Mánaðarskipt færslusafn fyrir: maí 2014

Siðprýði kemur pólska laginu ekkert við

Varðandi: http://www.visir.is/sidprudir-domarar-urdu-polverjunum-ad-falli/article/2014140519827

Mér er persónulega alveg sama hvort þetta sé siðprútt atriði eða ekki. Sömuleiðis er mér alveg sama þótt það sé kynferðislegt og meira að segja sama þótt boðskapurinn sé yfirborðskenndur og gerður í þeim eina tilgangi að vekja athygli á kynþokka flutningsmanna.

Það sem mér er hinsvegar ekki jafn sama um, er sá boðskapur að það sé beinlínis það sem skilgreini slavneskar stelpur, sé kynþokki. Kynþokki er fínn, allt í lagi líka að vera með svæsið, kynferðislegt atriði sem sjokkerar púrítanistana og allt það. Það er bara hollt. En ef kynþokki er ekkert minna en það sem skilgreinir slavneskar konur, þá er augljóslega gert lítið úr öllu öðru sem þær geta og gera. Það finnst mér ekki kúl.

Sem dæmi; segjum sem svo að Sóley Tómasdóttir spyrji mig hvað að því hvað sé það besta sem ég viti um Brynjar Níelsson, og ég svara því að hann sé myndarlegur.

Væri ég bara að segja að hann sé myndarlegur? Nei, ég væri líka að segja að allir hinir mannkostir hans séu síðri en sá. Með því væri ekki sagt að það sé neitt athugunarvert við þá staðreynd að hann sé vissulega fjallmyndarlegur. En ég væri óneitanlega að gera lítið úr honum. Það er punkturinn.

Það er bara mjög fínt framtak að vera djarfur á sviði og fara hæfilega í taugarnar á púrítanistunum. Þetta snýst ekki um siðprýði. Siðprýði er hundleiðinleg. En þetta er meira; þetta eru skilaboð sem gera lítið úr öðrum hæfileikum slavneskra kvenna en þeim eina að vera geðveikt sexí.

En síðan er auðvitað annar vinkill á þessu, sem gæti jafnvel verið stærri og merkilegri þótt fólk geti sjálfsagt rifist um það, en það er að leggja svo ríka áherslu á eitt, tiltekið einkenni heils þjóðflokks til að byrja með. – Óháð því hvort það sé jákvætt eða neikvætt einkenni. – Setjum okkur í spor slavneskrar konu sem er bara ekkert sérstaklega sexí og veit það. Er hún ekki lengur nógu góð fyrir slavneska menningu? – Jafnvel ef hún er hæfileikarík eða bara góðhjörtuð? – Samkvæmt þessu lagi, nei, þá er hún það eiginlega ekki. Þau skilaboð eru mjög alvarlega ókúl. Anti-kúl, jafnvel.

Svo er hitt að þetta er bara frekar lélegt lag! – Nema klassíski kafllinn, hann er bara nokkuð góður.

Ef þetta atriði móðgaði einhverja púrítanista, þá er það allavega bót í máli, en það sem ég hef að athuga við þetta lag eru skilaboðin, ekki svæsnin.

En að lokum þessum lestri vil ég bara aftur fagna því að Evrópa hafi ekki látið útlit og meint, yfirvofandi menningarhrun Evrópu aftra sér í því að kjósa Conchitu Wurst.