Tímabært að skoða kosti og galla Borgaralauna

1. maí er dagur til að fagna framlagi verkalýðshreyfingarinnar, baráttu hennar og afrekum í gegnum árin. Stéttarfélög hafa eflt verkalýðinn til muna og gefið okkur 40 tíma vinnuviku og 8 klst vinnudag, en í dag hafa hnattvæðing og tækniframfarir heft getu stéttarfélaga til að knýja fram betri kjör.

Samkvæmt skýrslu frá Oxfordháskóla 2013 og nefnist „Framtíð atvinnumála: Hversu viðkvæm eru störf gagnvart tæknivæðingunni?” eru miklar líkur á að helmingur allra starfa í Bandaríkjunum hverfi vegna tækniframfara. Samkvæmt höfundum eru störfin sem eru í mestri hættu láglaunastörf sem krefjast lítillar þekkingar. Allt bendir til að fjölgun nýrra starfa mun ekki halda í við þau sem tölvur og vélmenni taka yfir. Mikill þrýstingur á bótakerfi hins opinbera mun kalla á skilvirkari velferðarkerfi.

Ljóst er að hægt er að líta á þessa þróun sem mikla ógn við núverandi samfélagsuppbyggingu og ríkjandi hugmyndafræði. Spurningin er hvernig við ætlum að bregðast við þessari þróun. Munum við nota mikilvægan tíma okkar og orku í að spyrna við óhjákvæmilegri þróun til þess eins að viðhalda úreltri hugmyndafræði eða munum við líta á þessa þróun sem tækifæri til að byggja öðruvísi framtíð?

Nú þegar að sjálfvirkni starfa fer ört vaxandi er tímabært að skoða nýjar lausnir en ein sú hugsanlega er skilyrðislaus grunnframfærsla eða einfaldlega, borgaralaun.

Borgaralaun er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega og gera það skilvirkara með því að minnka skriffinsku og eftirlit. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum. Þessi upphæð er hugsuð sem grunnframfærsla til að tryggja efnahagslegu og félagslegu réttindi borgara landsins.

Thomas Paine hélt því fram að „jörðin, í sínum náttúrulega ham er, og verður alltaf, sameiginleg eign allra jarðarbúa.“ Paine vildi meina að allir, hvort sem þeir væru ríkir eða fátækir, ættu að fá greiddan arð af sameiginlegum auðlindum landsins. Þessi arður eða laun væru eðlilegur og meðfæddur réttur allra borgara. Paine sagði “Það er ekki góðgerðarstarfsemi, heldur réttindi, ekki ölmusa heldur réttlæti, sem ég tala fyrir.”

Borgaralaun gætu jafmframt, með útrýmingu fátæktar minnkað glæpi, eflt heilbrigði, menntun, lýðræðisþátttöku, sjálfstæði og nýsköpun og myndi hafa þau áhrif að valdefla verkalýðinn á einstaklingsgrundvelli. Getan til að segja „nei“ við vinnuveitenda hefði t.d. óneitanleg áhrif á hlutdeild verkalýðsins í hagnaði fyrirtækja með betri launum, starfsskilyrðum, hlunnindum o.fl. En tilraunir með borgaralaun víðsvegar um Norður-Ameríku sýna jafnframt að atvinnuþátttaka, og því mannauður atvinnulífsins, eykst eins og kemur fram í þingsályktunartillögu Pírata um að kostir og gallar þessa möguleika skuli skoða á Íslandi.

Það er orðið tímabært að rannsaka hvort að yfirvofandi atvinnuleysi sé yfir höfuð eitthvað til að óttast.

Rafrænt Einelti

Í gegnum tíðina hefur einelti talist hluti af mannlegum raunveruleika, ein af þeim þrautum sem við göngum í gegnum á lífsleiðinni án þess að teljast sérstakt samfélagsmein sem þyrfti að taka á. Á síðustu áratugum hefur þessi skoðun breyst og nú telst einelti í skólum vera mjög alvarlegt vandamál sem krefst lausnar. Með nýrri tækni hefur birtingarmynd eineltis þróast í miskunnarlaust skrímsli sem ekki er að finna neina einfalda lausn á.

Internetið hefur skapað fjölmarga kosti fyrir fólk og hefur í raun gjörbylt samfélaginu okkar en það hefur einnig sínar slæmu hliðar: rafrænt einelti og ofbeldi. Samfélagsmiðlar, farsímar og vefsíður eru oft notuð, sérstaklega af ungu fólki, til að leggja jafnaldra í einelti. Ólíkt hefðbundnu einelti þá er ekki hægt að flýja rafrænt einelti með því að hlaupa heim, eða ganga í burtu frá árásaraðilanum. Gerendur eineltis eiga möguleika á að sækja á fórnarlömbin án þess að þurfa að horfast í augu við þau og sjá tilfinningaleg viðbrögð þeirra. Þegar viðbrögð eru persónulega sýnileg gefa þau gerandanum tækifæri til að átta sig á því að hann hefur gengið of langt og að athugasemdir hans hafa sært.

Ímyndið ykkur hversu auðvelt það er fyrir annars góðviljaða krakka að ganga hreinlega of langt í „hrekknum“ vegna þess að þeir hafa enga leið til þess að meta skaðann fyrr en um seinan. Þetta er gífurlega skaðlegt fyrirbæri, ekki bara fyrir þolendur heldur einnig fyrir gerendur eineltisins sem vakna upp við vondan draum þegar þeir hafa valdið einhverjum verulegum skaða.

Það er augljóslega brýn nauðsýn að fræða komandi kynslóðir um rétta notkun á internetinu, notkun sem stuðlar að virðingu, skilningi og ábyrgð, en þar sem eplið fellur sjaldan langt frá eikinni velti ég því fyrir mér hvort við, sem hönnuðir og þátttakendur í samfélaginu, berum ekki hluta af þessari ábyrgð. Eins og á öðrum stöðum í samfélaginu er lögð rík áhersla á samkeppni í skólakerfinu okkar. Er „survival of the fittest“-stefnan að leiða okkur í átt að þeirri virðingu, skilningi og ábyrgð sem við erum að sækjast á eftir?

Samkeppni í skólastofunum myndar stéttaskiptingu milli gáfaðra og „tossa“, vinsælla og óvinsælla, „kennarasleikja“ og ólátabelgja, skapar ferli sem gerir krökkum erfitt fyrir að skilja hvert annað. Afbrýðissemi á leikvellinum og inni í skólastofunum er oftar en ekki drifkraftur eineltis – ýmist ástæða til að niðurlægja aðra eða upphefja sig. Alltaf er þetta kapphlaup um viðurkenningu annarra sem tekur á sig birtingarmynd „Like“ á Facebook eða ögrandi „snapchat“-mynda. Ef markmiðið er að skapa hvata innan skólakerfisins til að efla samvinnu og samkennd þá virðist það vera frekar borðleggjandi að samkeppnin vinni ekki með okkur heldur virki frekar til að draga fram verstu einkenni í eðli barnanna okkar.

Posted in Uncategorized

Lýðræði

Ég legg til að þeir sem ætla sér að mæta á kjörstað til að merkja X við þann flokk sem þeir telja vera með besta stefnumálapakkann staldri við í andartak og spyrji sig nokkurra spurninga. Ef áherslan er lögð á aðferðarfræði í stað stefnumála, myndir þú kjósa eins? Á Alþingi að vera lokaður vinnustaður þar sem 63 starfsmenn taka allar ákvarðanir og þú færð, á fjögurra ára fresti að taka þátt í kjöri þeirra flokka sem velja þessa starfsmenn? Hvað gerist svo ef þeir svíkja kosningaloforðin? Færð þú þá atkvæðið þitt til baka? Missir einhver á Alþingi vinnuna sína?

Núverandi framkvæmdir á lýðræði eru frekar skrítnar og jafnvel órökréttar. Í raun er lýðræðið eins og við þekkjum það í dag frekar ólýðræðislegt. Fólk kýs flokka eftir stefnumálum þeirra sem væri gott og vel ef Alþingi væri rekið eins og fyrirtæki þar sem einn forstjóri ræður öllu. En svo er ekki og það sem gerist í staðinn er það að stefnumálin tínast í þvargi og rifrildi þingmanna, sem allir hafa ólíkar skoðanir og vilja. Vantar forstjóra á Alþingi? Ef svo er þá á almenningur á að fá það starf. Fólkið í landinu á að ráða.

Nálgun Pírata á lýðræði snýst um að einstaklingar séu upplýstir áhrifavaldar í eigin samfélagi. Almenningur á að geta komið að mótun og ákvarðanatöku um allt sem hann varðar. Til þess að gera þetta þarf að breyta því hvernig þingfólk vinnur, hvernig farið er að hlutunum. Það þarf að koma á auknu gagnsæi með því að „opna“ öll kerfin okkar og rýna í þau, betrumbæta og uppfæra. Stjórnmál í dag snúast um rifrildi, ræðumennsku og frekju. Eftir rifrildið spyr maður sig, hver hljómar eins og hann hafi réttast fyrir sér? Það dugar ekki að taka ákvarðanir á þessum forsendum, til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir þurfa staðreyndirnar að liggja fyrir og þær gera það ekki í dag. Þetta getum við lagað mjög einfaldlega með því að auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum. Þetta þarf að vera gert af fólki sem hefur skilning á þeim tækniframförum sem hafa orðið í samfélaginu síðustu áratugi.

Iðnbyltingin er liðin tíð og upplýsingabyltingin er bylting nútímans. Uppfærum kerfin okkar útfrá þessari nýju hugmyndafræði. Tökum valdið af þessum 63 þingmönnum og færum það í hendur almennings. Fulltrúalýðræðið tilheyrir úreltri hugmyndafræði. Internetið býður upp á nýjan möguleika, beint lýðræði. Uppfærum hugmyndafræðina okkar. Byltum samfélaginu. Þetta er framtíðin sem ég vil sjá. Þess vegna er ég Pírati.

Posted in Uncategorized