Umræðan um meðferðarúrræði

Þá er annasöm vika að baki í vetrarfríi og pólitík og ekki nema rétt að ég komi með blogg uppfærslu eftir þá síðustu sem ýmist var “spot-on” og “talað eins og úr mínu hjarta” eða málaði “starfsmenn SÁÁ [sem] ófreskjur” eftir því hvort viðkomandi las pistilinn, hver las pistilinn og hverjum fólki fannst ég vera að lesa pistilinn.

Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa sýnt mér, málefninu og umræðunni stuðning. Viðtökurnar voru ótrúlegar; fjölmiðlar birtu vel valdar setningar, fjölmargt fólk hafði samband og lýsti reynslu sinni, fagaðilar vísuðu á fræðsluefni, margir urðu sjóðbrjálaðir bæði með og á móti en umfram allt þá var nauðsynleg umræða tekin um málefni sem snertir fáa mikið.

Það sem kom mér líklega mest á óvart var hvað það höfðu margir samband við mig sem sjálfir höfðu reynt að koma fram með gagnrýni eða ný sjónarhorn á meðferðarmál en treystu sér ekki til að tala undir nafni af ótta við viðbrögð félaga sinna og ‘hagsmunagæsluaðila’.
Kurteisara, menntaðra og reyndara fólk en ég hefur gagnrýnt fyrirkomulag fíknmeðferðar á Íslandi og mætt þrálátri mótstöðu við að kynna hugmyndir sínar. Sjá t.d. hér “vilja kynskipta áfengismeðferð” og viðbrögð SÁÁ vegna fræðslustarfs Rótarinnar.

Stór hluti af tregðunni við að taka umræðuna opinberlega er ótti við að umræðan um neikvæðu þættina eyðileggði það jákvæða starf sem búið er að vinna í málaflokknum, en enn aðrir álitu gagnrýnina vera skaðlega árás sem þyrfti að þagga niður með því að höfða til flokksaga eða meirihlutaaga og biðla til Halldórs eða einstakra fulltrúa borgarmeirihlutans að hafa stjórn á mér. (Sem er auðvitað vitavonlaust verkefni eins og mamma veit.)
Í Pírötum talar hver fyrir sig út frá stefnu flokksins og frekar hefð fyrir ‘and-taumhaldi’ / sjálfsábyrgð og aaaafskaplega litlar líkur á að borgarmeirihlutinn falli yfir gagnrýni mín eða annarra Pírata á takmörkuð meðferðarúrræði og galla þeirra fáu lausna sem nú þegar eru í boði.

Ég tek mark á þeirri gagnrýni á pistilinn minn að ég hafði ekki í huga þegar ég ritaði hann, og vildi vekja aðra pólitíkusa sem bera ábyrgð á málinu og ná eyrum þeirra sem vilja úrbætur í meðferðarmálum, að mögulega væru einhverjir í hópi lesenda sem þyrftu á hjálp að halda sem þeir myndu nú ekki sækja vegna minna orða. Það myndi ég aldrei vilja gera en ég get ekki samþykkt að umræðan um meðferðarúrræði hræði frekar en fræði og því sé betra að þegja til öryggis. Sjá hér hvernig konur fara í meðferð.

Vantraustið hjá þeim verst stöddu er staðreynd og varð ekki vegna til vegna minna orða heldur þeirra eigin reynslu – skortur á trausti gerir það að verkum að veikt fólk sem þarf hjálp fær hana ekki og skortur á gagnrýninni umræðu verður til þess að lítið sem ekkert gerist í úrbótum. Á þessum möguleika tek ég mark og átta mig á ábyrgðinni en þeir sem vilja upplýsingar um meðferðarúrræði fyrir konur eru hvattir til að leita sér upplýsinga m.a. hjá Rótinni félagi um málefni kvenna með áfengis- og fíkniefnavanda eða hér kvennameðferð SÁÁ.

Væri ég atvinnupólitíkus í öðrum flokki hefði ég mögulega skrifað varfærin pistil með ítrekuðum fyrirvörum þar sem ég gætti þess að hlaða núverandi meðferðaraðila lofi fyrir allt sitt óeigingjarna starf og haft vit á að styggja ekki samheldinn hagsmunaaðila eða mögulega kjósendur með því að setja óvægið fram þær óþægilegu fréttir sem berast frá fagaðilum, fjölskyldum og sjúklingum um það hvernig fíknum líður.

Gamall vinur með áratugareynslu í SÁÁ og AA sem á þeim margt að þakka sagðist hafa upplifað gagnrýnina eins og á barnið sitt eða náinn fjölskyldumeðlim sem hefði klúðrað einhverju. Hann vissi alveg að viðkomandi ætti skilið að heyra það en viðbrögðin hefðu óvænt verið tilfinningaleg, líklega vegna þessara traustu banda sem myndast milli fólks í ferlinu og félagsstarfinu. Þetta samband var nokkuð sem mjög margir töluðu um sem höfðu fleiri en eina meðferð að baki og er partur af því sem ég sýni meiri skilning í dag, en tengslin eru að sama skapi hluti af vandamálinu og því hvernig er tekið á endurteknum skýrslum og vitnisburðum sem staðfesta vandamál með samgang unglinga og fullorðinna innan sömu meðferðarstofnunarinnar, en allir aðilar virðast sammála um að miklar úrbætur þurfi í meðferðarúrræðum fyrir unglinga.

Sumir hafa mótmælt gagnrýninni og vitnisburðum vegna þess að þeir sjálfir (og hlutfallslega margir) hafi fengið lausn á sínum vanda í gegnum hefðbundið meðferðarúrræði SÁÁ og ekki upplifað vandamál í kringum það. En ákveðnir hópar halda áfram að lenda utangarðs í kerfinu þó frásagnirnar séu dregnar í efa og menn takist á um hvort og hvernig eigi að taka á málinusjá td öryggi kvenna í meðferð.
Hverjum á að trúa? -þeim sem úrræðin virka ekki fyrir og fólkinu sem aðstoðar þann hóp, eða þeim sem þó hjálpa mörgum í nútíð og ná góðum árangri á eigin og alþjóðlega mælikvarða.*með fyrirvara um takmarkað úrval birtra rannsókna.

Ég var spurð af hverju ég hefði ekki farið fyrirfram í heimsókn á Vog til að kynna mér ástandið og þakka fyrir að ég gerði það ekki heldur talaði frá hjartanu, því annars hefði ég líklega komið til baka pollróleg yfir að við værum nú bara í ótrúlega góðum málum – svona á alþjóðavísu og pottþétt samkvæmt höfðatölureglunni.

Á miðvikudaginn þegar bloggið birtist fékk Halldór borgarfulltrúi okkar Pírata boð um heimsókn upp á Vog til að fá kynningu á starfseminni og á fimmtudaginn var mér boðið með, sem ég að sjálfsögðu þáði enda bæði ljúft og skylt að kynna mér málið frá öllum hliðum og gefa þeim tækifæri að leiðrétta ef ég hef fengið rangar upplýsingar eða farið með rangt mál (dæmin um 13 ára börn á Vogi eru sem betur fer fá).

Heimsóknin var áhugaverð og vel tekið á móti okkur af Arnþóri, Valgerði, Þóru og fleira góðu fólki sem sýndi okkur húsnæðið og átti við okkur gott samtal þar sem nær allir fókusuðu á að uppfræða okkur og eiga heiðarlegt samtal frekar en að reyna að reka ofan í mig ‘rangfærslurnar’ sem voru fyrst og fremst það að ástandið sé orðið mun betra núna en það var, kvennameðferð sé i boði og ástandið ekki svona slæmt þrátt fyrir biðlista og skort á peningum. SÁÁ býður upp á ákveðna kvennameðferð frá 1995, en hún fer fram í blönduðu umhverfi og þyrfti að mínu mati að vera enn sérhæfðari því við SÁÁ leggjum líklega ekki sama skilning í hvað sérsniðin meðferðarúrræði fyrir konur þýði.

Skoðandi tölfræðina er nánast að maður komist að þeirri niðurstöðu að ekkert vandamál sé til staðar; 50% sjúklinga fara í eina meðferð og koma ekki aftur á meðan einungis 3% hafa farið í 10 meðferðir eða fleiri. Er það ekki bara gott mál? Svona miðað við hvað ríkið leggur í málaflokkinn og veitir t.d. innan við 10% af tekjum áfengisgjaldsins í meðferðarúrræði en eyðir svo enn hærri upphæðum í aðrar afleiðingar áfengis- og vímuefnaneyslu sbr. áætlanir um tugi milljarða í samfélagslegan kostnað.
Velgengni skal lofa og SÁÁ má vel fagna þeim árangri sem hefur náðst, en ég veit ekki hvort það er vanþakklæti af mér að búast við enn betri frammistöðu miðað við að Ísland trónir á topp 10 nær allra velmegunarmælikvarða.

Vogur er stærsta afvötnunarsjúkrahús landsins og þar dvelja menn að meðaltali í 10 daga í afeitrun áður en þeir fara í eftirmeðferð (á Staðarfell eða Vík) eða í meðferð á göngudeild. Nær allir fara í gegnum afvötnun sem hluta af meðferðinni (þó einhverstaðar sýni tölur að um fjórðungur er allsgáður við komu) en á staðnum eru einmennings og tveggja manna herbergi og sérstakar álmur fyrir karlmenn, konur og unglinga.

Allir deila mötuneyti, smók og almannarými saman milli þess sem fólk sækir tíma í viðeigandi meðferðarprógrammi en það er partur af sýn meðferðaraðilans til fíknarinnar – að allir séu jafnir frammi fyrir vandamálinu fíkn og í grunninn að takast á við vandamál með sama eðli sem sé hægt að nálgast á sama hátt.

Þessi nálgun að sjúkdómurinn fari ekki í manngreinarálit vegur þungt í samheldni og samhjálp þeirra sem eru saman í meðferðarhópum á Vogi. Milli dagskrárliða í meðferðinni og á matmálstímum þá umgengst fólk (eðlilega) hvert annað óháð því hvort það deilir meðferðarlínu, en ég hef heyrt mikið talað um þessa nánd sem tvíeggja sverð með stóra kosti og galla sem dreifist mismunandi á þátttakendur. Í samskiptum þeirra sem séu samankomnir til að hefja vímulaust líf sé fólk misvel í stakk búið fyrir þessa nánd og því miður einhverjir sem misnota traustið. Til marks um þetta eru endurteknir vitnisburðir kvenna og karla sem hafa byrjað sambönd við þessar aðstæður þegar viðkomandi vissi vel að honum sjálfum væri fyrir bestu að einbeita sér að eigin bata og vilja meina að þeim hefði verið fyrir bestu að geta valið meðferð eingöngu með fólki af sama kyni.
Grein Harkaðu af þér – fyrri hluti

Menn líta þetta vandamál mjög mismunandi augum því svarið við þessum ábendingum var að það væri jú vissulega erfitt að ætla að hafa áhrif á það hvort fólk sé að kynnast í blönduðum rýmum og enn síður hvað gerist síðar eftir að báðir eru komnir út af stofnuninni. Fjölmargir hafa gagnrýnt að þessi blöndun í “kvennameðferð” þjóni alls ekki öllum og gangi gegn þeirri stefnu að skapa skjól fyrir þá sem eru að vinna sig út úr ofbeldi og áföllum.

Sumar konur og sumir karlmenn eiga einfaldlega ekki heima í blönduðu umhverfi í þessu viðkvæma ferli en lausnin hefur vikið fyrir hagkvæmnissjónarmiðum – það er ekki til peningur í aðskilda meðferð – en málið er ekki síður spurning um áherslur og sýn á sjúkdóminn sem arfgengan líffræðilegan sjúkdóm eða afleiðingu af áföllum, ofbeldi, misnotkun eða annarra þátta.

Munurinn á sókn kynjanna í meðferðarúrræði er óskýrður en 4,4% kvenna og rúm 10% karlmanna hafa leitað í fíknmeðferð. Mögulega má finna skýringar í því að konur neyta meira af geðlyfjum og fá meira útskrifað hjá læknum, en miðað við þær upplýsingar sem berast frá fagaðilum er vandamálið líka dulið og veikar ungar konur veigra sér frekar við að leita sér aðstoðar hvort sem er um að ræða skaðaminnkandi úrræði eða meðferðir við fíkn.

Varðandi þá fullyrðingu mína og annarra að ungar stúlkur og konur kynnist ofbeldismönnum í meðferð þá var það staðfest fyrstu hendi í viðtalinu í Íslandi í dag á fimmtudaginn en ég fékk líka skilaboð á netinu frá konum með sömu sögu. Einn viðmælandinn sagðist hafa kynnst tveimur mönnum í meðferð á Vogi sem síðar áttu eftir að beita hana ofbeldi en viðkomandi talaði um að viðkomandi hefði misnotað það traust og nánd sem hafði myndast í meðferðinni.

Við spurðum í heimsókninni m.a. að því hvernig væri tekið á því ef fólk kvartaði yfir áreiti frá öðrum sjúlingum og var sagt að slíkt væri gerðist sjaldan en þá nyti sá sem kvartaði vafans. Ég spurði hvernig væri tekið á ef það kæmu upp slagsmál eða nauðganir og var tjáð að slíkt mál hefði aldrei(!) komið upp frá því Vogur tók til starfa sem verður að teljast einstakt afrek á heimsvísu.

Í eftirmeðferð fyrir konur deila konur húsnæði að Vík með rosknum karlmönnum, en aðstaða á Staðarfelli hentar ekki fyrir þá sem eru komnir af léttasta skeiði en á næstu misserum er fyrirhugað að byggja sérstakt húsnæði sem á að hýsa meðferðarheimili fyrir konur eingöngu en meðferðin mun byggja á núverandi kvennameðferð SÁÁ og ekki ráðgert að setja upp meðferð með kynjaðan vinkil sem tekur sérstaklega á úrvinnslu áfalla líkt og sérfræðingar erlendis hafa mælt með.

Ég skil vel hættuna á hræðslu við blandaða fyrirkomulagið þar sem kynin finna sig misvel, en flestir sjúklingar eru bara “venjulegt fólk” sem og brýn þörf sé á peningum í byggingu sérstaks meðferðarhúsnæðis sem gerir kynskipta (og aldursskipta) meðferð mögulega og fleiri fagaðilum sem komi að meðferðarmálum sem bjóði upp á heildstæða meðferð fyrir fólk sem þarfnast sérstakrar úrvinnslu á áföllum samhliða því sem er tekið á fíkninni og öðrum þáttum sem spila sálrænt og félagslega inní þegar vímuefnaneysla fer úr böndunum.

Kjarninn í gagnrýni minni (og margra annarra) er þessi:
– meðferðarúrræði á Íslandi eru of fá og einsleit. Hið opinbera þarf að leiða stefnumótun í málaflokknum í samstarfi við fagaðila.
– unglingar með vímuefnavanda þurfa sérúrræði þar sem er líka tekið á félagslegum vandamálum og fjölskylduaðstæðum. Unglingar í afvötnun ættu ekki að umgangast fullorðna í sömu stöðu.
– Yfirvöld vinni með meðferðaraðilum í að skoða ábendingar um úrbætur, sér í lagi með tilliti til sérstakra og aðskilinna meðferðarúrræða fyrir unglinga, konur, þolendur ofbeldis og kynferðisbrota.
– Yfirvöld vinni að leiðum með meðferðar- og heilbrigðisaðilum til að veita þeim sem þurfa endurteknar meðferðir úrræði sem byggja á skaðaminnkandi nálgunum og velferðarsjónarmiðum.
– Ríkinu ber skylda til að setja pening í málaflokkinn og auka markvisst úrval meðferðarleiða t.d. mætti leita til fleiri innlendra og erlendra sérfræðinga í málaflokknum.
– Einkaaðilinn SÁÁ er núna lykilaðili í allri fíknmeðferð landsins og hefur yfir að ráða einstæðu gagnasafni sem, að öllum persónuverndarsjónarmiðum uppfylltum, gæti gefið fræðimönnum (meta) gögn til dýrmætra rannsókna. Mér þykir eðlilegt að þjónustusamningur ríkisins tryggi að háskólasamfélagið, bæði félagslegir, sálfræðilegir og læknisfræðilegir sérfræðingar starfi með meðferðaraðilum að framþróun og gæðaeftirliti í meðferðarmálum.

Við Píratar höfum boðið fulltrúum SÁÁ að kynna og ræða starfsemi sína á fundi um meðferðarmál nú í nóvember sem þau hafa þegið – en meira um það þegar fundartími hefur verið negldur.

Blauta meðferðartuskan

Ég er fulltrúi Pírata í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, að vísu áheyrnarfulltrúi þar sem við fengum ekki nema 5,9% atkvæða, en þar sem við erum fullir þátttakendur í meirihlutanum hafa áheyrnarfulltrúar Pírata (og VG) jafnan rétt til að móta meirihlutaákvarðanir og þannig tryggja áheyrnarfulltrúarnir okkar að Pírataáherslurnar skili sér inn í ráð borgarinnar.

RáðhúspontanVið sem skipuðum 5 efstu sætin á lista Pírata skiptum setu í ráðum á milli okkar; borgarfulltrúinn Halldór er jafnframt formaður Stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, tómstundafræðingurinn Þórgnýr er formaður Íþrótta- og tómstundaráðs, og svo við áheyrnarfulltrúarnir, ég í Mannréttindaráði, Arnaldur í Skóla- og frístundaráði, Kristín Elfa í Velferðarráði og Sigurborg í skipulaginu, fyrir utan fulla (en allsgáða) fulltrúa okkar í hverfisráðum Miðbæjar og Breiðholts.

Fundir ráðanna eru mjög mismunandi eftir verksviði en öll eigum við það sameiginlegt að fá reglulega kynningar inn á fundi þar sem við, fulltrúar flokkanna, fáum nánari upplýsingar um þau mál sem okkur og ráðið varðar.

Síðustu tvo fundi Mannréttindaráðs höfum við fengið aðila í heimsókn sem hafa fært óvanalega sláandi fréttir og í gær bókstaflega leið mér eins og við hefðum fengið blauta upplýsingatusku í andlitið.

Fyrri heimsóknin var frá fulltrúum “Frú Ragnheiðar” sem fengu mannréttindaverðlaunin Reykjavíkur í ár en við Píratar tilnefndum verkefnið (nafnlaust) sem svo var valið og viljum styðja það með ráði og dáð, enda skaðaminnkunarnálgunin grunnatriði í okkar nálgun til félagslegra vandamála.
Frú Ragnheiður er unnin af sjálfboðaliðum undir merkjum Rauða krossis en á heimasíðu þeirra segir “Frú Ragnheiður er verkefni sem byggir á skaðaminnkun og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins, t.d. útigangsfólks, heimilislausra og fíkla, og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd, án fordóma eða kvaða, í þeirra nærumhverfi.”

Í kynningu þeirra kom meðal annars fram hversu erfitt þjónustuþegarnir eiga með að treysta kerfinu og meðferðaraðilum almennt. Gagnrýni um skort á úrræðum er að finna víða og hún beinist að stórum hluta að SÁÁ (og AA) sem hefur setið undir ytri og innri gagnrýni meðal annars frá eigin kvenfélagi sem sagði sig úr samtökunum ekki síst vegna andstöðu SÁÁ við sérstök meðferðarúrræði fyrir konur. Á Vogi gerist það ítrekað að konur sem eru þolendur heimilisofbeldis eða kynferðisofbeldis lendi í meðferð með mönnum sem hafa beitt þær ofbeldi og þurfa jafnvel að verja sig þar fyrir áreiti og ágangi manna þegar þær þurfa öryggi og skjól. Á Vogi byrja líka of mörg ofbeldissambönd þegar orka sjúklinganna ætti að fara í eigin bata.

Sérstaklega var nefnt að ungar stúlkur sem eru heimilislausar og í fíkn leita sér síður aðstoðar og leggja ekki í að leita til meðferðaraðila, meðal annars vegna þess að meðferðarúrræðin gera jafnvel illt verra, ferlið niðurlægjandi og blandaðir hópar koma þeim í kynni við enn verri félagskap og skaðleg ástarsambönd.

Á fundi mannréttindaráðs í dag komu fulltrúar frá Rótinni, félagi kvenna með áfengis og vímuefnavanda og fluttu á ný sláandi fréttir um nákvæmlega sama vandamál og kynntu fyrir okkur nýútgefinn bækling fyrir þolendur ofbeldis “ef fjölmiðlar hafa samband“.

Í kjölfarið lagðist ég í rannsóknarvinnu til að leita að gögnum um margt af því sem þar kom fram en ástandið er þannig að ákveðnir menn virðast sitja um unglinga og berskjaldað fólk á þessum viðkvæma tíma, þegar þær eru að leita sér hjálpar, en í fyrra dó ung kona eftir að hafa verið táldregin af eldri manni sem vissi mætavel um aðstæður hennar en hélt engu að síður að henni áfengi í ’tilhugalífinu’.
Nokkrum mánuðum fyrr hafði birtist fréttin “Siðblindir menn sem sitja um berskjaldaðar konur” en við erum ekki bara að tala um konur sem er verið að táldraga heldur BÖRN. (já, blessuð BÖRNIN!)
13 ára stúlkubörn eru sett í áfengis og vímuefnameðferð á “jafningjagrundvelli” með fullorðnum sem þýðir að þarna sitja börn í veiku ástandi og deila sorgum sínum með dæmdum ofbeldismönnum (sumir fá að ljúka afplánun í meðferð), og þær eiga jafnvel að deila af sér og ræða erfið mál við slíka “sálusorgara”. Olnbogabörn, samtök aðstandenda ungmenna með áhættuhegðun hafa margsinnis bent á þetta ástand sem og skort á meðferðarúrræðum.
Þess má geta að Rótin var stofnuð eftir að SÁÁ “slátraði” sínu eigin kvenfélagi, sú saga er listuð annarstaðar á internetinu en þessar fréttir hafa borist lengi m.a. hér frá 2014 “Ofbeldismenn hafa aðgang að veikum konum í meðferð” og hér í skýrslu frá Dómsmálaráðuneytinu 2001 þar sem segir að vændissalar/dólgar útvegi sér vændiskonur í meðferð á Vogi. (skýrslan í heild, sjá bls. 42)

Nú hef ég talað við vini mína sem hafa farið í gegnum meðferðir og þeir segja allir sömu söguna. Hjá SÁÁ virðist lítill skilningur fyrir því að þetta ‘grooming’ sé vandamál og því að ungar stúlkur þurfi GRIÐARSTAÐ í fíknmeðferðinni í stað þess að vera bornar fram sem meðlæti í hópmeðferð fólks með allrahanda bakgrunn, vandamál og þarfir.
Sjá hér lokaverkefni um meðferðarúrræði og upplifun ungs fólks af þeim. þar sem krakkarnir segja meðal annars “Ég kom inn sem sprautufíkill og var í meðferð með tölvufíkli, það meikar ekki sens, hann á ekki að þurfa að kynnast því sem ég var í” og annar segir “það var geðveikt að heyra sögurnar af harðari efnum, ég kom út með það markmið að prófa öll efnin sem hafði verið að tala um.”

Meðferðarúrræðin miðast nær öll við miðaldra fólk/karlmenn og hvorki Innanríkisráðuneytið né SÁÁ hefur tekið ofbeldis- og áfallaúrvinnslu inn í meðferðarúrræðin sem er afleitt. Rannsóknir sýna aftur og aftur að það eru gríðarlega sterk tengsl á milli fíknar og þess að vera þolandi (og gerandi) ofbeldis.
Fíknin verður ekki tekin úr sambandi við manneskjuna sjálfa og aðstæður hennar, en samt nota menn enn sama gamla 12 spora kerfið og ætlast til þess að fólk leggi sálarheill sína í hendur æðri máttarvalda og það sé lausnin fyrir alla; krabbameinssjúklinga í niðurtröppun af verkjalyfjum, heimilislausar stelpur í dópsamböndum, unglingsstráka í kanabisþunglyndi, útigangsfólk og menn að ljúka afplánun.

Innanríkisráðuneytið hefur ekki viljað taka tillit til áfalla og ofbeldis í þeim meðferðarúrræðum sem ríkið býður uppá þrátt fyrir að 80% kvenna sem fara í meðferð hafi verið beittar ofbeldi. Það á semsagt að taka á fíkninni án þess að taka á sálarheill manneskjunnar sjálfrar – svona fyrst það er ekki hægt að láta bara einkasamtök og sértrúarsöfnuði um að sinna þessari samfélagsþjónustu eftir eigin aðferðum.
Umboðsmaður barna hefur ítrekað og árangurslaust sent Innanríkisráðuneytinu erindi og kvartað yfir skorti á úrræðum fyrir börn með andleg vandamál, ástand sem hann kallar mannréttindabrot gegn börnum. (sjá svar ráðuneytisins á síðunni – hah!)

Í ár var skorin niður aðstoð við gerendur kynferðisofbeldis á Litla-Hrauni og utan fangelsa fá kynferðisbrotamenn og barnaníðingar ekki lengur sérstaka meðferð. Þess má geta að íslenskir fangar eru “Evrópumeistarar í endurkomum í fangelsin með yfir 50% endurkomutíðni á meðan önnur Norðurlönd eru með um 16% endurkomutíðni”. Núverandi fyrirkomulag þessara mála er farið að smita út frá sér og búa til vítahring sem kostar mannslíf. Sjá hér samantekt á “þjónustu” fyrir áfengis og fíkniefnaneytendur, skýrsla frá 2005.

Það vantar sárlega betur menntað fólk og eru miklar vonir bundnar við nýtt diplomanám við HÍ sem byrjaði nú í haust, en flestir núverandi meðferðarfulltrúar hafa að baki einungis 300 kennslustundir í ‘meðferðarfræðum’ og er oft á tíðum fólk sem hefur sjálft náð að sigrast á fíkninni en hefur litla sem enga skólagöngu að baki eða faglega þekkingu á sálgæslu og ráðgjöf. Eins og gefur að skilja þurfa unglingar sérstaka nálgun og sérmenntað fólk, þó velviljaðir ‘sponsorar’ hjálpi mörgum og séu allir af vilja gerðir þá geta þeir aldrei komið í staðinn fyrir hjálp sem er sniðin að þörfum mismunandi hópa í stað nálgunarinnar “allir á sömu snúruna”.

Eftir að hafa kynnt mér ummæli framkvæmdastjóra SÁÁ um baráttu kvenna innan samtakanna til að fá sérstök meðferðarúrræði fyrir konur er ég farin að efast um heilindi samtakanna til að taka á vandamálinu. Afneitunin minnir meira á hagsmunagæslu en vanþekkingu.

Ástandið í þessum málaflokki er óboðlegt með öllu, en viðbjóðslegt* sinnuleysi ráðuneytis og SÁÁ gagnvart þessu manngerða vandamáli er farið að líkjast kerfisbundinni misnotkun. Ummæli formanns SÁÁ um úrbætur á aðstöðu kvenna á Vogi hafa sýnt furðulega harkaleg viðbrögð við réttmætum ábendingum og óskiljanlega mótstöðu við að taka á vandamálinu.

Sem Íslendingur hallast ég yfirleitt fyrst að því að ástæðan fyrir því að ekkert gerist sé vanhæfi en viðbrögð SÁÁ við umkvörtunum er farið að minna á viðbrögð SÞ við því að friðargæslan stundaði mansal (sem hún gerði) eða viðbrögð Kaþólsku kirkjunnar við orðrómi um óeðlileg sambönd presta og kórdrengja (sem var til staðar). Það er eitthvað stórkostlegt að þegar vandamál af þessari stærðargráðu fær ekki bara að líðast óáreitt heldur er varið með kjafti og klóm.

Mér líður eins og ég hafi verið slegin með blautri tusku, orðin drullufúl fyrir hönd krakkanna og farin að teikna upp aðgerðir til að nota pólitíkina til að gera eitthvað í málinu meira en veita þeim verðlaun og styrki -sem þó er gott fyrsta skref.

– svo við getum stutt ykkur sem vinnið að mannréttindamálum langar mig að hvetja ykkur að fylgjast með og sækja um styrki frá mannréttindaráði þegar þeir eru auglýstir, en þeir eru veittir tvisvar á ári og er tekið á móti umsóknum í Mars og September.

Markmiðið með styrkjum mannréttindaráðs er að styðja við hvers kyns sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga á sviði mannréttinda sem stuðlar að farsælli þróun borgarsamfélagsins, jafnræði borgarbúa og fjölbreytilegu mannlífi. Að sama skapi að styðja við hvers konar starf sem vekur athygli á eða stendur vörð um grundvallarréttindi borgarbúa.
Reglur um styrki mannréttindaráðs

*já, mér finnst þetta viðbjóðslegt sinnuleysi
** ég biðst velvirðingar á því að setja AA og SÁÁ frjálslega undir sama hatt, annað er 12 spora kerfið og hitt afeitrunarmeðferð/meðferðarstofnun en náin tengsl eru á milli þessara aðila og því erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á mörkunum þar sem AA fundir eru m.a. haldnir á Vogi.
Hér er viðtal við  í Stephanie S. Covington meðferðarsérfræðing sem segir faglega nákvæmlega það sama og ég segi dónalega hér að ofan.

Stefna Pírata í vímuefnamálum:
– Velferðar og forvarnarmál
– Mannúðleg fíkniefnastefna
– Fíkni- og vímuefnastefna í innra kosningakerfi flokksmanna (allir flokksmenn koma að stefnumótun og kjósa um stefnuna)

Af hverju geta Píratar ekki sveigt tíma og rúm?

Miklar væntingar eru gerðar til okkar Pírata þessa dagana.

Samkvæmt fjölmiðlum virðast Píratar njóta stuðnings milli 20% og 30% þjóðarinnar en velgengni í skoðanakannanaheimi hefur ekki fært okkur fleiri þingmenn, þeir eru enn þrír; Jón Þór, Birgitta og Helgi Hrafn.
Saman skipta þau með sér þeim störfum og ásamt aðstoðarkonunni sjá þau þrjú um að eiga að setja sig inn í það sama og 19 manna þingflokkar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, 9 menn Samfylkingar, 7 manns VG og 6 þingmenn Bjartrar Framtíðar.

Píratar eiga eins og aðrir flokkar sæti í fastanefndum Alþingis og fá úthlutað sætum eftir þingstyrk. Fundir fastanefnda eru almennt lokaðir og alloft eru fundir í nefndum haldnir á sama tíma þar sem augljóslega er ekki hægt að halda nefndarfundi á sama tíma og þingmenn eiga að vera í þingsal.

Helgi Hrafn hefur nú í tvö ár frá því hann tók sæti á þingi endað hverja einustu ræðu sína á því að fara fram á að fundir fastanefnda Alþingis séu alla jafna opnir, enda séu þar upplýsingar sem varði almenning, en ekki síður vegna þess að Píratar mega hvorki senda varaþingmenn eða aðra Pírata á fundi, heldur eiga þingmennirnir sjálfir allstaðar að geta mætt í eigin persónu, sem er einungis gerlegt þeim sem geta sveigt tíma og rúm.

Það að Alþingi skuli ekki gera lýðræðislega kjörnum fulltrúum eins og varaþingmönnum kleift að mæta í stað aðalmanna á nefndarfundi er í hæsta máti ólýðræðislegt. Hér hefur flokkur fengið lýðræðislega kosningu sem á að tryggja aðkomu að ákvörðunum og vinnu sem er tekin á lýðræðislegum vettvangi (í þingnefndum).

Annað hvort þarf að breyta fundartímum þannig að fólk geti mætt eða hitt, sem væri enn betri lausn, að flokkar fengju að senda sína fulltrúa OG að fundir séu alla jafna opnir nema sérstaklega þurfi að loka þeim vegna viðkvæmra upplýsinga.

Á meðan Alþingi hefur ekki fundið lausn á því hvernig þingmenn eiga að geta setið tvo og jafnvel þrjá nefndarfundi í einu hefur Mogginn ákveðið að notfæra sér viðverukladdann og slær því upp í fyrirsögn að Píratar mæti verst á þingi.

Þessi fréttaflutningur af lélegri mætingu er vægast sagt undarlegur þegar fundarsköp en ekki leti eða náttúrulögmál eru vandamálið. Píratar eiga ekki að vera á fleiri stað en einum í einu og hafa áhuga á að mæta þar sem þeir eiga sæti. Til dæmis hafa fulltrúar Pírata í Reykjavík nær fullkomna mætingu á vettvangi borgarinnar, en þar eru borgarfulltrúi, varaborgarfulltrúi og næstu menn á lista í fjölmörgum nefndum og ráðum þar sem flokkurinn hefur rétt á lýðræðislegri aðkomu. Fyrir vikið komum við mun meira í verk, fleiri Píratar kynnast lýðræðislegu ferli og með því að skipta með okkur verkum næst betri niðurstaða heldur en ef einum og hálfum borgarfulltrúa væri ætlað að sjá um þetta alltsaman.

Píratar þakka Mogganum fyrir það tækifæri að svara þessum “fréttaflutningi” og gera það hér: Hvernig verja þingmenn Pírata tíma sínum?

“Þingmenn Pírata skipta á milli sín setu í átta fastanefndum auk forsætisnefndar, Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, þingskapanefndar og fleiri nefnda. Á fundatímum fastanefnda eru þingmenn Pírata yfirleitt á einhverjum þeirra funda sem á dagskrá eru. Það er hins vegar allur gangur á því í hvaða fastanefnd þeir sitja í hverju sinni. Þannig þarf Jón Þór helst á vera á þremur fundum á sama tíma á mánudags- og miðvikudagsmorgnum; efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, og umhverfis- og samgöngunefnd. Birgitta þarf að vera á tveimur stöðum í einu á þriðjudögum og fimmtudögum; stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og utanríkismálanefnd. Helgi Hrafn er sá eini sem getur mætt í sínar nefndir án árekstra vegna þess hve heppilega fundartímarnir raðast, vegna þessa er Helgi Hrafn eflaust með bestu mætinguna af þingmönnunum þremur.

Þingmennirnir fara vandlega yfir allar dagskrár nefndafunda og forgangsraða tíma sínum og hvaða fundi skuli mætt á eftir því hvað er á dagskrá funda hverju sinni. Hvað er líklegast til að gera grunnstefnu Pírata að veruleika ræður forgangsröðuninni. Þingmennirnir reyna þannig ávallt að að vera þar sem dagskrárliðir hafa snertiflöt við grunnstefnu Pírata hvort heldur er til góðs eða ills.”

Það er óbjóðandi að Pírötum sé ekki gert kleift að senda fulltrúa á þá fundi sem þeir eiga rétt á í umboði sinna kjósenda.
Það er líka óbjóðandi að flytja villandi fréttir um mætingu sem eiga rót í því hvernig innanhússkipulag Alþingis refsar smáum flokkum, og gera svo þingmennina sjálfa ábyrga fyrir að geta ekki beygt tíma og rúm til að vera á fleiri en einum stað í einu.

Það er lágmarkskrafa að varaþingmenn fái að sinna þessum störfum, ef ekki aðrir lýðræðislegir fulltrúar flokksins, en þar sem mál nefndanna eiga erindi við alla tek ég enn og aftur undir með Helga og legg til að fundir fastanefnda Alþingis séu alla jafna opnir.

Birtist einnig á dv.is )

Hér til hliðar má sjá yfirlitsmynd sem sýnir raunverulega mætingu allra þingmanna
mætingánefndarfundi

Uppátækjasamir borgarar

hér er gott dæmi um það hverju einstaklingsframtakið áorkar en Styrmir Barkarson íbúi í Reykjanesbæ einfaldlega lagði fram fyrirspurn og fékk svör frá bæjarfélaginu sínu.

Óskaði eftir upplýsingum um laun æðstu stjórnenda hjá Reykjanesbæ

Ég ætla ekki að fullyrða að Styrmir sé Pírati, en þegar ég las þessa frétt hugsaði ég “örugglega Pírati” 😉