Lýðræði

Ég legg til að þeir sem ætla sér að mæta á kjörstað til að merkja X við þann flokk sem þeir telja vera með besta stefnumálapakkann staldri við í andartak og spyrji sig nokkurra spurninga. Ef áherslan er lögð á aðferðarfræði í stað stefnumála, myndir þú kjósa eins? Á Alþingi að vera lokaður vinnustaður þar sem 63 starfsmenn taka allar ákvarðanir og þú færð, á fjögurra ára fresti að taka þátt í kjöri þeirra flokka sem velja þessa starfsmenn? Hvað gerist svo ef þeir svíkja kosningaloforðin? Færð þú þá atkvæðið þitt til baka? Missir einhver á Alþingi vinnuna sína?

Núverandi framkvæmdir á lýðræði eru frekar skrítnar og jafnvel órökréttar. Í raun er lýðræðið eins og við þekkjum það í dag frekar ólýðræðislegt. Fólk kýs flokka eftir stefnumálum þeirra sem væri gott og vel ef Alþingi væri rekið eins og fyrirtæki þar sem einn forstjóri ræður öllu. En svo er ekki og það sem gerist í staðinn er það að stefnumálin tínast í þvargi og rifrildi þingmanna, sem allir hafa ólíkar skoðanir og vilja. Vantar forstjóra á Alþingi? Ef svo er þá á almenningur á að fá það starf. Fólkið í landinu á að ráða.

Nálgun Pírata á lýðræði snýst um að einstaklingar séu upplýstir áhrifavaldar í eigin samfélagi. Almenningur á að geta komið að mótun og ákvarðanatöku um allt sem hann varðar. Til þess að gera þetta þarf að breyta því hvernig þingfólk vinnur, hvernig farið er að hlutunum. Það þarf að koma á auknu gagnsæi með því að „opna“ öll kerfin okkar og rýna í þau, betrumbæta og uppfæra. Stjórnmál í dag snúast um rifrildi, ræðumennsku og frekju. Eftir rifrildið spyr maður sig, hver hljómar eins og hann hafi réttast fyrir sér? Það dugar ekki að taka ákvarðanir á þessum forsendum, til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir þurfa staðreyndirnar að liggja fyrir og þær gera það ekki í dag. Þetta getum við lagað mjög einfaldlega með því að auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum. Þetta þarf að vera gert af fólki sem hefur skilning á þeim tækniframförum sem hafa orðið í samfélaginu síðustu áratugi.

Iðnbyltingin er liðin tíð og upplýsingabyltingin er bylting nútímans. Uppfærum kerfin okkar útfrá þessari nýju hugmyndafræði. Tökum valdið af þessum 63 þingmönnum og færum það í hendur almennings. Fulltrúalýðræðið tilheyrir úreltri hugmyndafræði. Internetið býður upp á nýjan möguleika, beint lýðræði. Uppfærum hugmyndafræðina okkar. Byltum samfélaginu. Þetta er framtíðin sem ég vil sjá. Þess vegna er ég Pírati.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *