Nauðungarsölur og Gjaldþrot

ga2Það hefur verið í fréttum að nauðungaruppboð á íbúðarhúsnæði séu nú skipulega framkvæmd af prúðbúnum ríkisstarfsmönnum. Fyrir þá sem verða fyrir þessu er þetta endastöðin, baráttan er töpuð og fjölskyldan húsnæðislaus nema takist að semja um leigu við þann sem hreppir hnossið.

Yfirleitt er fólk búið að sökkva öllu sínu í að halda húsnæðinu og á erfitt um vik fjárhagslega, komið á svarta lista út um allt og eins og leigumarkaðurinn er í dag þá er hægara sagt en gert að finna húsnæði. Þetta vita allir sem eitthvað hafa fylgst með eftir hrunið.

Það sem færri tala um eru hin svokölluðu árangurslausu uppboð, þá er yfirleitt um að ræða eignir sem af einhverjum ástæðum teljast ekki vænlegar til endursölu. Lánastofnanir hafa þá farið þá leið að nýta sér þann mátt sem felst í hótunum um sviptingu á húsnæði í von um að kreista út meiri peninga frá skuldurum. Þegar á hólminn er komið þá bjóða þessar stofnanir svo lága upphæð að hún er ekki metin gild og uppboðið því árangurslaust.

Þetta er algengast þegar Íbúðalánasjóður er með fyrsta veðrétt og aðra lánastofnanir eru þar á eftir, þegar þessum skrípaleik er lokið hefst önnur umferð og á endanum er boðið upp og þá leysir Íbúðalánasjóður til sín eignina. Þannig geta bankar og aðrar lánastofnanir nánast handvalið þær eignir sem þeir telja góðar til endursölu eða leigu en hinar enda hjá Íbúðalánasjóði, sem er jú ríkisstofnun.

Það er líka merkilegt að þegar fólk hefur hreinlega gefist upp og vill bara losna úr snörunni þá á það á hættu að lenda í svona farsa og ferlið getur tekið allt að 2.5 árum, þrátt fyrir að skuldarinn reki jafnvel á eftir.

En hvað gerist síðan eftir nauðungarsölu, margir halda að með nauðgungarsölu þá falli niður allar skuldir tengdar húsnæðinu og jafnvel að nauðungarsala jafngildi gjaldþroti. En það er aldeils ekki þannig, bankarnir halda sínu til haga og rukka fólk fram yfir gröf og dauða nánast.

Íbúðalánasjóður hefur aðrar aðferðir, ef að fimm árum liðnum staða fólks er óbreytt þá getur það sótt um niðurfellingu skuldarinnar sem eftir stendur þegar húsnæðið var boðið upp og Íbúðalánasjóður búinn að reikna út hvert verðmæti er samkvæmt mati frá fasteignasala. Þarna geta nokkrar milljónir borið á milli en að minnsta kosti getur fólk huggað sig við að fá niðurfellingu eftir fimm ár standist það þær kröfur sem gerðar eru af hálfu Íbúðalánasjóðs um slíkt.

Ein leiðin til að losna undan öllum skuldum, er að fara fram á persónulegt gjaldþrot, og vera laus allra mála að tveimur árum liðnum. Eðli málsins samkvæmt er fólk á þessum punkti orðið nær eignalaust og lánastofnanir sjá sér engan hag í að fara fram á gjaldþrot. Gjaldþrota leiðin er ekki fær fyrir alla enda þarf að reiða fram á milli 200 og 300 þúsund til að slíkt sé framkvæmanlegt. Eitt af því sem fylgir gjaldþroti einstaklinga er að þeir missa yfirráð yfir restinni af eignum sínum hverjar svo sem þær eru í hendur skiptastjóra og öllum bankareikningum er lokað.

Þessu fylgir líka að öll lán eru gjaldfelld og þá kemur að vandanum við þessa aðferð. Margir eru t.d. með námslán og samkvæmt gamla kerfinu með ábyrgðarmenn, ef til gjaldþrots kemur þá eru þessi lán gjaldfelld líka og ef skuldin fæst ekki greidd úr þrotabúinu eru ábyrgaðarmennirnir krafðir um greiðslu. Sama gildir um önnur þau lán sem ábyrgðarmenn hafa skrifað uppá. Fáir treysta sér til að varpa slíku á þá sem skrifuðu uppá lán í góðri trú og sérstaklega á þetta við um námslánin þar sem oftar en ekki nánir ættingjar eiga í hlut.

Hvað þýðir þetta í rauninni fyrir þá sem missa eignir sínar á nauðgungaruppboð en treysta sér ekki af ofangreindum ástæðum til að fara fram á gjaldþrot? Jú þetta þýðir að næstu 5 til 10 árin eða svo getur fólk ekki gert neitt annað en að draga fram lífið hundelt af kröfuhöfum út af húsnæði sem er ekki lengur til staðar. Fólk má ekki eiga neitt, er með “svarta” kennitölu þannig að engin fyrirgreiðsla fæst og það kallar á endalaus vandræði í sambandi t.d við að fá leiguhúsnæði, eða ef eitthvað kemur uppá í lífinu sem þarfnast meiri peninga en til eru í augnarblikinu.

Ég vil að þessu kerfi verði breytt, uppboð séu ekki haldin nema eftir að öll vafamál eru afgreidd, fólk fái aðstoð til að reka slík mál fyrir dómi og síðast en ekki síst þá verði komið á svokölluðum lyklalögum.

Allt þetta samrýmist stefnu Pírata í skuldamálum heimilanna og ég vona svo sannarlega að þessi stefna verði höfð til hliðsjónar að kosningum loknum. Það gengur ekki að hópur fólks falli á milli skips og bryggju og eigi sér varla viðreisnar von, vegna þess að það gerði það sem flestir gera, nefnilega að reyna að eignast þak yfir höfðið fyrir sig og sína.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *