Mánaðarskipt færslusafn fyrir: apríl 2013

Litli Píratinn með tjáningarfrelsið

Helgi Seljan fréttamaður skrifaði nýlega á Facebook síðu sína að það væri umhugsunarefni að Píratar, sá flokkur sem léti tjáningarfrelsi varða sig hvað mest, brygðist ókvæða við öllum neikvæðum fréttaflutningi gagnvart flokknum. Að háttvirtum Helga Seljan ólöstuðum lýsa orð hans ákveðnu viðhorfi sem er grafið djúpt í sálartetur íslensku þjóðarinnar, og það er sú hugmynd að þegar ritum sé mótmælt, sé réttinum til að rita þau einnig mótmælt. Það er góð ástæða fyrir því að Helga Seljan líði svona vegna þess að þetta er því miður mjög algengt viðhorf.

Almennt tekur fólk tjáningarfrelsinu sem sjálfsögðum hlut, enda er lítið um að fólk sé ritskoðað þótt það skrifi ýmislegt misviturt, sérstaklega á netinu. En blaðamenn eru ekki jafn góðu vanir. Almenningur getur almennt haldið úti sínum bloggum og sínum Facebook-færslum án ótta við að vera kært, en ekki vegna þess að almenningur fari almennt eftir lögum, heldur vegna þess að yfirvöld líta ekki ennþá á netið sem marktækan hluta af mannlegu samfélagi. Blaðamenn eru hinsvegar ekki svo frjálsir frá athygli yfirvalda og fjársterkra aðila.

Vissulega njóta Íslendingar upp til hópa tjáningarfrelsis. En það eru samt sem áður veigamiklir gallar við margar þær tálmanir á tjáningarfrelsi sem hafa verið settar hér. Hér er til dæmis bannað að guðlasta (125. gr. laga 19/1940), gera grín að erlendum þjóðhöfðingjum (95. gr. laga 19/1940) þótt þeim lögum sé sem betur fer mjög sjaldan framfylgt. En stærsti vandinn á Íslandi þegar kemur að tjáningarfrelsi eru ekki þau lög sem eru of kjánaleg til að yfirvöldum detti í hug að framfylgja þeim, heldur þau lög sem Helgi Seljan þekkir væntanlega best af þeim öllum.

Meiðyrðalögin.

Það er ágætt og jafnvel nauðsynlegt að hafa einhvers konar meiðyrðalöggjöf. Meiðyrðalöggjöfin á Íslandi er hinsvegar verulega gölluð að ýmsu leyti og Píratar eru eini flokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni að laga hana. Í fyrsta lagi er hún hluti af almennum hegningarlögum sem er engan veginn rökrétt, heldur ætti hún heima alfarið í einkarétti. Í öðru lagi liggur við brotum á henni fangelsisdómur sem er með öllu óskiljanlegt. Í þriðja lagi er það ekki talið fréttamönnum til varnar hérlendis að þeir hafi ekki getað vitað að upplýsingar sem þeir birta séu rangar eða villandi. Í fjórða lagi er sönnunarbyrðin lögð of mikið á verjendur í meiðyrðamálum, þannig að þeir þurfa í reynd að sanna sakleysi sitt, frekar en að saksóknari sanni sekt. Í fimmta lagi, síðast en ekki síst, bera dómarar of mikla virðingu fyrir hörundsæri sækjenda.

Sú staðreynd að Helga Seljan þyki óþægilegt hve gagnrýnir Píratar séu á fjölmiðla, segir í rauninni allt sem segja þarf um andrúmsloftið sem fréttamenn vinna við. Þeir finna á sér að þegar gagnrýnin á fjölmiðlana verður mikil, þá sé stutt í hugmyndir um bönn og kærur. Birti hákristinn maður of mikið úr trúarriti sínu, þá verður hann rekinn. Mismæli blaðamaður sig lítillega, svosem með því að nota orðið “rannsókn” í stað orðsins “skoðun”, þá má sá og hinn sami óttast að verða kærður og dæmdur fyrir glæp samkvæmt hegningarlögum. Þetta er ekki eðlilegt ástand.

Nú er svo komið að Öryggis- og Samvinnustofnun Evrópu hefur áhyggjur af kælingaráhrifum meiðyrðalöggjafarinnar á Íslandi. Það er ekki af ástæðulausu. Meiðyrðalöggjöfin á Íslandi er gölluð og hana ber að laga þannig að blaðamenn geti unnið starf sitt og birt sínar fréttir, hvort sem þær eru lélegar eða góðar að viti okkar Pírata, án ótta við lögsóknir af þeirri einni ástæðu að fólk sé þeim reitt.

En hvorki Helgi Seljan né Fréttablaðið þurfa að hafa áhyggjur af því að Píratar fari að þagga niður í fjölmiðlum með kærum fyrir léleg vinnubrögð. Píratar þurfa bara eitt, mikilvægt vopn til þess að berjast gegn lélegum fréttaflutningi, nefnilega tjáningarfrelsið sjálft.

Gagnsæir skattar

Stjórnmálaflokkar hafa jafnan ólíkar áherslur í skattamálum. Þó gerist það stundum að allir flokkar séu sammála um að lækka tiltekinn skatt, sér í lagi ef hann er sérstaklega óvinsæll eða erfitt að rökstyðja. Í þessari kosningabaráttu hefur þetta gerst gagnvart tryggingagjaldi, en það er ákveðin tegund skatts sem er ætluð meðal annars til að vega upp á móti atvinnuleysisbótum.

Í pallborðsumræðum á RÚV um daginn voru uppi skiptar skoðanir um skatta almennt, bæði hvaða skatta ætti að lækka og hvernig bæri að fjármagna skattalækkanir. En það stóð upp úr að allir voru sammála um að lækka tyggingagjaldið. Hvers vegna?

Svarið er einfalt. Allir vissu til hvers hann er og á hvaða forsendum hann byggist. Atvinnuleysi hefur minnkað talsvert síðustu misseri og því er minni þörf fyrir tryggingagjaldið. Einfaldara gæti það ekki verið. Staðreyndirnar voru til staðar og þær töluðu sínu máli, sátt ríkti um að það væri við hæfi að lækka þennan tiltekna skatt vegna þess að það er einfaldlega ekki jafn mikil þörf á honum lengur.

Ef forsendur annarra skatta væru jafn skýrar og gagnsæjar væri mun auðveldara að komast að samkomulagi um ábyrgar skattalækkanir. Ef maður gæti séð á launaseðlinum, jafnvel bara í grófum dráttum, í hvað væri verið að eyða hversu stórum hluta launanna, þá myndi skattmeðvitund batna til muna og umræðan gæti innihaldið meira af raunhæfum lausnum og minna af hysterískum kosningaloforðum.

Leiðin að þessu markmiði er að bæta upplýsingasöfnun frá stofnunum ríkisins þannig að upplýsingarnar skili sér í sameiginlegu, tölvuvinnanlegu sniði þannig að hægt sé að greina gögnin með sem einföldustum hætti. Þetta hefði verið óhemju mikið verk fyrir örfáum áratugum en í dag er hægt að gera þetta ef upplýsingatæknin er nýtt rétt og sérstaklega ef breytingar á skattkerfinu eru gerðar með upplýsingatæknina í huga.

Aðgengilegar og nýtanlegar upplýsingar eru forsenda ábyrgrar ákvarðanatöku. Fyrsta spurningin er ekki hvort við getum lækkað skatta, heldur hvernig við getum vitað það.

Hatursáróður og heimurinn

Þau málefni sem koma upp í kosningabaráttu eru jafnan þau málefni sem fólk vill helst ræða. En síðan eru málefni sem fólk vill helst ekki ræða, ýmist vegna þess að þau eru óþægileg eða ekki pólitískt heppileg. Tjáningarfrelsi kemst oft ekki hátt á lista vegna þess að það þykir kannski of sjálfsagt eða þá að það vekur upp óþægilega umræðu svo sem klámbann, meiðyrðamál eða umræðu um óþægileg leyndarmál. Mál sem mörgum þykir erfitt umræðuefni, sérstaklega í miðri kosningabaráttu.

Fælnin við umræðu um tjáningarfrelsi leiðir af sér að lítill sem enginn þrýstingur finnst á að halda tjáningarfrelsismálum hérlendis í lagi, sér í lagi með hliðsjón af upplýsingabyltingunni þar sem tjáningarfrelsi er lykilatriði. Eftir stendur lagaumhverfi sem er ekki bara ósamhæft við upplýsingabyltinguna heldur er henni beinlínis ógn. Af nógu er að taka en hér skal tekinn fyrir hatursáróður sérstaklega þar sem það virðist þykja ögn lystugra en klám.

Í 27. gr. laga 38/2011 er að finna: “Bannað er að kynda undir hatri í fjölmiðlum á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis, skoðana eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.”

Þetta hljómar vel í fljótu bragði, enda vildu fæstir horfa á einhvern brjálæðing í sjónvarpinu hvetja til helfarar. Væntanlega er markmiðið þó ekki að hindra fólk í að hafa hatursfullar skoðanir, heldur að vernda almúgann fyrir þeim.

Allar takmarkanir á Íslandi sem ekki eru ritskoðun virka þannig að á þeim er tekið eftirá. Sem dæmi gæti ég birt hatursáróður hér og yfirvöld myndu ekki ritskoða það, en ég gæti verið dreginn fyrir dómara og sektaður eða jafnvel fangelsaður eftir að hafa tjáð mig.

En nú skulum við taka upplýsingabyltinguna inn í myndina. Segjum sem svo að ég ætli sem forvitinn borgari að kynna mér Ísrael/Palestínu-deiluna og komast að kjarna hennar og jafnvel finna lausn eftir langa og stranga rannsóknarvinnu. Þá fer ég vitaskuld á internetið góða til þess að afla mér upplýsinga. Þá kemur í ljós að yfirþyrmandi meirihluti allra ummæla um Ísrael/Palestínu-deilunnar eru hatursáróður, beggja megin línunnar. Segjum sem svo að þetta veki áhuga minn og ég vilji vekja athygli á stöðu mála og taki í þeim tilgangi ummælin hatursfullu, í heild sinni, í réttu samhengi og afriti þau yfir á íslenskan netþjón sem er hýstur hérlendis. Þá er komin upp sú undarlega staða að hægt er að kæra mig og dæma fyrir birtingu og dreifingu á hatursáróðri.

Það er skrítið að geta verið sekur um lagabrot vegna þess að maður velur að tjá sig á íslenskri vefsíðu. Það væri líka skrítið að ætlast til þess að íslenskir dómstólar eltist við erlenda aðila sem tjá sig á sömu síðum. Þá eru lögin í reynd ekki lengur fallin til þess að hindra hatursáróður, heldur til þess eins að passa að fólk hýsi gögn sín síður á Íslandi. Lög sem þessi búa eingöngu til vandamál en leysa engin. Það er engu minni hatursáróður í heiminum sökum þessarar löggjafar, eingöngu hætta á því að maður verði kærður ef maður passar ekki að hýsa gögnin sín annars staðar en hér.

Þetta veldur því að ef fjárfestir skoðar íslensk lög gaumgæfilega en vill ekki stunda ritskoðun á efni viðskiptavina sinna með tilheyrandi kostnaði, erfiði og brotum á friðhelgi einkalífsins, þá er Ísland mjög slæmur kostur til hýsingar gagna. Það er ekki mögulegt ástand fyrir land sem kallar sig netvænt.

Síðast en ekki síst er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að Íslendingar megi hafa aðgang að ógeðfelldum skoðunum fólks sem býr í Sádí-Arabíu, Íran, Kína og Norður-Kóreu, þar sem tjáningarfrelsi er varla til. Það er fráleitt að í landi sem stærir sig af tjáningarfrelsi þurfi fólk að leita út fyrir landsteinana, vilji það vera öruggt um að verða ekki kært fyrir að sýna of vel hinn raunverulega heim sem við búum í.