Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2014

Lög um mannanöfn snúast ekki um barnavernd

Varðandi frétt: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/21/eldflaug_hafnad_en_skroggur_i_lagi/

Ég sé fyrir mér samskipti ungra barna; „Vá, heitirðu Eldflaug? Kúl!“ -og síðan áframhaldandi skemmtilegt samtal.

Ég sé hinsvegar ekki fyrir mér sama samtal verða svona: „Hahaha, þú heitir nafni sem tilheyrir merkingarflokki sem fá eiginnöfn og engin samsett eiginnöfn hafa tilheyrt hingað til! En hvað þú ert asnaleg!“ -og síðan stríðni og hvað þá einelti.

Ekki er þó betur að sjá af fréttaflutningi Mbl.is en að þetta sé forsenda þess að nafninu „Eldflaug“ hafi verið hafnað.

Það er verulega algengur misskilningur að mannanafnanefnd sé til staðar til þess að vernda börn gegn hræðilegum nöfnum sem foreldrar gætu hugsanlega gefið þeim.

Tilfellið er hinsvegar það að lög um mannanafnanöfn og mannanafnanefnd koma barnavernd ekkert við. Hlutverk laganna og nefndarinnar er að vernda íslenskar hefðir og málvenjur, ekki börn.

Það næsta sem kemst því að vernda börn er 3. mgr. 5. gr. laga 45/1996, sem er svohljóðandi: „Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.“

Athugið að þarna er ekkert minnst á börn, eða að foreldri megi ekki gefa barni sínu slíkt nafn, sem þýðir að lögin gilda um allt fólk, jafnt fullorðið sem nýfætt. Það undirstrikar þá staðreynd að þessi lög eru ekki sett til þess að vernda börn, heldur út frá frekar augljósri og merkilega blygðunarlausri forræðishyggju. Ríkið skal ákveða að fullorðnir einstaklingar fari sér nú ekki að voða með því að velja eigið nafn.

Sömuleiðis er þetta það eina í lögum um mannanöfn sem gæti hugsanlega varðað börn á nokkurn hátt – í öllum lögunum. Aftur er ástæðan fyrir þessu sú að lögin voru ekki sett til að vernda börn og hlutverk mannanafnanefndar er ekki og hefur aldrei verið nokkuð slíkt heldur er markmið laganna og hlutverk nefndarinnar að vernda íslenska málhefð og íslenskar venjur.

Það er alveg þess virði að benda á það hvernig nefndin er samansett til að undirstrika punktinn enn betur (úr VIII kafla sömu laga, 45/1996):

„Skal einn nefndarmaður skipaður að fenginni tillögu heimspekideildar Háskóla Íslands, einn að fenginni tillögu lagadeildar Háskóla Íslands og einn að fenginni tillögu Íslenskrar málnefndar.“ – Þetta eru sumsé heimspekingar, lögfræðingar og málfræðingar, ekki barnasálfræðingar, uppeldisfræðingar og leikskólakennarar sem maður hefði haldið að væru hæfari til að taka afstöðu til þess hvort nafn barns yrði því til ama í félagslífinu eða ekki.

Ástæðan fyrir því er… jújú, enn og aftur sú, að markmið laganna og hlutverk nefndarinnar eru ekki að vernda börn, heldur að vernda venjur og hefðir.

Það er sjálfsagt að barnaverndaryfirvöld fari yfir nýskráð nöfn og geti þá gripið inn í ef barn er nefnt „Kúkur“, „Drulla“ eða eitthvað álíka. Það væri eðlilegt ferli. Sömuleiðis er eðlilegt að það séu ákveðnar tæknilegar takmarkanir, t.d. um hámarkslengd og leyfileg ritmál, til þess að bæði stjórnsýslan og almenningur geti sýslað með nöfn með góðu móti.

En hefðir og venjur eru ekki lögmætar ástæður fyrir því að svipta alla landsmenn þeim sjálfsagða rétti að ákveða sjálfir hvað þeir heita.