„…enda titlaður öryrki, þó ekki vegna þess hve hratt ég yrki…“

Titillinn er fenginn að láni frá Einari Má Guðmundssyni og kemur úr bókinni Englar alheimsins sem vill svo til að er uppáhalds bókin mín. Hún er í uppáhaldi hjá mér því hún fer mjúkum höndum um ofboðslega erfiðan sjúkdóm og lýsir honum á manneskjulegan hátt. Ég tel það vera ástæðuna fyrir því að bókin hefur orðið jafn vinsæl og raun ber vitni því ef sannleikurinn yrði settur fram ósnyrtur og snurfusaður myndu fáir hafa úthald í að lesa um kjör og aðstæður þeirra sem slást við erfiða geðsjúkdóma eins og Páll í Englunum.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna við erum hrædd við sannleikann og viljum síður fá hann framan í okkur óritskoðaðan. Kannski er það vegna þess að öryrkjar búa í okkar nútíma 2013 þjóðfélagi við mjög slæm kjör, kjör sem við viljum helst ekki horfast í augu við að viðgangist? Kannski er það vegna þess að marga öryrkja langar til að byrja að vinna aftur en þora því ekki þar sem þeir vita ekki hvort þeir hafa úthaldið sem til þarf, en ef þeir fara aftur á vinnumarkaðinn og verða að hætta aftur þá geta þeir orðið fyrir mikilli skerðingu og okkur þykja þær aðstæður ómanneskjulegar? Kannski er það vegna þess að okkur þykir betra að stinga öllu saman bara undir kodda eða á bak við hurð og horfast ekki í augu við blákaldan veruleikann og raunverulegar aðstæður fólks?

Ég hef kíkt undir koddann og á bak við hurðina og ég verð því miður að segja að sannleikurinn er ekki frýnilegur. Að tala við fólk sem lepur dauðann úr skel en hefur mikinn vilja til að standa sig og vera þátttakendur í þjóðfélaginu  og getur það ekki sökum lélegs kerfis getur verið mjög erfitt. Að vita til þess að það er fólk sem á ekki fyrir mat er mjög dapurlegt. Að reyna að horfast í augu við að mjög stór hluti af þjóðfélaginu hefur sama sem gleymst í allri umræðu er átakanlegt.

Málefni öryrkja, málefni eldri borgara, Tryggingastofnun og heilbrigðiskerfið í heild sinni eru mín mál. Ég kalla þau mín mál því ég hef brennandi áhuga á þeim. Svo brennandi áhuga að ég er ekki hætt þótt ég hafi ekki farið inn á þing í þetta skiptið. Ég ætla mér að leita að upplýsingum, safna saman gögnum og finna leið til að koma þessum málum í betra horf.

Fyrsta skref er að finna leiðir til að breyta tekjutengingunni. Ég trúi að virkir einstaklingar séu ánægðari einstaklingur og það sé til hagsbóta fyrir alla að hjálpa fólki af stað aftur. Ég skil ekki hvers vegna ráðamenn trúa ekki því sama og ég í þessum efnum en ég vona að þið hjálpið mér að sannfæra þá. Ég bið því alla öryrkja og eldri borgara, sem hafa tækifæri til þess, að senda mér söguna sína og ég ætla að taka þetta saman. Netfangið er hildur@piratar.is

Stöndum saman, berjumst saman!

Posted in Uncategorized

Lýðræðið er gulls ígildi – nýtum réttinn!

Jæja, þá er fyrstu kosningabaráttunni minni lokið. Á síðustu þremur vikum hef ég keyrt 5000 kílómetra, talað við marga mismunandi einstaklinga, hlegið, fellt tár og fundið hvað neyðin er hræðileg í þjóðfélaginu.

Ég býð mig fram til að fá tækifæri til að breyta stöðu eldriborgara, öryrkja og taka til í heilbrigðiskerfinu ásamt því að hjálpa Pírötum í þeim málum sem oddivitarnir berjast fyrir að hverju sinni, því við höfum öll okkar sérstöðu. Ef mér tekst ætlunarverk mitt og ég get breytt lífi einhverra þá er þessi slagur þess virði og ég ætla mér ekki að gefast upp.

Ég hvet alla til að mæta á kjörstað. Þeir sem treysta okkur Pírötum bið ég að setja X við Þ, aðra hvet ég til að mæta engu að síður því lýðræðislegur réttur okkar er gulls ígildi og hann má ekki vanvirða.

Mín kosningaloforð eru kannski ekki jafn mikilfengleg og stóru flokkana en ég ætla mér að standa við þau: Ég lofa því að berjast fyrir réttindum eldri borgara og öryrkja, ég lofa því að reyna að taka til í heilbrigðiskerfinu og bæta þjónustuna, þar ég lofa því að hlusta á fleiri en bara sérfræðinga þegar ég leita mér upplýsinga og ég lofa að gefast ekki upp.

Komist ég á þing þá verður mitt fyrsta verk að setja upp svæði á vefnum þar sem fólk getur fylgst með störfum mínum, þeim gögnum sem ég hef aflað og öðrum upplýsingum sem þjóðina varðar.

Takk fyrir allt saman!

Hildur Sif Thorarensen oddviti Pírata í NV

Posted in Uncategorized

Ég kvíði því að eldast

Ég var svo heppin að alast upp hjá ömmu minni. Amma er bóndakona af Hrauni á Skaga sem vann sem vinnukona um sveitirnar frá Skagafirði að Borgarnesi og seinna sem póstburðarkona í Reykjavík. Hún er harðdugleg, gefst aldrei upp þótt á móti blási og tekur lífinu með bros á vör. Amma er fyrirmyndin mín.

Ég kalla það heppni að hafa fengið tækifæri til að umgangast eldra fólk þegar ég var barn því í dag er það ekki sjálfgefið og sjaldgæfara en hitt. Viðhorfið gagnvart eldra fólki er neikvætt, svo neikvætt að stundum finnst mér eins og við bíðum eftir því að það fari yfir móðuna miklu því þangað til er það hreinlega fyrir okkur. Við heyrum talað illa um gamlan karl með hatt í umferðinni eða konu sem telur klinkið sitt á kassanum Bónus. Skilningurinn og umburðarlyndið er ekkert og þetta virðingarleysi hefur smitast út í stjórnsýsluna og kemur þar fram í bótaskerðingu og réttleysi.

Kjör eldri borgara versna ár frá ári og þjóðfélagið stuðlar að einangrun og útskúfun. Eldri borgarar hitta sjaldnast yngra fólk nema þá sem starfsmenn á dvalarheimilum eða náskylda ættingja. Öllum brögðum er beitt til að auka á óréttlætið, tekjutenging við bæturnar gerir það að verkum að fólk sem vill vinna getur ekki gert það með góðu móti og hættir því að sjást í þjóðfélaginu. Ríkisstarfsmönnum eftir 70 ára er bannað að vinna nema þeir séu alþingismenn, ráðherrar eða forsetinn því sá hópur er auðvitað öðrum æðri. Æskudýrkunin er orðin svo mikil að fólk eftir fimmtugt á í vandræðum með að fá vinnu aftur missi það hana. Ástandið er hræðilegt og fáir virðast láta það sig varða.

Árið 2005 skrifaði ég ritgerð sem ber nafnið Ofbeldi gegn öldruðum þar sem ég tala meðal annars um þjóðfélagslegt ofbeldi gegn eldri borgurum. Það eru 8 ár síðan og þá var engin kreppa, engar yfirgnæfandi þjóðarskuldir en samt voru kjör þessa hóps mjög slæm og margir lifðu við sára fátækt og höfðu ekki efni á að bíta og brenna. Við þurfum að fara að horfast í augu við að gengið hefur verið á eldri borgara mikið lengur en við viljum viðurkenna. Við þurfum að horfast í augu við að níðst hefur verið á þessu fólki því við komumst upp með það þar sem það kvartar ekki og sækir ekki rétt sinn. Við þurfum að hætta að eyðileggja framtíð okkar og nútíð fólksins sem lagði grunninn að þjóðfélaginu okkar. Þetta er ekki mannúðlegt, þetta er ekki réttlætanlegt og nú er nóg komið!

Það sorglegasta er að vandamálið hefur ekkert með skort á fjármagni að gera heldur skort á áhuga. Tekjutenging þeirra sem hafa það verst er kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið. Hún stuðlar að einangrun sem veldur veikindum og kostnaði fyrir heilbrigðis og félagslega kerfið. Hún kemur í veg fyrir að fólk sem langar að vinna vinni og skili tekjuskatti en ef það vinnur þá er eina leiðin að vinna svart.  Fátækt er rándýr fyrir þjóðfélagið. Króna á móti krónu segja þeir og telja það í lagi. Aldraðir hafa það ágætt segja þeir og hafa aldrei lifað við skort.

Ég get ekki lofað árangri en ég mun reyna. Ég get ekki lofað áhuga annarra en ég mun vera ákveðin og beita rökum. Ég get ekki lofað að ég mæti ekki mótspyrnu en ég mun ekki gefast upp. Þetta er mér hjartans mál og það hefur ekkert með þessar kosningar að gera. Ég vona að þessi hugleiðing mín veki upp reiði hjá fleira fólki en mér og við sjáum betri tíð á komandi árum.

Takk fyrir mig.

Posted in Uncategorized

Þegar lítill neisti glæðir líf

Það er erfitt að gera sér í hugarlund hversu átakanlegt og niðurrífandi það er að geta ekki eignast börn án hjálpar. Rannsóknir sýna að álagið við baráttuna jafnist á við álagið sem fylgir því að berjast við lífshættulega sjúkdóma. Það er því ekki skrítið að við sem höfum ekki upplifað þessa reynslu á eigin skinni eigum erfitt með að setja okkur í þessi erfiðu spor.

Þegar par stendur frammi fyrir því að þurfa að takast á við ófrjósemi þá tekur við langt og strangt ferli. Konan þarf að sprauta sig með hormónum og fara reglulega í kvennaskoðun svo ekki sé talað um alla vanlíðanina og áhyggjurnar sem ferlinu fylgir. Það er því enginn sem myndi leggja slíkt á sig nema nauðsynlega þurfa á því að halda.

Í dag kostar meðferðin 370-450 þúsund eftir því hvað þarf að gera og fyrsta meðferðin er ekkert niðurgreidd, auk þess bætist við ýmis annar kostnaður eins og lyfja og ferðakostnaður, sem getur hlaupið á tugum þúsunda. Það eru því margir sem ekki geta nýtt sér þessa lausn sökum efnahagslegra aðstæðna. Heildarkostnaður við tæknifrjóvganir á árinu 2011 voru rúmlega 145 milljónir en þar af greiddu sjúklingar um 83 milljónir sjálfir. Á öllum Norðurlöndunum tekur ríkið að jafnaði þátt í eða niðurgreiðir alveg þrjár frjósemismeðferðir á hvert par. Það er því merkilegt að stjórnvöld á Íslandi hafi sett það fyrir sig að borga 100 milljónir á ári fyrir svo mikilvæga þjónustu þegar til samanburðar má nefna að Þjóðleikhúsið kostar 700 milljónir árið 2013 og rekstur Ríkisútvarpsins 3,2 milljarða.

Það sem gleymist jafnan að nefna í þessu samhengi er að fjárhagsáhyggjur geta valdið streitu sem minnka líkur á þungun og eykur líkur á fósturláti. Árangurslausar meðferðir  og ítrekað fósturlát ásamt aukinni streitu auka líkur á andlegri vanlíðan með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Þar að auki geta fjárhagsáhyggjur ofan í erfiðleika við getnað leitt til hjónaskilnaða og kostnaðar fyrir félagslega kerfið. Ofan á þetta erum við að tala um skattborgara framtíðarinnar svo þetta litla framlag ríkisins mun vera greitt mörgum sinnum til baka.

Ég á erfitt með að átta mig á því hvers vegna það hefur verið tregða í íslenska kerfinu varðandi niðurgreiðslu á frjósemisaðgerðum og tel raunar ástæðuna vera skort á upplýsingum. Við megum ekki detta í það far að horfa einvörðungu á kostnaðinn við eitthvað en gleyma ábatanum. Við megum ekki gleyma að hamingjusamt þjóðfélag er líklegra til að stuðla að auknum hagvexti en óhamingjusamt. Það er þess vegna sem við Píratar ætlum að beita okkur í þessu máli og koma því í gegn á komandi þingi að a.m.k. þrjár meðferðir, sem leiða til uppsetningar fósturvísis, verði fríar fyrir par eða einstæða konu óháð fyrri barneignum, óháð kynjasamsetningu parsins og óháð búsetu.

Posted in Uncategorized

Bætum skólakerfið

Á Íslandi hafa menn lengi státað sig af góðu menntakerfi og að allir hafi jafnan rétt til náms. Þegar litið er hins vegar yfir menntakerfið sést að brottfall úr framhaldsskólum er umtalsvert eða rúmlega fjórðungur þeirra sem innrita sig. Brottfall á háskólastigi er einnig mikið eða um 15% samkvæmt Hagstofu Íslands. Samkvæmt þessu eru því um 40% nemenda sem heltast úr námi á meðan á skólagöngunni stendur og því er greinilegt að endurskoða þarf núverandi menntakerfi.

Leita þarf leiða við að gera námið áhugavert og aðstoða þarf nemendur við að finna þá leið sem hentar þeim í námi. Sú hugmyndafræði að sama kennsluaðferð nýtist öllum er orðin úrelt og við þurfum að horfast í augu við að einstaklingar eru mismunandi og mæta þarf þörfum hvers og eins. Nýja námskráin er góð byrjun en standa þarf betur á bak við kennara sem vilja leita nýrra leiða við kennslu og breyta þarf skólakerfinu svo það hvetji til náms frekar en letji.

Námsformið og brottfallið er hins vegar ekki það eina sem veldur vandræðum hjá námsfúsu ungu fólki en fjármögnun námsins getur komið í veg fyrir að námsmenn, þá sérstaklega á landsbyggðinni, hafi kost á að sækja skóla. Nú hefur verið hægt að sækja um svokallaðan dreifbýlisstyrk fyrir þá nemendur sem vilja stunda framhaldsskóla utan sinnar heimabyggðar en hann dugir skammt með hækkandi leigu- og matarverði. Þar að auki eru námslán á háskólastigi frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) ekki til þess fallin að hægt sé að lifa af þeim enda grunnframfærslan langt undir viðmiðunarmörkum Velferðarráðuneytisins.

Þessi uppsetning hlýtur að stangast á við hugmyndina um jafnan rétt til náms þegar einstaklingar utan þéttbýliskjarna landsins hafa ekki kost á að sækja skóla sökum kostnaðar. Hér er því um hreina og klára mismunun eftir byggðarlagi að ræða og landsbyggðin er að hluta til útilokuð frá námi ef fjölskyldan getur ekki staðið á bak við námsmanninn. Þetta ástand er ekki viðunandi og því þarf að endurskoða lánasjóðskerfið í heild og ekki einvörðungu hvað háskólann varðar heldur einnig framhaldsskólann.

Grunnframfærsluna þarf að hækka enda stangast upphæðin, 140.600, á við öll viðmiðunarmörk fyrir grunnframfærslu. Fella þarf niður tekjuskerðingu svo námsmaðurinn geti unnið á sumrin og meðfram skólanum eins og hann hefur getu og löngun til, enda eru lánin háð námsárangri. Greiða þarf lánið fyrirfram en ekki eftir á með tilheyrandi kostnaði við yfirdrátt, enda á LÍN ekki að stuðla að uppbyggingu bankakerfisins. Styrkja skal þá nemendur sem sækja skólann af kappi, óháð því hvort þeir taka námslán eða ekki, og klára á tilsettum tíma enda hljóta skólarnir sjálfir greiðslu við útskrift nemenda sem ættu að hluta að ganga til nemendanna sjálfra. Rannsaka þarf hvernig hægt er að koma til móts við nemendur í framhaldsskóla sem þurfa á fjárhagsstuðningi að halda.

Gæta þarf við þessar breytingar að engum sé mismunað á grundvelli búsetu, aldurs eða annarra forsenda. Við búum í Norrænu velferðarsamfélagi þar sem jafn réttur til náms er lykilatriði við uppbyggingu nýs og betra þjóðfélags. Píratar gefa engan afslátt á grundvallarréttindum fólks og munum við því beita okkur af krafti fyrir að eyða út allri mismunun í skólakerfinu.

Posted in Uncategorized

Jón eða séra Jón

Mín lífspeki hefur lengi byggst á þeirri hugmyndafræði að enginn sé betri en annar hvort sem hann er þjóðþekktur, ókunnur, ríkur, fátækur, ungur eða gamall. Fyrir mér er allt fólk jafnt á grundvelli þess að við erum öll þátttakendur í sama þjóðfélagi. Nú hef ég hins vegar rekið mig á að meira að segja lögin gera upp á milli manna. Sem dæmi má nefna að eftirfarandi setning er tekin úr lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 2. gr.: „Lög þessi taka ekki til forseta Íslands, ráðherra eða alþingismanna. Lögin taka til hæstaréttardómara og héraðsdómara eftir því sem við getur átt.“

Í þessum tilteknu lögum er tekið á ýmsu, stundvísi, dagsetningu launagreiðsla, uppsögn við 70 ára aldur og fleira. Sökum þessarar aldursskilgreiningar ákvað ég hins vegar að fletta upp nokkrum frambjóðendum og við þá rannsókn komst ég að því að töluverður fjöldi þeirra sem eru í framboði verða 70 ára á kjörtímabilinu. Það sama gildir um forsetann okkar, hann á stórafmæli í maí og forsætisráðherrann varð sjötug í fyrra. Ég tel ekkert að því að menn vinni áfram, þótt þeir séu komnir á aldur, hafi þeir getu og áhuga á því. Það sem mér þykir hins vegar athugavert er að gert er upp á milli manna eftir því hvers konar ríkisstarfi þeir sinna og vissum hópi er gert hærra undir höfði en öðrum.

Nú eru til staðar ýmsar tekjuskerðingar og lög sem koma í veg fyrir að fullfrískt fólk, sem hefur löngun til að vinna part úr degi, geti gert það. Að banna fólki að taka þátt í þjóðfélaginu er að mínu mati frelsissvipting og ekki bara það heldur stuðlar hún að einangrun og verra samfélagi. Það eru ekki mjög mörg ár síðan ég var barn en á þeim tíma sá ég meira eldra fólk við afgreiðslustörf og önnur störf. Mér þótti vænt um það og mér þótti það gott því þetta eldra fólk var oft umburðarlyndara og þolinmóðara gagnvart barninu mér, sem var ekki alltaf með alveg á hreinu hvað það var sem amma hafði beðið mig um að kaupa. Fjölbreytt þjóðfélag er betra þjóðfélag, það stuðlar að samkennd og vináttu. Við megum ekki gleyma að staldra við, draga andann og njóta þess að vera í þessu samfélagi með öllu þessu mismunandi fólki. Við erum öll jafningjar og það á ekki að setja einn né neinn fram yfir annan.

Sem Pírati vil ég stuðla að þessu. Sem manneskja vil ég stuðla að þessu. Ég vona að óháð hvaða stöðu ég gegni muni ókunnugir halda áfram að gefa sig á tal við mig og lýsa áhyggjum sínum eða ánægjustundum. Ég vona að ég fái áfram að vera hluti af þessari heild en verði ekki sett á stall og fólk hætti að þora að nálgast mig. Ég hlakka til að vinna með ykkur og berjast með ykkur því ég er að þessu fyrir okkur öll og vona að í sameiningu getum við gert þjóðfélagið manneskjulegra og betra.

Posted in Uncategorized

Hugurinn ber okkur hálfa leið

Ég heiti Hildur Sif Thorarensen, er 29 ára og leiði lista Pírata í Norðvesturkjördæmi. Ég er ættuð af Hrauni á Skaga en þar ólst hún amma mín upp. Það var svo hún sem ól mig upp og kenndi mér þann dugnað og baráttuvilja sem fylgir uppeldi á hrjóstrugum Skaganum. Amma mín kenndi mér ekki bara að vera dugleg, hún kenndi mér líka að bera virðingu fyrir eldra fólki, hafa samkennd og vilja láta gott af mér leiða.

Ég hef búið víða; á Spáni, í Líbanon, í Ísrael og á fleiri framandi stöðum. Ég hef einnig búið úti á landi og verið í sveit á sumrin. Mér hefur lengi fundist landsbyggðin eiga undir högg að sækja frá höfuðborginni og þykir mér það miður. Við vanmetum hlutverk hennar og gleymum að ósjaldan sækjum við út á land einmitt þegar við viljum hvíla hugann og fá ró í sálina. Landsbyggðin gegnir mikilvægu hlutverki og sem dæmi má nefna gjaldeyristekjur í gegnum sjómennsku, afurðir sem við neytum á heimilunum og ferðaþjónustu. Við þurfum á henni að halda því hún gerir okkur að betra fólki, við hvílumst, við fáum nýja sýn og við lærum að hugsa um aðra. Stór hluti af menningunni okkar kemur úr sveitunum og sjávarþorpunum og það myndi breyta þjóðfélaginu til hins verra að missa tengslin við upprunann.

Ég fæddist hvorki með gull- eða silfurskeið í munni og var ung þegar ég byrjaði að vinna. Ég flutti að heiman 18 ára og hef séð fyrir mér síðan. Ég kom sjálfri mér í gegnum framhaldsskóla, grunnnám í háskóla og er um það bil að ljúka meistaranámi í hugbúnaðarverkfræði meðfram vinnu. Ég hef alltaf unnið mikið og aldrei litið á eitthvert starf æðra öðru. Ég vann þrjú sumur sem uppvaskari á elliheimilinu Vitatorgi og kunni því vel ásamt mörgum árum við afgreiðslustörf í kjörbúð. Ég veit hvað það er að þurfa að nurla og ég veit hvað það er að þurfa að basla og á því auðvelt með að skilja hagsmuni venjulegs fólks því það eru hagsmunir mínir.

Síðan 2008 hef ég setið í stjórn Neytendasamtakanna og sinnt störfum þar í þágu neytenda. Árið 2010 var ég gerður gjaldkeri þeirra og hef setið í framkvæmdastjórn samtakanna síðan. Auk Neytendasamtakanna hef ég setið í stjórn safnaðarfélags Áskirkju frá 2009 og unnið sjálfboðastarf í þágu safnaðarins. Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og málefni eldri borgara standa mér þar næst enda er fátt sem mig svíður meira en hversu illa er komið fram við fólkið sem lagði grunninn að samfélaginu okkar með ósérhlífni og erfiðri vinnu. Eitt af markmiðum mínum er að bæta hag þeirra og sjá til þess að ömmur okkar og afar fái þá þjónustu sem þau þurfa í ellinni. Ég á mér mörg önnur markmið sem rúmast vel innan raða Píratanna enda erum við hópur af fólki sem vill leggja sitt af mörkum til að skapa betra og heiðarlegra samfélag.

Nafn flokksins okkar kemur mörgum spánskt fyrir sjónir enda er þar vísun í erlent heiti á þeirri alþjóðlegu hreyfingu sem við tilheyrum. Píratar eru starfandi í að minnsta kosti 63 löndum og við erum ört vaxandi stjórnmálaafl. Þótt nafnið geti verið tormelt þá byggir flokkurinn á góðum gildum og það er þess vegna sem ég býð mig fram fyrir hans hönd. Við leggjum upp með að leita lausna sem byggja á rannsóknum eða fordæmum og viljum nýta tækniþekkingu til að skapa störf í gegnum internetið eða með annarri frumkvöðlastarfssemi. Slík störf krefjast ekki öll tæknikunnáttu því fyrirtæki geta nýtt sér netið til að selja afurðir sínar og jafnframt vinna margir hjá tölvufyrirtækjum sem koma ekkert nálægt tæknistörfum. Notkun internetsins til að minnka atvinnuleysi hefur því ekki síður jákvæð áhrif fyrir landsbyggðina en borgarbúa.

Netið er ekki það eina sem við höfum áhuga á en við leggjum mikla áherslu á gagnsæi og að þjóðin fái réttar upplýsingar um málefni sem hana snertir. Við viljum að tekið sé mark á þjóðaratkvæðagreiðslum og þær nýttar oftar til að ná fram lýðræðislegum vilja þjóðarinnar. Við viljum einnig bæta hag heimilanna með því að finna lausnir sem endurspeglast ekki í hækkandi sköttum. Þetta eru einungis nokkur af þeim málefnum sem við berjumst fyrir en þau eiga það öll sameiginlegt að grundvallast á rannsóknum og rökstuddum ályktunum.

Málefnin geta verið ólík á milli staða og þar sem mitt framboð tilheyrir Norðvesturlandi vil ég leggja áherslu á málefni sem snerta íbúa á því svæði. Þar má meðal annars nefna lánamálin sem þyngja róðurinn hjá bændum og íbúum svæðisins, samgönguvandamál sem skapast með slæmum vegum og hárri skattlagningu á bensíni, reglugerðir sem hefta bændur í framleiðslu og sölu á afurðum og störf sem tekin eru úr bæjarfélögum með leigu á kvóta eða fiskvinnslu erlendis. Hingað til hefur höfuðborgin sogað skatttekjurnar til sín og landsbyggðin liðið fyrir það, þessu vil ég breyta. Ég hef alltaf verið mótfallin því að flytja flugvöllinn enda sjálf búið úti á landi og veit hversu mikilvægt er að hafa hann í Reykjavík.

Mig langar að vinna fyrir ykkur og góð samvinna er lykillinn að allri velgengni og ekki síst í stjórnmálum. Ég hvet ykkur því til að hafa samband við mig og benda mér á þau málefni sem við þurfum að vinna að saman. Þið getið sent mér póst á hildur@piratar.is og ég svara um hæl. Takk fyrir mig.

Posted in Uncategorized