Píratar og tekjur listamanna

Nýlega gagnrýndi Svavar Knútur Pírata fyrir að hafa skoðanir á því hvernig tónlistarmenn eigi að afla sér tekna þar sem Píratar eru, upp til hópa, ekki atvinnutónlistarmenn, og hafa því ekki forsendur til að vera að vasast í því hvernig þessi hópur fer að því að afla sér tekna. Hann segir að það fólk sem lifir og hrærist í þessum iðnaði og hefur hvað mestra hagsmuna að gæta í honum sé það fólk sem skilur þessi mál hvað best því það þarf að reyna þau á eigin skinni. Þetta er að mestu leyti frekar sanngjörn gagnrýni og upp til hópa hafa Píratar verið frekar sammála þessu viðhorfi. Með einni mikilvægri undantekningu þó: við viljum ekki að tekjur listamanna séu notaðar sem afsökun fyrir því að netinu sé stjórnað af gerræði, sem við erum algjörlega sannfærð um að sé í raun eina leiðin til að bregðast við ólöglegri stafrænni afritun og dreifingu ef fara á þá leið. Það þyrfti sumsé að fara alla leið með þetta og slíkt gengur hreinlega ekki. Vandinn er bara sá að um leið og við Píratar tökum þessa afstöðu erum við krafin um að finna lausn á þeim vanda sem er ólögleg afritun og dreifing. Þetta er vandamál sem hefur verið til staðar frá upphafi stafrænna verka og það er enn engin haldbær lausn í sjónmáli þó Píratar séu allir að vilja gerðir.

Sumir segja ólöglega afritun og dreifingu vera þjófnað. Sú afstaða er skiljanleg en þó ekki alveg rétt. Þegar afritunin á sér stað missir afritarinn ekki sitt eintak og verður ekki fyrir þeim missi að hans eintak hverfi í hendurnar á öðrum. Ætlunin með að nefna þetta er ekki að gera lítið úr þeim skaða sem þetta getur valdið heldur að benda á eðlislægan mun á afritun annars vegar og þjófnaði hins vegar. Skaðinn sem getur orðið af þessu athæfi er tekjuskerðing listamannsins í formi minnkandi sölu. Önnur hegðun sem getur valdið tekjuskerðingu höfundar og framleiðsluaðila er lánveiting. Þegar einn aðili lánar öðrum hlut þá koma aðilarnir þar í veg fyrir líklega sölu á svipuðum muni. Lánveiting er samt einnig ólík afritun í eðli sínu, vegna þess að lánveitandi missir tímabundið yfirráð yfir vörunni á meðan hún er í láni. Þó svo að lánveiting sé algeng og samfélagslega viðurkennd hegðun þá þýðir það ekki að hún sé nauðsynlega í eðli sínu siðferðislega réttlætanleg. Það er meira að segja auðveldlega hægt að rökstyðja að svo sé ekki. Ástæða þess að það hefur aldrei komið til tals að banna lánveitingar er tvíþætt. Fyrst og fremst er það vegna þess að slíku banni væri ógerlegt að framfylgja nema að litlu leyti. Í öðru lagi myndu nauðsynlegu ráðstafanirnar sem settar væru til að framfylgja slíku banni fela í sér óásættanleg inngrip í friðhelgi einkalífsins. Það er eitt að fylgjast með sínum eigin eigum og passa upp á þær en það er allt annar handleggur að fylgjast með öllu samfélaginu. Hið síðara yrði að gera á netinu til að sporna gegn afritun rétt eins og það yrði að gera það úti í raunheimunum til að sporna gegn lánveitingum. Það má setja ólöglega afritun einhvers staðar á milli lánveitinga og þjófnaðar en öll þessi athæfi geta verið tekjuskerðandi fyrir framleiðandann.

Píratar hafa verið duglegir við að nefna það að markaðurinn hefur getað aðlagast nýrri tækni hingað til og þrátt fyrir að viðskiptalandslagið sé í mótun er staðan ekki sú að listamenn séu að verða fyrir skerðingu í víðara samhengi. Það eru að þróast nýir viðskiptahættir og þó að þeir séu ekki gallalausir þá voru þeir gömlu það ekki heldur. Þróunin sýnir samt að fólk eyðir jafn miklu nú - ef ekki meiru - en það gerði áður í afþreyingarefni.

Margir listamenn eiga erfitt með að sætta sig við þessa þróun; með að horfa upp á  að það er fólk sem er að gera hluti sem mögulega valda þeim tekjuskerðingu. Ég get vel skilið að þeim finnist það sárt að einstaklingar borgi þeim ekki en njóti samt afraksturs vinnu þeirra. Ég gæti líka skilið ef skóflugerðarmaður væri sár yfir því að fólk stundaði það í stórum stíl að kaupa skóflur og lána þær oft til annarra. Þrátt fyrir það myndi ég aldrei vilja leyfa skóflugerðarmanninum að setja örflögu á allar skóflur til að hann gæti passað upp á skóflunotkunina hjá öðrum. Það væri aðgerð sem ég myndi berjast gegn. Ég er samt ekki með neinar hugmyndir um hvernig eigi að koma í veg fyrir lánveitingar. Skóflusala er ekki mín sérfræðiþekking og því best að ég tjái mig ekkert um hana. Sumir myndu benda á að ef fólk fær lánaða skóflu eykur það líkurnar á því að það kaupi sér skóflu sjálft seinna. Ég þykist ekkert vera ofar skóflusalanum í heimspeki eða siðferði eða betri viðskiptamaður en hann. Það eina sem ég er að segja er að þrátt fyrir mögulegan tekjumissi er fáránlegt að fylgjast með öllum skóflum.