Geðveikir öryrkjar

Mér blöskrar mjög oft þegar ég heyri fólk tala um öryrkja eins og afætur, það er eins og þetta sé fullfrískt fólk sem hafi valið það sem lífsstil að vera á bótum vegna leti.

Stundum eru tekin dæmi um þennan eða hinn nágrannann eða fjarskylda ættingja, þegar maður spyr nánar út í þetta þá kemur upp úr kafinu að viðkomandi veit nákvæmlega ekki neitt um af hverju þetta fólk er á örorku.

Það er nú svo að geðsjúkdómar, eins og svo margir aðrir sjúkdóma, sjást ekki utan á fólki og þeir sem ekki þekkja þeim mun betur til vita oft ekki að einstaklingurinn er haldinn slíkum sjúkdómi.

Fyrir fólk sem hefur verið virkt í námi og starfi þá er það ekki létt að þurfa að játa sig sigrað, að minnsta kosti tímabundið. Hvað þá að þurfa síðan að reka sig á endalausa fordóma frá fólki sem hefur lítinn skilning á þessum málum.

Ég vil minna á að örorkubætur eru skammarlega lágar og fæstir geta lifað mannsæmandi lífi á þeim, það er hreinlega blettur á okkar samfélagi. Að veikt fólk skuli þurfa að velja um að kaupa lyf eða mat er eitthvað sem á ekki að eiga sér stað. Bótaupphæðir valda því líka að oft þurfa öryrkjar að sætta sig við húsnæði sem flestum þætti óboðlegt.

Ég hef nokkrum sinnum aðstoðað fólk við að komast í gegnum þetta ferli, það er hvorki létt í vöfum eða einfalt og fólki geta hreinlega fallist hendur þegar það er á sama tíma að glíma við erfiða sjúkdóma.

Hættum að tala illa um öryrkja og þá sem eiga við geðsjúkdóma að stríða, sýnum öðru fólki virðingu og skilning og áttum okkur á það velur sér enginn að verða veikur, sama hvaða sjúkdómur á í hlut.

Mig langar að benda fólki á Mad Pride sem er frábært framtak geðveikra og annarra sem láta sig málin varða. Segjum fordómum stríð á hendur og tökum fagnandi framlagi geðveikra til að gera samfélagið betra ekki veitir af.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *