“Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum”

Guðmundur Andri Thorsson skrifar í Fréttablaðið í dag greinina steldu.net  þar sem hann fjallar niðurhal og ræðst harkalega á Pírata og gerir okkur upp meiningar en hann segir í greininni:

“Heill stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður utan um þessi mikilsverðu réttindi þess sem situr með hendur í skauti heima í stofu og bíður eftir því að vera skemmt, og kennir sig af stolti við iðju sjóránsmanna fyrri alda og talar í nafni framtíðarinnar. Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum.”

Ég  fullyrði að það er ekki til að stunda stigamennsku til að grafa undan lífsviðurværi fátækra listamanna að fólk gengur til liðs við Pírata og Píratahreyfing hefur sprottið upp víða um lönd og orðið stjórnmálaafl. Það eru margar ástæður fyrir því  að fólk er Píratar en hjá flestum sem hafa fylgst með samfélagsþróun síðustu ára og lifað og hrærst í netheimum og starfað þar er þetta stjórnmálaafl beinlínis orðið til af brýnni þörf, þörf fyrir að sporna við því að samfélag netheima verði að fjötrum og kúgunartæki valdhafa og beygt undir samfélagsgerð sem setur neyslu í forgang og viðurkennir ekki samskipti nema einn sé að selja  og  annar að kaupa og innsiglar samskipti með peningum.

Þannig samfélag, markaðshyggjusamfélag þess tíma sem við lifum á virkar ágætlega við ákveðnar aðstæður og átti sitt blómaskeið á tímum fjöldaframleiðslu þar sem endalaus eftirspurn var eftir hlutum. En þannig samfélag býr til og viðheldur misskiptingu þannig að sá sem á mikið  getur líka keypt mikið og keypt sér aðgang að þekkingu og aðföngum sem efla hann til að verða ennþá ríkari á meðan sá sem á ekkert til að greiða með er útilokaður. Það er af þessari ástæðu  að ég sem kennari fylki mér í hóp þeirra sem vilja að  sem mest af upplýsingum  og þekkingu heimsins þ.e. því sem getur orðið efniviður til bjargálna  sé frjáls og ókeypis og öllum aðgengileg við  aðstæður  sem fólk getur nýtt sér.

Ef bækur eru dýrar og mikið umstang þarf að afla þeirra verður það efni sem er í bókum  aðeins aðgengilegt litlum forréttindahópi í samfélaginu.  Þannig var um bækur fyrir tíma prentlistar, þá voru þær handrit í eigu höfðingja og ríkra klaustra og það var ekki almenningur sem hafði aðgang að þeirri þekkingu sem þar var. Með prentinu breyttist það, þekking gat breiðst miklu hraðar út og fleiri höfðu aðgengi að þekkingu. Það hafa í þúsundir ára verið til bókasöfn, þekkingarsöfn þar sem fólk gat lesið bækur. En í mörgum samfélögum var og er aðgengi að bókasöfnum  forréttindi ákveðinna hópa, forréttindi sem tryggja valdastöðu þeirra og möguleika til að hafa áhrif og ekkert er eins áhrifaríkt til að viðhalda valdaleysi hinna að þeir hafi ekkert aðgengi að þekkingu og upplýsingum. Af hverju ættum við að viðhalda samfélagi sem setur manngerðar hindranir á aðgengi að þekkingu og upplýsingum að því er virðist fyrst og fremst til að auka forskot þeirra sem hafa á þá sem hafa ekki?

Það er engin tilviljun að sá maður sem varð hetja sjálfstæðisbaráttunnar á Íslandi Jón Sigurðsson hafði afar góðan aðgang að bókasöfnum og ýmis konar þekkingu um landshagi, aðgang sem hann fékk fyrst sem kornungur maður sem biskupsritari í Reykjavík hjá þeim manni sem átti hvað best bókasafn á Íslandi. Veltum fyrir okkur hvort að Jón hefði getað beitt sér á sama hátt í sjálfstæðisbaráttunni ef hann hefði aldrei farið suður og aldrei siglt til Kaupmannahafnar heldur setið alla tíð heima á Hrafnseyri og orðið að moða eingöngu úr þeirri þekkingu sem barst til heimabyggðar hans þá.  Á þeim tíma var það reyndar hlutskipti næstum allra kvenna að sitja heima og hafa enga möguleika til að afla sér menntunar annarrar en þeirrar sem barst á heimaslóðir. Það voru höfðingjasynir, synir presta og embættismanna sem sigldu utan til náms og frama. Nú lifum við á tímum þar sem vel er hægt að afla sér þekkingar án þess að sitja nokkurn tíma undir lindinni á stúdentagarði í Kaupmannahöfn.  Af hverju ættum við í dag að búa til og viðhalda sams konar höfðingjaveldi og fyrir hundruðum ára með því að takmarka aðgengi hinna fátækari og vegalausari til þekkingar og upplýsinga?

Það eykur möguleika okkar á að bjarga okkur að hafa sem best aðgengi að þekkingu og upplýsingum. Að sama skapi er það hættulegt ef yfirvöld eða valdamiklir aðilar fá of mikil réttindi til að ráðskast með netaðgengi okkar og vakta hvert okkar spor og  andspyrna gegn slíku er ekki síst það sem dregur fólk að Pírötum.  Það er knýjandi að vekja athygli á og umræðu um hve hættulegt er að herveldi grá fyrir járnum breytist í lögregluríki á Internetinu og ofsæki almenning og stýri umhverfi þar og umræðu sér í hag til að banna og veikja alla andspyrnu og alla gagnrýni. Nettæknin er öflug og það eru nógu hræðilegar sögur frá tímum heimstyrjaldar og kaldastríðs og ýmissa einræðisríkja sem færa okkur rök fyrir því hvers vegna við eigum að spyrna fast við öllum tilburðum valdhafa sem líta á þegna sína sem mögulega hryðjuverkamenn  og þeirra sem ganga erinda stórra auðhringja sem vilja læsa okkur inn í neyslumynstri sem gerir þá ríka og okkur andlausa, fákæna og fátæka. Það er knýjandi eins og uppljóstranir Snowdens og Wikileaks hafa sýnt.

En það er líka knýjandi að við áttum okkur á því að öll framleiðsla og efnisgerð og þar með talin skapandi skrif og listvinnsla ýmis konar er að breytast, breytast úr því að vera höfundarverk einstaklinga eða vara framleidd af fyrirtæki í að verða síkvik endurgerð þar sem sköpun getur allt eins verið að setja saman hluti frá öðrum og mörkin eru að hverfa –  mörkin milli neytanda og framleiðanda og mörkin milli lesanda og rithöfundar  sem og ýmsar aðrar markalínur. Kerfi sem passaði vel við prentsamfélag og fjöldaframleiðslusamfélag með skýr mörk er ekkert að virka núna. Peningakerfi nútímans er t.d. að virka ákaflega illa.

Við lifum núna á mótum tveggja skeiða, annars vegar skeiðs fjöldaframleiðslu og skýrt afmarkaðra stofnana og hins vegar á tímum það sem framleiðsla er að breytast, breytast m.a. á þann hátt að vara, hlutir, þjónusta, afþreying og list er sköpuð á sama vettvangi og hún er notuð, sköpuð að miklu leyti á notkunarstað og af notanda. Við erum ekki lengur á tímum þar sem eru lesendur og hlustendur með skýrt afmörkuð hlutverk sem hvergi skarast, við erum á leið inn í tíma gerenda, inn í gerendamenningu. Einn liður í því er að sagnagerð og það sem áður var bókmenntir  er að breytast í einhvers konar ævintýraleiki sem geta haft margar endingar og margraddaða og samflækta kóra í síbylju Netsins. Og margir verða höfundar að einu verki, ekki bara einn fátækur listamaður.

Við lifum á tímum remixsins, endursköpunar úr annarra verkum og sú endurblöndunarlist spratt upp úr tónlist en mun og hefur teygt sig í aðrar greinar og líka yfir í framleiðslu og þá fyrst í stafræna framleiðslu. Við höfum séð hreyfingar spretta upp í Netheimum sem taka mið af þessum veruleika og skora staðnað kerfi eignavarinna réttinda á þekkingu og forskriftum á hólm. Hér má nefna samfélög um opinn hugbúnað og samfélög um opna þekkingu (t.d. Wikipedia).

Hér er bein tilvitnun í grein Guðmundar Andra (vona að mér sé heimild að birta þetta hérna, ég hef það milli gæsalappa og inndregið og skáletrað og vona að ég sé ekki að fremja höfundarréttarbrot á að vitna í orð hans þar sem ég þarf þess í minni umfjöllun um hans pistil):

Þannig má velta fyrir sér röksemdum þeirra sem aðhyllast frjálst niðurhal á kvikmyndum, tónlist og bókum. Í fyrsta lagi, segja þau, er vonlaust að koma í veg fyrir meirihlutann af þessu. Í öðru lagi er það forneskja að neytandinn geti ekki sjálfur náð sér í þann varning sem hann hefur áhuga á undir eins og honum þóknast. Og í þriðja lagi er höfundarrétturinn úreltur.

Þetta eru falsrök. Það að erfitt sé að koma alls staðar með lögregluaðgerðum í veg fyrir einhverja mannlega iðju getur aldrei táknað að samfélagið eigi þar með að fallast á hana. Boð og bönn samfélagsins snúast ekki fyrst og fremst um glæpi og refsingu heldur öllu fremur um sjálfsmynd samfélagsins og sjálfsmynd þeirra einstaklinga sem það mynda – rétt og rangt – almennt siðferði. Er ég manneskja sem getur lifað með því að taka réttmæta eign annarra? Erum við samfélag sem getur lifað með því að líða ránskap?

Það að tæknilega sé mögulegt að gera eitthvað gerir það ekki sjálfkrafa æskilegt. Það að mig langi í eitthvað táknar ekki sjálfkrafa að mér beri að fá það fyrirhafnarlaust.

Neytandinn über alles

Þegar ég sæki mér bíómynd á síðuna deildu.net, sem af stolti auglýsir að hún bjóði nú upp á íslenskt efni, þá er ég ekki bara að taka það ófrjálsri hendi sem mér ber að borga fyrir heldur er ég líka að lýsa því yfir að það fólk sem haft hefur fyrir því að skapa þetta listaverk eigi ekki að fá greitt fyrir vinnu sína. Ég er með þessum gjörningi að lýsa því yfir að matráðsfólkið við gerð myndarinnar eigi ekki að fá greitt fyrir matargerðina, ekki bílstjórarnir sem vinna við gerð myndarinnar, ekki kvikmyndatökufólkið, ekki smiðirnir sem gera leikmyndina, ekki klipparinn, ekki leikstjórinn, ekki leikararnir, ekki þau sem finna tökustaðina, ekki handritshöfundurinn – enginn. Þau hafa – segi ég með þessum gjörningi – engan rétt á launum fyrir vinnu sína: ég hef allan réttinn mín megin vegna þess að ég er nefnilega neytandi.

Hið sama gildir um bókagerð og öll afleiddu störfin sem hljótast af iðju skáldsins og hið sama gildir um tónlistina: réttur neytandans til að njóta listarinnar er samkvæmt þessum þankagangi æðri rétti listamannsins til að fá greitt fyrir vinnu sína. Heill stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður utan um þessi mikilsverðu réttindi þess sem situr með hendur í skauti heima í stofu og bíður eftir því að vera skemmt, og kennir sig af stolti við iðju sjóránsmanna fyrri alda og talar í nafni framtíðarinnar. Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum.

Guðmundur Andri sér hlutskipti sitt og annarra listamanna sem fátækir puðarar sem eru ofurseldir því að selja vöru sína á markaði, selja til þeirra sem eru núna að niðurhala efni ókeypis og það sé tap listamannanna. Það má líka lesa milli lína í pistli Guðmundar Andra þá sýn að listamaður sé eini skapandi sinna höfundarmerktu verka og þess vegna eigi hann einn höfundarrétt á þeim. Ekkert gæti verið meira fjarri sanni. Það er einungis lítill hluti af verði listverks sem rennur til listamanns í venjulegu markaðskerfi, mestur hlutinn fer í alls konar milliliði og söluaðila. Opinberir aðilar á Íslandi styðja við listsköpun á ýmsan hátt og greiða m.a. völdum listamönnum laun. Ef listsköpun þeirra er þess eðlis að hún er elítulist sem aðeins fáir útvaldir fái notið vegna þess að hún kostar svo mikið, hvers vegna er þá verið að niðurgreiða slíka list af fé almennings? Væri ekki skynsamlegra að fella niður listamannalaun í núverandi mynd og borga í staðinn listamönnum fyrir að gefa verk sín út með opnum höfundarleyfum (CC leyfum) þannig að verkin séu öllum aðgengileg?

Og hversu mikið á listamaður sína sögu, spratt hún fram úr einrúmi án tengsla við allar þær raddir sem ómuðu meðal almennings? Nei. Margir listamenn hafa nýtt sér og drukkið í sig örlagasögu raunverulegs fólks og fært það í búning í skáldsögum sínum. Þannig saug Halldór Laxness í sig ævisögu skáldsins á Þröm og færði í glitbúning Ljósvíkingsins og núna nýverið var einmitt umræða sem mig minnir að Helga Kress hafi staðið fyrir þar sem nokkrar nýlegar skáldsögur voru krufðar og farið í hvernig höfundar svelgdu í sig líf raunverulegs fólks án samþykkis. Vigdís Grímsdóttir lýsir svoleiðis sköpun snilldarlega í skáldsögu sinni  Stúlkan í skóginum, í kossinum þar sem brúðugerðarkona sýgur lífsorku út úr stúlkunni til að glæða brúður sínar lífi. Og hve margir listamenn fyrr og síðar hafa ekki verið í stöðu listasmiðsins Völundar sem var í haldi konungs að vinna að smíðum sínum og var örkumlaður og fjötraður af þeim sem hann vann fyrir til að hann færi ekkert.

Það hafa margir bent á að listamenn fá flestir  afar litla umbun fyrir verk sín og bækur seljast ekkert nema fyrstu tvö árin eftir að þær koma út. Það er enginn að græða á því að frysta verk og þekkingu og sögur og list inn í frystigeymslum hefðbundins höfundarréttar. Það hafa sprottið upp öðruvísi kerfi, kerfi þar sem höfundarrétthafar gefa efni sitt út með opnum höfundarrleyfum og eins og staðan er núna þá stefnir allt í það að við sem viljum fara að lögum höfum ekkert val nema að sniðganga algjörlega efni með hefðbundnum höfundarrétti. Þetta getum við von bráðar vegna þess að það verður sífellt til meira af efni með opnum leyfum. En þetta þýðir að við höfum ekkert aðgengi að stórum hluta nútímamenningar, Við erum svipt aðgengi að okkar eigin menningu, við megum ekki tala um hana, við megum ekki enduróma hana eða nota í okkar eigin verk og okkar samræðu. Sá tími mun koma að það mun renna upp fyrir fólki hversu miklir fjötrar og óréttlæti og mannréttindabrot þetta eru. Ég nefndi sem dæmi að ég má ekki birta mynd af Hallgrímskirkju eða Skálholtskirkju á Wikipedia vegna þess að þessar byggingar eru höfundarrréttarvarin hugverk arkitekta og sá höfundarréttur rennur ekki út fyrr en 70 árum eftir dauða höfundar.  En málið er þannig núna að menning sem ekki lagar sig að nýjum tíma, að nýjum veruleika og nýrri miðlun og heldur í svona reglur er menning sem er að deyja og hún deyr kannski út  á skemmri tíma en 70 árum.

 

 

Posted in Uncategorized

Íbúðarlánasjóður og illa unnin rannsóknarskýrsla

Út er komið mikið plagg um íslenska húsnæðislánakerfið, rannsóknarskýrsla um hvað varð um peninga sem settir voru í húsnæðislán. Það kemur okkur öllum við því ef rosalegt tap er á húsnæðislánakerfinu þá lendir það tap á okkur, almenningi á Íslandi. Það er nefnilega þannig að þó að Íbúðalánasjóður fái ekki beint peninga frá ríkissjóði heldur sæki sér peninga sem hann endurlánar til húsnæðiskaupenda og byggenda þá  eru skuldabréf Íbúðarlánasjóðs  með ríkisábyrgð. Það er margt gott í þessari miklu skýrslu og það er farið vel ofan í ýmsa hluti t.d. hvernig Íbúðalánasjóður breyttist úr að vera félagslegt íbúðarlánakerfi sem gerði almenningi kleift að eignast húsnæði yfir að spila með í tjúlluðum dansi fjármálagjörninga.

Hvernig Íbúðalánasjóður varð á tímabili að einhvers konar fjármálastofnun sem yfirfylltist af fé vegna uppgreiðslu húsnæðislána af því að bankarnir sem óðu í lánsfé byrjuðu að yfirtrompa Íbúðarlánasjóð og fólk skuldbreytti,  greiddi upp húsnæðislánið hjá Íls og tók bankalán í staðinn. Það sem er magnaðast er að Íbúðarlánasjóður sem var yfirfullur af peningum vegna þessara uppgreiðslna hélt áfram að taka peninga að láni hjá erlendum fjárfestum og það sem er grjótmagnað er að á tímabili þá lánaði Íbúðarlánasjóður bönkunum peningahrúgurnar sínar svo bankarnir gætu boðið ennþá poppaðri húsnæðislán.  Þannig gerðist það að Íbúðarlánasjóður varð að vogunarsjóði og starfsemi hans og orka fór mikið í að gambla með peninga sem hann tók að láni og við almenningur á Íslandi erum ábyrg fyrir. Það fór illa fyrir Íbúðarlánasjóði en það fór ennþá verr fyrir bönkunum sem hann var að lána fé,  bönkunum sem reyndust froðumaskínur sem blésu  eingöngu sýndarverðmætum sem glampaði og glitraði á þegar þau svifu upp en urðu að engu þegar froðan hjaðnaði.

Saga Fjármálahrunsins hérna á Íslandi eða í hinum vestræna heimi kringum okkur verður ekki sögð nema með því að skoða íbúðalán. Það eru einmitt íbúðarlánin, undirmálslánin bandarísku sem eru af mörgum talin orsakavaldur Hrunsins, að spunnin hafi verið upp mikil fjármálaflækja því fjármálastofnanir lifa og hrærast í því að búa til peninga úr skuldum. Þetta er svo sem allt í lagi meðan þú getur búið til meiri og meiri skuldir en ef einhvern tíma kemur að skuldadögum og þegar það rennur upp fyrir öllum  að skuldarar geta ekki borgað og lánin hljóta að fara í vanskil  eins og gerðist á ameríska undirmálalánamarkaðinum þá hjaðnar froðan með leifturhraða þegar skuldabréfavafningarnir verða að engu,  Atburðarásinni er lýst í Wikipedía greininni:

“Bandarísk undirmálslán setti af stað atburði sem leiddu til fjármálakreppunnar og síðar samdráttar sem hófst árið 2008. Það einkenndist af auknum vanskilum og svipting veðþola á rétti til eignar sinnar vegna vanefnda á veðskuld, það að ganga að veði. Það síðar leiddi til falls á hlutabréfamörkuðum og lánalínur lokuðust. Nokkur helstu fjármálafyrirtæki voru að hruni komin í september 2008, með verulega röskun á streymi af lánsfé til fyrirtækja og neytenda og upphafs á alvarlegum alþjóðlegum samdrætti. Það voru þó margar ástæður fyrir kreppunni sem myndaðist í kjölfarið. Sérfræðingar hafa deilt sökinni milli lánastofnana, eftirlitsstofnana, matsfyrirtækja, ríkisstjórnar og neytenda, meðal annarra. Meðal annars var ein orsök, hækkun á undirmálslánum. Erlend fjármálaleg skilyrði versnuðu til muna vegna umhleypinga á erlendum fjármála- og peningamörkuðum. Óróinn sem einkenndi alþjóðafjármálamarkaði um þær mundir átti sér að nokkru leyti rætur í vaxandi vanskilum á bandarískum húsnæðislánamarkaði, þótt upphaf vandans eigi sér dýpri rætur í efnahagsstefnu helstu ríkja heims og ójafnvægi í heimsbúskapnum. Um mitt ár 2005 tók að gæta aukinna vanskila í Bandaríkjunum sem í fyrstu voru einskorðuð við ákveðinn flokk húsnæðislána, þessi umtöluðu undirmálslán, sem veitt voru húsnæðiskaup endum með rýrt lánshæfi. Lækkun húsnæðisverðs og hækkandi greiðslu byrði lántakenda, einkum vegna endurskoðunarákvæða á vaxtaálagi sem voru algeng á þessum tegundum lána, leiddi til þess að vandinn stigmagnaðist. Stigvaxandi vanskil leiddu til þess að markaðsverð skuldabréfavafninga sem tengdust undirmálslánum tók að falla og dró úr seljanleika þeirra” Sjá hérna Wikipepia grein um undirmálslán  (enska Subprime lending)

Ég tel reyndar að það sé ekki rétt að undirmálslánin hafi verið orsakavaldur að fjármálakreppunni og hugsa að þegar tímar líða fram þá munum við sjá að panik vegna undirmálslána var frekar birtingarmynd hennar og þetta var kerfi sem fyrr eða síðar hlaut að kafna í eigin spýju, það bara einfaldlega gekk ekki upp.

Það þarf því engan að undra að eitthvað hafi gengið á hér á landi varðandi húsnæðislánin. Ég reyndi að lesa hinn mikla doðrant Rannsóknarnefndarinnar og skrifaði úrdrátt úr 2. kafla skýrslunnar í wikipedia grein þar sem ég reyndi að segja á eins skýran og einfaldan og ópólitískan hátt og mér var unnt frá niðurstöðum skýrslunnar, sjá þennan úrdrátt hérna:

Wikipedia greinin um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð

En það er mikið að þessari skýrslu. Það er ekki allt að og ágætt að tínd hafi verið til þessi gögn og gerð þessi úttekt. En þetta er þröngsýn og illa unnin skýrsla með bjöguðu markaðshyggjusjónarhorni. Skýrslan er þröngsýn vegna þess að ég merki enga tilraun hjá skýrsluhöfundum að setja Íbúðarlánasjóð í tengingu við umheiminn og hvað þar var að gerast og hvað var að gerast í íslensku samfélagi á þessum tíma. Skýrsluhöfundar virðast einbeittir í þröngri flokkspólitískri sýn, í sinni leit að sukki og spillingu. Þetta er kannski of hart orðað hjá mér og endurspeglar frekar það sem er velt upp í fjölmiðlum sem vissulega eru bara að leita að spillingu og sjokkfréttum en ekki að reyna að skilja, ég hef ekki haft tök á að lesa nema fyrstu kaflana ennþá og reiði mig  í mörgum atriðum á endursögn fjölmiðla um efni skýrslunnar

Skýrslan er með verulegri markaðshyggjubjögun og Ögmundur Jónasson bendir á hve mikil markaðsslagsíða er á skýrslunni og hve ógagnrýnin hún er á fjármálakerfið á þeim tíma sem til skoðunar eru. Hann segir;

Það sem ég hef hins vegar gagnrýnt í starfi rannsóknarnefndarinnar er hve ógagnrýnin hún virðist vera á fjármálakerfið á þeim tíma sem rannsóknin tekur til og hve ákaft hún tekur undir gamalkunnar kröfur um einkavæðingu húsnæðiskerfisins: „Rannsóknarnefndin skoðaði 21 úttekt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gerðu á íslensku efnahagslífi á árunum 1999–2012 og þær athugasemdir sem þar koma fram  um húsnæðisstefnu stjórnvalda. Íbúðalánasjóður hefur verið að meira eða minna leyti í brennidepli í þessum úttektum stóran hluta tímabilsins. OECD hefur hvatt til einkavæðingar húsnæðislánveitinga ríkisins síðan á dögum Húsnæðisstofnunar.“

Rannsóknarnefndin tekur undir með einkavæðingarkröfu þessara aðila – sem eru ekki nýjar af nálinni, hvorki gagnvart húsnæðiskerfinu né heilbrigðisþjónustunni – og varar jafnframt  við „afskiptum stjórnmálamanna“ af húsnæðismálum. Hneykslast er á því að félagslegt kerfi sem lýtur stjórn lýðræðislega kjörinna aðila, skuli „veita almenna lánafyrirgreiðslu á niðurgreiddum kjörum í samkeppni við einkarekna aðila.“ Grundvallartónninn í röksemdarfærslu rannsóknarnefndarinnar er sá að Íbúðalánasjóður hefði ekki átt að vera atkvæðamikill á íbúðalánamarkaði eftir að ljóst varð að  „einkaaðilar höfðu getu og vilja“ til að sinna því verkefni. Í þessu samhengi er Íbúðalánasjóður sakaður um óeðlilega „markaðssókn“ gegn bönkunum. „Raunar er ekki að sjá nein rök fyrir aðkomu hins opinbera að almennum lánveitingum á húsnæðismarkaði eftir að vaxtafrelsi var komið á, nútímavæðingu fjármagnsmarkaða lauk og ríkisbankarnir seldir.“

Það sem vantar í rann­sóknar­skýrsluna Pistill Ögmundar Jónassonar 5. júlí

Hér bendi fólki á að lesa bloggpistil Ögmundar, hann orðar vel þá tilfinningu sem ég fékk við að lesa skýrsluna. Ögmundur hefur manna bestu yfirsýn yfir húsnæðishrun á Íslandi, hann tilheyrði Sigtúnshópnum svokallaða og byrjaði raunar sín stjórnmálaafskipti þar að ég best veit, það var einmitt tími sem líkist nútímanum, þar var snögglega í hamslausri óðaverðbólgu  kippt fótunum undan öllu ungu fólki á Íslandi sem reyndi að koma sér upp húsnæði, lánin vísitölutryggðu stökkbeyttust. Verðbólgan hjaðnaði á Íslandi á sama tíma og það fólk frystist í klakaböndum íbúðarskulda en það er í fullri samhljóman við það sem hagfræðingar eins og Milton Friedman höfðu spáð  - að niðurlög verðbólgu næðist þá fyrst þegar nógu margir hefðu hag af því að það væri engin verðbólga. Gengi myntar byggist á væntingum og á tímum óðaverðbólgunnar var það ekki ríkisstjórnin sem felldi gengið, gengið var löngu fallið þegar fallið var innsiglað í opinberri gegnisskráningu. En stjórnmálamenn hafa barið sér á brjóst og þóst hafa búið til fyrirbrigði sem þeir kalla “Þjóðarsátt” og með þeirra tilstuðlan hafi verðbólgan hamist. Ögmundur lítur yfir sviðið frá sjónarhóli almennings, þess sem tekur húsnæðislán. Það gerir rannsóknarskýrslan ekki. Hún er skrifuð eins og hún hafi verið skrifuð af “Greiningardeild bankanna” þessu sama apparati og fóðraði okkur á þessum árum á öllu sem við vissum um þennan undarlega fjármálamarkað.

En það er ekki nóg með að skýrslan sé þröngsýn  og bjöguð og lítt greinandi fyrir sinn samtíma og sjái ekki stóru línurnar, hún er líka með nokkrum áberandi villum að mér virðist gerðum í því augnamiði að styðja við hið pólitíska sjónarhorn skýrslunnar. Ein villan er t.d. að halda því fram að Hallur Magnússon hafi verið ráðinn án auglýsingar í eitthvað fínt embætti. Það hafa margir gúglað og fundið út á einfaldan hátt að þetta stemmir alls ekki, staðan sem Hallur fékk var auglýst. Það er nú reyndar lenskan í íslenskum stofnunum að margir eru pólitísk ráðnir og búnar til stöður sem eru auglýstar á þann hátt og á þeim tíma að það er hægt að lesa nafn þess sem fá mun stöðuna milli línanna. Þetta er vissulega mein á Íslandi en ekki mein Íbúðarlánasjóðs fremur en annarra ríkisstofnanna. Það er líka mein á Íslandi hvernig kosningakerfið er og hvo oft fámennar stjórnmálahreyfingar eða stjórnmálamenn sem eru í þjónustu og gæta hagsmuna eignaaðals og stórfyrirtækja geta komist í oddaaðstöðu og ráðið miklu m.a. mannaráðningum þrátt fyrir lítinn samhljóm hjá almenningi.

Það eru sum atriði í skýrslunni sem mér finnst beinlínis hlægileg. Eitt er atriðið um litla menntun þeirra sem voru að vasast í húsnæðismálakerfinu með sína Samvinnuskólamenntun eða hvað það var. Þetta var auðvitað skrýtið á þeim tíma þegar Íbúðarlánasjóður fór í þetta fjármálagambl og fór að taka lán og lána bönkum. Það þarf meiri menntun en Samvinnuskólapróf til að skilja afleiðusamningaundirmálsvafningaflétturnar.  En þá fór ég að hugsa um alla íslensku bankanna sem allir voru stútfullir af gríðarlega menntuðu fólki í alls konar fjárglæringafræðum. Hvað hjálpaði öll þessi menntun okkur til að fá faglega og góða banka?  Stóðu bankastjórnir föllnu bankanna sig betur eftir því hve mikla menntun bankaráðsmennirnir höfðu? Ég vil taka fram að ég til að þetta sé góð ábending um menntunarskort en menntun ein og sér er engin trygging fyrir árangri hvorki í opinberra stofnana né stjórnmálum. En ég vildi óska þess að það væri framsýnt og víðsýnt og heiðarlegt fólk, réttsýnt, menntað og með nægilega þekkingu sem velst til slíkra starfa. Ég hugsa að það sé borin von, það er þannig í stjórnmálum í dag að þau hygla lýðskrumurum og svindlurum, þeim sem lofa öllu fögru og vinna fyrir þann sem best borgar. Það fer of mikið af tíma stjórnmálamanna í lýðskrum, tíma sem væri betur varið í að afla sér þekkingar og reyna að sjá inn í framtíðina.

Svo er afar. afar ankannalegt í skýrslunni að þar sé mikil gagnrýni á lán Íbúðarlánasjóðs til fyrirtækja eins og Búmanna. Þetta er vel sett fram og vel rökstytt. Svona var unnið og svona er ennþá unnið. Það eru fyrirtæki í íbúðarlánaútgerð, byggingaraðilar sem byggja ekki af því það sé nein eftirspurn eftir íbúðum og neinir möguleikar til að selja íbúðir. Byggja bara til að “hafa eitthvað að gera fyrir menn og vélar” og taka lán í nafni einhvers félags. Félags sem allir vita að hefur engan rekstrargrundvöll. Það þarf bara að slá inn einni excel formúlu til að sjá það. Þannig er byggt brjálæðislega í dag, íbúðir fyrir námsmenn, íbúðir fyrir aldraða etc, etc. Íbúðir byggðar af félögum sem vitað er að fari í þrot, svo kaupir annað félag (gjarnan tengt sömu aðilum) þrotabúseignirnar á miklu lægra verði. Þorp á Íslandi eru full af verkamannabústaðarblokkum sem voru byggðar fyrir auðfengið lánsfé og eru núna tómar, illseljanlegar eða orðnar sumarbústaðaíbúðir. Þetta er ekkert nýtt og gott að það sé tekið á þessu, þessu sem við sjáum gerast líka í dag. En það er afleitt í rannsóknarskýrslunni að taka  félagið Búmenn sem dæmi. Það var vissulega svona dæmi en málið var bara að Búmenn fékk ekki lán. Það strandaði á einhverju. Það er reyndar áhugavert að vita á hverju strandaði og hvort það var einhver með meiri glóru en aðrir hjá Íbúðarlánasjóði eða hvort þetta var bara heppni. En það er illa valið dæmi að taka sem dæmi um slæma breytni lán sem ekki var veitt.

Uppfært:
Svo hefur komið fram í fréttum að 90% lán Íbúðarlánasjóðs voru sárafá, ekki nema örfá árið 2005. Það var væntanlega vegna þess að bankarnir yfirtrompuðu og það verður að skoða banka sem fullir voru af erlendu lánsfé út af því að erlendar greiningarstofnanir höfðu gefið þeim háa einkunn og gengisskráning var há og fljótandi peninga alþjóðlegra fjárfesta flutu hingað og ráku að landi og fylltu hér allar víkur og voga. Það er alls, alls ekki nógu góð og fagleg vinna í þessari skýrslu ef það er látið í veðri vaka að það hafi verið 90% frá Íbúðarlánasjóði sem spenntu upp verð á húsnæði ef það voru lán sem aldrei voru veitt. Það virðist af öllu hafa skipt verulegu máli innkoma bankanna á húsnæðismarkaðinn og að fólk gat skuldbreytt lánum sínum, fært þau annað án kostnaðar.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð

Skýrsla starfshóps um framtíðarhorfur og hlutverk íbúðarlánasjóðs apríl 2013

Posted in Uncategorized

PRISM njósnir, Edward Snowden og griðastaðurinn Ísland

Síminn var hleraður í síðasta torfbænum í Reykjavík á Kaldastríðsárunum  en þá voru einu rafrænu samskiptatæki okkar símar og þeir voru hleraðir af stjórnvöldum ef þurfta þótti. Eina ástæðan fyrir hlerun í torfbænum  var að þar bjó verkalýðsleiðtogi og það eitt nægði til að vera grunsamlegur á þeim árum að berjast fyrir bættum kjörum alþýðu. Síminn var líka hleraður hjá fjölskyldunni sem bjó á hæðinni fyrir neðan mig  þar sem ég ólst upp á Laugarnesvegi  því þar bjó einnig verkalýðsforingi (sjá hérna Hlerunin á Laugarnesvegi 100 ) og síminn var líka hleraður hjá föður æskuvinar föður míns honum Haraldi tollverði. Hann hafði ekkert gert af sér hann Haraldur, hins vegar var einn af sonum hans róttækur vinstri maður og hafði verið í slagnum fræga á Austurvelli þegar því var mótmælt að hér yrði herstöð og þess vegna voru öll símtöl hans Haraldar hleruð.

En nú er öldin önnur og nú eru samskiptatækin meiri og betri en bara símar og það eru ekki bara hin vesælu íslensku stjórnvöld sem hlera það sem grunsamlegir Íslendingar gera og ákveða hver er grunsamlegur. Bandarískar njósnastofnanir hlera nethegðun Íslendinga sem og annarra og skilgreina hverjir eru grunsamlegir og þannig í sjónlínu þeirra sem vakta og við vitum ekkert af þessari vöktun og hvers vegna hún stafar.

Uppljóstrað var í síðustu viku að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna NSA  og Alríkislögreglan FBI hafa  um langt skeið safnað  og samkeyrt upplýsingar um fólk  bæði frá  símafyrirtækjum  og hafa einnig  leynilega  áætlun sem kölluð er PRISM en samkvæmt þeirri  áætlun þá hlera þessar stofnanir NSA og FBI netheima og safnað upplýsingum frá mörgum algengum netveitum eins og Microsoft, Yahoo, Google, Facebook, PalTalk, AOL, Skype, YouTube og Apple. Hér er á glæru  yfirlit yfir hvaða gögnum er safnað. Eins og sjá má eru það símtöl, myndir, loggskrár, tölvupóstur og margt fleira.

prism-slide-4

Hér er svo glæra sem sýnir hvenær hleranir á hverri netveitu hófust. Þannig virðast gögn frá Facebook og Google hafa verið safnað alveg frá árinu 2009. Bandarísk stjórnvöld reyna núna að sannfæra þegna sína um að þessar hleranir og gagnasöfnun sé eingöngu á erlendum aðilum og þá væntanlega aðilum sem bandarísk stjórnvöld tortryggja og telja hugsanlega hryðjuverkamenn. Sem á sennilega við um okkur flest sem eitthvað tökum þátt í andófi netheima gagnvart því lögreglu- og eftirlitskerfi sem umlykur okkur en hefur ekki náð inn í alla kima  Internets.

prism-slide-5

Glærurnar eru frá þessari slóð NSA slides explain the PRISM data-collection program

Uppljóstrarinn Edward Snowden

edward-snowden

Það var uppljóstrarinn Edward Snowden  sem lak upplýsingum um þessar njósnir á  grunlausu fólki en hann sem vann hjá einu af fyrirtækjunum sem aðstoðaði NSA og FBI í PRISM áætluninni. Það er ljóst að það vakti ekki fyrir Edward Snowden að koma höggi á Bandaríkin eða grafa undan öryggiskerfi ríkisins þar heldur að vekja athygli á gríðarlega alvarlegu máli, hvernig ferðir saklauss fólks eru vaktaðar og kerfisbundið skráðar, fólks sem ekkert gert af sér. Það getur verið að fylgst sé með þér bara ef einhver telur að þú sért grunsamlegur, þú þarft ekki að hafa gert annað en hringt í skakkt númer einhvern tíma til að komast í þann hóp. Við sem höfum verið í baráttu og andófi í netheimum erum alveg örugglega fólk sem þannig er grunsamlegt, fólk sem tengist baráttu fyrir netfrelsi og frjálsu flæði þekkingar, fólk sem styður og tekur þátt í Píratahreyfingunni og finnst margt sem Wikileaks gerir vera hið besta mál. Það getur verið að einhver sé að fylgjast með þér og safna gögnum og loggskrám um nethegðun þína þó þú hafir ekkert gert af þér og það getur verið að þessar bandarísku stofnanir séu að safna upplýsingum um ákveðna Íslendinga í gegnum PRISM áætlanir sínar því mikið af netumferð og þeim netveitum og samskiptamiðlum sem við notum tengjast og fara um Bandaríkin. Það er áhugavert að Google biður okkur núna að tengja Google reikninga við farsíma og Youtube endalaust pestar notendur til að tengja youtube persónu sína við aðra netmiðla – Eru þetta upplýsingar sem fara beint inn í einhverja gagnagrunna fyrir PRISM áætlunina. Eru kannski myndirnar sem maður póstar á facebook komnar þar inn og einhverjir sjálfvirkir rekjarar rekja tengslin milli mín og einhverra grunsamlegra og ef ég tengist einhverjum grunsamlegum, er ég þá sjálfkrafa komin í radarinn hjá PRISM áætluninni.

Uppljóstrarinn Daniel Ellsberg

Daniel Ellsberg sem sjálfur er frægur uppljóstrari (sjá Pentagon Papers ) ritar þessa grein  Edward Snowden: saving us from the United Stasi of America í Guardian 10. júí 2013 og honum er umhugað um hvernig vernda eigi borgara fyrir njósnum og hlerunum stjórnvalda í einkalíf. Hann varar við að þó Bandaríkin séu ekki lögregluríki þá hafi sé bæði tæknilega og lagalega framkvæmanleg slík rafræn vöktun og það sé ekki réttlætanlegt að búa til leyndarkerfi til að leyna viðfangsefnum sem eru í andstöðu við stjórnarskrá og bjóði upp á valdníðslu og hættu á misnotkun.

Edward Snowden vill griðastað á Íslandi

Uppljóstrarinn Edward Snowden fer núna huldu höfði og hann á ekki von á að hann eigi afturkvæmt til ættlands síns Bandaríkjanna nema hann verði handtekinn og framseldur þangað. Hann er núna landlaus flóttamaður og hann hefur lýst yfir áhuga á að koma til Íslands vegna þess að Ísland hefur skapað sér það orðspor að vera í fararbroddi fyrir netfrelsi og í gegnum viðfangsefni eins og IMMI  og tengingu við Wikileaks verið áberandi varðandi netfrelsi og andóf gegn leyndarhyggju valdamikilla miðstýrða kerfa. Hér er umfjöllun um málið:

Á ýmsum netmiðlum er  einnig spáð og skeggrætt um tengingu Edward Snowden við Ísland t.d. þessum:

Vonandi fær Snowden hæli á Íslandi sem pólitískur flóttamaður og vonandi verður Ísland griðastaður fyrir alla sem reyna að benda á þá hættu sem felst í hvernig valdamiklir aðilar geta notað stafræna miðla til að vakta og njósna um fólk með leynd. Hér á landi er ennþá ekki mikill skilningur á hversu mikilvægt þetta er, margir eru afar jákvæðir fyrir hlutum eins og forvirkum rannsóknarheimildum þ.e. að vakta og fylgjast með aðilum sem liggja undir grun um að geta hugsanlega framið einhverja glæpi. En það er mikilvægt að ríkisvaldið líti ekki sjálfkrafa strax á borgarana sem óvini sína og gefi þeim svigrúm og einkarými þar sem þeir eru ekki undir rafauga stórabróðurssamfélags. Þess vegna þurfum við tæki og tól sem við skiljum og höfum vald yfir, við þurfum opinn hugbúnað og opinn vélbúnað og samfélag opinna lausna og leyfi til að ferðast óáreitt og án vöktunar í netheimum og reyndar raunheimum líka. Við verðum sífellt fyrir meira áreiti lögregluríkis sem dæmi um það er hvernig hver einasti flugfarþegi er meðhöndlaður núna eins og grunaður hryðjuverkamaður amk í vissum ríkjum.

 

Fleiri tenglar

 

 

Posted in Uncategorized

Finnska barnaboxið

barnabox
Í Finnlandi hefur tíðkast í 70 ár að öll nýfædd börn frá gjöf frá samfélaginu, það er box sem inniheldur allt það helsta sem nýburinn þarf fyrstu mánuðina, útigalla, vetlinga og húfur, barnaföt og ábreiðu. Svo er þar líka dýna og kassann sjálfan má nota til að láta barnið sofa í. Finnskir hönnuðir hanna falleg og notadrjúg föt og hönnunin breytist á hverju ári og líka efnisvalið. Á tímabili voru pappírsbleyjur en núna eru þar taubleyjur af því það er umhverfisvænna.

Hér er grein sem birtist nýlega á BBC vefnum um finnska barnaboxið:
http://www.bbc.co.uk/news/magazine-22751415

Hér er listi yfir innihald í finnska barnaboxinu 2012-2013
http://www.kela.fi/web/en/maternitypackage

barnabox13877.13 barnabox13877.22 barnabox13877.29 barnabox13877.30 barnabox13877.18 barnabox13877.04 barnabox13877.03 barnabox barnabox13877.28

Finnska barnaboxið er meiriháttar. Ég vissi ekki að umbúðirnar þ.e. boxið sjálft væri notað sem vagga en ég veit að innihaldið er kærkomin gjöf. Ég held að allir Finnar séu mjög ánægðir með þessi box og þetta er líka táknrænt, hver nýr þjóðfélagsþegn er boðinn velkominn með gjöf sem inniheldur það helsta sem hann þarf af fötum fyrstu mánuðina. Svo er boxið og fötin hönnuð af frábærum finnskum hönnuðum . Ég hef lengi reynt að fá þetta tekið upp á Íslandi, mig minnir að ég hafi einu sinni fengið samþykkta ályktun hjá Landssambandi Framsóknarkvenna að sambandið skyldi vinna að því íslensk stjórnvöld taki upp svona fatapakkagjafir til nýbura. Fólk setur fyrir sig kostnaðinn og vissulega er þetta ekki ódýrt, vinsældir finnsku pakkana er ekki síst að innihaldið er gæðavara, finnsk hönnun fyrir nýbura gerð af alúð úr bestu efnum sem hæfa litlum krílum. En þetta er hvort eð er kostnaður sem lendir á einhverjum og það sparar umstang og fyrirhöfn og peninga fyrir nýbakaða foreldra að þetta sé í svona pakka og þetta er þetta er ekki bara styrkur til nýbakaðra foreldra heldur líka merki um jöfnuð í samfélaginu og að það sé tekið vel á móti öllum og börnin skipti máli. Fínt að fá þessa grein með myndum af hvað er í pakkanum, það hafa svo fáir hérna á Íslandi vitað af þessari mjög svo skemmtilegu hefð í Finnlandi, hefð sem aðrar þjóðir ættu að tileinka sér.

Það er nú allt í lagi að hver nýburi fái einn pakka af nýjum baðmullarfötum, dýnu og og teppi og einn útigalla, það er ekki mikið bruðl miðað við þetta venjulega ungbarnastúss þar sem allir gefa föt á pínkulítil og foreldrar hafa ekki við að klæða hvítvoðunginn í krúttlega gjafamúdderingar. Ef krakkar fengju svona pakka þá er það líka vinsamleg ábending til allra annarra að gefa eitthvað fatakyns til barnsins EFTIR að það vex upp úr fæðingarpakkagöllunum. Og það er ekki alltaf gott að nýta gamalt, það fylgir dýna með pakkanum og kassi sem má nota sem rúm ef fólk vill og þarf. Ein kenning um vöggudauða er að hann geti stafað af ónýtum og margnotuðum dýnum. Það er allt í lagi að börn fái vandaða designgalla, það er líka hönnun að hanna úr góðum efnun sem fara vel með börn og hanna hagkvæm og falleg föt. Með því að framleiða svo marga pakka og þurfa engu að eyða í auglýsingar næst hagkvæmni þannig að ég trúi ekki að þessir fallegu og vel hönnuðu ungbarnaföt séu dýr í framleiðslu – ekki nema að því leyti að þau eru úr vönduðum efnum. Það er lífsgæði allra nýbura og nýrra foreldra að barnið eigi falleg og hagkvæm og vönduð föt sem þola vel þvotta. Ríkir geta náttúrulega keypt sér svona pakka en það er einmitt svo mikið segjandi í þessu að allir fá það sama, enginn mannamunur. Ég geri líka ráð fyrir að hugað sé að því að innihald þessa pakka sé framleitt við góðar og vistvænar aðstæður, ekki í hræðilegum 3. heims vinnufangabúðum eins og margt af ódýru stöffi sem fæst í búðum. Það getur vel verið að þetta séu föt sem eru alfarið framleidd í Finnlandi og þetta er þá líka statement um finnska framleiðslu versus innfluttar vörur.

Ég heyrði á Bylgjunni í vikunni umræðu um fæðingarpakka Finna og vona að umræðan haldi áfram. Það má alveg byrja smátt hér á Íslandi og það þarf ekki að vera neitt eins og á Finnlandi, bara lítil vertu velkomin gjöf til hvers barns sem hér fæðist. Það mætti líka vera eitthvað sérstakt sem tengist íslenskum aðstæðum t.d. húfa eða skjólföt. Eyrnarbólga er t.d. eitthvað sem mörg íslensk börn þjást af og ég held að meðvitund um það hjá nýjum foreldrum geti skilað hraustari og ánægðari börnum. Ég átti yngri dóttur mína á spítala í USA og þar fékk ég alls konar dót með heim, margt voru gjafir frá fyrirtækjum t.d. papírsbleyjur en margt var frá spítalanum t.d. húfa og hitamælir og svona emergency kit sem ég man nú ekki hvað var. Svo alls konar fræðsluefni, margar bækur. En finnski pakkinn og hönnun hans er líka fyrstu kynni barnsins af sinni menningu, menningu sem leggur áherslu á hönnun, gæði, list og jöfnuð og tengsl við umhverfi, við skóginn. Nægjusemin og allir deili kjörum og pakkinn kemur úr Karelia menningunni þegar allir Finnar þjöppuðu sér saman til að taka á móti gríðarlega mörgum sem þurftu að yfirgefa heimkynni sín í Rússlandi vegna stríðssamninga. Það voru einir mestu þjóðflutningar síðari tíma í Evrópu og er stór partur af finnskri menningu – menningu sem hver nýburi fær í gegnum fæðingarpakkann sinn.

Posted in Uncategorized

Alþjóðlegur baráttudagur gegn DRM aðgangsstýringu

Stop the Hollyweb! No DRM in HTML5.Í dag 3. maí 2013 er baráttudagur gegn DRM en með DRM (Digital Right management er átt við hvers konar  aðgangsstýringu á stafrænu efni. Við þekkjum öll dæmi um DRM, það eru t.d. læsingar á rafbókum og forritum og tónlistarefni sem koma í veg fyrir að við getum afritað efni eða blandað því saman við annað efni og unnið með það eins og við viljum.  Tilgangur með DRM er sagður að hindra að efni sé afritað eða notað á einhvern hátt sem höfundarrétthafar og söluaðilar  vilja ekki, með þessu er reynt að  stýra hvernig efni er notað eftir að sala hefur átt sér stað. DRM er hvers konar tækni sem hindrar notanda í að nota stafrænt efni á hátt sem framleiðandi telur óæskilega eða hefur ekki gert ráð fyrir. Stórfyrirtæki eins og Amazon, AT&T, AOL, Apple Inc., Google, BBC, Microsoft, Electronic Arts og Sony nota DRM. Árið 1998 voru lög sem kallast Digital Millennium Copyright Act (DMCA) samþykkt í Bandaríkjum Norður-Ameríku en þau lög gerðu það saknæmt ef aðrir veittu aðgang að tækni sem hefði þann tilgang að brjóta afritunarvarnir.

DRM er umdeild og telja sumir slíka tækni nauðsynlega til að gæta hagsmuna höfundarrétthafa og listamanna og tryggja tekjur af sölu stafrænna verka en aðrir mótmæla því og segja að það sé ósannað að DRM hjálpi höfundarrétthöfum en valdi hins vegar ómældum óþægindum hjá löglegum kaupendum efnis og DRM sé tæki stórfyrirtækja til að hindra samkeppni og nýsköpun og hætta sé á að afritunarvarið efni verði að eilífu óaðgengilegt ef þjónustuaðili hættir. DRM-læsing geti einnig hindrað notendur í að gefa fullkomlega löglega hluti eins og að taka afrit af geisladiskum, lána efni og fá efni að láni í bókasöfnum og fá aðgang að efni sem ekki er höfundarréttur á.

Frjálsa hugbúnaðarstofnunin Free Software Foundation (FSF) hefur barist gegn slíkri aðgangsstýringu í baráttuherferðinni Defective by Design campaign og heldur því fram að það sé rangt að nota orð eins og réttindi um það sem er meira takmörkun á notkun og DRM standi fremur fyrir “digital restrictions management” og höfundarrétthafar séu að takmarka notkun á efni á vegu sem falla ekki undir núgildandi höfundarréttarlög og ættu ekki að vera í framtíðarlagasetningu. Stofnanirnar The Electronic Frontier Foundation (EFF) og FSF telja að notkun á DRM kerfum sé liður í að hindra samkeppni.

Tveir miklir baráttumenn fyrir netfrelsi hafa komið til Íslands og flutt hér fyrirlestra sem hafa haft áhrif á mín viðhorf og skilning á hvað mikið er í húfi að koma í veg fyrir að framleiðendur geti sett alls konar óumbeðnar viðbætur inn í stafrænt efni og tól sem við notum,  annar er Benjamin Mako  og hinn er Richard Stallman.  Mako flutti hér erindi um Antifeatures og núna er staðan þannig að í sjálfan kjarna Internetsins, forritunarstaðalinn HTML5 eru uppi hugmyndir um að setja inn DRM til að þóknast höfundarrétthöfum og öðrum sem vilja ráða hvernig við notum efni.

Í tilefni dagsins byrjaði ég á grein um DRM á íslensku wikipedia.

Posted in Uncategorized

Píratar á góðri siglingu

alda-skipHér er yfirlit yfir hvernig fylgi Pírata mælist í könnunum alveg frá fyrstu mælingu 28. febrúar 2013 en þá mældist fylgið 1,5%. Núna 24. mars mælist fylgið 6,3%.

 

 • 2013-02-28;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;1,5
 • 2013-03-05;Capacent-Gallup;Píratar;2,3
 • 2013-03-13;MMR;Píratar;3,6
 • 2013-03-15;Capacent-Gallup;Píratar;3,8
 • 2013-03-16;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;1,8
 • 2013-03-26;MMR;Píratar;3,9
 • 2013-03-28;Félagsvísindast. f. Morgunblaðið;Píratar;3,3
 • 2013-04-03;Capacent-Gallup;Píratar;4,4
 • 2013-04-05;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;5,6
 • 2013-04-09;MMR;Píratar;7,8
 • 2013-10;Félagsvísindast. f. Morgunblaðið;Píratar;5,6
 • 2013-04-11;Capacent-Gallup;Píratar;6,8
 • 2013-04-15;MMR;Píratar;9
 • 2013-04-17;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;5,6
 • 2013-04-18;Capacent-Gallup;Píratar;8,4
 • 2013-04-18;MMR;Píratar;6,7
 • 2013-04-19;Félagsvísindast. f. Morgunblaðið;Píratar;6,3
 • 2013-04-24;Fréttablaðið / Stöð 2;Píratar;6,3
Posted in Uncategorized