig mikilvægt. Þegar löggan ætlar að leita á einhverjum á svona tónleikum, jafnvel ef það er bara af handahófi, eða vegna þess að viðkomandi tilheyrir hópi sem löggan telur líklegri en aðra til að vera með ólögleg vímu- eða fíkniefni, þá er val fórnarlambsins þetta: eyðileggja tónleikana sem er búið að borga fyrir og jafnvel hlakka heilmikið til, eða heimila leit lögreglunnar án raunverulegs samþykkis og án dómsúrskurðar. Þetta atriði á síðan alveg jafn mikið við á öðrum vettvangi; fólk er almennt með aðra og merkilegri hluti á dagskránni en að hangsa á lögreglustöð án þess að hafa hugmynd um hvenær það fái að fara í friði.

Af þessu leiðir að þótt að samkvæmt kenningunni megi lögreglan alls, alls ekki leita á fólki af handahófi eftir geðþótta (af því að það væri svo fasískt, athugið), þá er reyndin sú að hún má það bara víst og gerir nákvæmlega það.

Og það er bara fjandakornið alls ekkert í lagi!

Að láta það, sem skiptir ekki máli, eiga sig.

Nú hef ég engan áhuga á því að vanvirða íslenska fánann. Mér finnst hann fallegur og ég fyllist þessari sömu frumstæðu þjóðernistilfinningu og hver annar þegar ég sé hann stríða við regnið með vindinn að vopni. Mitt innra nörd hefur meira að segja lúmskt gaman af öllum þessum kjánalegu reglum í kringum hann, eins og hvernig eigi að brjóta hann saman, að maður verði að gera eitt og megi alls ekki gera annað.

En ég get ekki að því gert að finnast slíkar hefðir kjánalegar í landslögum. Ef þessi eða hin meðhöndlun fánans er svona ægilega mikilvæg, þá finnur fólk sig væntanlega sjálft knúið til þess að meðhöndla hann svona eða hinsegin. Að öðrum kosti hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að þessar hefðir hreinlega skipti ekki jafn miklu máli og menn vilja meina.

Ég skil alveg stolt, sko. Því miður er ég sjálfur þjáður af þeim mikla kvilla enda jafn breiskur og restin af liðinu sem byggir þetta land. En ég skil ekki hvaðan fólk fær þessa hjátrúarfullu flugu í höfuðið að stoltið sé tilfinning sem beri að vernda með landslögum. Af stolti höfum við meir en góðu hófi gegnir. Kannski hafa Íslendingar bara gott af því að stoltið sé sært af og til, og hvað særir frumstætt stoltið betur en að setja táknmyndir eins og þjóðfánann í samhengi við raunveruleikann, svosem með því að nýta hann í nærbrækur, nú, eða tusku?

Ekkert mál, ég skil að þetta móðgi.

Það sem ég skil hinsvegar ekki, er hvernig mönnum getur raunverulega, í alvörunni, fundist það „alvarlegt“. Kannski þarf bara einhver að benda á nakta keisarann í þessum efnum, en sannleikurinn er sá, sætur eða sár, að það skiptir nákvæmlega engu máli þótt fáninn sé vanvirtur. Það dregur okkur hvorki nær Danakonungi né fjær íslenskri tungu. Það hefur engin áhrif á nokkurn skapaðan hlut, fyrir utan það fólk sem hefur fyrirfram ákveðið að verði fáninn vanvirtur, þá verði það móðgað. Jæja, þá má fólk bara fjandakornið vera móðgað. Það má grenja sér stórfljót ef það endilega vill, en þannig hegðun breytir ekki tittlingaskít í eitthvað sem skiptir máli.

Þjóðfáninn er ekki „heilagur“. Það er ekki „alvarlegt“ að hann sé vanvirtur og ekki „mikilvægt“ að til staðar séu lög sem segja til um hvar og hvenær megi nota hann. Næstum því allt sem nokkur manneskja gerir í sínu lífi er mikilvægara og merkilegra en það hvernig fólk fer með íslenska fánann. Keisarinn er nakinn. Þetta er hjátrú. Þetta skiptir ekki máli.

(Þessi viðurstyggilega skoðun var í boði 73. gr. laga nr. 33/1944.)

Morðhótanir tilheyra ekki tjáningarfrelsi

Varðandi frétt: Salman Tamimi kærir hatursfull ummæli

Tjáningarfrelsið er sérstaklega hugsað til þess að vernda skoðanir sem þjóðfélagið er á móti og telur viðbjóðslegar, svosem trúleysi í kristnu samfélagi, Islam í trúlausu samfélagi og kristni i í islömsku samfélagi. Fólk hefur EKKI rétt á því að vera ekki móðgað eða tilfinningalega sært. Það hefur engan rétt til að hafa „skoðanir sínar í friði“ fyrir öðrum skoðunum og engan rétt til þess að þagga niður í þeim skoðunum sem þeir eru ósáttir við, sama hversu heimskulegar og ljótar þær eru.

Það er vegna þess að við höfum ekki réttinn til að vera ekki móðguð eða særð.

En við höfum rétt til friðhelgi einkalífs. Við höfum einnig rétt á sanngjörnum réttarhöldum og við höfum rétt til öryggis.

Þess vegna hef ég t.d. ekki viljað lögleiða dreifingu á persónugögnum um aðra. Né hef ég viljað afnema heimild dómstóla til að krefjast lögbanns til þess að vernda rannsóknarhagsmuni. Né hef ég viljað lögleiða morðhótanir.

Þetta sem Salmann Tamimi gengur í gegnum núna er ekki bara móðgun. Að móðga spámann hans er gott og blessað. Að kalla hann, mig og alla aðra fífl og fávita er líka hið besta mál sem og að hæðast að honum, og mér, fyrir okkar trúarskoðanir og lífsviðhorf.

En hér tölum við um líf mannsins. Salmann Tamimi situr undir morðhótunum. Það er gróft brot á rétti hans til persónulegs öryggis. Þetta er ekki sambærilegt við bann gegn guðlasti eða öðrum heimskulegum bönnum gegn því að særa tilfinningar fólks. Þetta er ekki sambærilegt við að kalla homma kynvillinga, múslima villimenn eða trúleysingja sið- og samviskulausa. Þetta eru morðhótanir.

Mér finnst mikilvægt að við talsmenn tjáningarfrelsis sínum afdráttarlausan skilning á þessu.

Siðprýði kemur pólska laginu ekkert við

Varðandi: http://www.visir.is/sidprudir-domarar-urdu-polverjunum-ad-falli/article/2014140519827

Mér er persónulega alveg sama hvort þetta sé siðprútt atriði eða ekki. Sömuleiðis er mér alveg sama þótt það sé kynferðislegt og meira að segja sama þótt boðskapurinn sé yfirborðskenndur og gerður í þeim eina tilgangi að vekja athygli á kynþokka flutningsmanna.

Það sem mér er hinsvegar ekki jafn sama um, er sá boðskapur að það sé beinlínis það sem skilgreini slavneskar stelpur, sé kynþokki. Kynþokki er fínn, allt í lagi líka að vera með svæsið, kynferðislegt atriði sem sjokkerar púrítanistana og allt það. Það er bara hollt. En ef kynþokki er ekkert minna en það sem skilgreinir slavneskar konur, þá er augljóslega gert lítið úr öllu öðru sem þær geta og gera. Það finnst mér ekki kúl.

Sem dæmi; segjum sem svo að Sóley Tómasdóttir spyrji mig hvað að því hvað sé það besta sem ég viti um Brynjar Níelsson, og ég svara því að hann sé myndarlegur.

Væri ég bara að segja að hann sé myndarlegur? Nei, ég væri líka að segja að allir hinir mannkostir hans séu síðri en sá. Með því væri ekki sagt að það sé neitt athugunarvert við þá staðreynd að hann sé vissulega fjallmyndarlegur. En ég væri óneitanlega að gera lítið úr honum. Það er punkturinn.

Það er bara mjög fínt framtak að vera djarfur á sviði og fara hæfilega í taugarnar á púrítanistunum. Þetta snýst ekki um siðprýði. Siðprýði er hundleiðinleg. En þetta er meira; þetta eru skilaboð sem gera lítið úr öðrum hæfileikum slavneskra kvenna en þeim eina að vera geðveikt sexí.

En síðan er auðvitað annar vinkill á þessu, sem gæti jafnvel verið stærri og merkilegri þótt fólk geti sjálfsagt rifist um það, en það er að leggja svo ríka áherslu á eitt, tiltekið einkenni heils þjóðflokks til að byrja með. – Óháð því hvort það sé jákvætt eða neikvætt einkenni. – Setjum okkur í spor slavneskrar konu sem er bara ekkert sérstaklega sexí og veit það. Er hún ekki lengur nógu góð fyrir slavneska menningu? – Jafnvel ef hún er hæfileikarík eða bara góðhjörtuð? – Samkvæmt þessu lagi, nei, þá er hún það eiginlega ekki. Þau skilaboð eru mjög alvarlega ókúl. Anti-kúl, jafnvel.

Svo er hitt að þetta er bara frekar lélegt lag! – Nema klassíski kafllinn, hann er bara nokkuð góður.

Ef þetta atriði móðgaði einhverja púrítanista, þá er það allavega bót í máli, en það sem ég hef að athuga við þetta lag eru skilaboðin, ekki svæsnin.

En að lokum þessum lestri vil ég bara aftur fagna því að Evrópa hafi ekki látið útlit og meint, yfirvofandi menningarhrun Evrópu aftra sér í því að kjósa Conchitu Wurst.

Opið svar til Bubba Morthens

Eftirfarandi er svar við pistli Bubba Morthens á Vísi.

Sæll, háttvirtur Bubbi Morthens. Ég er einn af þessum þingmönnum sem þú nefnir, en mig langar til þess að útskýra aðeins betur.

Ég er sjálfur tónlistarmaður og forritari þótt ég hafi reyndar alltaf verið aðeins of feiminn til að gefa út tónlistina mína. En ég hef ekki haft lifibrauð af neinu öðru en forritun og kerfisstjórnun seinustu 14 ár. Ég kann ekkert nema iðngreinar sem varða höfundarrétt. Faðir minn er hljóðmaður sem þú kannast reyndar eflaust við og reyndar höfum við hist, ég og þú, fyrir mörgum árum niðri í Stúdíói Sýrlandi þegar ég var þó nokkuð mikið yngri, ætli það hafi ekki verið í kringum 13-14 ára aldurinn.

Treystu því, herra minn, að ég ber fulla virðingu fyrir vinnunni, tilkostnaðinum og listinni sem það er að búa til tónlist. Treystu því líka að ég vil hafa lifibrauð af forritun áfram þegar ég lýk þingsetu.

Ég skil vel gremju þína en langar að útskýra aðeins betur hvað málstaður okkar Pírata snýst um. Þú skrifar: „Nú er fólk komið á þing sem telur þetta eðlilegt og vill einfaldlega að ég aðlagi mig og komi til móts við þjófana.“

Þetta er kannski ekki endilega eðlilegt (því hvað er eðlilegt?) en það er hinsvegar óhjákvæmilegt. Vandamálið er eftirfarandi. Internetið býður ekki upp á sömu takmarkanir og raunheimar gerðu þegar kassettu-, plötu- og diskasala var burðarás iðnaðarins.

Það er ekki siðferðislegt álitamál heldur tæknilegur, óumflýjanlegur raunveruleiki. Það er eins með höfundarrétt og margar ágætar, klassískar hugmyndir, að hann var útfærður án tillits til þeirrar tækniframþróunar sem hefur átt sér stað síðasta einn og hálfa áratuginn eða svo.

Þegar vatnsleiðslur komu til sögunnar, þá misstu allir vatnsberar vinnuna. Það er ekki endilega sanngjarnt, eða þá endilega „eðlilegt“, en það var óhjákvæmilegt. En ekki hafa þeir horfið eða soltið í hel, nei, þeir hafa fundið sér aðra hluti að bera eða þá nýtt tæknina til þess að aðlagast nýjum tímum, þá annaðhvort með því að bera eða keyra aðrar vörur, eða tileinka sér pípusmíði… verða 20. aldar vatnsberar. Þannig breytist eðli iðnaða með tækniframförum en það sem gerir internetið kannski óþægilegra en aðrar byltingar er að hún hefur átt sér stað á gríðarlega skömmum tíma. Allt of skömmum tíma til að stjórnvöld og markaður nái að halda í við. Þá fara öll gömlu viðskiptamódelin í klessu vegna þess að þau eru bara ekki samhæf við frjálst og opið internet. – Ég get komið með hugmyndir að því hvernig þú getur eflt tekjurnar, en fyrst þurfum við að vera á sömu blaðsíðu þegar kemur að því að breytinga er þörf.

Nú, aðeins um frjálst og opið internet, því ég tel mig vita hvað þér detti í hug; að það mætti allavega loka t.d. Deildu.net og ThePirateBay.se eða álíka. Ég skal hlífa þér við þeim fjölmörgu alvarlegu vandamálum við tæknilega útfærslu og halda mig utan tæknimáls. Þá spyr ég, hvað með öll hin þúsundin af slíkum vefsetrum, fyrir utan þau sem munu koma í stað Deildu.net og ThePirateBay.se? – Nú, væntanlega þarf að loka þeim líka.

Og hvernig á að fylgjast með þessu? Jú, með því að gera ýmist netþjónustur eða hýsingaraðila eða (í versta falli) ríkið, ábyrga fyrir því að fylgjast með höfundaréttarbrotum. En nú langar mig að biðja þig um sérstaka athygli, því hér komum við að ástæðunni fyrir því að slíkt fyrirkomulag er ósamhæft við frjálst, opið og lýðræðislegt internet.

Það kostar peninga og vinnu að fylgjast með efni sem fólk setur inn. Facebook, YouTube, Google og Microsoft hafa burði til þess að standa undir slíkum kostnaði, en ekki til dæmis Diaspora eða Wikipedia eða þá ég sjálfur. Frjáls framtök, þar sem kannski örfáir aðilar standa að vefsíðu sem hundruðir milljóna manns hafa aðgang að, hafa enga burði til þess að framfylgja höfundarrétti. Fari fólk að demba inn höfundarréttarvörðu efni inn á síðuna mína, SMÁÍS verður brjálað og heimtar að ég loki hinum og þessum undirsíðum eða aðgöngum, þá hreinlega get ég ekki staðfest lögmæti hverrar lokunar. Við erum ekki bara að tala um Deildu.net og ThePirateBay.se heldur hundruði milljóna manns á hundruðum milljóna vefsíðna. Vonandi fer að skýrast hversu róttækar aðferðir þarf til þess að hefðbundin höfundarréttarvernd geti gengið meðfram þessu fyrirbæri, internetinu.

Athugaðu að þetta er fyrir utan tæknilegu vandamálin við netsíun, sem eru óyfirstíganleg NEMA með því að yfirvöld hreinlega taki yfir internetið, en það hefur sömu samfélagslegu afleiðingar og að yfirvöld taki yfir öll mannleg samskipti.

Þar stendur hnífurinn í kúnni, Bubbi minn. Internetið er ekkert nema samskipti með nútímatækni. Það verður ekki komið böndum á internetið nema með því að koma böndum á mannleg samskipti og það er þróun sem er í algerri andstæðu við meira eða minna öll lýðræðisleg og borgaraleg gildi.

Og ef valið stendur milli fjárhagslegra hagsmuna ákveðins iðnaðar eða frjálsra samskipta, þá veljum við Píratar frjáls samskipti. Það er meira í húfi hér en „rétturinn til að stela“.

Þetta er síðan fyrir utan reiðikastið sem ég gæti tekið gagnvart hefðbundnum dreifingaraðilum, en listamenn virðast vera orðnir svo vanir því að láta taka sig ósmurt í afturendann af nú úreldum og gagnslausum milliliðum að listamenn eru farnir að verja sömu hagsmuni og hafa alltaf tekið bróðurpartinn af vinnu þeirra. En það er önnur umræða.

Að lokum langar mig að þakka þér, Bubbi, fyrir að höfða fyrst og fremst til samvisku fólks. Ég sá þig hvergi minnast á lokanir á netinu sem gleður mig, því við Píratar erum ekki á móti höfundarrétti, við erum bara svo miklu, miklu hlynntari frjálsu, opnu og lýðræðislegu interneti.

Gangi þér vel, félagi.

Ljóðin á 101

Nú varð ég sko aldeilis hlessa.

Vér 101 rotturnar könnumst sjálfsagt flestar við herramann sem stendur iðulega við gatnamót Austurstrætis og Pósthússtrætis með ljóðabækur og smásögur til sölu.

Nú gekk ég framhjá honum, enn og aftur, á leið minni á skrifstofuna, varpaði til hans kveðju eins og venjulega og hann spurði, eins og vanalega, hvort ég vildi kaupa ljóð eða smásögur. Kannski eru það áhrifin af því að glugga í ljóðabók frá Mazen Maarouf að ég hugsaði með mér; jú fjandakornið, ég splæsi á mig einni. Maður er nú ekki alvöru 101 rotta ef maður hefur aldrei keypt ljóðabók af manni á víðavangi.

Nema hvað, ég versla mér þessa líka ágætu ljóðabók sem heitir „TÍMARÁKIR“ og er árituð af sjálfum meistaranum, Bjarna Bernharði. Ég opna bókina og sé „copyleft“ merkið, en það ku vera „copyright“ merkið á hvolfi og fyrir neðan stendur:

„Hugtakið Copyleft á rætur sínar að rekja til forritunar á opnum kóða, þar sem hver sá sem notfærir sér kóða eftir annan skuldbindur sig til að gefa út sína eigin útfærslu (endurgjaldslaust) sem opinn kóða, þ.e.a.s. gerir nýja kóðann aðgengilegan fyrir aðra (á netinu).

Hafir þú eignast þessa bók með löglegum hætti er þér frjálst að vitna í texta bókarinnar rafrænt, dreifa á netinu eða prenta til eigin nota, svo lengi sem tilvitnanirnar notist ekki í ábataskyni. Ef þú prentar, þá taka samningar Fjölís um endurgjald fyrir ljósritun tafarlaust gildi. Vitnir þú í bókina, og beitir sköpun, þá skuldbindur þú þig til þess að gefa út eigin verk frjáls til tilvitnunar, samkvæmt skilmálum Copyleft.“

Eftir það kemur síðan dæmi um texta sem maður gæti notað við birtingu eigin efnis.

Það er mér því sérstök ánægja að endurbirta hér (rafrænt) eitt af ljóðum þessa áhugaverða manns og vil ég hvetja fólk til að gefa honum gaum, næst þegar gengið er hjá.

Bjarni Berðharður tekur við.

= Ástin =

Ástin
sem býr í helli sínum
æðrast ekki

þótt skammdegismyrkrið
hellist yfir

tendrar ljósastiku hjartans
og bíður vorsins.

Þegar meirihlutinn kúgar meirihlutann

„Ókostir beins lýðræðis eru verulegir“, segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Sjá frétt: http://www.visir.is/-okostir-beins-lydraedis-eru-verulegir-/article/2013130709964

Hér heldur Gunnar Helgi uppi þeim röngu rökum sem andstæðingar lýðræðis nota mjög gjarnan, en það er sú hugmynd að með auknu lýðræði sé hætt við að meirihlutinn kúgi minnihlutann. Hæstvirtur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lét þetta einnig út úr sér í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur, að því er virðist því hann mundi ekki eftir neinum öðrum rökum.

Þessi röksemdafærsla kemur reyndar úr mjög göfugri átt, þeirri að fólk hafi réttindi sem eru óháð skoðun meirihlutans. Tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs, réttur til sanngjarnrar málsmeðferðar og kosningaréttur, sem nokkur dæmi, sem ekki eru háð samþykki meirihlutans, heldur þvert á móti sérstaklega til þess að vernda einstaklinga og minnihluta gegn meirihlutanum.

En til þess eru borgararéttindi. Þetta þýðir að hvorki Alþingi né forseti geta löglega skert þessi réttindi fólks eftir geðþótta. Hvernig storkar þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave eða fiskveiðigjald þeim réttindum? – Hefur 10% þjóðarinnar nokkurn tíma mótmælt lagasetningu með þeim afleiðingum að borgararéttindi myndu skerðast í kjölfarið? Það hlýtur hver manneskja að sjá að þessi rök einfaldlega standast ekki.

Mun meiri áhyggjur ætti fólk að hafa af því að Alþingi samþykki lög sem skerða borgararéttindi heldur en að þau mál sem alþýðan hefur viljað kjósa um í gegnum tíðina, lendi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi rök varða nefnilega ekki einu sinni lýðræðið til að byrja með, heldur varða þau réttarríkið. Hér eru rök með borgararéttindum notuð sem rök gegn lýðræði. Áhyggjur af kúgun meirihlutans yfir minnihlutanum eru fullkomlega réttmætar og algerlega nauðsynlegar, en þær varða einfaldlega ekki spurninguna um lýðræði, heldur varða takmarkanir valdsviðs, óháð því hvort konungur, þing eða þjóð gefi „já“ eða „nei“. Stjórnarskráin myndi ekki af einhverjum undraverðum ástæðum hætta að gilda af þeim sökum einum að talin séu 237.957 atkvæði í stað sextíu og þriggja og mér er fyrirmunað að skilja hvaðan sú röksemd kemur.

En þetta er allt saman fyrir utan hina stóru spurninguna, sem er þegar minnihlutinn kúgar meirihlutann. Ekki virðast andstæðingar lýðræðis hafa miklar áhyggjur af því. Valdið gufar ekki upp við það eitt að takmarka lýðræðið. Valdið er ennþá á einhvers höndum, í þessu tilfelli Alþingis sem telur 63 manns eða 0,026% þjóðarinnar.

Þannig eru það 0,026% þjóðarinnar sem að vísu hafa verið valin af kjósendum til þess að fara með 100% valdsins. Þessi 0,026% hafa síðan tilhneigingu til þess að brjóta í bága við vilja meirihlutans og mál er varða eignarétt hans, þvert á við umboð sitt, og jafnvel að skerða borgararéttindi í leiðinni án þess að meirihlutinn fái neitt við því sagt.

Stóra kaldhæðnin í þessu öllu saman er að það er naumur meirihluti kjósenda sem kaus meirihluta þessarra 0,026%. Þannig kusu 50,1% inn á þing 60% þingmanna sem fara með 100% valdsins, en því er nú beitt í andstöðu við vilja 70% þjóðarinnar. Það má því líta svo á að hér kúgi naumur meirihlutinn yfirþyrmandi meirihlutann, en reyndar einungis með þeim fyrirvara að lýðræðisfyrirkomulagið á Íslandi býður ekki upp á að draga til ábyrgðar kjósendur fyrir gjörðir fulltrúa sinna. Til þess hafa kjósendur einfaldlega of lítið að segja, eða sumsé einn bókstaf á fjögurra ára fresti til að segja allt sem segja þarf um öll málefni kjörtímabilsins.

Nóg um „verulega ókosti beins lýðræðis“. Ræðum frekar verulega ókosti lýðræðishallans og skorts á efldum borgararéttindum.

Það eru fáir flokkar sem hafa meiri áhyggjur en Píratar af yfirburðum meirihlutans yfir minnihlutanum þegar kemur að réttindum einstaklinga og minnihlutahópa. En þess vegna berjumst við fyrir verndun borgararéttinda og aukningu þeirra, ekki geldu lýðræði.

Litli Píratinn með tjáningarfrelsið

Helgi Seljan fréttamaður skrifaði nýlega á Facebook síðu sína að það væri umhugsunarefni að Píratar, sá flokkur sem léti tjáningarfrelsi varða sig hvað mest, brygðist ókvæða við öllum neikvæðum fréttaflutningi gagnvart flokknum. Að háttvirtum Helga Seljan ólöstuðum lýsa orð hans ákveðnu viðhorfi sem er grafið djúpt í sálartetur íslensku þjóðarinnar, og það er sú hugmynd að þegar ritum sé mótmælt, sé réttinum til að rita þau einnig mótmælt. Það er góð ástæða fyrir því að Helga Seljan líði svona vegna þess að þetta er því miður mjög algengt viðhorf.

Almennt tekur fólk tjáningarfrelsinu sem sjálfsögðum hlut, enda er lítið um að fólk sé ritskoðað þótt það skrifi ýmislegt misviturt, sérstaklega á netinu. En blaðamenn eru ekki jafn góðu vanir. Almenningur getur almennt haldið úti sínum bloggum og sínum Facebook-færslum án ótta við að vera kært, en ekki vegna þess að almenningur fari almennt eftir lögum, heldur vegna þess að yfirvöld líta ekki ennþá á netið sem marktækan hluta af mannlegu samfélagi. Blaðamenn eru hinsvegar ekki svo frjálsir frá athygli yfirvalda og fjársterkra aðila.

Vissulega njóta Íslendingar upp til hópa tjáningarfrelsis. En það eru samt sem áður veigamiklir gallar við margar þær tálmanir á tjáningarfrelsi sem hafa verið settar hér. Hér er til dæmis bannað að guðlasta (125. gr. laga 19/1940), gera grín að erlendum þjóðhöfðingjum (95. gr. laga 19/1940) þótt þeim lögum sé sem betur fer mjög sjaldan framfylgt. En stærsti vandinn á Íslandi þegar kemur að tjáningarfrelsi eru ekki þau lög sem eru of kjánaleg til að yfirvöldum detti í hug að framfylgja þeim, heldur þau lög sem Helgi Seljan þekkir væntanlega best af þeim öllum.

Meiðyrðalögin.

Það er ágætt og jafnvel nauðsynlegt að hafa einhvers konar meiðyrðalöggjöf. Meiðyrðalöggjöfin á Íslandi er hinsvegar verulega gölluð að ýmsu leyti og Píratar eru eini flokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni að laga hana. Í fyrsta lagi er hún hluti af almennum hegningarlögum sem er engan veginn rökrétt, heldur ætti hún heima alfarið í einkarétti. Í öðru lagi liggur við brotum á henni fangelsisdómur sem er með öllu óskiljanlegt. Í þriðja lagi er það ekki talið fréttamönnum til varnar hérlendis að þeir hafi ekki getað vitað að upplýsingar sem þeir birta séu rangar eða villandi. Í fjórða lagi er sönnunarbyrðin lögð of mikið á verjendur í meiðyrðamálum, þannig að þeir þurfa í reynd að sanna sakleysi sitt, frekar en að saksóknari sanni sekt. Í fimmta lagi, síðast en ekki síst, bera dómarar of mikla virðingu fyrir hörundsæri sækjenda.

Sú staðreynd að Helga Seljan þyki óþægilegt hve gagnrýnir Píratar séu á fjölmiðla, segir í rauninni allt sem segja þarf um andrúmsloftið sem fréttamenn vinna við. Þeir finna á sér að þegar gagnrýnin á fjölmiðlana verður mikil, þá sé stutt í hugmyndir um bönn og kærur. Birti hákristinn maður of mikið úr trúarriti sínu, þá verður hann rekinn. Mismæli blaðamaður sig lítillega, svosem með því að nota orðið “rannsókn” í stað orðsins “skoðun”, þá má sá og hinn sami óttast að verða kærður og dæmdur fyrir glæp samkvæmt hegningarlögum. Þetta er ekki eðlilegt ástand.

Nú er svo komið að Öryggis- og Samvinnustofnun Evrópu hefur áhyggjur af kælingaráhrifum meiðyrðalöggjafarinnar á Íslandi. Það er ekki af ástæðulausu. Meiðyrðalöggjöfin á Íslandi er gölluð og hana ber að laga þannig að blaðamenn geti unnið starf sitt og birt sínar fréttir, hvort sem þær eru lélegar eða góðar að viti okkar Pírata, án ótta við lögsóknir af þeirri einni ástæðu að fólk sé þeim reitt.

En hvorki Helgi Seljan né Fréttablaðið þurfa að hafa áhyggjur af því að Píratar fari að þagga niður í fjölmiðlum með kærum fyrir léleg vinnubrögð. Píratar þurfa bara eitt, mikilvægt vopn til þess að berjast gegn lélegum fréttaflutningi, nefnilega tjáningarfrelsið sjálft.

Gagnsæir skattar

Stjórnmálaflokkar hafa jafnan ólíkar áherslur í skattamálum. Þó gerist það stundum að allir flokkar séu sammála um að lækka tiltekinn skatt, sér í lagi ef hann er sérstaklega óvinsæll eða erfitt að rökstyðja. Í þessari kosningabaráttu hefur þetta gerst gagnvart tryggingagjaldi, en það er ákveðin tegund skatts sem er ætluð meðal annars til að vega upp á móti atvinnuleysisbótum.

Í pallborðsumræðum á RÚV um daginn voru uppi skiptar skoðanir um skatta almennt, bæði hvaða skatta ætti að lækka og hvernig bæri að fjármagna skattalækkanir. En það stóð upp úr að allir voru sammála um að lækka tyggingagjaldið. Hvers vegna?

Svarið er einfalt. Allir vissu til hvers hann er og á hvaða forsendum hann byggist. Atvinnuleysi hefur minnkað talsvert síðustu misseri og því er minni þörf fyrir tryggingagjaldið. Einfaldara gæti það ekki verið. Staðreyndirnar voru til staðar og þær töluðu sínu máli, sátt ríkti um að það væri við hæfi að lækka þennan tiltekna skatt vegna þess að það er einfaldlega ekki jafn mikil þörf á honum lengur.

Ef forsendur annarra skatta væru jafn skýrar og gagnsæjar væri mun auðveldara að komast að samkomulagi um ábyrgar skattalækkanir. Ef maður gæti séð á launaseðlinum, jafnvel bara í grófum dráttum, í hvað væri verið að eyða hversu stórum hluta launanna, þá myndi skattmeðvitund batna til muna og umræðan gæti innihaldið meira af raunhæfum lausnum og minna af hysterískum kosningaloforðum.

Leiðin að þessu markmiði er að bæta upplýsingasöfnun frá stofnunum ríkisins þannig að upplýsingarnar skili sér í sameiginlegu, tölvuvinnanlegu sniði þannig að hægt sé að greina gögnin með sem einföldustum hætti. Þetta hefði verið óhemju mikið verk fyrir örfáum áratugum en í dag er hægt að gera þetta ef upplýsingatæknin er nýtt rétt og sérstaklega ef breytingar á skattkerfinu eru gerðar með upplýsingatæknina í huga.

Aðgengilegar og nýtanlegar upplýsingar eru forsenda ábyrgrar ákvarðanatöku. Fyrsta spurningin er ekki hvort við getum lækkað skatta, heldur hvernig við getum vitað það.

Hatursáróður og heimurinn

Þau málefni sem koma upp í kosningabaráttu eru jafnan þau málefni sem fólk vill helst ræða. En síðan eru málefni sem fólk vill helst ekki ræða, ýmist vegna þess að þau eru óþægileg eða ekki pólitískt heppileg. Tjáningarfrelsi kemst oft ekki hátt á lista vegna þess að það þykir kannski of sjálfsagt eða þá að það vekur upp óþægilega umræðu svo sem klámbann, meiðyrðamál eða umræðu um óþægileg leyndarmál. Mál sem mörgum þykir erfitt umræðuefni, sérstaklega í miðri kosningabaráttu.

Fælnin við umræðu um tjáningarfrelsi leiðir af sér að lítill sem enginn þrýstingur finnst á að halda tjáningarfrelsismálum hérlendis í lagi, sér í lagi með hliðsjón af upplýsingabyltingunni þar sem tjáningarfrelsi er lykilatriði. Eftir stendur lagaumhverfi sem er ekki bara ósamhæft við upplýsingabyltinguna heldur er henni beinlínis ógn. Af nógu er að taka en hér skal tekinn fyrir hatursáróður sérstaklega þar sem það virðist þykja ögn lystugra en klám.

Í 27. gr. laga 38/2011 er að finna: “Bannað er að kynda undir hatri í fjölmiðlum á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis, skoðana eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.”

Þetta hljómar vel í fljótu bragði, enda vildu fæstir horfa á einhvern brjálæðing í sjónvarpinu hvetja til helfarar. Væntanlega er markmiðið þó ekki að hindra fólk í að hafa hatursfullar skoðanir, heldur að vernda almúgann fyrir þeim.

Allar takmarkanir á Íslandi sem ekki eru ritskoðun virka þannig að á þeim er tekið eftirá. Sem dæmi gæti ég birt hatursáróður hér og yfirvöld myndu ekki ritskoða það, en ég gæti verið dreginn fyrir dómara og sektaður eða jafnvel fangelsaður eftir að hafa tjáð mig.

En nú skulum við taka upplýsingabyltinguna inn í myndina. Segjum sem svo að ég ætli sem forvitinn borgari að kynna mér Ísrael/Palestínu-deiluna og komast að kjarna hennar og jafnvel finna lausn eftir langa og stranga rannsóknarvinnu. Þá fer ég vitaskuld á internetið góða til þess að afla mér upplýsinga. Þá kemur í ljós að yfirþyrmandi meirihluti allra ummæla um Ísrael/Palestínu-deilunnar eru hatursáróður, beggja megin línunnar. Segjum sem svo að þetta veki áhuga minn og ég vilji vekja athygli á stöðu mála og taki í þeim tilgangi ummælin hatursfullu, í heild sinni, í réttu samhengi og afriti þau yfir á íslenskan netþjón sem er hýstur hérlendis. Þá er komin upp sú undarlega staða að hægt er að kæra mig og dæma fyrir birtingu og dreifingu á hatursáróðri.

Það er skrítið að geta verið sekur um lagabrot vegna þess að maður velur að tjá sig á íslenskri vefsíðu. Það væri líka skrítið að ætlast til þess að íslenskir dómstólar eltist við erlenda aðila sem tjá sig á sömu síðum. Þá eru lögin í reynd ekki lengur fallin til þess að hindra hatursáróður, heldur til þess eins að passa að fólk hýsi gögn sín síður á Íslandi. Lög sem þessi búa eingöngu til vandamál en leysa engin. Það er engu minni hatursáróður í heiminum sökum þessarar löggjafar, eingöngu hætta á því að maður verði kærður ef maður passar ekki að hýsa gögnin sín annars staðar en hér.

Þetta veldur því að ef fjárfestir skoðar íslensk lög gaumgæfilega en vill ekki stunda ritskoðun á efni viðskiptavina sinna með tilheyrandi kostnaði, erfiði og brotum á friðhelgi einkalífsins, þá er Ísland mjög slæmur kostur til hýsingar gagna. Það er ekki mögulegt ástand fyrir land sem kallar sig netvænt.

Síðast en ekki síst er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að Íslendingar megi hafa aðgang að ógeðfelldum skoðunum fólks sem býr í Sádí-Arabíu, Íran, Kína og Norður-Kóreu, þar sem tjáningarfrelsi er varla til. Það er fráleitt að í landi sem stærir sig af tjáningarfrelsi þurfi fólk að leita út fyrir landsteinana, vilji það vera öruggt um að verða ekki kært fyrir að sýna of vel hinn raunverulega heim sem við búum í.