Framsóknarflokkurinn og afstaða Pírata til skuldamála heimilanna

Það er auðvelt að hrauna yfir aðra og það sem þeir standa yfir, sérstaklega ef maður er oft ósammála þeim. Það er hins vegar erfiðara en gagnlegra að fara yfir það sem er gott í þeirra fari. Þetta er síðasti hlutinn af pistlaröð af því sem mér þykir jákvætt hjá hinum flokkunum og hvað að hvaða leiti þeir og Pírata geta náð saman. Í þetta skipti er það Framsókn.

Framsóknarflokkurinn er einn seigasti flokkur sem til er á landinu. Hann er eldri en erfðasyndin og hefur trekk í trekk náð að aðlaga sig nýjum aðstæðum. Upprunalega var flokkurinn stofnaður sem einhverskonar bændaflokkur og flokkur landsbyggðarinnar og naut lengi hins gríðarlega munar á atkvæðavægi sem ríkti á milli sveitar og borgar áður en kerfið var uppstokkað (jafnvel þótt það virðist stefna í það í þessum kosningum að þær aðstæður geti komið aftur upp).

Eftir árin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum var fylgi hans nánast búin að þurrkast út. Samfélagið hafði breyst og flokkurinn hafði yfirbragð sveitamennsku og spillingar, hann virtist yfirleitt vera tilbúinn að lofa öllu sem því hann hélt að þú vildir heyra en svo sinnti hann sjaldnast neinu öðru en beinum sérhagsmunum þegar á hólminn var komið.

Þvílík endurnýjun lífdaga sem útlit er fyrir að Framsóknarflokkurin muni ganga í gegnum í þessum kosningum! Stór hluti kjósenda virðast ætla að gefa Framsókn annað tækifæri. Eftir að hafa rætt við fólk sýnist mér það vera aðallega tvennt sem heillar við Framsóknarflokkinn.

Á fyrsta lagi var Framsókn eini flokkurinn af fjórflokknum sem algerlega skipti um fólk eftir hrun. Í öðru lagi lofar flokkurinn almennri skuldaniðurfærslu fyrir heimilin í landinu, eitthvað sem hann ætlar að ná fram með því að semja við erlenda kröfuhafa um skuldaniðurfærslu.

Hvort sem þessi áætlun er raunhæf eða ekki þá má Framsóknarflokkurinn eiga það að hann gerir að aðalmálefni sínu það sem virðist raunverulega vera meðal helstu vandamála fyrir íslensk heimili í dag. Auðvitað kann fólk að meta slíkt og við í Pírötum lítum ekki fram hjá því.

Við trúum ekki á töfralausnir en í sem allra stystu máli felst afstaða Pírata til skuldamála heimilanna að venjulegt fólk skal ekki gert gjaldþrota vegna bankahruns sem lánveitandi þeirra orsakaði.

Sjá nánar hér: http://www.piratar.is/stefnumal/skuldamal-heimilanna/

b
Posted in Uncategorized

Allt þetta mun fá sinn kafla í sögubókunum

Þegar fólk erlendis beinir athyglinni að íslenskum stjórnmálum læðist oft kjánahrollur um mann. Manni finnst eins og það hafi miklar ranghugmyndir um stöðuna og að erlendir fjölmiðlar keppist við að fegra ástandið. Maður er spurður að hlutum eins og hvort við höfum ekki verið að búa til "crowdsourced" stjórnarskrá og hvort það sé ekki rétt að Ísland haf fangelsað alla spillta bankamenn... og maður svarar að ástandið sé nú ekki svo einfalt.

Engu að síður; það er alveg ótrúlegt hversu árin eftir hrun hafa verið mikil umbreytingarár í íslensku lýðræði. En þegar við segjum að Íslendingar séu vitlausir og gleymi fljótt þá er það ekki alveg sanngjarnt.

Fólk hefur svo sannarlega reynt að koma breytingum í gegn innan þess ramma sem stjórnkerfi okkar býður upp á. Ísland hefur verið einhverskonar lýðræðisleg tilraunstofa seinustu ár og mikið um að hlutir sem verið er að gera í fyrsta skipti. Sumt gott. Sumt vont. Allt í fyrsta sinn. Ég ætla að nefna nokkur dæmi:

Fyrsta ríkisstjórnin fór frá völdum beinlínis vegna þrýstings frá almenningi
Fyrsta minnihlutastjórnin
Fyrsta hreina vinstristjórnin
Fyrsti kvenforsætisráðherra (og fyrsti samkynhneigði leiðtoginn)
Fyrsta skiptið sem fjórflokkurinn fær ALGERA útreið í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík
Fyrsti (hálf) anarkíski borgarstjórinn
Fyrsta skipti sótt um í ESB
Fyrsta skiptið sem Alþingi setur saman rannsóknarnefnd til að gera upp algert hrun.
Fyrstu tilraunirnar til að breyta stjórnkerfinu utan frá (mauraþúfan og þjóðfundirnir)
Fyrsta skiptið sem forseti vísar ákvörðun Alþingis til þjóðaratkvæðigreiðslu (tvisvar!)
Fyrsta skiptið sem landsdómur er kallaður saman.
Fyrsta skiptið sem fyrrverandi ráðherra er dæmdur á pólitískum forsendum.
Fyrsti forsetinn til að vera kosinn í fimmta skiptið.
Fyrsta persónukjörið á landsvísu (stjórnlagaþingskosningarnar)
Fyrsta stjórnlagaþingið/stjórnlagaráðið í sögu lýðveldisins

Allt þetta mun fá sinn kafla í sögubókunum.

Þetta er nýr ískaldur veruleiki í íslenskum stjórnmálum. Reynsla fjórflokkanna seinustu 60 ára er ekki jafn mikils virði. Sú pólitík sem þeir stunda er ekki sú pólitík sem er orðin að veruleika í dag, það er búið að sanna að allt getur gerst. Þetta er ekki búið. Næsta kjörtímabil verður jafn umrótasamt. Sama hver niðurstaðan verður eftir kosningar þá mun næsta kjörtímabil mótast af nýjum viðmiðum.


b
Posted in Uncategorized

Sjálfstæðisflokkurinn og atvinnustefna Pírata

Þetta er hluti af pistlaröð um það sem mér þykir jákvætt í fari annarra flokka og hvernig þeir ná saman með okkur í Pírötunum og nú er komið að Sjálfstæðisflokknum:)

Í mínum huga er sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst flokkur atvinnulífsins... og það er frábært. Atvinnulífið er lífblóð þjóðfélags okkar og við þurfum að efla það á alla vegu. Þegar ég lít núna yfir kosningaloforð flokksins fyrir árið 2013 (2013.xd.is) þá mætti reyndar halda að þetta væri gleymt því að öll loforðin virðast vera einhverskonar speglun á lánalækkunarhugmyndum framsóknar. Það hvernig flokkurinn nálgast viðfangsefnið er þó mjög sjálfstæðisflokkslegt; hann vill skattalækkanir.

Minni samneyslu, meira einkaframtak. Að þessu leitinu til eru við Píratar ekki langt frá þeim. Píratar vilja frjálslyndi og sem minnst ríkisafskipti í líf fólks og við viljum öflugt atvinnulíf. Við erum e.t.v. ekki jafn hrifin af hugmyndinni um að risa stórar fyrirtækja samsteypur tröllríði efnahagskerfinu en við viljum að öflugt, rétthátt og blómlegt atvinnulíf sé hornsteinninn að hagvexti og nýsköpun í landinu. Við gerum okkur grein fyrir því að lang strærsti hlutinn af atvinnusköpun í landinu á sér stað hjá smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

Stefnu okkar má í atvinnu og efnahagsmálum má sjá betur hér: http://www.piratar.is/stefnumal/atvinnu-og-efnahagsmal/

b
Posted in Uncategorized

Sjávarútvegur og byggðarstefna

Mér barst nýlega bréf frá nýstofnuðu Sambandi Sjávarútvegssveitafélaga (sem faðir minn skannaði inn og sendi mér til Kína:)). Í meginatriðum þá voru skilaboð bréfsins sú að hagræðing í sjávarútvegi hefur yfirleitt skilað sér í nettó hagnaði fyrir allt þjóðfélagið, en sá hagnaður hefur ekki verið jafnt dreifður, minni sjávarpláss hafa yfirleitt komið verr út fyrir vikið.

Auðvitað skapast við það ákveðin samfélagslegur vandi sem þarf að takast á við. Þessi samtök vilja að sjávarpláss fái hlut í veiðgjaldinu sem lagt var á nýlega. Mér finnst það ekki slæm hugmynd... upp að ákveðnu marki. Það þarf auðvitað fjármagn til að takast á við þann vanda sem blasir við um leið, en spurningin er hvert sé besta fyrirkomulagið til framtíðar.

Sum sveitafélög henta ákaflega vel fyrir sjávarútveg, og það gæti verið kostnaðarsamt að láta pólitískar ákvarðanir núna rústa byggð einhverstaðar þar sem ætti að vera augljóst að verður alltaf hagkvæmt að róa frá (stutt á mið, góðar hafnaraðstæður og svo framvegis).

Önnur sveitafélög eru í aðstöðu til að geta skipt um ham. Ég er Sandgerðingur og allur kvóti hvarf frá Sandgerði á tíunda áratuginum. Sandgerði var hins vega í ágætis aðstöðu til að gera ýmislegt annað: Höfnin liggur vel við og þjónustar báta allstaðar af landinu, mikið af fiskvinnslu er á svæðinu sem kaupir af bátum allstaðar af landinu, nálægðin við flugvöllinn hefur búið til nýja atvinnugrein sem er fiskvinnsla til að setja ferskan fisk beint í flug. Ásamt þessu er mikið af öðrum atvinnutækifærum, mikið er af iðnaðarstarfsemi sem þjónustar önnur sveitafélög á Suðurnesjum eða Reykjavík, en þéttleiki byggðar á Reykjanesi er kostur. Greiðar samgöngur (5-10 mínútur á milli byggðafélaga) hefur líka gert allt svæðið að einu atvinnusvæði. Auðvitað glímir Sandgerði við allskyns gríðarstór vandamál en fyrir svona Sveitafélög ætti að vera fullt af tækifærum til framtíðar, sérstaklega ef ríkið tekur þátt í því að auðvelda breytinguna.

Aftur á móti eru til þriðja tegundin af sveitafélögum; þau sveitafélög þar sem allar forsendur til byggðar eru brostnar. Þéttbýlismyndun á Íslandi er afskaplega ungt fyrirbrigði. Flest sveitafélög hafa aðeins verið til í nokkur ár (u.þ.b. eina eða tvær kynslóðir) af þeim þúsund sem byggð hefur verið í landinu. Við erum fædd á miklum breytingartímum og það ætti að vera ljóst að sumu leyti hefur byggðarmunstrið á 20. öld verið munstur umbreytinga. Þegar afi minn flutti til hins glænýja sveitafélags Sandgerðis og byggði þar hús þá yfirgaf hann heimabæ sinn fyrir Norðan. Kálfshamarsvík á Skaga. Ef maður kemur þar í dag blasir við tóftirnar af talsverðrir þyrpingu sveitabæja. Þarna var góð höfn og hafði myndast talsvert þéttbýli á þess tíma mælikvarða. Þarna ólst afi minn upp en um það leiti sem hann flutti til Sandgerðis þá var allt orðið tómt. Foreldrar hans fluttu á Akranes (annað nýtt sjávarpláss í uppsveiflu) og fljótlega voru engir eftir. Vissulega er sorglegt þegar heil byggð leggst í eyði. Þar fer forgörðum sögur og menning sem við munum ekki sjá aftur.

Á hinn bóginn, ef litið er á sögu Kálfshamarsvíkur sjáum við að byggðin þar var allsekki gömul. Byggð var að þéttast um það leiti sem afi var að fæðast og þarna var blómlegt mannlíf í u.þ.b. hálfan mannsaldur. Í stóra samhenginu hlýtur sú spurning að vakna hvort það hefði verið æskilegt að halda lífinu í þessari byggð. Halda henni á floti með styrkjum, einhverskonar frankenstein byggð. Hefði það verið gott fyrir mig að alast upp þar frekar en í Sandgerði? Er ekki í góðu lagi stundum að bera virðingu fyrir því sem tilheyrir fortíðinni, þykja vænt um það og varðveita það í minningunni en jafnframt leyfa framþróun og breytingum að eiga sér sinn gang? Þetta er allt hluti af þroskaferli þjóðfélags okkar.

b
Posted in Uncategorized

Samfylkingin, Björt Framtíð og aðildarferilsstefna Pírata

Þetta er hluti af pistlaröð um það sem mér þykir jákvætt í stefnu hinna flokkanna og að hvaða leiti ég sé fyrir Pírata ná til þeirra.

Í dag ætla ég að mæra örlítið Samfylkinguna og Bjarta framtíð (enda keimlíkir flokkar þótt ég viðurkenni alveg að það eru ákveðinn munur á áherslum).

Fyrst væri hægt að nefna Bjarta Framtíð en hann er að sumu leiti hálfgerð hálfsystir okkar Pírata. Flokkurinn á rætur sínar að rekja til Besta Flokksins sem stjórnar nú borginni og hefur að mörgu leiti haldið uppi gildum Pírata um nýja lýðræðislega aðferðafræði og notkun á internetinu. Besti Flokkurinn hefur t.d. áheyrnaraðild í alþjóðasamtökum Pírata og hefur gert margt gott með að auka íbúalýðræði í Reykjavík og hefur notað til þess netið á frumlegan hátt. Sem Pírati vona ég að Björt Framtíð verði sem mest eins og Besti Flokkurinn að þessu leitinu til.

Samfylkingin hefur líka margt jákvætt við sig. Flokkurinn hefur keyrt á einhverskonar blöndu af félagshyggju og markaðshyggju sem er ekki fjarri því sem skín í gegn í stefnuskrá Pírata þótt við séum reyndar hlynnt allt annarskonar aðferðafræði og mun frjálslyndari. Það sem greinir Samfylkinguna frá öðrum flokkum fyrir þessar kosningar er e.t.v. áhersla hans á Evrópumál. Það hefur aldrei farið á milli mála hvar Samfylkingin stendur í þeim málum; þeir vilja semja við ESB, kynna samninginn og setja hann í Þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessa einurði stuðningur við aðildarferlið hefur bitnað talsvert á fylgi Samfylkingarinnar enda ekki mikill hljómgrunnur fyrir Evrópusambandsaðild í þjóðfélaginu í dag.

Sú staðreynd finnst Pírötum furðuleg enda okkur afar framandi að taka afstöðu í málum sem er nánast ómögulegt að afla sér upplýsinga um. Ekkert er jafn óheilbrigt og ákvarðanir og lausnir án samræðu og upplýsinga. Píratar vilja fá að vita hvernig samningurinn kemur til með að vera og fá að kjósa um hann. Innan Pírata eru síðan skiptarskoðanir um hvernig kjósa eigi, en það er allt í lagi enda lítum við sem svo á að það sé ekki hlutverk stjórnmálaflokka að vera með eða á móti aðild eða aðildarviðræðum að Evrópusambandinu sem slíkum.

Stefna Pírata í þessu málum má sjá á https://x.piratar.is/polity/1/document/6/ og er í aðalatriðum þessi:

Ísland má aldrei gerast aðili að Evrópusambandinu án þess að aðildarsamningurinn fari í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að hann hefur verið kynntur þjóðinni með hlutlausum hætti.

Gangi Ísland í Evrópusambandið skal það vera eitt kjördæmi í kosningum til Evrópuþingsins.

Gangi Ísland í Evrópusambandið skal íslenska vera eitt af opinberum tungumálum þess.

Ef aðildarviðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið stöðvast, eða aðild verður hafnað af öðrum hvorum aðila, þarf að leitast við endurskoðun á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, til að tryggja betur sjálfsákvörðunarrétt Íslands. Ótækt er að Ísland þurfi að taka upp stóran hluta af Evrópskri löggjöf í gegnum viðskiptasamning án þess að fá fulltrúa eða áheyrn.

Skilyrði Pírata fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið eru undanþága frá upptöku á gagnageymdartilskipuninni (2006/24/EC) og reglugerð um fullnustu óáskoraðra krafna (1869/2005/EC), þar sem annars yrði gengið gegn grundvallarmannréttindum.


b
Posted in Uncategorized

Vinstri Grænir og umhverfisstefna Pírata

Mér finnst allir flokkar á Íslandi eiga sér góða kosti sem ég vil allsekki líta framhjá. Ég ætla að fjalla aðeins um það sem mér finnst jákvætt um hvern flokk fyrir sig og hvernig Píratar geta unnið með þeim. Byrjum á Vinstri Grænum.

Vinstri Grænir hafa ötullega barist á Alþingi fyrir umhverfisvernd og það hefur oft verið erfið barátta. Ég hef alltaf verið hrifinn af umhverfisstefnu þeirra þótt þeir hafi reyndar þurft að gera málamiðlanir í ríkisstjórn sem kjósendur þeirra eru e.t.v. ekki hrifnir af.

Flokkurinn er að fá útreið í skoðanakönnunum þessa daganna sem mér finnst ekki fyllilega verðskulduð en þó e.t.v. mjög fyrirsjáanleg. Seinasta ríkisstjórn var fyrsta hreina vinstristjórnin í sögunni en það hefur oft loðað við stjórnir sem hafa ekki sjálfstæðisflokkinn innanborð að þær verða til eftir mikla efnahagserfiðleika og eru skammlífar því fólk samsvarar kreppuna við ríkisstjórnina (jafnvel þótt auðvitað sé kreppan ekki þeim að kenna). Svo þegar hlutirnir eru að verða aðeins auðveldari þá getur hægri stjórn aftur komist til valda. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta gerist en ég verð að viðurkenna að ég sá ekki fyrir, eftir seinustu kosningar, hversu nákvæmlega þetta kjörtímabil myndi fylgja þessari forskrift.

Fylgið á vinstra vængnum er ekki jafn trygglynt og það á hægra vængnum og núna flykkjast kjósendur Vinstri Grænna eitthvert annað. Þetta er vissulega pirrandi fyrir þá og hafa Píratar fundið fyrir því. Eitt af því sem Vinstri Grænir saka okkur um er að vera ekki með góða umhverfisstefnu.

Það held ég að sé misskilningur og í raun tel ég Vinstri Græna og Pírata ná mjög vel saman í umhverfismálum. Stefnan er enn í ferli hjá flokknum (en við höfum ekki viljað hrófla við lýðræðislegum ferlum í flokknum þótt við séum í miðri kosningabaráttu) en hún er þó nánast fullmótuð og auðvelt að sjá fyrir hvað Píratar standa fyrir. Stefnuna má sjá hér: https://x.piratar.is/issue/86/

Í stuttu máli er stefnan þessi:

Framfylgja skal megin gildum sjálfbærrar þróunar. Sjálfbær þróun mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar.

Stjórnvöld skulu byggja á varúðarreglunni og greiðslureglunni við allar ákvarðanir sem varða náttúru Íslands.

Tryggja skal upplýsingarétt almennings um umhverfismál, gagnsæi í allri stjórnsýslu umhverfismála og aðild almennings að ákvarðanatöku sem varðar umhverfi og náttúru.

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Almannaréttur skal verndaður. Ekki má leggja hömlur á för manna, svo lengi sem viðkvæm vistkerfi verða ekki fyrir röskun.

Hvað þýðir þetta? Ef skoða er forsendur stefnunar sést m.a. að við teljum ekki sjálfsagt að meirihluti allra orku á Íslandi fari í álbræðslu, við teljum ekki sjálfsagt að byggja ný álver ef fyrirséð er að það þurfi að nálgast orkuna með ósjálfbærum hætti, við viljum smáar rekstrareiningar í atvinnulífinu frekar en alþjóðleg stórfyrirtæki, við viljum að varúðar og greiðslureglurnar í umhverfisrétti séu í alvöru í hávegum höfð (það skuli alltaf leggjast í kostnað sem dregur úr umhverfisáhrifum og að sá sem mengi beri kostnaðinn af því sjálfur, líka óbeinan eða huldan kostnað), við viljum auðlindaákvæðið úr nýju stjórnarskránni, við viljum að skuldbindingar íslands um útblástur gróðurhúsaloftegunda verði framfylgdar, tekið sé tillit til samróma álits vísindamanna um loftlagsbreytinga og margt fleira.

b
Posted in Uncategorized

Kynnti fyrir Kínverjum Pírataflokkinn, lýðræði og internetfrelsi
Fékk ótrúlegt tækifæri til að halda smá fyrirlestur um pólitík og lýðræði hér í Kína en það gerist ekki á hverjum degi. Ég kynnti fyrir hóp af áhugasömum Beijingbúum Pírataflokkinn og fyrir hvað hann stendur. Við ræddum um allt milli himins og jarðar, allt frá úr hvaða jarðvegi flokkurinn sprettur, kosningabaráttuna á Íslandi og yfir í það hvernig stjórnun upplýsinga er ein helsta uppspretta valds (eitthvað sem Kínverjar kannast vel við).

Fyrirlesturinn var hluti af Beijing Barcamp sem er einhverskonar hugmyndaþing sem haldið er í borginni reglulega. Mikið af því sem er rætt þar eru nýjar hugmyndir úr tövlugeiranum en þar að auki er einnig mikið um fyrirlestra um allskyns önnur mál; t.d. ný nálgun í menntamálum, nýjar aðferðir til að nota nota stór gagnasöfn í baráttunni gegn mengun og hvernig nota megi internetið til að ná til þeirra í Kína sem þurfa á talþjálfun að halda.

Ég held þó að fyrirlesturinn minn hafi verið sá fyrsti um pólitík en allt slíkt er vitaskuld mjög viðkvæmt í Kína. Það var ´þó jafnvel enn skemmtilegri írónía í því að Beijing Barcamp er sponserað af Microsoft og haldið í höfuðstöðvum þeirra í Kína, en það er ekki síður þörf á því að fólk þar á bæ komist í tæri við open source menninguna sem Píratar standa fyrir.

Fyrirlesturinn vakti mikla lukku meðal áheyrenda en þeir voru flestir vel menntaðir Kínverjar úr tæknigeiranum. Eins og oft vill verða þá náði ég ekki að draga mikið af spurningum upp úr þeim en fékk þó nokkrar góðar frá útlendingum í salnum. Eftir fyrirlesturinn hins vegar komu nokkrir heimamenn til mín og vildu kynnast málefninu betur.

Hér fyrir neðan er myndband af fyrirlestrinum og slide-showið sem fylgdi er þar fyrir neðan (slide showið var í formi sjóræningja korts, eitthvað sem mér fannst vel til fundið:))

b
Posted in Uncategorized

Frjálslyndur félagshyggjuflokkur

Mér fannst afar áhugavert að sjá hvernig kosninga áttavitann staðsetti Pírata (http://attavitinn.is).

Píratar eru samkvæmt þessu eini flokkurinn sem er fyrir félagshyggju án forsjárhyggju. Margir vilja meina að það sé þversögn, hvernig er hægt að vera félagshyggjusinnaður án forræðishyggju. Píratar vilja sanna að það sé hægt!

Að mínu mati er þar engin þversögn. Manneskjan er bæði einsaklingssinnuð og hópsinnuð. Bæði er í eðli okkar. Við munum alltaf vernda eigin hagsmuni en við munum líka alltaf hafa mikla getu til að fórna okkur fyrir aðra. Þetta er ekki flókið fyrir mér. Ég sjálfur mælist akkúrats í miðjunni á milli félagshyggju og markaðshyggju í áttavitanum og Píratar eru á svipuðum slóðum, þó aðeins nær félagshyggjunni.

Fyrir mér er hins vegar spurningin um afskipti eða frjálslyndi allt önnur spurning. Er hægt að ýta á eftir félagshyggju án þess að ríkið neyði fólk til þess? Svarið sem Píratar koma með er: Já. Við byggjum á uppbyggingu netsamfélaga, ef kerfið er rétt uppbyggt þá blómstrar netsamfélagið og setur sér sínar eigin reglur. Ef kerfið er illa uppbyggt þá leysist allt upp í anarkí nema til komi mjög ströng stjórn. Þetta snýst um að setja réttan tón, rétta upplýsingar og byggja upp kerfi og infrastrúktor sem gerir fólki auðveldara með að lifa í samlyndi frekar en hið gagnstæða.P.S. Fyrir sjálfstæðispésanna þarna úti sem leggja ofuráherslu á frjálslyndi flokksins síns... takið eftir að Píratar eru að mælast mun frjálslyndari en sjálfstæðisflokkurinn. Píratar eru lang frjálslyndasti flokkurinn.
b
Posted in Uncategorized