Friðhelgi einkalífs á netinu er mannréttindi.

Sameinuðu þjóðirnar ályktuðu einróma þann 20. nóvember 2013 að persónuvernd á netinu væru mannréttindi.

Þessi ályktun kemur í kjölfar yfirgripsmikilla njósna af hálfu hins opinbera í mörgum löndum. Ég minnist þess ekki að hafa séð íslenska fjölmiðla fjalla neitt um þessa ályktun, enda ekki eins spennandi og njósnir. Hvað er annars svona merkilegt við þetta? Jú, það eru nokkur atriði. Fyrst og fremst snýst þetta um fordóma, misskilning og þroska. Á meðan mannveran elur með sér fordóma, sem eru í eðli sínu ekkert slæmir – þeir eru bara varkárni í garð hins óþekkta, þá er friðhelgi einkalífsins mikilvæg. Við höfum kannski ekkert að fela í samskiptum okkar á netinu, í símanum eða í hversdagslegum samtölum. Máttur mannsins til þess að fordæma, á slæman hátt, það sem hann misskilur er hins vegar gríðarlegur. Fólk bregst harkalega við meinlausum athugasemdum, fólk mismælir sig eða segir lélegan brandara. Ógáfulegar hugmyndir löngu liðinna tíma eru dregnar upp á yfirborðið.

Það er ekki svo langt síðan sem minni manna var það eina sem eftir lifði af atburðum liðinna tíma. Við erum enn að læra hvernig upplýsingasamfélagið virkar. Hvernig brigðult manna minni er ekki eina leiðin til þess að misskilja heldur eru líka texti, hljóðupptökur, myndir, myndbönd, gagnvirkar vefsíður, snapchat, spjall rúlletta, smáskilaboð, dulnefni, athugasemdakerfi veffréttablaða, … fullt af gögnum frá fullt af fólki, um fullt af fólki. Af öllu þessu getur ein saklaus athugasemd orðið að gríðarlegu vandamáli (sjá ágætis útskýringu frá lögfræðing og lögregluþjón: https://www.youtube.com/watch?v=6wXkI4t7nuc).

En aftur að ályktun SÞ.

“Leggjum áherslu á að ólögleg og almennt eftirlit og/eða hlerun á samskiptum, sem og ólögleg eða almenn söfnun á persónugögnum eru verulega uppáþrengjandi og brjóta í bága við friðhelgi einkalífsins, tjáningafrelsi og stríða gegn þeim grunni sem lýðræðislegt samfélag byggir á.” (e. “Emphasizing that unlawful or arbitrary surveillance and/or interception of  communications, as well as unlawful or arbitrary collection of personal data, as highly intrusive acts, violate the rights to privacy and freedom of expression and may contradict the tenets of a democratic society”.)

“Staðfestum að réttindi sem fólk hefur utan samskiptamiðla verða að vera verndaðir innan samskiptamiðla, þar á meðal rétturinn til friðhelgi einkalífsins.”  (e. “Affirms that the same rights that people have offline must also be protected online, including the right to privacy;“)

Í kjölfar þessara ályktanna eru ríki heimsins beðin um að yfirfara löggjöf og ferla til þess að rétturinn til friðhelgi einkalífs sé virtur – LÍKA með tilliti til stafrænna samskipta. Það er ekki bara verið að bæta við skilgreininguna á mannréttindum, það er verið að ítra hversu mikilvæg friðhelgi einkalífsins er – innan og utan stafrænna miðla.