Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2013

Þegar meirihlutinn kúgar meirihlutann

„Ókostir beins lýðræðis eru verulegir“, segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Sjá frétt: http://www.visir.is/-okostir-beins-lydraedis-eru-verulegir-/article/2013130709964

Hér heldur Gunnar Helgi uppi þeim röngu rökum sem andstæðingar lýðræðis nota mjög gjarnan, en það er sú hugmynd að með auknu lýðræði sé hætt við að meirihlutinn kúgi minnihlutann. Hæstvirtur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lét þetta einnig út úr sér í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur, að því er virðist því hann mundi ekki eftir neinum öðrum rökum.

Þessi röksemdafærsla kemur reyndar úr mjög göfugri átt, þeirri að fólk hafi réttindi sem eru óháð skoðun meirihlutans. Tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs, réttur til sanngjarnrar málsmeðferðar og kosningaréttur, sem nokkur dæmi, sem ekki eru háð samþykki meirihlutans, heldur þvert á móti sérstaklega til þess að vernda einstaklinga og minnihluta gegn meirihlutanum.

En til þess eru borgararéttindi. Þetta þýðir að hvorki Alþingi né forseti geta löglega skert þessi réttindi fólks eftir geðþótta. Hvernig storkar þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave eða fiskveiðigjald þeim réttindum? – Hefur 10% þjóðarinnar nokkurn tíma mótmælt lagasetningu með þeim afleiðingum að borgararéttindi myndu skerðast í kjölfarið? Það hlýtur hver manneskja að sjá að þessi rök einfaldlega standast ekki.

Mun meiri áhyggjur ætti fólk að hafa af því að Alþingi samþykki lög sem skerða borgararéttindi heldur en að þau mál sem alþýðan hefur viljað kjósa um í gegnum tíðina, lendi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi rök varða nefnilega ekki einu sinni lýðræðið til að byrja með, heldur varða þau réttarríkið. Hér eru rök með borgararéttindum notuð sem rök gegn lýðræði. Áhyggjur af kúgun meirihlutans yfir minnihlutanum eru fullkomlega réttmætar og algerlega nauðsynlegar, en þær varða einfaldlega ekki spurninguna um lýðræði, heldur varða takmarkanir valdsviðs, óháð því hvort konungur, þing eða þjóð gefi „já“ eða „nei“. Stjórnarskráin myndi ekki af einhverjum undraverðum ástæðum hætta að gilda af þeim sökum einum að talin séu 237.957 atkvæði í stað sextíu og þriggja og mér er fyrirmunað að skilja hvaðan sú röksemd kemur.

En þetta er allt saman fyrir utan hina stóru spurninguna, sem er þegar minnihlutinn kúgar meirihlutann. Ekki virðast andstæðingar lýðræðis hafa miklar áhyggjur af því. Valdið gufar ekki upp við það eitt að takmarka lýðræðið. Valdið er ennþá á einhvers höndum, í þessu tilfelli Alþingis sem telur 63 manns eða 0,026% þjóðarinnar.

Þannig eru það 0,026% þjóðarinnar sem að vísu hafa verið valin af kjósendum til þess að fara með 100% valdsins. Þessi 0,026% hafa síðan tilhneigingu til þess að brjóta í bága við vilja meirihlutans og mál er varða eignarétt hans, þvert á við umboð sitt, og jafnvel að skerða borgararéttindi í leiðinni án þess að meirihlutinn fái neitt við því sagt.

Stóra kaldhæðnin í þessu öllu saman er að það er naumur meirihluti kjósenda sem kaus meirihluta þessarra 0,026%. Þannig kusu 50,1% inn á þing 60% þingmanna sem fara með 100% valdsins, en því er nú beitt í andstöðu við vilja 70% þjóðarinnar. Það má því líta svo á að hér kúgi naumur meirihlutinn yfirþyrmandi meirihlutann, en reyndar einungis með þeim fyrirvara að lýðræðisfyrirkomulagið á Íslandi býður ekki upp á að draga til ábyrgðar kjósendur fyrir gjörðir fulltrúa sinna. Til þess hafa kjósendur einfaldlega of lítið að segja, eða sumsé einn bókstaf á fjögurra ára fresti til að segja allt sem segja þarf um öll málefni kjörtímabilsins.

Nóg um „verulega ókosti beins lýðræðis“. Ræðum frekar verulega ókosti lýðræðishallans og skorts á efldum borgararéttindum.

Það eru fáir flokkar sem hafa meiri áhyggjur en Píratar af yfirburðum meirihlutans yfir minnihlutanum þegar kemur að réttindum einstaklinga og minnihlutahópa. En þess vegna berjumst við fyrir verndun borgararéttinda og aukningu þeirra, ekki geldu lýðræði.