Ljóðin á 101

Nú varð ég sko aldeilis hlessa.

Vér 101 rotturnar könnumst sjálfsagt flestar við herramann sem stendur iðulega við gatnamót Austurstrætis og Pósthússtrætis með ljóðabækur og smásögur til sölu.

Nú gekk ég framhjá honum, enn og aftur, á leið minni á skrifstofuna, varpaði til hans kveðju eins og venjulega og hann spurði, eins og vanalega, hvort ég vildi kaupa ljóð eða smásögur. Kannski eru það áhrifin af því að glugga í ljóðabók frá Mazen Maarouf að ég hugsaði með mér; jú fjandakornið, ég splæsi á mig einni. Maður er nú ekki alvöru 101 rotta ef maður hefur aldrei keypt ljóðabók af manni á víðavangi.

Nema hvað, ég versla mér þessa líka ágætu ljóðabók sem heitir „TÍMARÁKIR“ og er árituð af sjálfum meistaranum, Bjarna Bernharði. Ég opna bókina og sé „copyleft“ merkið, en það ku vera „copyright“ merkið á hvolfi og fyrir neðan stendur:

„Hugtakið Copyleft á rætur sínar að rekja til forritunar á opnum kóða, þar sem hver sá sem notfærir sér kóða eftir annan skuldbindur sig til að gefa út sína eigin útfærslu (endurgjaldslaust) sem opinn kóða, þ.e.a.s. gerir nýja kóðann aðgengilegan fyrir aðra (á netinu).

Hafir þú eignast þessa bók með löglegum hætti er þér frjálst að vitna í texta bókarinnar rafrænt, dreifa á netinu eða prenta til eigin nota, svo lengi sem tilvitnanirnar notist ekki í ábataskyni. Ef þú prentar, þá taka samningar Fjölís um endurgjald fyrir ljósritun tafarlaust gildi. Vitnir þú í bókina, og beitir sköpun, þá skuldbindur þú þig til þess að gefa út eigin verk frjáls til tilvitnunar, samkvæmt skilmálum Copyleft.“

Eftir það kemur síðan dæmi um texta sem maður gæti notað við birtingu eigin efnis.

Það er mér því sérstök ánægja að endurbirta hér (rafrænt) eitt af ljóðum þessa áhugaverða manns og vil ég hvetja fólk til að gefa honum gaum, næst þegar gengið er hjá.

Bjarni Berðharður tekur við.

= Ástin =

Ástin
sem býr í helli sínum
æðrast ekki

þótt skammdegismyrkrið
hellist yfir

tendrar ljósastiku hjartans
og bíður vorsins.