Opið svar til Bubba Morthens

Eftirfarandi er svar við pistli Bubba Morthens á Vísi.

Sæll, háttvirtur Bubbi Morthens. Ég er einn af þessum þingmönnum sem þú nefnir, en mig langar til þess að útskýra aðeins betur.

Ég er sjálfur tónlistarmaður og forritari þótt ég hafi reyndar alltaf verið aðeins of feiminn til að gefa út tónlistina mína. En ég hef ekki haft lifibrauð af neinu öðru en forritun og kerfisstjórnun seinustu 14 ár. Ég kann ekkert nema iðngreinar sem varða höfundarrétt. Faðir minn er hljóðmaður sem þú kannast reyndar eflaust við og reyndar höfum við hist, ég og þú, fyrir mörgum árum niðri í Stúdíói Sýrlandi þegar ég var þó nokkuð mikið yngri, ætli það hafi ekki verið í kringum 13-14 ára aldurinn.

Treystu því, herra minn, að ég ber fulla virðingu fyrir vinnunni, tilkostnaðinum og listinni sem það er að búa til tónlist. Treystu því líka að ég vil hafa lifibrauð af forritun áfram þegar ég lýk þingsetu.

Ég skil vel gremju þína en langar að útskýra aðeins betur hvað málstaður okkar Pírata snýst um. Þú skrifar: „Nú er fólk komið á þing sem telur þetta eðlilegt og vill einfaldlega að ég aðlagi mig og komi til móts við þjófana.“

Þetta er kannski ekki endilega eðlilegt (því hvað er eðlilegt?) en það er hinsvegar óhjákvæmilegt. Vandamálið er eftirfarandi. Internetið býður ekki upp á sömu takmarkanir og raunheimar gerðu þegar kassettu-, plötu- og diskasala var burðarás iðnaðarins.

Það er ekki siðferðislegt álitamál heldur tæknilegur, óumflýjanlegur raunveruleiki. Það er eins með höfundarrétt og margar ágætar, klassískar hugmyndir, að hann var útfærður án tillits til þeirrar tækniframþróunar sem hefur átt sér stað síðasta einn og hálfa áratuginn eða svo.

Þegar vatnsleiðslur komu til sögunnar, þá misstu allir vatnsberar vinnuna. Það er ekki endilega sanngjarnt, eða þá endilega „eðlilegt“, en það var óhjákvæmilegt. En ekki hafa þeir horfið eða soltið í hel, nei, þeir hafa fundið sér aðra hluti að bera eða þá nýtt tæknina til þess að aðlagast nýjum tímum, þá annaðhvort með því að bera eða keyra aðrar vörur, eða tileinka sér pípusmíði… verða 20. aldar vatnsberar. Þannig breytist eðli iðnaða með tækniframförum en það sem gerir internetið kannski óþægilegra en aðrar byltingar er að hún hefur átt sér stað á gríðarlega skömmum tíma. Allt of skömmum tíma til að stjórnvöld og markaður nái að halda í við. Þá fara öll gömlu viðskiptamódelin í klessu vegna þess að þau eru bara ekki samhæf við frjálst og opið internet. – Ég get komið með hugmyndir að því hvernig þú getur eflt tekjurnar, en fyrst þurfum við að vera á sömu blaðsíðu þegar kemur að því að breytinga er þörf.

Nú, aðeins um frjálst og opið internet, því ég tel mig vita hvað þér detti í hug; að það mætti allavega loka t.d. Deildu.net og ThePirateBay.se eða álíka. Ég skal hlífa þér við þeim fjölmörgu alvarlegu vandamálum við tæknilega útfærslu og halda mig utan tæknimáls. Þá spyr ég, hvað með öll hin þúsundin af slíkum vefsetrum, fyrir utan þau sem munu koma í stað Deildu.net og ThePirateBay.se? – Nú, væntanlega þarf að loka þeim líka.

Og hvernig á að fylgjast með þessu? Jú, með því að gera ýmist netþjónustur eða hýsingaraðila eða (í versta falli) ríkið, ábyrga fyrir því að fylgjast með höfundaréttarbrotum. En nú langar mig að biðja þig um sérstaka athygli, því hér komum við að ástæðunni fyrir því að slíkt fyrirkomulag er ósamhæft við frjálst, opið og lýðræðislegt internet.

Það kostar peninga og vinnu að fylgjast með efni sem fólk setur inn. Facebook, YouTube, Google og Microsoft hafa burði til þess að standa undir slíkum kostnaði, en ekki til dæmis Diaspora eða Wikipedia eða þá ég sjálfur. Frjáls framtök, þar sem kannski örfáir aðilar standa að vefsíðu sem hundruðir milljóna manns hafa aðgang að, hafa enga burði til þess að framfylgja höfundarrétti. Fari fólk að demba inn höfundarréttarvörðu efni inn á síðuna mína, SMÁÍS verður brjálað og heimtar að ég loki hinum og þessum undirsíðum eða aðgöngum, þá hreinlega get ég ekki staðfest lögmæti hverrar lokunar. Við erum ekki bara að tala um Deildu.net og ThePirateBay.se heldur hundruði milljóna manns á hundruðum milljóna vefsíðna. Vonandi fer að skýrast hversu róttækar aðferðir þarf til þess að hefðbundin höfundarréttarvernd geti gengið meðfram þessu fyrirbæri, internetinu.

Athugaðu að þetta er fyrir utan tæknilegu vandamálin við netsíun, sem eru óyfirstíganleg NEMA með því að yfirvöld hreinlega taki yfir internetið, en það hefur sömu samfélagslegu afleiðingar og að yfirvöld taki yfir öll mannleg samskipti.

Þar stendur hnífurinn í kúnni, Bubbi minn. Internetið er ekkert nema samskipti með nútímatækni. Það verður ekki komið böndum á internetið nema með því að koma böndum á mannleg samskipti og það er þróun sem er í algerri andstæðu við meira eða minna öll lýðræðisleg og borgaraleg gildi.

Og ef valið stendur milli fjárhagslegra hagsmuna ákveðins iðnaðar eða frjálsra samskipta, þá veljum við Píratar frjáls samskipti. Það er meira í húfi hér en „rétturinn til að stela“.

Þetta er síðan fyrir utan reiðikastið sem ég gæti tekið gagnvart hefðbundnum dreifingaraðilum, en listamenn virðast vera orðnir svo vanir því að láta taka sig ósmurt í afturendann af nú úreldum og gagnslausum milliliðum að listamenn eru farnir að verja sömu hagsmuni og hafa alltaf tekið bróðurpartinn af vinnu þeirra. En það er önnur umræða.

Að lokum langar mig að þakka þér, Bubbi, fyrir að höfða fyrst og fremst til samvisku fólks. Ég sá þig hvergi minnast á lokanir á netinu sem gleður mig, því við Píratar erum ekki á móti höfundarrétti, við erum bara svo miklu, miklu hlynntari frjálsu, opnu og lýðræðislegu interneti.

Gangi þér vel, félagi.