Hvað er ég að gera í Norðvestur kjördæmi

backandwhite

Ég hef svolítið orðið vör við að fólki finnist undarlegt að frambjóðandi í 3ja sæti í Norðvestur kjördæmi fyrir Pírata sé búsett í Reykjavík. Mig langar að svara þessu með nokkrum orðum, þó að ég búi á höfuðborgarsvæðinu eins og er þá hef ég eytt stórum hluta af mínu lífi á landsbyggðinni.
 
Þess vegna þekki ég vel hvernig er að búa úti á landi, hvernig er að þurfa að skrönglast yfir illfæra vegi eftir  nauðsynjum, til að leita læknishjálpar og annars þess sem maður þarf nauðsynlega á að halda.
 
Ég veit hvernig það er að eignast og ala upp börn úti á landi, það er ekki alltaf einfalt. Eitt af því sem margir standa frammi fyrir er að senda börnin sín að heiman 16 ára gömul til að þau geti haldið áfram að mennta sig. Margir gera sér ekki grein fyrir þeim gífurlega kostnaði sem fylgir þessu og hvað þetta er erfitt fyrir margar fjölskyldur.
 
Ég veit líka hvernig er að eiga hús úti á landi sem er varla seljanlegt, svona ef manni dytti í huga að flytja sig um set, þó ekki væri nema yfir í næsta bæ, og hvernig er að horfa uppá að vera atvinnulaus af því að það er enga vinnu að hafa í mínu bæjarfélagi.
 
Ég get ekki vitað nákvæmlega hvernig er að búa á hverjum stað fyrir sig í mínu kjördæmi, það getur enginn nema þeir sem búa á þeim stöðum. Þess vegna vil ég ekki koma fram og segja þessu frábæra fólki sem býr í þorpum og sveitum kjördæmissins hvernig ég vil leysa þeirra vandamál.
 
Það er komið nóg af því að sérfræðingar að sunnan, komi og tali fjálglega um hlutina og segi fólkinu sem býr úti á landi hvernig best er að lifa lífinu og hvað því sé fyrir bestu.
 
Ég vil hlusta ekki tala, ég vil fá að vita hvað fólkið í kjördæminu er að hugsa, hvaða vandamál eru stærst og hvernig þau sjá fyrir sér að best sé að leysa þau. Mig langar líka að fá að vita hvaða hugmyndir heimamenn sjá í atvinnumálum og hvað þarf til að koma nýjum fyrirtækjum af stað. Það er nefnilega þannig að heimafólk þekkir sitt heimasvæði best og veit oftast hvar tækifærin liggja og hvað þarfa gera svo hægt sé að hefjast handa.
 

Með þær upplýsingar að vopni get ég einbeitt mér að því að vinna að lausnum í samvinnu við heimamenn. Ég er langt í frá sérfræðingur í öllu, en ég hef vilja og getu til að gera vel og afla mér þeirra upplýsingar sem þarf til vinna þessa vinnu.

Með beinu lýðræði gefst fólki kostur á að taka þátt, í að móta stefnuna og að láta sína rödd heyrast sama hvar það býr, það er lykilatriði þess að við mótum samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Bara það eitt og sér er góð ástæða til að vera Pírati.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *